Rekstrarskilyrði garðyrkju og ylræktar
Mánudaginn 28. nóvember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þær upplýsingar sem komu fram hjá hv. 2. þm. Suðurl., fyrrv. landbrh. Það er hins vegar athygli vert þegar þess er gætt að starfinu hafði miðað vel áfram í lok hans stjórnartíðar að varaþm. hv. þm. skuli þurfa að flytja tillögu á borð við þessa. Einn af tillögumönnum er hv. þm. Margrét Frímannsdóttir sem er formaður þingflokks Alþb. Ég verð satt að segja að draga þá ályktun að núv. hæstv. ríkisstjórn hafi sópað þessu máli út af sínu borði og núv. hæstv. landbrh. hafi ákveðið að láta þetta starf ekki halda áfram fyrst formaður þingflokks Alþb. og ýmsir stjórnarþm. sjá sig knúna til að flytja þetta mál hér inn í þessum tillögubúningi.
    Vænti ég þess að upplýsingar komi frá hæstv. landbrh. og hann a.m.k. lýsi því yfir að hann sé tilbúinn til að fara að þessari tillögu, ef samþykkt verður, og gegna þannig þeim tilmælum sem koma fram m.a. hjá formanni þingflokks Alþb.