Endurskoðun lánskjaravísitölu
Mánudaginn 28. nóvember 1988

     Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson):
    Virðulegi forseti. Aðeins vegna þessarar ágætu ræðu hv. þm. Óla Þ. Guðbjartssonar vil ég segja þegar hann talar um að markmið flm. sé fyrst og fremst að breyta viðmiðun: Tillöguflutningurinn byggist ekki hvað síst á því og þeim skilningi okkar að það kunni að vera lagalega mjög erfitt að fella lánskjaravísitölu niður á eldri skuldbindingum. En við höfum ítrekað bent á að fjölmargir eru bundnir í eldri fjárskuldbindingar áratugi fram í tímann. Þar af leiðandi sé nauðsynlegt að fagleg endurskoðun komi fram á grunninum þó að ég telji að það hafi komið fram í mínu máli að ég er þeirrar skoðunar að best væri að geta afnumið lánskjaravísitöluna. Ekki fleiri orð um það.
    Hv. þm. Friðrik Sophusson sagði að hér væri viðkvæmt mál til umræðu og benti til þeirra sem spara fé. Það er líka viðkvæmt, Friðrik Sophusson, fyrir þá sem skulda, sem eru nánast að tapa öllu sem þeir eiga, bæði einstaklingar og fyrirtæki.
    Ein játning, virðulegi forseti, í restina. Þessar umræður hafa skýrt nokkuð fyrir mér og ég skil mikið betur eftir en áður vanda fyrrv. ríkisstjórnar, ekki síst eftir að hafa hlustað á hv. 1. þm. Suðurl. Að sá maður kalli það hringlanda að vilja endurskoða viðmiðun lánskjaravísitölunnar, sem sýndi einhvern mesta hringlanda sem við höfum upplifað á erfiðum efnahagsaugnablikum þegar hann lagði sjálfur til að farin yrði niðurfærsluleið, hvarf síðan frá henni þegar stuðningsflokkar hans voru tilbúnir að styðja þá leið yfir í millifærsluleið, hvarf síðan frá henni þegar stuðningsflokkarnir fóru að ræða hana yfir í uppfærsluleið og vissi nánast aldrei sjálfur á hvaða leið hann var --- þegar slíkur maður talar um að það sé hringlandi að endurskoða grundvöll lánskjaravísitölunnar fara ýmsir hlutir að snúast öfugt.