Endurskoðun lánskjaravísitölu
Mánudaginn 28. nóvember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Það er auðvitað full ástæða til að ræða þetta mál hér, ekki síst vegna forsögu þessara mála, og það er út af fyrir sig athyglisvert, eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, hvernig tillöguflutningur kemur um þessar mundir frá stjórnarliðinu ef maður ber þann tillöguflutning saman við það sem verið er að vinna í Stjórnarráðinu hjá þeirri ríkisstjórn sem hv. þm., flm. þessarar tillögu, þykjast styðja, a.m.k. í orði kveðnu. Eftir sem áður er þetta gagnleg umræða. Það er ljóst að lánskjaravísitala er eins og allar aðrar vísitölur viðmiðun sem er mjög erfitt að ákveða. Það skiptir samt mjög miklu máli fyrir alla þá sem við þurfa að búa að hún sé eitthvað sem almenn samstaða er um í þjóðfélaginu.
    Við skulum rifja upp að þetta er svipuð umræða og þegar verið var að ræða um beina og óbeina skatta og áhrif þeirra á vísitölu. Við vitum að áhrif óbeinna skatta koma fram í verðlagsvísitölunni en ekki áhrif beinna skatta. Menn hvetja síðan stjórnvöld til að haga sér samkvæmt því.
    Við megum ekki heldur falla í þá gryfju að halda að verðtrygging sé einhvers konar ávöxtun fjármagns. Vextir eru ávöxtun fjármagns. Verðtryggingin á aðeins að sjá um að það sé verið að skila sömu stofnfjárhæð. Þar lendum við í nákvæmlega sömu vandræðum og þegar við erum að bera ýmsar þjóðhagsstærðir saman, eins og þjóðarframleiðslu og landsframleiðslu þar sem hver þáttur hefur áhrif á annan, er venslaður eins og hv. 1. flm. gat um. En hagfræðin er ekki nákvæmari en svo að ein stærð hefur áhrif á aðra einfaldlega vegna þess að hagfræði er ekki verkfræði og ekki stærðfræði.
    En umræður sem hafa orðið um þetta mál á undanförnum vikum hafa komið sér mjög illa á einn máta. Þær hafa dregið úr tiltrú fólks á sparnaði í landinu. Það hefur sannarlega komið fram. Og það er mjög slæmt hvernig hæstv. forsrh., sem sækir nú afar illa þingfundi og er oftast ekki hér til þess að svara spurningum sem til hans er beint, hefur haldið á þessu máli. ( Gripið fram í: Það vantar fleiri en hann.) Það vantar fleiri en hann, en það er mjög áberandi hve hann vantar oft.
    Hann lýsti því yfir í sumar að það ætti að hætta við lánskjaravísitöluna. Þegar til núv. ríkisstjórnar var stofnað sagði hæstv. forsrh. að það hefði verið ákveðið að breyta vísitölunni vegna kröfu frá Alþýðusambandi Íslands. Hann sagði það. Ari Skúlason, hagfræðingur Alþýðusambandsins, svaraði í DV. Ég er með það hérna: ,,Hrein og klár lygi hjá Steingrími.`` Þar er átt við sjálfan forsrh. en óþarfi að hafa svona hátt um það því að það tekur enginn mark á forsrh. landsins um þessar mundir, því miður. ( Gripið fram í: Hver er það?) Ari Skúlason er hagfræðingur Alþýðusambands Íslands. ( ÓÞÞ: Tekur einhver mark á honum?) Það skal ég ekkert um segja, en hann er ekki formaður Framsfl. og ekki forsrh. þjóðarinnar enn þá, kannski því miður.
    Þegar þetta var upplýst sagði Steingrímur Hermannsson hæstv. forsrh. og ég les orðrétt frá 17.

október hvað hann sagði: ,,Tillaga um að breyta grunni lánskjaravísitölu kom inn í stjórnarmyndunarviðræðurnar frá Alþfl. og Alþb. með því fororði að þetta væri mjög að vilja verkalýðshreyfingarinnar.``
    Við heyrðum hvað hv. þm. Karl Steinar sagði áðan. Það botnar enginn neitt í neinu í þessum málum.
    Það sem skiptir öllu máli er þetta: Við höfum ríkisstjórn í landinu. Á bak við þá ríkistjórn er sagt að sé þingmeirihluti. Menn hafa efast um það. En þeir menn sem telja sig til þessa þingmeirihluta bera ábyrgð á ríkisstjórninni, þeir bera ábyrgð á stjórnarathöfnum og þeir bera ábyrgð á þeirri stefnu sem fylgt er. Og það sem er kannski erfiðast að þurfa að þola við þetta allt saman er að umræður á hv. Alþingi í dag sýna og sanna að það er enginn meiri hluti á bak við eitt eða neitt hjá þessari ríkisstjórn, ekki einu sinni um jafnviðkvæman hlut og lánskjaravísitöluna. Þess vegna er það skýlaus krafa okkar þingmanna og reyndar þjóðarinnar allrar að sá maður sem hefur rétt til þess að tala í nafni hæstv. ríkisstjórnar, hæstv. viðskrh. sjálfur, Jón Sigurðsson, komi hér upp og segi nákvæmlega hver sé þingmeirihlutinn á bak við stefnu ríkisstjórnarinnar og hvað ríkisstjórnin ætlar að segja í þessu máli. Og ef þessi umræða verður til þess að við fáum skýr svör þannig að almenningur í landinu megi treysta orðum þeirra sem fara með stjórn landsins, þá er vel að þessi umræða skuli eiga sér stað í dag. Ég skora á hæstv. viðskrh. að koma nú hér upp og tala í nafni ríkisstjórnarinnar allrar, líka Steingríms Hermannssonar sem aldrei kemur hingað í þingsali. ( Gripið fram í: Og tali á íslensku.) Og tali þannig að við hinir skiljum.