Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1988

     Geir H. Haarde:
    Virðulegi forseti. Það var að mörgu leyti mjög athyglisvert að hlýða á framsöguræðu hæstv. fjmrh. fyrir því frv. sem er til umræðu. Ég ætla ekki að gera neinar athugasemdir við efni frv. eða þau rök sem fyrir því eru flutt í greinargerð. Ef það kemur í ljós að mati færustu manna að undirbúningstíminn sem ætlaður hafi verið sé ekki nægur tel ég að það sé eðlilegt að gefa sér meiri tíma til undirbúnings þessa máls og seinka gildistökunni um sex mánuði. Ég held sömuleiðis að eðlilegt sé að meta það hvort fjárhagsstaða ríkissjóðs á næsta ári leyfi þá hliðrun í tekjum sem óhjákvæmilega leiðir af virðisaukaskattinum. Ég treysti mati sérfræðinga fjmrn. og ríkisskattstjóra að því er þessa hluti varðar og það er auðvitað alveg rétt að á það hæfa starfslið, sem vinnur að þessum málum hjá skattkerfinu, hefur verið lögð gríðarlega mikil vinna á þessu ári og verður áfram á því næsta með þeim umfangsmiklu skattbreytingum sem búið er að hrinda í framkvæmd, en hæstv. núv. fjmrh. var að vísu flestum á móti. Ég tel því að það séu ágæt efnisrök fyrir þessu frv.
    Ég stend hins vegar hér upp til þess að vekja athygli á þeirri forvitnilegu stöðu sem upp er komin varðandi þetta mál vegna þess að fjmrh. var ekki að mæla fyrir neinu öðru í sambandi við virðisaukaskatt heldur en frestun á framkvæmd laganna. Samt talar hér formaður þess stjórnmálaflokks sem harðast barðist gegn þessu frv. á síðasta þingi. Hann er ekki að leggja til neinar efnisbreytingar á sjálfu málinu, hann er eingöngu að leggja til að því verði frestað um sex mánuði. Ég sem gamall stuðningsmaður þessarar breytingar úr söluskatti yfir í virðisaukaskatt hlýt að sjálfsögðu að fagna þessari afstöðubreytingu hjá Alþb. og hlýt að fagna því að hæstv. núv. fjmrh. og félagar hans úr Alþb. í ríkisstjórn hafa skipt um skoðun þegar þeir tóku sæti í ríkisstjórn.
    En það var þannig að þegar þetta frv. var afgreitt á sl. vori var sett á laggirnar sérstök nefnd sem átti að vinna úr ýmsum álitamálum sem eftir stóðu og sem óhjákvæmilegt var vegna umfangs þessa máls. En fjmrh. minnist ekki einu sinni á hvað líði starfi þessarar nefndar, hvað líði því verki að ganga frá þeim lausu endum sem í þessu máli voru. Hann telur kannski að starf þessarar nefndar hafi verið óþarft.
    En mig langar rétt svona til gamans, virðulegi forseti, að rifja upp hver málflutningur flokks hæstv. núv. fjmrh. í þessu máli var hér á þinginu sl. vor. Aðaltalsmaður flokksins á þeim tíma var hæstv. núv. landbrh. Hann byrjar ræðu sína þegar hann mælir fyrir sínu nál., fyrir minnihlutaáliti hv. fjh.- og viðskn. hér á Alþingi 10. maí sl., á því að rífast og skammast yfir því að hér séu fáir ráðherrar mættir. ( Fjmrh.: Þú getur endurtekið það.) Já, má ég lesa þetta upp. Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp úr þessari ræðu: ,,Ég fer fram á það að forseti setji auglýsingu í útvarpið og lýsi eftir ríkisstjórninni því að hún er greinilega einhvers staðar annars staðar en á Alþingi eins og sjá má hér á stólunum.`` Og hann neitaði að taka til máls fyrr en úr rættist. En það má segja að það komi vel

á vondan að hann sér ekki ástæðu til þess að vera hér viðstaddur þegar þetta mikla áhugamál hans, sem hann talaði um klukkutímum saman á síðasta þingi, er tekið til umræðu. Áhuginn virðist alveg búinn á málinu. Það er nú að vísu þannig að við margir sem sátum hér á síðasta þingi söknum þess hve lítið núv. hæstv. landbrh. lætur til sín taka á þinginu miðað við það sem hann gerði í fyrra, enda sér þess nú stað í umfangi Alþingistíðinda hvað þau hafa skroppið saman frá því að hann tók sæti í ríkisstjórn. ( Fjmrh.: Sparnaður hjá ríkinu.) Já, það má kannski segja að það sé sparnaður í ríkisrekstrinum og pappírskostnaði fyrir Alþingi að spara í útgáfu Alþingistíðinda með þessum áþreifanlega hætti. En það er ekki aðalatriði málsins.
    Má ég enn vitna í hæstv. núv. landbrh. í þessu áliti hans. Hann leggur til að þetta frv. verði fellt. Hann leggur til, og greiddi auðvitað þannig atkvæði eins og allir þingmenn Alþb., að þetta frv. verði fellt og það sent út í hafsauga. Hér er því auðvitað mjög umfangsmikil stefnubreyting hjá flokki hæstv. núv. fjmrh. og hann rekur það í mjög svo ítarlegu máli hvers vegna hann sé á móti þessu frv. Nú dettur mér auðvitað ekki í hug að fara hér með álíka langt mál, en ég ætla aðeins að rekja nokkrar helstu röksemdirnar um leið og ég spyr fjmrh. um hverja og eina þeirra. Hefur hann skipt um skoðun að því er þær varðar? Ætlar hann að beita sér fyrir breytingum á þessum lögum í anda athugasemda hans eigin flokks eða var þetta bara allt saman einn skrípaleikur frá upphafi til enda hér á sínum tíma? Ég bið hann um að svara því. En með leyfi forseta segir hér:
    ,,Fyrstu og veigamestu röksemdir að mínu mati gegn frv. eru þær að með því yrði festur í sessi hinn illræmdi matarskattur, þ.e. að með frv. yrði lagður skattur á matvæli og aðrar brýnustu nauðsynjar fólks.``
    Síðan er rakið í löngu máli hversu mannfjandsamlegur virðisaukaskatturinn sé af þessari ástæðu. Síðan, með leyfi forseta, segir hér:
    ,,Í öðru lagi er í nál. minni hl. vikið að því að með þeirri ákvörðun að
leggja virðisaukaskattinn, sem þar gengur undir nafninu ,,VASKurinn``, á í einu þrepi er sá möguleiki útilokaður að flokka vörur og þjónustu upp með tilliti til mikilvægis fyrir almenning.``
    Þetta er auðvitað náskylt fyrri athugasemdinni, en þar sem núv. hæstv. landbrh. sá ástæðu til að skipta þessu upp í tvennt breyti ég því ekki.
    Þriðja athugasemd talsmanns Alþb. í þessu máli á síðasta þingi er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Enginn vafi er á því að upptaka virðisaukaskatts hefur í för með sér geysilega aukið skrifræði og veldur auknum tilkostnaði og fyrirhöfn, bæði fyrir hið opinbera og er þó ekki á bætandi en ekki síður fyrir atvinnulífið.``
    Hann bætir enn við í fjórða lagi, með leyfi forseta: ,,Algerlega ófullnægjandi rök hafa að mati minni hl. verið færð fyrir því að virðisaukaskatturinn sé það lausnarorð í sambandi við skattsvik sem ýmsir vilja vera láta.``

    Er hæstv. núv. fjmrh. sammála þessu eða hefur hann sannfærst af starfsmönnum sínum í ráðuneytinu um að þessi skattur geti gert eitthvert gagn að því er varðar upprætingu skattsvika?
    Síðan víkur núv. hæstv. landbrh. að ýmsum öðrum atriðum eins og t.d. tilkomu virðisaukaskatts í byggingariðnaði sem hann telur að geti kallað á aukin skattsvik. Hvað segir hæstv. fjmrh. um það?
    Hann talar enn um og eyðir löngu máli í áhrif virðisaukaskattsins á ýmsa menningarstarfsemi og þar segir, með leyfi forseta: ,,Þar er komið að þeim þætti þessa máls sem er kannski einna snautlegastur fyrir hæstv. ríkisstjórn og er þá mikið sagt.`` Síðan bætir hann við: ,,Það væri gaman, herra forseti, ef það væri hægt að setja viðbótarauglýsingu í útvarpið og auglýsa eftir hæstv. menntmrh. Það væri nú ekki dónalegt að fá hæstv. menntmrh. hérna einu sinni á fund fyrir sumarið og mega eiga við hann orðastað um menninguna og virðisaukaskattinn.``
    En þeir sjá auðvitað hvorugir, Alþýðubandalagsfélagarnir, núv. hæstv. menntmrh. eða landbrh., sem þessi orð mælti, einu sinni ástæðu til þess að láta sjá sig þegar þessi mál eru hér til umræðu og þegar þeir hafa raunverulega aðstöðu til þess að hafa áhrif á þessi mál --- eða hvað hyggst fjrmh. fyrir hvað þessa athugasemd varðar? Um þetta hefur sá aðili sem ég er hér að vitna í, hæstv. núv. landbrh. og samgrh., langt mál, þ.e. menninguna og virðisaukaskattinn. Hann m.a.s. gengur svo langt að fullyrða eftirfarandi, með leyfi forseta: ,,Virðisaukaskatturinn mun ganga af mjög miklum hluta þeirrar menningarstarfsemi sem ekki er að stórum hluta eða verulegum hluta til ríkisstyrkt eða styrkt með einhverjum öðrum hætti dauðri. Svo einfalt er það mál.``
    En ef á að túlka framsöguræðu hæstv. núv. fjmrh. eins og beinast liggur við er hann að gera sig sekan um einmitt þetta, en munar sjálfsagt ekkert um það frekar en annað sem hann hefur þurft að kokgleypa á undanförnum vikum og mánuðum í sambandi við sína fyrri stefnu í ýmsum málum, enda er nú margt skrýtið í kýrhaus Alþb. um þessar mundir. En hann sá ekki ástæðu til þess að rekja neitt hvernig hann hygðist bjarga þessari starfsemi í virðisaukaskattskerfinu. Kannski gerir hann það hér á eftir.
    Enn víkur talsmaður Alþb. að nýjum atriðum í ræðu sinni sem ég er að vitna í og kemur nú að áformum ríkisstjórnarinnar um að skattleggja bókaútgáfu. Og eins og hann segir hér, með leyfi forseta: ,,Hafi ég sagt áðan, hæstv. menntmrh., að þessi þáttur allur, þ.e. virðisaukaskatturinn á menninguna, væri nú einna snautlegastur af öllu fyrir hæstv. ríkisstjórn, þá held ég að ég sé kominn að rúsínunni í pylsuendanum þegar ég minnist á þá útfærslu frv. sem snýr að bókaútgáfu og útgáfu prentaðs máls í landinu.``
    Vill nú ekki núv. hæstv. fjmrh. svara okkur því hvað hann hyggst fyrir í þessum efnum, hvað hann hyggst fyrir varðandi virðisaukaskattlagningu á bækur og samræmið við aðra útgáfustarfsemi sem talsmaður

Alþb. gerir hér mjög að umtalsefni og ég skal ekki rekja frekar, samræmið milli skattlagningar á bækur, tímarit, dagblöð o.fl.? Af hverju fáum við engin slík svör? Ætlar sem sagt hæstv. fjmrh. að hafa þetta óbreytt frá því sem ráð er gert fyrir í frv. eða ætlar hann að breyta því? Það er ,,godt nok`` að koma hér og leggja fram frv. um að framlengja gildistöku þessara laga um sex mánuði og halda þá að menn sleppi við að ræða þetta mál efnislega. Það er kannski fullbillegt ef menn halda það.
    En hv. talsmaður Alþb., núv. landbrh., lét ekki þar við sitja sem ég hef nú rakið. Hann kemur enn að íslenskum matvælum og segir þá í sjötta lagi að því er hann telur hér, með leyfi forseta: ,,Í sjötta lagi er með þessum virðisaukaskatti ætlunin að festa endanlega í sessi fulla skattheimtu af íslenskum matvælum, þar með talið íslenskum landbúnaðarvörum.`` Og síðan rekur hann hvílík árás þetta sé á íslenskan landbúnað og er kannski sérstaklega eðlilegt að spurt sé hvað hann í hans núverandi hlutverki sem landbrh. muni gera í þessum efnum ef frv. var á sínum tíma og þessi lagasetning sérstök aðför eða árás á þá atvinnugrein sem hann ber nú ábyrgð á --- eða hafa þeir
kannski ekkert rætt þetta saman, hæstv. fjmrh. og landbrh.?
    Síðan víkur talsmaður Alþb. í ræðu sinni að vinnubrögðum og fleiru þess háttar og milliþinganefndinni sem skipuð var, vinnubrögðum í hv. fjh.- og viðskn. og fleiru af því tagi. Hann segist kalla þá vinnuaðferð ,,ruslakistuafgreiðsluaðferðina`` og biðst síðan afsökunar á að nota svona langt orð. En síðan er vikið sérstaklega að einum máttarstólpa núv. ríkisstjórnar, sem er reyndar hér í salnum, ef mér leyfist, hæstv. forseti, að vitna til þess:
    ,,Ég hef leyft mér, herra forseti, að kalla þessa aðferð ruslakistuafgreiðsluaðferðina ef fyrirgefst að nota svo langt orð sem gerist nú líklega ekki. Þessi nafngift er komin til af því að hjá hv. stjórnarliðum er það þannig að þegar til fundar við nefndir þingsins koma t.d. menn sem hafa ábendingar fram að færa um frumvörp og stinga upp á úrbótum eða gagnrýna eitthvað sérstaklega sem þar er inni segja þessir snillingar, Páll Pétursson og fleiri hv. þm.: Þetta er allt í lagi. Við tökum þetta bara upp í nefndina.``
    Nú hafa að vísu orðið hlutverkaskipti og þó að hv. þm. Páll Pétursson hafi oft og tíðum sýnt snilldartakta við að glíma við þann sem þetta sagði í hv. fjh.- og viðskn. veit ég ekki hvort nafngiftin sem honum var gefin þarna var hugsuð í því skyni að hrósa honum fyrir samstarfið í nefndinni. Eitthvað dreg ég það í efa, en sjálfsagt á hann við okkur fleiri sem sátum í hv. fjh.- og viðskn. á síðasta þingi og studdum þáv. ríkisstjórn.
    Ég skal ekki ergja núv. hæstv. fjmrh. öllu lengur með því að rifja allt þetta upp. Auðvitað er það einstök háðung fyrir Alþb. og formann þess að það eru ekki liðnir nema örfáir mánuðir frá því að talsmaður hans flokks lætur öll þessi ummæli falla þangað til hann tekur hér til máls sem fjmrh. og er

búinn að gera þetta mál algerlega að sínu. En þetta segi ég ekki vegna þess að ég sé ósammála ráðherranum í þetta sinn heldur eingöngu til að benda á hringlandaháttinn í Alþb. og háðungina sem því hefur fylgt fyrir þennan stjórnmálaflokk og verðið sem það hefur þurft að greiða fyrir að komast í valdastólana í núv. ríkisstjórn.
    Hæstv. núv. landbrh. segir í lok ræðu sinnar þegar hann er að tala um þetta frv., með leyfi forseta: ,,Ég verð að segja eins og er að þetta er hin argasta lítilsvirða við þingið. Þetta er auðvitað ekkert annað. Þetta er hreinasta lítilsvirða, herra forseti. Það er kannski erfitt að víta menn fyrir svona lagað af því að þeir segja ekkert ljótt, en þetta eru auðvitað vítaverð vinnubrögð. Það er alger skömm hvernig að þessu er staðið. Svo fáum við þetta auðvitað inn hér í haust með næstum því jafnmörgum brtt. og frv. eða lögin eru löng. Það er alveg ljóst. Það verður gaman``, segir síðan hæstv. landbrh.
    En nú virðist ekkert vera gaman lengur í þessum málaflokki hjá Alþb. sem er búinn að kokgleypa þetta frv. og hæstv. núv. landbrh. lætur ekki einu sinni svo lítið að mæta hér til að taka þátt í fagnaðinum og gamninu þegar virðisaukaskatturinn kemur aftur inn á Alþingi. Nei, hann er sjálfsagt að gefa út leyfisbréf fyrir hunda eða eitthvað slíkt uppi í landbrn. og má ekkert vera að því að sinna þingstörfunum frekar en 7 / 9 af ríkisstjórninni. ( Fjmrh.: Hann er að ræða við forsvarsmenn fiskeldisstöðva.) Hann á að velja sér annan tíma til þess en þegar þingið er að störfum, ekki síst þegar um er að ræða mál sem hann hefur látið sér svo mjög fyrir brjósti brenna, ekki síst þegar hann er sá maður sem manna lengst og mest hefur fjallað um þetta mál í sölum Alþingis og manna mest hefur tekið upp í sig um þetta mál, en sennilega þó aðeins vegna þess að hæstv. núv. fjmrh. sat ekki á þingi þegar málið var til umfjöllunar. Ég geri ráð fyrir að hann hefði ekki tekið minna upp í sig hefði hann setið í stjórnarandstöðunni á þeim tíma. (Gripið fram í.) Ég heyri að hann tekur undir það.
    En að því er varðar efni þessa frv. vil ég endurtaka að ég er stuðningsmaður frv. og vil gjarnan leggja fjmrh. lið í því að koma því greiðlega í gegnum þingið og öðru því sem snýr að góðri og snurðulausri framkvæmd á þessu hagsmunamáli sem ég tel vera fyrir atvinnulíf á Íslandi, virðisaukaskatt í stað söluskatts. En ég held að það sé nauðsynlegt að ráðherrann taki hér af allan vafa sem kann að hafa skotið upp í hugum manna við þessa upprifjun úr máli alþýðubandalagsmanna frá fyrra þingi um raunverulega afstöðu flokksins til málsins. Ég held að það væri gott að hann upplýsti okkur um það í stað þess að láta menn hér inni leiða af líkum hvort það sé ekki örugglega rétt að hann og flokkur hans hafi skipt um skoðun í þessu máli. Er það ekki örugglega svo eða er hann kannski að reyna að plata menn hér, vinna tíma með því að fresta málinu og hugsar hann sér kannski að leggja fram frv. í samræmi við afstöðu hæstv. núv. landbrh. á síðasta þingi og Alþb. þá um að fella þessi lög um virðisaukaskatt úr gildi? Ætlar

hann kannski að gera það síðar á þinginu? Það var sú stefna sem Alþb. talaði fyrir á síðasta þingi. Ég held að það væri ágætt ef fjmrh. gæfi sér tíma til þess að upplýsa þingheim um þetta því að það skiptir miklu máli í sambandi við framhald þessa máls hvort hér er um raunveruleg sinnaskipti að ræða hjá þeim stjórnmálaflokki sem ber ábyrgð á ríkisfjármálunum í dag eða ekki.
    Svo er hitt allt annað mál hvaða upplit er á því hjá hæstv. núv. fjmrh. og
ríkisstjórninni, sem hefur boðað hér hvert skattafrv. á fætur öðru, að fyrsta málið sem hún leggur fram og snertir skattana er sex mánaða frestun á þessu máli. Hvar eru öll þau skattafrv. sem boðuð voru með fjárlagafrv.? Af hverju sjá þau ekki dagsins ljós? Á kannski að keyra þau í gegnum þingið á tíu dögum eða viku eða einhverju því um líku fyrir jól (Gripið fram í.) eða . . . ( Forseti: Ekki samtöl í salnum.) Ég þakka forseta fyrir liðsinnið.
    Er það kannski vegna þess að stjórnarliðarnir koma sér ekki saman um það hvernig þessi skattafrv. eiga að líta út? Er það kannski vegna þess að ágreiningur í stjórnarliðinu, sem opinberaðist eftir framlagningu fjárlagafrv., er svo mikill að það er ekki samkomulag um annað en einhver tiltölulega léttvæg mál? Hverjar eru ástæðurnar? Hvernig væri nú að fjmrh. greindi okkur frá því og héðan úr ræðustól en ekki úr sæti sínu? Ég mælist til þess að hann geri það um leið og ég heiti honum liðsinni mínu í þessu tiltekna máli.