Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Hér er komið til umræðu fyrsta frv. hæstv. ríkisstjórnar sem fjallar um þau viðamiklu áform sem hæstv. ríkisstjórn hefur uppi um stórfellda tekjuaukningu og aukningu á skattheimtu. Að því leyti er umræðan hér allrar athygli verð, en hún er líka athygli verð fyrir það að hún felur í sér yfirlýsta stefnubreytingu Alþb. í skattamálum.
    Alþb. hafði árum saman, og ekki síst þegar frv. til l. um virðisaukaskatt var hér til meðferðar á síðasta þingi, barist gegn breytingu úr söluskatti yfir í virðisaukaskatt en nú kemur fram í máli hæstv. fjmrh. að áform hans eru að standa að þeirri breytingu sem Alþingi hefur ákveðið, en leggja einungis til að gildistöku laganna verði skotið á frest um sex mánuði. Það er út af fyrir sig fagnaðarefni og ástæða til þess að vekja á því athygli að Alþb. hefur breytt um stefnu í þessu efni og fallist á þá grundvallarstefnumörkun, sem ákveðin var á síðasta þingi, að breyta úr söluskattskerfi yfir í virðisaukaskatt og rétt að leggja á það áherslu sem jákvætt er í málflutningi hæstv. ráðherra í þessu máli.
    Hæstv. ráðherra gerði grein fyrir tveimur ástæðum fyrir flutningi á þessu frv., eins og fram kemur í athugasemdum. Aðalástæðuna taldi hæstv. ráðherra þá að nú skorti mjög á að skattkerfið og embættismenn fengju nægan tíma til undirbúnings fyrir þessa viðamiklu breytingu. Þegar frv. um þetta efni var til meðferðar á síðasta þingi kom mjög glögglega fram af hálfu hæstv. þáv. fjmrh. að það mat sem jafnan hefur legið til grundvallar áformum um breytingar í þessu efni, þ.e. að skattkerfið og embættismennirnir þyrftu um það bil eitt ár til þess að undirbúa þessa breytingu, væri rétt og á þeim tíma ætti að vera unnt að ljúka allri nauðsynlegri undirbúningsvinnu. Ég sá og heyrði ekki að ráðherra breytti í neinu því mati sem forveri hans lagði fram í þessu efni og ég er þeirrar skoðunar að unnt væri að koma þessum breytingum fram á þeim tíma sem forveri hæstv. núv. fjmrh. taldi gerlegt og því óþarfi að fara svo mörgum orðum um þessa ástæðu. Auðvitað getur það verið hentugt fyrir skattkerfið að fá meiri tíma.
    Hin ástæðan eru hinar augljósu þarfir ríkissjóðs og það er auðvitað meginástæðan fyrir flutningi frv. og ástæðulaust að fara í launkofa með að það er fyrst og fremst hún sem hér kemur til álita við flutning frv.
    Ég saknaði þess í framsöguræðu fjmrh. að þar komu ekki fram neinar frekari útlistanir á skattastefnu ríkisstjórnarinnar. Að mínu mati hefði verið eðlilegt þegar fyrsta frv. liggur hér fyrir til umræðu að fjmrh. gerði nánari grein fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar í skattamálum, þeim áformum sem hún hefur nú til aukinnar skattheimtu og með hvaða hætti á að ná þeim áformum. Við þekkjum þær yfirlýsingar sem fram hafa komið af hálfu hæstv. fjmrh., í fyrsta lagi á fyrstu dögum ríkisstjórnarinnar, um það að flytja ætti marga milljarða til í þjóðfélaginu með því að leggja skatt á fjármagnstekjur. Nú hafa þau áform öll verið skorin býsna mikið niður og fjárlagafrv. ber nú ekki með sér þann milljarðatilflutning sem hæstv.

ráðherra fjallaði sem mest um í sem stærstum yfirlýsingum fyrstu daga sína í fjmrn.
    Það hafa komið fram mjög misvísandi yfirlýsingar af hálfu stjórnarflokkanna varðandi öryrkjaskattinn, menntunar- og menningarskattinn og íþróttaskattinn og væri ástæða til þess við upphaf þessarar skattaumræðu að fá nokkra greinargerð frá hæstv. ráðherra um það hvort stjórnarflokkarnir hafi samræmt stefnu sína í þessum efnum, en yfirlýsingar einstakra stjórnarflokka hafa þar um gengið nokkuð út og suður. Þannig mætti lengi telja og væntanlega gerir hæstv. ráðherra frekari grein fyrir þessum atriðum hér á eftir og þar á meðal áformum um breytingar á tekjuskatti, en einnig á því sviði hafa komið fram mjög mismunandi yfirlýsingar af hálfu ríkisstjórnarinnar. Í upphafi kom mjög ákveðin stefnuyfirlýsing af hálfu hæstv. fjmrh. um sérstakt nýtt skattþrep í staðgreiðslukerfið sem aðrir ríkisstjórnarflokkar hafa dregið mjög í efa að væri skynsamlegt, enda liggur nokkuð í augum uppi að það mundi brjóta núverandi staðgreiðslukerfi niður.
    Það var auðvitað mikið álitaefni þegar virðisaukaskattsfrv. var til umræðu hér á síðasta þingi hvert skatthlutfallið ætti að vera. Innan þáv. ríkisstjórnar voru mismunandi sjónarmið uppi í því efni. Þáv. hæstv. fjmrh. lagði mikla áherslu á að skatthlutfallið yrði lækkað þó að það leiddi til þess að ríkissjóður mundi augljóslega tapa nálægt tveimur milljörðum króna í tekjum. Bæði af hálfu ráðherra Sjálfstfl. og Framsfl. í þeirri ríkisstjórn var varað við þessum áformum vegna hagsmuna ríkissjóðs og lögð á það áhersla að skatthlutfallið yrði því sem næst í réttu hlutfalli við núverandi innheimtu söluskattsins. Á þetta var ekki fallist af þáv. fjmrh., sennilega vegna þeirrar stefnu sem Alþfl. boðaði meðan hann var í stjórnarandstöðu um fækkun undanþága í skattkerfinu sem áttu að leiða til mjög verulegrar lækkunar á skatthlutfalli í söluskatti, í að mig minnir 10--12%, en raunveruleikinn varð annar.
    Þegar undirbúningur hófst fyrir fjárlagagerð þessa árs var augljóst að ríkissjóður gat ekki látið af svo miklum fjármunum sem þessi umtalsverða
skattalækkun gerði ráð fyrir og þess vegna komu þegar á vordögum fram hugmyndir um að fresta gildistöku hinna nýju laga ellegar að hækka skatthlutfallið á nýjan leik. Flestum bar saman um að í þessari stöðu væri skynsamlegra að fresta gildistöku laganna til áramóta og skapa ríkissjóði þannig svigrúm til þess að fá tekjur af söluskatti á næsta ári í samræmi við það hlutfall sem núverandi skattstofn gefur. Það væri m.ö.o. ekki tilefni til verulegrar skattalækkunar eins og aðstæður eru hjá ríkissjóði um þessar mundir. Frv. byggir á þessum sjónarmiðum sem Sjálfstfl. styður og telur þess vegna eðlilegt við þessar aðstæður að gildistöku virðisaukaskattslaganna sé frestað af þeim augljósu ástæðum að ríkissjóður getur ekki verið án þeirra tekna sem söluskattskerfið gefur í dag og það er ekki tilefni til skattalækkana.
    Það var augljóst mál um leið og virðisaukaskattslögin voru samþykkt að athuga þyrfti ýmis framkvæmdaatriði sem kynnu að leiða til

breytinga á lögunum áður en þau tækju gildi. Eitt af þeim atriðum sem hlýtur sérstaklega að þurfa að skoða í þessu efni er spurningin um hvort hafa eigi sérstakt lægra skattþrep fyrir skattlagningu á matvæli. Með breytingunum sem gerðar voru á söluskattslögunum á síðasta þingi var sú stefnubreyting gerð að tekið var upp sérstakt lægra skattþrep á ákveðin svið skattlagningar. M.ö.o. farið var inn á þá braut að hafa tvö skattþrep í söluskattskerfinu, lægra skattþrep á þjónustu ýmissa háskólamenntaðra sérfræðinga sem hafa með höndum sjálfstæðan atvinnurekstur.
    Í umræðum um þær skattbreytingar sem fram fóru á síðasta þingi urðu talsvert miklar deilur, sérstaklega um skattlagningu á matvæli. Mig minnir að hæstv. núv. fjmrh. hafi þá sagt um forvera sinn að hann yrði brennimerktur maður þangað til hann hefði tekið þær breytingar til baka. Nú eru þetta sjálfsagt svona stóryrði af því tagi sem ekki ber að taka mikið mark á. Hitt er svo annað að þessi ummæli og afstaða flokks hæstv. fjmrh. hljóta að kalla á þá spurningu hvort Alþb. hafi ekki einasta breytt stefnu sinni á þann veg að fallast á að virðisaukaskattur skuli nú leysa söluskatt af hólmi, sem er jákvæð stefnubreyting, heldur einnig hvort þessi stefnubreyting feli í sér að það sé óumbreytanleg afstaða af hálfu Alþb. að ekki megi undir neinum kringumstæðum lækka skatt á matvöru og innleiða lægra skattþrep á hana. Ég beini þessari spurningu til hæstv. ráðherra og óska eftir því að hann geri grein fyrir afstöðu sinni í þessu efni og hvort hann sé tilbúinn til þess að beita sér fyrir því við þá endurskoðun sem fram þarf að fara áður en lögin taka endanlega gildi að sett verði ákvæði sem feli í sér lægra skattþrep á matvæli með svipuðum hætti og nú á sér stað að því er varðar skattlagningu á þjónustu ýmissa háskólamenntaðra stétta sem reka sjálfstæðan atvinnurekstur. Þetta er mikið grundvallaratriði og einnig væri nauðsynlegt að fá fram af hálfu hæstv. ráðherra hvernig hann hyggst standa að þeirri nauðsynlegu endurskoðun á lögunum sem fram á að fara og hvernig taka eigi á þeim málum og öllum þeim atriðum sem upp kunna að koma og kalla á lagabreytingar fyrir gildistökuna. Með hvaða hætti hyggst hæstv. ráðherra standa að þessari endurskoðun og hefur hann í hyggju, eins og stundum hefur tíðkast þegar viðamiklar breytingar hafa verið gerðar í skattkerfismálum eins og til að mynda þegar staðgreiðslukerfið var lögleitt, að skipa milliþinganefnd með fulltrúum allra þingflokka til þess að fara yfir þessi mál og leggja á ráðin um þær breytingar sem gera þarf fyrir gildistökuna. Það væri fróðlegt að fá að heyra hvaða áform hæstv. ráðherra hefur í þessu efni.
    En aðalatriði málsins er auðvitað það að vegna fjárhagsaðstæðna ríkissjóðs er ekki tilefni til þeirrar miklu skattalækkunar sem virðisaukaskattslögin fela í sér og af þeim sökum er skynsamlegt við þessar aðstæður að fresta gildistökunni um hálft ár og Sjálfstfl. styður það meginefni frv.