Endurskoðun lánskjaravísitölu
Mánudaginn 28. nóvember 1988

     Halldór Blöndal:
    Virðulegi forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þessi hæstv. ráðherra hefur að engu haft mjög glögg ákvæði í fundarsköpum um ræðulengd og má vera að hann sé með því að gefa þingmönnum stjórnarandstöðunnar leiðbeiningu um hvernig þeir eigi að haga sér, að þingmenn stjórnarandstöðunnar eigi að láta sig engu skipta þótt forseti með kurteislegum hætti bendi þeim sem í ræðustólnum er á það að hann eigi að ljúka máli sínu, hann hafi þegar notað þann tíma sem Alþingi ætlar honum og ef ræðumaður er ekki í færum um að koma því efni til skila sem hann ætlar sér getur hann engum um kennt nema sjálfum sér og reynt næst að vera skýrari í sínum málflutningi og nota færri orð. Það má koma miklu til skila ef menn kunna tunguna vel og hugsa sér að vera stuttorðir, en ef hins vegar þingmenn vilja finna sér eitthvað til að vera langorðir, þá getum við allir gert það. Við getum alltaf komið meiri upplýsingum á framfæri en hægt er í stuttri ræðu. Við getum komið inn margvíslegum athugasemdum við málflutning hæstv. ráðherra. Ég satt að segja geri mér ekki alveg grein fyrir því hversu langir fundir yrðu að vera hér í deildinni ef við ætluðum að víkja að öllu því sem ráðherrar segja og er misjafnt, orkar tvímælis eða er beinlínis rangt þó ég verði að segja að sumt er rétt af því sem ráðherrar segja, eins og þegar forsrh. sagði að ráðherrarnir hefðu verið í fílabeinsturni þegar þeir mynduðu ríkisstjórnina. Væri fróðlegt að fá að vita hvað hæstv. viðskrh. segir um það. Var hann í fílabeinsturninum hjá forsrh. þegar hann myndaði ríkisstjórnina? Það væri býsna skemmtilegt að fá upplýsingar um það.
    En til þess stóð ég ekki upp, virðulegi forseti, að vekja athygli á því að sumir hefðu verið í fílabeinsturni þegar þeir áttu að vera annars staðar. Þjóðarhagur ætlaðist til þess að þeir væru annars staðar. Ég ætlaði að spyrja hæstv. viðskrh. um hvort hann væri sammála þeirri yfirlýsingu hæstv. fjmrh. í Ed. þegar rætt var um lánsfjárlög að það ætti að skattleggja öll skuldabréf nema ríkisskuldabréf. Ríkisskuldabréf skyldu vera undanþegin skatti, en allur annar sparnaður átti að vera skattlagður. Ég hafði orð á því þá við umræðurnar að það væri svolítið erfitt fyrir stjórnarandstöðuna að átta sig á því hver væri raunveruleg stefna ríkisstjórnarinnar þar sem þeir væru yfirleitt ekki við nema svona einn og einn í senn. Þannig hafa ráðherrar Alþfl. kosið að vera fjarverandi þegar talað var um efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar. Þeir kusu líka að vera fjarverandi þegar talað var um lánsfjárlögin eins og þau komi hæstv. viðskrh. ekki við þó svo að sagt sé beinlínis í athugasemdum með því frv. að skýringin á því hversu mjög lánsfjárlögin fara fram úr áætlun á þessu ári sé sú að viðskrn. hafi verið mjög örlátt á erlendar lántökuheimildir. Þó svo hæstv. fjmrh. hafi haft orð á þessu var viðskrh. víðs fjarri þannig að ekki var hægt að spyrja hann að því hvort þetta væri rétt hjá hæstv. fjmrh.
    Mig langar líka til að spyrja hæstv. viðskrh. að því hvort hugsunin sé sú að ríkisskuldabréf skuli vera með

annarri og betri verðtryggingu en önnur skuldabréf. Mér datt það í hug eftir ræðu hæstv. viðskrh. áðan að hugmyndin sé að bjóða fram tvenns konar vísitölu, gömlu vísitöluna áður og svo nýja vísitölu og síðan mættu menn velja á milli. Ég held að það sé nauðsynlegt að ráðherrar tali skýrar um þessi efni.
    Hitt fannst mér undarlegt þegar hæstv. viðskrh. sagði: Þeir sem eru alltaf að tala um meiri hlutann hér í þinginu geta verið rólegir. Ég held að ráðherrar ættu að hugsa um það í sínum embættisverkum öllum hvort þeir hafi meiri hlutann á bak við sig hér í þinginu vegna þess að við búum í þingræðislandi. Við erum áreiðanlega sú þjóð sem leggur meira upp úr réttu þingræði en flestar aðrar þjóðir og eigum erfitt með að þola það ef einstakir ráðherrar láta sig engu skipta vilja þingsins.
    Hins vegar var ég mjög ánægður yfir því þegar hæstv. viðskrh. var að tala um að þingið vildi ugglaust samþykkja þá breytingu á lánskjaravísitölunni sem hann talaði um vegna þess að það gefur honum þá tilefni til þess að bera breytinguna undir Alþingi. Þá getur hann fengið úr því skorið hvort þingið sé með þessum tillögum.
    Nú held ég að það sé líka óhjákvæmilegt að velta því pínulítið fyrir sér hvort sá viðskrh. sem nú er sé í grundvallaratriðum sammála þeim viðskrh. sem var í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar um þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar í almennri peninga- og vaxtapólitík og væri vissulega, virðulegi forseti, tilefni til að bera fram með þinglegum hætti fyrirspurn á Alþingi um hvort núv. viðskrh. geti fallist á grundvallarsjónarmið fyrrv. viðskrh. og athuga hvort hann geti komið því til skila á þeim tíma sem Alþingi ætlar ráðherrum í fyrirspurnum í hvaða efnum ber á milli. Það væri mjög fróðlegt að fá um það pínulitla útlistun.
    Ég hef rekið mig á að hv. 3. þm. Norðurl. e. hefur haft gaman af því bæði í blöðum, hér á Alþingi og víðs vegar annars staðar að lýsa því hvers konar áþján það hafi verið fyrir þjóðina að búa við þá stefnu í peninga- og vaxtamálum sem fyrrv. viðskrh. fylgdi og var helsti baráttumaður fyrir í
þinginu. Ég geri ráð fyrir því að þessi þingmaður sé nú ánægður yfir því að hafa skotið út í horn sjónarmiðum fyrrv. viðskrh. Og ég hygg að hann sé ekki í neinum vafa um að það sé batnandi maður sem nú situr í sæti hæstv. viðskrh. og ímyndar sér ugglaust að hann hafi haft einhver áhrif á sinnaskiptin.
    Auðvitað vitum við það sem hlustum á viðskrh. nú að honum hefði aldrei komið til hugar að tala með sama hætti um ,,handaflið`` og hann gerði fyrir einu ári. Ég held að það sé alveg ljóst. En virðulegi forseti. Þó hæstv. viðskrh. léti við það eitt sitja að útskýra fyrir okkur hvers vegna einungis spariskírteini ríkissjóðs eigi að njóta skattfrelsis, en engin önnur spariskírteini og enginn annar sparnaður í landinu, þá væri það fróðlegt. Ef hæstv. viðskrh. efast hins vegar um að ég hafi tekið rétt eftir í Ed. verð ég einungis að harma að þessir tveir menn skuli aldrei sjást saman í umræðum þegar talað er um ríkisfjármál eða

peningamál, hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskrh., og þá væri auðvitað tilefni til að reyna að finna einhvern tíma sem gæti hentað þeim báðum þannig að þingmenn gætu fengið glögga mynd af því sem er að gerast. En ugglaust er hæstv. forsrh. sammála báðum tveim hvernig sem þeir tala.