Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1988

     Geir H. Haarde:
    Virðulegi forseti. Það sem eftir stendur eftir tvær ræður fjmrh. í dag um þetta mál er það að þrátt fyrir öllu stóru orðin í fyrra taldi Alþb. þetta mál ekki nógu merkilegt til að halda sig við sína upphaflegu stefnu. Þetta væri bara ekki nógu stórt mál til að gera það að einhverju úrslitaatriði í þessu stjórnarsamstarfi. Ég get auðvitað ekki annað en fagnað því. En það skýtur dálítið skökku við í ljósi t.d. þeirra ummæla sem ég vitnaði til í ræðu minni áðan að Alþb. skuli meta þetta svo. Það eru nefnilega til önnur dæmi um mál sem Alþb. hefur gert stórkostlega fyrirvara um alveg eins og var með þetta mál.
    Má ég t.d. benda hæstv. fjmrh. á það þegar viðbótarsamningur út af álverinu í Straumsvík var til umfjöllunar hér á Alþingi á árinu 1984? Þegar sérstök nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar hafði komist að samkomulagi í kjölfarið á þeirri aðför sem fyrrv. hæstv. iðnrh. Hjörleifur Guttormsson hafði gert að álverinu náðist um það samkomulag. Þegar það var til meðferðar á Alþingi stóð þessi hv. þm., 2. varaforseti deildarinnar nú, upp og lýsti því yfir að Alþb. mundi við fyrsta tækifæri sem gæfist reyna að rifta þessum samningum og hafa þá að engu. En það mál hefur greinilega horft eitthvað öðruvísi við alþýðubandalagsforustunni jafnvel þó að stóryrðin í báðum málunum hafi verið svipuð. Þannig að málflutningur hæstv. fjmrh. um að það sé eitthvað í stjórnskipuninni um það að eftir að búið er að samþykkja lög geti menn ekki breytt þeim ef þeir eru komnir í ríkisstjórn er fáránlegur.
    Eins og ég segi fagna ég því að hann skuli hafa tekið þá afstöðu að því er þetta mál varðar. Það er hins vegar eftir sem áður eilítið undrunarefni, ekki síst í ljósi þeirra ummæla sem ég hef þegar vitnað til og sem jöðruðu auðvitað við það sem talsmaður Alþb. í málefnum Ísals hafði hér uppi á Alþingi árið 1984, varðandi þann samning sem þá var verið að staðfesta hér á Alþingi og sem Alþb. gerði sérstakan fyrirvara um og lýsti yfir að það mundi að engu hafa kæmist það í valdaaðstöðu síðar eða í aðstöðu til þess að hnekkja þeim samningi.
    Skattastefna ríkisstjórnarinnar, segir hæstv. fjmrh., er að sækja til þeirra sem meira hafa. Ég hef a.m.k. tvívegis í umræðum á Alþingi vakið máls á því hvers lags öfugmæli þetta í raun og veru er og skal ekki endurtaka það. Hins vegar fagna ég því að í hvert skipti sem fjmrh. tekur til máls um tekjuskattinn og það sem eitt sinn voru fyrirætlanir hans um nýtt viðbótarskattþrep skuli hann draga í land frá þeim áformum sínum. Ég skildi hann nefnilega þannig þegar hann talaði áðan að nú væri hann nánast að láta kanna þetta til málamynda vegna þess að Kvennalistinn hefði einhvern tímann beðið um það og formaður BSRB hefði líka beðið um það í kjölfarið á BSRB- þinginu, en hann sjálfur hefði ekkert mikla sannfæringu fyrir því frekar en samráðherrar hans úr fyrri ríkisstjórn. Ég fagna þessu líka vegna þess að nýtt skattþrep væri að mínum dómi skemmdarverk eins og ég hef margsagt og nánast óframkvæmanlegt

í núverandi skattkerfi.
    En fjmrh. hefur drepið á ýmsa aðra þætti, svarað ýmsum öðrum þáttum sem menn komu inn á fyrr í umræðunni. Eins og t.d. þessu sem manna á meðal gengur undir nafninu ,,öryrkjaskatturinn`` eða ,,menningarmálaskatturinn``, þessu sem fólkið í landinu kallar nú ýmist ,,íþróttamannaskatt``, ,,öryrkjaskatt`` eða ,,menningarmálaskatt``.
    Það er ýmislegt um þá skattheimtu að segja, en kannski væri eðlilegast að einhver framsóknarráðherrann eða t.d. hv. 10. þm. Reykv. Guðmundur G. Þórarinsson tæki nú til máls og skýrði afstöðu sína í því máli. Hann var í salnum fyrir augnabliki. En hitt er annað mál hvernig fjmrh. hefur talað þar um upphæðir. Í fjárlagafrv. segir að í fyrra hafi veltan af þessu verið 3,5 milljarðar og nú gefa menn sér að á næsta ári verði veltan 4 milljarðar, jafnvel þó að í hinu orðinu kvarti hann sáran undan almennum veltusamdrætti í landinu og almennt undan því að almenningur hafi minna á milli handanna. Samt sem áður reiknar hann með því í fjárlagafrv. að veltan á næsta ári verði 4 milljarðar og hefur auðvitað hvergi fundið þeirri tölu stað þannig að neitt vit sé í. Þetta er auðvitað bara ágiskun út í loftið --- eða halda menn kannski að þegar sverfur að heimilunum verði happdrættismiðarnir eða lottómiðarnir ekki eitt af því sem fólk neitar sér fyrst um? Heldur fjmrh. kannski að það verði eitt af því síðasta sem fólk lætur á móti sér ef harðnar á dalnum?
    Auðvitað er þessi tala meira og minna út í bláinn og þar af leiðandi líka skatttekjurnar af henni, 12% skatturinn, 480 millj. af þessum tilbúnu 4 milljörðum. En þetta má allt ræða þegar og ef þetta frv. sér einhvern tíma dagsins ljós, ef Framsfl. stöðvar það ekki í fæðingunni eins og Framsóknarfélag Reykjavíkur og hv. 10. þm. Reykv. hafa haft orð uppi um.
    Hins vegar er það alveg rétt, eins og ég reyndar benti á í umræðum um fjárlög, að það er kannski ekki alveg einhlítt hver borgar þennan skatt. Það er ekki vitað nákvæmlega fyrir fram hvort hann lendir að öllu leyti á neytendunum eða að öllu leyti á happdrættunum eða hvort hann skiptist á milli þeirra í einhverjum mæli. Það er eðli skatta sem þessara að það verður ekki
séð fyrir fram með hvaða hætti þeir bitna á aðilum eða á hvorum aðilanum, seljandanum eða kaupandanum, þeir endanlega lenda. Hins vegar er það þannig að ef hann lendir á seljandanum eru það happdrættin eða þeir aðilar sem standa að góðgerðarstarfseminni og menningarmálunum, íþróttastarfseminni, sem borga þennan skatt. Ef hann hins vegar lendir að stærstum hluta til á neytendunum, eins og fjmrh. fullyrðir að hann muni gera, bendir allt til þess að veltan í þessu muni dragast saman, að eftirspurnin eftir þessari tilteknu þjónustu, þessari starfsemi muni minnka. Og hvað þýðir það? Það þýðir auðvitað líka ákveðið tekjutap fyrir happdrættin, fyrir þá sem standa að þessari starfsemi, ef salan dregst saman af þeim sökum. Raunverulega má segja að í

báðum tilfellunum bitni þetta á afkomu þessara aðila. Og fyrst fjmrh. hefur léð máls á umræðu um þetta á þessum nótum, sem auðvitað er sjálfsagt að ræða og auðvitað er fullt vit í, held ég að hann ætti líka að viðurkenna að ef skatturinn lendir á herðum neytandans, eins og hann telur að muni verða og ég segi að við vitum ekki um fyrir fram, er langlíklegast að eftirspurn neytandans eftir þessari starfsemi dragist saman. Þar með minnka tekjur þeirra sem að þessu standa.
    En ég ætla ekki að eyða meiri tíma í þetta að svo stöddu. Hins vegar væri mjög forvitnilegt að heyra hvaða skoðanir hv. 10. þm. Reykv. Guðmundur G. Þórarinsson hefur á þessu máli ef hann skyldi vera einhvers staðar nærri. En væntanlega kemur nú frv. um þetta fyrr eða síðar þó að ýmsir efist reyndar um það.
    Síðan ræðir fjmrh. mikið um skatta á fjármagnstekjur og vitnar auðvitað, eins og hann hefur gert áður í sjónvarpi og annars staðar, í nálæg lönd og önnur vestræn ríki, en hann gleymir því að sá skattur sem þar er lagður á fjármagnstekjur er í allt öðru efnahagsumhverfi en hér er. Það er allt annað að ræða þetta mál ef tekist hefur að koma á slíku jafnvægi í efnahagsmálum og þjóðarbúskapnum að hér sé allt yfirfullt af sparnaði, eins og t.d. í Þýskalandi eða öðrum vestrænum löndum sem hann hefur vitnað til. Það er allt annað mál að tala um þetta þegar tekist hefur að treysta svo sparnað í landinu í sessi að við þurfum ekki að óttast afleiðingar slíkrar skattheimtu eða þegar efnahagsjafnvægi hefur hér náðst þannig að verðbólga hafi verið kveðin í kútinn o.s.frv.
    Hæstv. fjmrh. er prófessor við Háskóla Íslands og honum er væntanlega ljóst, eins og hann væntanlega uppfræðir nemendur sína um, að það er samhengi í hlutunum í þjóðfélagsmálum, í efnahagsmálum og stjórnmálum. Það er ákveðið samhengi milli þess jafnvægis sem ríkir í efnahagsmálum og þess hvernig menn taka á fjármagnstekjum og skattlagningu þeirra. Auðvitað er það tóm blekking, en að vísu mjög í anda hæstv. fjmrh., að belgja sig síðan hér út um það að allar helstu íhaldsstjórnir á Vesturlöndum hafi lagt á slíkan skatt. Vill hann þá ekki líka segja okkur hvernig efnahagsástandið er að öðru leyti í þessum löndum? Vill hann þá ekki gera svo vel að koma með allan samanburðinn og flytja okkur þann boðskap? ( Fjmrh.: Miklu hærra skattahlutfall en hjá okkur.) Skattahlutfallið stendur í nánu samhengi við aðrar efnahagsstærðir og aðra þá hluti sem skipta máli þegar verið er að tala um sparnað í landinu. Það þýðir ekkert að koma hér og bera á borð fyrir fólk í áróðurstón að þetta hljóti að vera allt í lagi vegna þess að þetta sé svona í Bretlandi og Bandaríkjunum, Þýskalandi og Danmörku. Það verður að huga að fleiru. Sums staðar í þessum löndum er verulegt atvinnuleysi þar sem beinlínis er verið að hvetja fólk til að eyða til að skapa eftirspurn eftir vinnuafli til að reyna að blása í glæður efnahagslífsins í ríkari mæli en verið hefur. Þar eru menn kannski að vinna að allt öðrum markmiðum, eins og ég segi í löndum þar sem

sparnaður er mikill og menn jafnvel flytja út peninga í stórum stíl vegna þess að það er ekki hægt að koma öllum sparnaðinum út í fjárfestingum innan lands.
    Fjmrh. sá ástæðu til þess í sjónvarpsþætti fyrir skömmu að núa formanni Félags sparifjáreigenda því um nasir að hann kynni svo lítið í hagfræði og það sæist best á hans málflutningi í þessum tiltekna sjónvarpsþætti. Mér þóttu þetta að vísu afar ósmekklegar aðdróttanir í garð manns sem hafði tekið að sér að mæta fjmrh. í þessum þætti, en ég held að fjmrh. ætti að líta í eigin barm í þessum efnum áður en hann heldur áfram málflutningi af þessu tagi.
    Ég ætla síðan ekki, virðulegur forseti, að orðlengja frekar um þetta. Ég geri ráð fyrir því að fjmrh. muni gefa ærin tilefni til þess þegar fram í sækir að fjalla um þessi mál og við skulum ræða þau öll í fúlustu alvöru. Það má kannski segja að þetta sé komið örlítið út fyrir umræðuefni dagsins sem var þetta litla og ómerkilega skattafrumvarp, eða lítilfjörlega réttara sagt, sem fjallar um að skjóta framkvæmd virðisaukaskattsins á frest í sex mánuði.
    En í því efni stendur upp úr og það er meginboðskapurinn í ræðum fjmrh.: Alþb. hefur tekið stakkaskiptum varðandi virðisaukaskattinn, hefur skipt gjörsamlega um skoðun, hefur gleypt öll stóru orðin, kokgleypt þau. Þau var ekkert að marka í margra blaðsíðna ræðum hæstv. landbrh. og því er sjálfsagt að fagna.