Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Sú umræða sem hér hefur farið fram hefur á ýmsan hátt verið fróðleg og ánægjuleg, sérstaklega vegna þess að hún hefur ekki síst beinst að Alþb. frekar en því frv. sem hér er til umræðu og undirstrikar enn á ný kannski þörfina á því að það verði ætlað sérstaklega í þingsköpum fyrir því að áhugamenn um stefnu og afstöðu flokksins hafi tækifæri til að grennslast fyrir um hana. Eins og ég sagði fyrir nokkrum dögum skýt ég mér ekki undan því að ræða það hér.
    Áður en ég kem að afstöðu Alþb. sérstaklega vil ég þó víkja að einu grundvallaratriði í íslenskri stjórnskipun og stjórnmálum. Flokkar hafa auðvitað haft mismunandi afstöðu til fjölmargra frumvarpa sem síðan eru gerð að lögum í okkar landi. Síðan næst um þessi mál ákveðið samkomulag á Alþingi sem meiri hlutinn ákveður hverju sinni. Þótt flokkar hafi verið á móti þeim frumvörpum á sínum tíma er það ekki eðli þeirrar stjórnskipunar og stjórnmála í samsteypustjórnum sem við höfum þurft að iðka á Íslandi að þar með séu menn að rífa upp öll þau hugsanlegu lög og frumvörp sem menn hafa verið á móti þegar kemur að nýrri stjórnarsamvinnu. Það vill svo til að síðar á þessum fundi er á dagskrá ágætt dæmi um þetta, skatturinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Þegar hann var fyrst fluttur á Alþingi var Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu og gagnrýndi þennan skatt mjög harkalega. Ef ég man rétt var það einhver harðasta lota sem þingmenn Sjálfstfl. gerðu að skattabreytingum ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar 1978--1979 sem þeir gerðu að skattinum á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Engu að síður hefur niðurstaðan orðið sú að fjmrh. Sjálfstfl. hafa bæði framkvæmt þessi lög og hvað eftir annað lagt fyrir Alþingi frumvörp um að þessi skattur sé framlengdur.
    Þar að auki er alveg ljóst að samsteypustjórnir á Íslandi fela í sér ákveðna málamiðlun, fela í sér ákveðna ákvörðun flokka, meðvitaða ákvörðun flokka, að þegar þeir ganga til samstarfs við aðra flokka setja þeir ákveðin takmörk fyrir kröfum um það hverju þeir ætli sér að ná fram. Það gerðum við í Alþb. þegar við tókum þátt í þessari ríkisstjórn. Við töldum að aðgerðir í efnahagsmálum, sérstaklega gagnvart útflutningsatvinnuvegum og atvinnumálum landsbyggðarinnar og enn fremur nauðsyn á nýrri tejuöflun til þess m.a. að viðhalda velferðarþjónustunni á erfiðum tímum væri eitt sér ásamt ýmsu öðru nægilega mikil réttlæting til að taka þátt í ríkisstjórnini þótt við næðum ekki fram kröfum okkar í fjölmörgum öðrum málum, hvorki því máli sem hér hefur verið vikið að og ég mun koma að síðar né ýmsum öðrum. Það er einfaldlega það mat sem íslenskir stjórnmálaflokkar verða að leggja hverju sinni þegar þeir taka þátt í samsteypustjórnum á það hvað þeir telji mikilvægast miðað við kringumstæður þeirrar ríkisstjórnar til að geta réttlætt þátttöku sína.
    Ég vil segja það vegna orða síðasta hv. ræðumanns, Kristínar Halldórsdóttur, að um leið og ég vænti þess að þeir stjórnarflokkar sem nú starfa og

jafnvel ríkisstjórnin sjálf geti átt gott samstarf við Kvennalistann og Kvennalistinn frekar fyrr en síðar íhugi alvarlega þátttöku í ríkisstjórn á Íslandi er óhjákvæmilegt að við ákvarðanatöku eru einhver baráttumál sem menn annaðhvort fresta um sinn eða verða að taka tillit til ákveðinnar niðurstöðu sem hefur verið fengin. Þetta er nauðsynlegt að menn hafi í huga þegar menn koma að þeirri umræðu sem hér hefur verið á dagskrá.
    Ég vil einnig segja almennt vegna orða séstaklega hv. þm. Friðriks Sophussonar að fyrr á þessu þingi gagnrýndu bæði hann og hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson og hvort það eru ekki fleiri fyrrv. ráðherrar Sjálfstfl. mjög að hafa ekki fengið nægilega fljótt og nægilega vel upplýsingar um stöðu ríkisfjármála og gagnrýndu harðlega að þeim hefði ekki verið sagt í ágúst og september rétt eða nægilega ítarlega frá stöðu ríkisfjármála. Ég hef talið það skyldu mína að greina hv. Alþingi, fjvn. og almenningi í þessu landi frá bestu upplýsingum sem ég hefði um þessi mál nánast um leið og ég hef þær í höndum en vera ekki að liggja með þær inni í ráðuneyti eða fela þær um einhvern langan tíma. Það er að vísu rétt að halli ríkissjóðs hefur hækkað á nokkurra vikna fresti. Og af því að menn eru svo fúsir til nafngifta, eins og mátti heyra á hv. þm. Þorsteini Pálssyni, sem talaði um einhvern öryrkjaskatt sem ég kannast satt að segja ekki við, þá má segja að ,,Þorsteinsskaðinn`` í ríkisfjármálunum hafi bara reynst meiri en menn reiknuðu með. Hæstv. fyrrv. forsrh. varð þjóðinni dýrari en jafnvel við héldum í fyrstu vegna þess að niðurstöðutölur úr októbermánuði sýndu að þróunin í ágúst, september og október gæfi tilefni til að ætla að hallinn á ríkissjóði gæti orðið 5 milljarðar á þessu ári.
    Ég ætla hins vegar ekki að fara í einhvern eltingarleik um það hér að rekja þennan ,,Þorsteinsskaða`` sérstaklega ef við viljum kalla hann það út frá slíkri nafngiftaiðju eins og hv. þm. Þorsteinn Pálsson iðkaði áðan til að villa um fyrir fólki. Ég mun hins vegar halda því áfram, hve margar ræður sem það kostar, að greina hv. þm. fljótt, vel og ítarlega frá þeim bestu upplýsingum sem ég hef um stöðu þessara mála og hélt nú satt að segja að hv. þm. kynnu frekar að meta það en vera að gagnrýna það eins og mér fannst hv. þm. Friðrik Sophusson vera að gera áðan þar sem hann nánast óbeint virtist
vera að óska eftir því að ég léti það vera að greina mönnum frá þessu. ( FrS: Ég notaði nú orð hæstv. ráðherra sem sagði þetta sjálfur einu sinni.) Ja, það var létt gaman. ( FrS: Átti ekki að taka mark á þessu?) Jú, jú, auðvitað átti að taka mark á því. En ég hef haldið nokkrar ræður síðan og ég vona að hv. þm. hafi tekið eftir því að hallinn hefur nú ekkert hækkað í þeim. En við skulum hins vegar vonandi verða sammála um að bæði ríkisstjórn og Alþingi á auðvitað kröfu á að vita fljótt og vel um ástand mála, m.a. vegna þess, sem hv. þm. réttilega vék að, að það er ekki bara ríkisstjórnin sem þarf að taka afstöðu til fjárlaga heldur Alþingi allt. Ég vænti þess að hv. þm.

annarra flokka kunni að meta það að hafa þá einnig rúman tíma til að skoða hvað þeir mundu gera við þær aðstæður sem greinilega eru uppi, frekar en vera að demba því yfir þingheim með litlum fyrirvara, jafnvel nokkurra daga fyrirvara, þegar kemur að endanlegri afgreiðslu fjárlaganna.
    Síðan ætla ég að víkja að þeim atriðum sem voru nefnd af einstökum ræðumönnum og skal þá fyrst víkja að því sem fleiri en einn nefndi en hv. þm. Þorsteinn Pálsson vék að fyrstur og það er hvort hér væri um stefnubreytingu hjá Alþb. að ræða.
    Alþb. hefur lengi haft efasemdir um kosti virðisaukaskatts og eins og hv. þm. Albert Guðmundsson upplýsti áðan hafa þær efasemdir verið innan annarra flokka einnig mjög lengi. Ég vek t.d. athygli á því að á sínum tíma þegar ég sat í fjh.- og viðskn. Ed. fengum við upplýsingar um að gagnstætt því sem ýmsir höfðu haldið hefðu skattsvik ekki minnkað í Noregi við tilkomu virðisaukaskatts og þær fullyrðingar, sem ýmsir höfðu þá sett fram, að kerfið væri flókið, viðamikið og jafnvel dýrt í framkvæmd hefðu ýmislegt til síns máls. Mér finnst sú reynsla sem komið hefur nú á þessum mánuðum að mörgu leyti benda til þess að þetta sé stærra og viðameira verk en margur hélt. Það er misskilningur hjá hv. þm. Friðrik Sophussyni að hér sé eingöngu eða fyrst og fremst um einhvers konar tekjuöflunaræfingu að ræða því það var mælt af heilum hug þegar ég sagði það áðan að jafnvel þótt hagur ríkissjóðs væri svo góður að það þyrfti ekki að taka neitt tillit til þeirra þátta við ákvarðanatöku af þessu tagi væri það engu að síður rangt að ætla sér ekki meiri tíma til að undirbúa þessa framkvæmd.
    Við höfum í Alþb. einnig bent á að í öðrum löndum eru fleiri en eitt þrep í virðisaukaskatti. Ég tel nauðsynlegt að það mál sé skoðað betur, reynsla annarra þjóða, og enn fremur hafi menn tækifæri til að velta því fyrir sér hér og koma þá auðvitað til greina þeir þættir sem hv. þm. Kristín Halldórsdóttir nefndi hér, bæði matvæli, menningarstarfsemi og fjölmargt annað. Ég vil fá tækifæri til að skoða þessa þætti málsins mjög rækilega og ég veit að ekki bara innan flokka núverandi ríkisstjórnar heldur einnig hjá öðrum flokkum á Alþingi eru ýmsir sem hafa einnig áhuga á að gera það. Það getur vel komið til greina að endurskoðun eða yfirferð á þessum málum verði gerð í samvinnu allra þingflokka.
    Varðandi skattastefnu ríkisstjórnarinnar, sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson vék að, eru meginatriði hennar ljós. Meginatriðin eru þau að sækja tekjurnar fyrst og fremst til þeirra sem hafa hærri tekjur, meiri eignir og úr meira að spila til eyðslu. Það er sú meginstefna sem við höfum verið að útfæra í einstökum frumvörpum, sem sum eru þegar komin hingað eða eru að koma, og tekjuöflunarfrv. munu birtast á Alþingi næstu daga og í næstu viku. Þá fær hv. Alþingi tækifæri til að fjalla um einstaka þætti og áform í þeirri mynd. Ég vil í þessu sambandi í fullri vinsemd biðja menn að hafa ekki svona stór orð um þessi áform um að þeir sem haldnir eru spilafíkn

greiði söluskatt af þeirri spilafíkn, að kenna það við öryrkjaskatt, menningarskatt, menntaskatt eða hver voru nú skrautyrðin sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson valdi. Ef það er staðreynd að velta núverandi happdrættisaðila mundi á engan hátt minnka við að 12% söluskattur væri lagður á þá sem eru haldnir þessari spilafíkn minnka tekjur öryrkjanna, menningarsamtakanna og menntasamtakanna ekki neitt frá því sem nú er. Þá eru það eingöngu þeir sem spila sem þurfa að borga meira fyrir þennan gerning. Það getur vel verið að hv. þm. finnist sjálfsagt að 4 milljarðar, kannski 5 milljarðar, kannski 10 milljarðar, kannski 15 milljarðar, kannski 20 milljarðar séu í happdrættisveltu í landinu án þess að greitt sé af því sams konar gjald og annarri veltu og eyðslu --- eða hvar eru mörkin, hv. þm. Þorsteinn Pálsson? Ég held að það sé alveg ljóst að það er mun meira fjármagn í umferð á þessu sviði en menn hafa haldið. Þess vegna endurtek ég það, sem ég hef sagt áður, að ég tel eðlilegt að lægsta stig af söluskatti sé greitt af þeim sem hafa gaman af að spila í lottóum og happaþrennum og á öðrum vettvangi alveg eins og að ef við værum með spilastofnanir af margvíslegu tagi þætti mönnum eðlilegt að þær greiddu sams konar gjöld og önnur viðskipta- og verslunarfyrirtæki. Það væri eingöngu hægt að álasa þessari ríkisstjórn fyrir að ætla sér að fara í atlögu við öryrkja, Háskóla Íslands, íþróttamenn og aðra ef hægt væri að leiða að því sterk rök að tekjur þessara aðila mundu minnka við þessa aðgerð. Það er hins vegar erfitt að kveða af eða á um í þeim efnum, en ég hef ekki trú á því. Og ég er persónulega sannfærður um að fyrr eða síðar
verður lagður söluskattur á happdrættisveltuna í landinu. Þá held ég að ýmsir ættu að spara sér stóru orðin svo að einhverjir þingmenn sem þá sitja . . . (Gripið fram í.) Jú, ég sagði að fyrr eða síðar yrði það gert. ( FrS: Hvort er það fyrr eða síðar?) Ja, það getur komið í ljós hvort það verður fyrr eða síðar. Það getur m.a. farið eftir því hvort hv. þm. Friðrik Sophusson greiðir því atkvæði því að eins og kunnugt er hefur núv. ríkisstjórn ekki nægilegan fjölda þingmanna til að geta ein og sér tryggt framgang frumvarpa í þessari hv. deild. Kannski gerist hv. þm. Friðrik Sophusson liðsmaður okkar í þessum efnum. ( FrS: Er hæstv. ráðherra að bjóða mér ráðherrastól?) Ja, ef hv. þm. Friðrik Sophusson er tilbúinn að styðja happdrættisskattinn gegn því að fá sæti í ríkisstjórn er augljóst að bak við stóru orðin hvílir ekki alveg þessi umhyggja fyrir öryrkjunum, íþróttafólkinu og þessum fötluðu. ( FrS: Voru það þá öryrkjar og fatlaðir eftir allt saman?) Nei, nei, auðvitað var það ekki það en ég held að punkturinn sé hins vegar alveg augljós eins og ég sagði áðan: Haldi þessi starfsemi áfram að vaxa eins mikið. Og ég er alveg sannfærður um að hefði hv. alþm. verið sagt það fyrir nokkrum árum að það ætti eftir að verða fjórum sinnum meiri velta í þessari starfsemi en umfang stærstu orkuframkvæmdanna í landinu á næsta ári, Blönduvirkjunar, hefði ýmsum hv. þm. þótt það ótrúleg saga. Ég endurtek það þess vegna hér: Ég er sannfærður um að fyrr eða síðar

verður lagt lágt stig af söluskatti á þessa starfsemi. Þess vegna held ég að það væri hyggilegra fyrir hv. alþm., þá sem nú ætla sér að tala á móti slíku, að gera það með varlegra orðalagi en sumir hafa gert hér.
    Hv. þm. Þorsteinn Pálsson spurði um annað þrep í tekjuskatti. Ég hef sagt það nokkrum sinnum á Alþingi og get sagt það enn að við myndun þessarar ríkisstjórnar var það eindregin skoðun ærið margra sem að henni stóðu að þeir vildu láta skoða kosti og galla þess að setja annað þrep í tekjuskatti. Það var ekki tekin nein ákvörðun um að gera það heldur eingöngu að skoða kosti og galla þess. Sá áhugi er ekki bara bundinn við einstaka þingmenn og stuðningsmenn þessarar ríkisstjórnar. Ég minni t.d. á að Kvennalistinn hefur á landsfundi sínum lýst áhuga á nýju skattþrepi og kann þá einnig væntanlega að meta það að slík athugun um kosti þess og galla hafi farið fram. Ég minni einnig á það að á þingi BSRB, sem nýlega var haldið, kom fram ályktun um sama efni þannig að það er alveg ljóst að það er víðtækur áhugi á því innan og utan þings að skoða kosti þess og galla að hafa nýtt þrep í tekjuskattinum. Þess vegna höfum við innan fjmrn. og í samvinnu við sérfræðing í skattamálum unnið að þeirri könnun, en ég hef ávallt tekið fram að það lægi engin ákvörðun fyrir hjá ríkisstjórninni um að framkvæma það atriði fyrr en menn hefðu haft tækifæri til að skoða þessa þætti.
    Ég held ég hafi þar með svarað flestum af þeim beinu spurningum sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson beindi til mín og vil segja vegna ræðu Geirs H. Haarde að það frv. sem hér er lagt fram er eingöngu um að fresta gildistöku þessara laga. Það er ekki tekin að öðru leyti nein afstaða til efnisþátta málsins. Ég vék hins vegar að því í minni stuttu framsöguræðu að málið hefði verið til ítarlegrar skoðunar og m.a. ýmis pólitísk atriði sem hefði ekki verið tekin afstaða til en þyrfti að taka afstöðu til áður en lögin endanlega kæmu til framkvæmda. Þar vísa ég m.a. til starfs þeirrar nefndar sem hann benti á, en einnig til fjölmargra annarra atriða sem komu fram hjá fulltrúum þáv. stjórnarandstöðuflokka hér á Alþingi. Það er nauðsynlegt þess vegna að skapa betri tíma til að fjalla um þetta mál vegna þess að það er á engan hátt einfalt og það eru fjölmörg álitaatriði sem þarf að skoða í þessu efni.
    Ég held að það sé satt að segja alveg óþarfi að ég sé að fara í gegnum öll þau atriði sem hann nefndi úr ágætri ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar á sínum tíma vegna þess, eins og ég hef þegar sagt, að það er sjálfsagt að skoða það á þeim tíma sem við höfum, verði þetta frv. samþykkt, hvort menn vilja gera þrepamun eftir vörutegundum og þjónustutegundum. Mér fannst ég skilja t.d. hv. þm. Þorstein Pálsson á þann veg að hann teldi að það gæti vel komið til greina þótt hann hafi fyrir ári greitt því atkvæði að hér væri eingöngu um eitt þrep að ræða. Þannig má benda á fjölmörg önnur atriði sem þarfnast nánari skoðunar.

    Ég þakka svo hv. þm. Friðrik Sophussyni fyrir að hafa lesið í fimmta sinn þessa ágætu tilvitnun úr ræðu minni á Alþingi og mun það efni örugglega endast honum veturinn ( FrS: Alveg örugglega.) en sýnir kannski hvað ég hef hagað orðum mínu skynsamlega að þetta skuli vera eini textinn sem hann hafi fundið sem hann getur notað því ekki hafa neinar aðrar setningar verið hér á borð bornar af hv. þm. Friðrik Sophussyni.
    Það er misskilningur hjá honum að ég hafi verið að kenna embættismönnum um í minni framsöguræðu, nema síður sé. Ég var eingöngu að lýsa staðreyndum varðandi vinnuna, hvað undirbúningurinn tekur langan tíma og hvað fjölmörg atriði hafa reynst flóknari og yfirgripsmeiri og svo einnig að við lok þessa árs hafa menn betri reynslu en við upphaf þess hvað t.d. staðgreiðslukerfisbreytingin var mikið vinnu- og verkálag á skattkerfið í landinu. Ég held þess vegna að menn þurfi að taka meira tillit til þess þáttar
nú en menn áttuðu sig á fyrr á þessu ári þegar menn voru að áætla tímann sem þyrfti til að koma þessum viðamiklu breytingum til framkvæmda.
    Hv. þm. Friðrik Sophusson beindi til mín fjórum sérstökum spurningum. Ég tel að ég hafi nú þegar svarað þeim tveimur fyrstu, hv. þm. Friðrik Sophusson, varðandi happdrættissöluskattinn og annað þrep í tekjuskatti. En síðan vék hv. þingmaður að því að ég hefði lýst því yfir að vaxtatekjur af spariskírteinum ríkissjóðs ættu að vera skattfrjálsar. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að ég ef lýst því yfir. Ég hef lýst því nokkrum sinnum yfir. Ég hef meira að segja lýst því yfir í þessum ræðustól og einnig í ræðustól Ed. Sú yfirlýsing sem ég gaf um helgina af minni hálfu er því ekkert ný. Og ég hef bæði við umræður um fjárlagafrv. og við 1. umr. um lánsfjárlög í Ed. rökstutt rækilega hvers vegna ég tel að þetta sé bæði rétt og eðlilegt.
    Meginrökin eru þau að það þjónar almennum þjóðarhagsmunum að efla spariskírteini ríkissjóðs sem grundvallarþátt í innlendum sparnaði. Þetta er kenning sem við erum sammála um, ég og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson sem hvað eftir annað hefur bent á mikilvægi þess að spariskírteinaútgáfa ríkissjóðs sé grundvallarþáttur í innlendum sparnaði. Gífurlegar erlendar lántökur hafa verið veruleg undirrót erfiðleika í efnahagslífi okkar hér á landi. Ef við ætlum að geta styrkt innlendan sparnað og dregið úr lántökuþörf ríkissjóðs þurfum við að skapa kerfi af þessu tagi. Ástæðan fyrir því að hv. þm. Friðrik Sophusson virðist vera andvígur þessu eins og ráða mátti af þessum orðum hans . . . ( FrS: Ég er það ekki.) Nú, þá ætla ég að geyma mér að fjalla nánar um það. ( FrS: Ég spurði spurninga.) Já, já, ég tel að þetta eigi eingöngu að eiga við um spariskírteini ríkissjóðs. Það er alveg ljóst, eins og ég hef sagt hvað eftir annað úr þessum ræðustól og í Ed., að spariskírteini ríkissjóðs eigi að hafa þessi forréttindi vegna þess að þetta sparnaðarform gegni ákveðnu þjóðhagslegu markmiði og vegna þess að spariskírteini ríkissjóðs séu ákveðinn grundvallarþáttur í vaxta- og peningakerfinu í landinu.

Það hefur kannski verið skýringin á því hvers vegna þessi kenning hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar hefur átt svo erfitt uppdráttar í Sjálfstfl. að ýmsir af forustumönnum Sjálfstfl. hafa jafnframt viljað láta þetta ná til ýmiss konar annarra sparnaðarforma, fyrirtækja, verðbréfasjóða og fjölmargra aðila sem vilja fá að starfa á þessum markaði. ( Gripið fram í: Banka.) Sagði hv. þingmaður eitthvað? ( Gripið fram í: Banka.) Já, banka. M.a. bankanna. Já já, það er alveg rétt.
    Varðandi skattlagningu á fjármagnstekjur og áform ríkisstjórnarinnar í þeim efnum, þá verða þau auðvitað lögð fram hér á hv. Alþingi á sínum tíma. Ástæðan fyrir því að það tekur lengri tíma en ýmis önnur áform sem munu birtast í frv. á næstu dögum er það að það þarf að semja nýja löggjöf um þetta efni. Hún er flókin, hún er tæknilega erfið og það þarf að vanda hana vel. Við höfum ákveðið að kynna okkur sérstaklega þau lög sem gilda um þetta efni í Bretlandi og sem íhaldsflokkur Margrétar Thatchers hefur talið sjálfsagt og eðlilegt að væru í gildi í því landi, en þar eru, hv. þm. Friðrik Sophusson, eignatekjur af verðbréfum og vaxtatekjur skattlagðar eins og launatekjur, hjá íhaldsflokki Margrétar Thatchers. Það er nú öll róttæknin í þessum hugmyndum.
    Í öðru lagi ætlum við að kynna okkur skattlagningu fjármagnstekna í Bandaríkjunum þar sem ríkisstjórn Ronalds Reagans í átta ár hefur frekar styrkt skattlagningu á fjármagnstekjur og er líka fylgjandi því grundvallarviðhorfi að það eigi að skattleggja fjármagnstekjur eins og vinnutekjur.
    Síðan ætlum við að kynna okkur slíka löggjöf í Danmörku þar sem íhaldsstjórn Schluters hefur framkvæmt og komið á slíkum sköttum á fjármagnstekjur. Það er þess vegna ærið sérkennilegt að heyra forustumenn Sjálfstfl. innan og utan þings, kannski ekki síður þá sem utan þings eru, búa hérna til eða reyna að búa til eitthvert gerningaveður í landinu um að þetta sé einhver mesta aðför að einstaklingsfrelsi sem hér hafi heyrst í langan tíma, boði til fjöldafunda til þess að reyna að berjast gegn þessum vondu áformum án þess að átta sig á því að svo víðtækur er skilningurinn á því að þetta sé sjálfsagt og eðlilegt að ýmsar traustustu íhaldsstjórnir í Evrópu og Bandaríkjunum hafa talið rétt að búa til og leggja á skatta af þessu tagi. Þess vegna vænti ég að þegar það frv. kemur hér á Alþingi muni Sjálfstfl. styðja það og fara í þessu efni eftir fordæmi Margrétar Thatchers, Ronalds Reagans og Poul Schluters.
    Ég vil svo til viðbótar benda á að ef hv. þm. Friðrik Sophusson meinar eitthvað með því, sem hann er oft að tala um, að það eigi að opna íslenska hagkerfið meira fyrir tengslum við markaðskerfi og fjármálastarfsemi og framleiðslustarfsemi í Evrópu eða jafnvel víðar, þá er það líka ákveðinn grundvallarþáttur í slíkri opnun að skattakerfin séu samræmd og þá einkum og sér í lagi skattarnir á fjármagninu og fjármagnstekjunum. Þannig er satt að

segja alger mótsögn í því, ef það er skoðun hv. þm. Friðriks Sophussonar, að vilja annars vegar þá opnun sem hann er oft að tala fyrir en vera á móti því að sambærileg skattlagning á fjármagnstekjur sé innleidd hér á landi og í
flestöllum löndum Vestur-Evrópu.
    Það er hins vegar vandaverk og það tekur tíma og það er flókin sérfræðivinna sem þar þarf að leggja fram. Þess vegna mun það frv. ekki verða tilbúið jafnsnemma og hin. ( FrS: Hve snemma?) Ég þori ekki að fullyrða það á þessu stigi. Það eru sérfræðingar að vinna það verk. Það hefur verið ákveðið að þeir ræddu við ýmsa sérfræðinga Seðlabankans, muni einnig ræða við ýmsa aðra sérfræðinga og kunnáttumenn sem eru í okkar landi, bæði innan og utan ríkiskerfisins. Ég vil að sú vinna verði vönduð, legg meiri áherslu á það en hvort hún tekur nokkrum vikum eða mánuðum skemmri eða lengri tíma.
    Ég vænti þess vegna að ég hafi svarað þeim spurningum sem hér hafa komið fram og þakka fyrir þann stuðning sem einnig hefur komið fram í umræðum. ( AG: Er þetta þá íhaldsstjórn í byggingu?) Hjá okkur? Nei, þetta er ekki íhaldsstjórn í byggingu, en það sem hér er hins vegar sagt af minni hálfu er að það er ýmislegt sem jafnvel íhaldsstjórnir í ýmsum öðrum löndum hafa talið sjálfsagt og eðlilegt í samræmi við nútímaviðhorf um réttlæti og samræmingu vinnulauna, fjármagnstekna og eignatekna sem þessi ríkisstjórn er einnig fylgjandi þó að það kunni að vera ágreiningur í ýmsum öðrum efnum. Það er ýmislegt fleira sem læra má af þeim stjórnum sem ég hef hér nefnt. Það er líka ýmislegt sem má læra af þeim að forðast, m.a. atvinnuleysið sem er í öllum þessum löndum mjög mikið og mjög erfitt, sérstaklega hjá ungu fólki. En það er nú önnur saga. ( AG: Er það ekki hérna líka?) Nei, sem betur fer búum við ekki við 9--14% atvinnuleysi hér á Íslandi, hvað þá heldur 20--30% atvinnuleysi eins og er í sumum gömlu iðnaðarborgunum í Bretlandi.
    Ég vil svo þakka fyrir þann stuðning sem . . . (Gripið fram í.) Já, ég tel að ég muni á þessu stigi ekki svara þeirri spurningu mjög nákvæmlega vegna þess að ég teldi eðlilegt að svar við því biði þar til þessi athugun og greinargerð, samanburður á lögunum í þeim löndum sem ég nefndi og þeim áformum menn hafa uppi hér, lægi fyrir.
    Að lokum, virðulegi forseti, þakka ég fyrir þær undirtektir sem þetta frv. hefur fengið hér og þá umræðu sem hér hefur farið fram.