Endurskoðun lánskjaravísitölu
Mánudaginn 28. nóvember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Vegna fyrirspurna hv. 1. þm. Suðurl. ætla ég að segja hér örfá orð.
    Í fyrsta lagi: Ég benti einungis á það að til að breyta grundvelli lánskjaravísitölu og að auglýsa nýja slíka sem styðst við opinberlega skráðar vísitölur þarf ekki löggjafaratbeina, ef fylgt er ákvæðum laganna um verðtryggingu fjárskuldbindinga. Þetta benti ég á. Ég vil líka bæta því við að það er áform þessarar ríkisstjórnar að taka upp nýja lánskjaravísitölu um áramót sem hafi helmingsvægi launa, fjórðungsvægi framfærsluvísitölu og fjórðungsvægi byggingarvísitölu. Við þessa breytingu verður gætt sanngirni og hagsmuna þeirra sem heldur kjósa annað verðtryggingarform verður líka gætt eftir því sem tiltækilegt er, eins og ég gerði grein fyrir í ræðu minni.
    Það er alveg rétt hjá hv. 1. þm. Suðurl. að þær breytingar sem ég hef verið að ræða eru ekkert sérstakt baráttumál Seðlabankans. En þær eru heldur ekki mál sem hann berst gegn, eins og virðist vaka í máli sumra sem hér hafa talað. Ég vil ekki setja þetta mál upp á þann hátt sem hv. 1. þm. Suðurl. gerði áðan. Þetta er ekki þeirrar náttúru. Þetta er mál sem varðar það að gefa fjölbreytta verðtryggingarmöguleika og svo að lokum: Auðvitað er hið endanlega markmið það að víxlhækkun verðlags, launa og lánskjara hverfi, að við náum þeim tökum á efnahagsmálum að umræður eins og þessi um vísitölu og verðtryggingu verði eftirkomendunum torskildar. Það er hið endanlega markmið og ég veit að um það erum við sammála, flestir þm. Hvenær það verður, hvenær lambið leiðir ljónið, um það ætla ég ekki að spá, og þótt ég heyri það að hv. 1. þm. Suðurl. hafi tröllatrú á því að þessi ríkisstjórn hafi endanlega lagt verðbólguófreskjuna að velli vil ég taka mér enn nokkurn skoðunarfrest á því, heldur lengri en hann kýs sjálfur að hafa.