Aðför
Þriðjudaginn 29. nóvember 1988

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Á síðasta þingi lagði þáv. dómsmrh. fram frv. til l. um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, frv. sem gerði ráð fyrir að stofnaðir skyldu átta héraðsdómstólar, einn í hverju kjördæmi, sem alfarið færu með dómsvald. Þá gerði það frv. ráð fyrir að öll núverandi sýslumannsembætti héldu sér og verkefni þeirra væri stjórnsýsla í héraði. Lagðist Framsfl. og raunar Sjálfstfl. líka á móti þessum breytingum og töldu þær mikið óhæfuverk. Með þeim væri verið að kollvarpa réttindamálum íbúa landsbyggðarinnar.
    Eftir 1. umr. á þingi var málinu vísað til milliþinganefndar þar sem sjónarmið þessara tveggja flokka voru áréttuð. Afstaða Framsfl. eins og hún birtist var að neita þessari aðgreiningu og séráliti skilað þar að lútandi þegar milliþinganefndin skilaði áliti.
    Þetta er rifjað upp hér þegar rætt er um það frv. sem hér er til umræðu um aðför. Ljóst er að sú breyting sem hér er lögð til hefur ekkert gildi nema frv. sem ég nefndi nái fram að ganga. Af þessu tilefni vil ég spyrja hæstv. dómsmrh. hvort það frv. um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds verði lagt fram innan tíðar og þá jafnframt hvort Framsfl. muni styðja það frv. og hvort það sé þá stjfrv.
    Eftir lestur frv. til l. um aðför er ekki annað hægt en að lýsa yfir sérstakri ánægju með framlagningu þess og þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við samningu frv. Verði frv. að lögum leiðir það í senn til fljótvirkari meðferðar aðfararmála jafnhliða því að þar er rækilega gætt réttar þeirra sem aðför beinist að. Mér finnst frv. vera skipulega upp sett og skýrlega og greinargerð þess sú gleggsta sem ég hef lesið síðan ég kom inn á Alþingi. Það er rétt, sem fram kom hjá hæstv. dómsmrh., að greinargerðin er nægileg kennslubók í aðför og kemur eflaust til með að verða notuð sem slík við kennslu í lagadeild Háskóla Íslands.
    Í frv. er leyst úr þeim mörgu vandamálum sem hafa verið í framkvæmd aðfarar og á greinargóðan hátt er vikið að því hvernig ætlað er að leiða þessi mál til lykta. En þó svo ég hafi lesið þetta frv. og gert mér í hugarlund hvað er þarna að ske er of snemmt að úttala sig um frv. sem slíkt. Það er svo margþætt og erfitt að átta sig á hvernig það verður í framkvæmd að ég ætla að bíða þangað til 2. umr. fer fram að úttala mig nánar um það, en ég á sæti í þeirri nefnd sem fjallar um frv., hv. allshn., og mun að sjálfsögðu leggja mitt af mörkum til þeirrar vinnu sem þar fer fram. En það sem ég vildi að lokum sagt hafa er að ég fagna þessu frv. og vonast eftir því að það frv. sem er grundvöllur þessa, aðskilnaðarfrv., verði lagt fram svo fljótt sem verða má svo að hægt sé að taka þessi frumvörp bæði til meðferðar í einu.