Endurskoðun lánskjaravísitölu
Mánudaginn 28. nóvember 1988

     Óli Þ. Guðbjartsson:
    Hæstv. forseti. Þessi umræða, sem hér hefur farið fram lengi dags, hefur verið fyrir margra hluta sakir merkileg og raunar ánægjuleg. Ég býst við því að flestum sé hér vel í minni að vísitöluskuldbindingar af ýmsu tagi hafa lengi einkennt efnahagslíf hér á landi. Ég býst við því að það hafi verið snemma á heimsstyrjaldarárunum hinum síðari sem vísitöluskuldbindingar byrjuðu og þá fyrst og fremst varðandi laun.
    Ég held að það blandist fáum hugur um að þær vísitölubindingar urðu hluti af þeirri verðbólguþróun og ástæður fyrir verðbólguþróun sem hér var um áratugi. Síðan gerist það árið 1979 að sú löggjöf, sem enn er í gildi um vísitölubindingu fjárskuldbindinga, sem að vísu hafði verið að nokkru komið á áður, er samþykkt hér á hinu háa Alþingi, víst á útmánuðum 1979, og tekur gildi í júnímánuði það ár. Menn hafa nokkuð deilt um það allar götur síðan hver áhrifin eru. Það sem mér finnst vera annálsvert við þessa umræðu og ánægjulegt er að finna að nánast í öllum stjórnmálaöflum á hinu háa Alþingi er að finna á því vaxandi skilning að á þessari braut verði að verða endir. Að vísu kemur það held ég greinilega fram í þessari umræðu að það er aðeins eitt stjórnmálaafl sem er óskipt í afstöðunni að þessu leyti. Það er yngsta stjórnmálaaflið, Borgfl., sem er með þá ákveðnu stefnu að vilja afnema lánskjaravísitöluna sem viðmiðun í fjárskuldbindingum.
    Ástæðan er ósköp einföld. Ég kalla til vitnis dr. Magna Guðmundsson. Hann hefur mikið skrifað um þessi mál í langan tíma og verið nánast rödd hrópandans í eyðimörkinni. Hann formar skoðun sína í tveimur, þremur línum á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: ,,Í verðbólgu gildir annað tveggja, að lifa við hana og verðtryggja allt eða lifa án hennar og verðtryggja ekkert. Að taka einn þátt út úr og verðtryggja hann skapar hagskekkjur sem fá ekki staðist til lengdar.``
    Þetta er kjarni máls í boðskap dr. Magna Guðmundssonar. Ég fæ ekki betur séð en sú röksemdafærsla sem þarna liggur að baki komi greinilega fram í grg. fyrir þeirri þáltill. sem hér er til umræðu. Eins og fyrri flm. gat ríkulega og vel í sínu máli segir þar: ,,Núverandi lánskjaravísitala er að hluta ,,vensluð`` þeim stærðum sem henni er ætlað að mæla.`` Þetta er líka sami kjarni þessa sama máls. En þá hafi menn líka í huga að það sem hv. flm. leggja hér til er ekki að breyta þessum meginkjarna heldur að breyta aðeins viðmiðun, sömu viðmiðun og menn urðu sammála um að breyta við núverandi stjórnarmyndun og sömu viðmiðun og nú á að taka upp að nýju með nýjum hætti væntanlega um næstu áramót.
    Því geri ég þetta að umtalsefni að mér finnst mest á skorta í umræðunni sem hér hefur orðið í dag að menn séu enn komnir á þá braut, orðnir nógu margir sammála um það aðalatriði, sem fylgir því miður þessari sjálfvirkni í fjárskuldbindingum alveg eins og sjálfvirkni í kaupgjaldi sem menn supu seyðið af um

langan aldur hér á árum áður, að ef þessar hagskekkjur, sem þarna verða, fá að ganga þannig sjálfala hefta þær það hreyfiafl með þjóðinni sem mest á ríður að fái að vera óheft, en það er atvinnulífið sjálft. Að auki fylgir þessari sjálfvirkni gífurlegt misrétti á milli þeirra annars vegar sem lána fé og hinna sem þurfa að taka það að láni. Og seinast en ekki síst: Seinasta ríkisstjórn sem hér sat að völdum féll af þeim ástæðum sem hér liggja að baki. Það var vegna þess hvernig atvinnulífi hér á landi var komið. Það var vegna þess hvernig útflutningsatvinnugreinarnar voru þá komnar hér á landi. Þær voru í þeirri stöðu sem þær voru þá og eru mikils til enn af þessari sömu ástæðu, misréttinu sem fylgir lánskjaravísitölunni. Beri menn gæfu til þess að stíga það skref sem Borgfl., eina stjórnmálaaflið, leggur hér ákveðið til held ég að það fari ekki á milli mála að þjóðarheill muni fylgja.