Endurskoðun lánskjaravísitölu
Mánudaginn 28. nóvember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður mikið, enda ástæðulaust. Það er hins vegar svo að þessar umræður verða þeim mun athygli verðari sem fleiri úr stjórnarliðinu tala. Nú síðast sagði hv. 1. þm. Norðurl. v., formaður þingflokks Framsfl., að það þyrfti að taka um það pólitíska ákvörðun að afnema vísitöluna. Ég hélt satt að segja að formaður þess flokks hefði þegar tekið þá pólitísku ákvörðun, kannski aðeins fyrir sjálfan sig, en maður áttar sig ekki alltaf á því hvenær hann tekur ákvörðun fyrir sjálfan sig, hvenær fyrir hæstv. ríkisstjórnina alla og hvenær fyrir Framsfl. einan og svo mætti lengi telja.
    Við höfum rætt í dag um mjög viðkvæmt mál. Það er viðkvæmt vegna þess að þessi umræða hefur áhrif úti í þjóðfélaginu. Það sem sagt er í þessum sal hefur áhrif á það hvort einhverjir vilji leggja fjármuni til hliðar og mynda þann sparnað sem nauðsynlegur er í þjóðfélaginu til þess að hægt sé að taka fé að láni, bæði fyrir heimilin og fyrir atvinnulífið í landinu. Mér er ekki kunnugt um að þeir sem hafa lagt fé til hliðar hafi nokkun tímann verið spurðir í þessu máli.
    Ég vakti athygli á því í minni ræðu að hæstv. forsrh. væri ekki í salnum, vegna þess að hann, hæstv. forsrh., hefur sagt afgerandi hluti í þessu máli. Hann hefur m.a. lýst því yfir opinberlega að hæstv. ríkisstjórn hafi tekið á þessu máli með þeim hætti sem hún gerði vegna þess að krafa hafi komið fram um það frá Alþýðusambandi Íslands. Og þegar starfsmaður Alþýðusambands Íslands segir að þetta sé hrein og klár lygi kemur hæstv. forsrh. fram á síðum dagblaðanna og segir að þetta hafi komið frá samstarfsflokkunum, Alþfl., flokki viðskrh., og Alþb., að því er hann telji vegna þess að Alþýðusambandið hafi beðið þá um að krefjast þess við stjórnarmyndunina. Í framhaldi af þessu stendur einn af forvígismönnum Alþýðusambandsins upp, hv. þm. Karl Steinar Guðnason, og segir að þetta sé ekki rétt. Það var af þessum ástæðum og vegna þess að yfirlýsingar ganga í allar áttir í jafnviðkvæmu máli og þessu sem mér fannst vera full ástæða til þess að vekja athygli á því að hæstv. forsrh. var ekki í salnum.
    Ég skal hins vegar, virðulegur forseti, viðurkenna það hér og nú . . . ( Forseti: Forseti vill skjóta því hér inn að hæstv. forsrh. hefur fjarvist samkvæmt því sem tilkynnt var í upphafi fundar í dag.) Ég skal einmitt viðurkenna það, hv. forseti, að forsrh. mætir hér stundum. Það er ekki oft. Þannig skal ég draga þau orð mín til baka að hann hafi aldrei mætt. Hann var hér a.m.k. við þingsetningu og ég man eftir nokkrum skiptum í viðbót. Meira að segja eru til hv. þm. sem segja að hann komi hingað of oft, en ekki ætla ég að gera þeirra orð að mínum.
    Þetta skal ég viðurkenna um leið og ég skal viðurkenna fúslega að ósköp þykir mér miklu meira gaman að hlusta á hv. 2. þm. Vestf. lesa upp úr dýrafræðinni sinni en þegar hann þykist vera að rembast við að tala um alvarleg málefni þjóðfélagsins.