Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Það hefur verið vikið að því í þessari umræðu að umræðan hefur snúist almennt um stefnumörkun í skattamálum ríkisins. Auðvitað er það eðlilegt að umræðan snúist um stefnuna í skattamálum í víðum skilningi þó að þetta frv. sé kannski ekki stórt í sniðum og snúist sem slíkt aðeins um afmarkaðan þátt skattastefnunnar vegna þess að hér er um að ræða fyrsta frv. af þeirri röð af frv. um breytingar í skattamálum sem hæstv. ríkisstjórn hefur boðað, fyrsta frv. í þeirri keðju skattahækkunarfrumvarpa sem boðuð hefur verið. Auðvitað er eðlilegt að sníða umræður sem mest að þeim stakki sem viðkomandi mál segir til um, en hér stendur mjög sérstaklega á af því að þetta er 1. umr. og það hlaut að vekja mikla athygli, sérdeilis mikla athygli að hæstv. fjmrh. gat í engu í upphafsræðu sinni um hina almennu stefnumörkun ríkisstjórnarinnar og í hinni síðari ræðu gat hann ekki gefið nein skýr svör um hver væri stefna stjórnarinnar, hvaða endanlegar ákvarðanir hefðu verið teknar um formið á þeirri miklu skattheimtu sem boðuð hefur verið og þó á að leggja þessi frv. fram í næstu viku og afgreiða þau fyrir jól. Og það er ekki enn hægt að greina þinginu frá því í umræðum þegar fyrsta málið kemur til umræðu í einstökum atriðum hvernig þessi skattastefna verður útfærð. Það er allt í hugleiðingarstíl og athugunarstíl enn sem komið er.
    Hæstv. ráðherra sagði að stjórnskipun landsins væri með þeim hætti að sérhver ríkisstjórn tæki við þeim lögum sem fyrir væru og það mátti skilja hann á þann veg að þau væru þar með óumbreytanleg. Nú stendur á þann veg um þetta mál að það er að vísu búið að samþykkja um það lög, en þau taka ekki gildi samkvæmt efni sínu fyrr en á miðju næsta ári þannig að ljóst er að hæstv. núv. fjmrh. hefði getað flutt lítið frv. einfaldlega þess efnis að lögin tækju ekki gildi ef flokkur hans væri enn sömu skoðunar og á síðasta þingi, aðeins fyrir örfáum mánuðum, án þess að raska nokkuð þeirri stjórnskipulegu stöðu að ríkisstjórn tekur við því stjórnkerfi sem byggt hefur verið upp og fyrri ríkisstjórnir og Alþingi hafa staðið að. Þess vegna er það að sönnu ánægjulegt og full ástæða til að lýsa yfir fögnuði yfir því að Alþb. hefur breytt um skoðun og að öll stóru orðin sem mælt voru í umræðunni á síðasta þingi voru marklaus, voru bara leikaraskapur og sýndarmennska og hæstv. landbrh., sem hafði nú hæst, sér ekki einu sinni ástæðu til þess að vera viðstaddur umræðuna í dag.
    Þetta sýnir eitt með öðru að þær stóru yfirlýsingar sem verið er að gefa eru furðu fljótar að fjúka út í veður og vind. Hæstv. fjmrh. er einkar laginn við að gefa út miklar yfirlýsingar, kalla á blaðamenn og gefa út stórar yfirlýsingar og ég hef orðið var við menn sem segja jafnvel: Ja, hann gefur út stórar yfirlýsingar þessi ráðherra. Það er engu líkara en hann ætli að gera eitthvað. --- En þær eru yfirleitt foknar út í veður og vind eftir örfáa daga og að öllu leyti eftir nokkra mánuði eins og þessi umræða sýnir gleggst hér.

    Hæstv. ráðherra vék að því að ríkissjóður byggi nú við mikinn vanda vegna þess að tekjuáætlanir hefðu brugðist. Það er að sönnu rétt að það eru miklir erfiðleikar fyrir ríkissjóð þegar það gerist. Og það er líka hárrétt hjá hæstv. ráðherra að efnahagsstefna getur haft nokkur áhrif á hverjar tekjur ríkissjóðs eru á hverjum tíma. Því meiri sem þenslan er, því meiri sem veltan er, því betur líður ríkissjóði. Það eru staðreyndir sem við búum við vegna þess að ríkissjóður byggir á óbeinni skattheimtu, byggir á skattheimtu sem að langmestu leyti sækir fjármuni sína í veltuna í þjóðfélaginu. M.ö.o., hæstv. ráðherra: Þegar ríkisstjórn tekst það ætlunarverk að draga úr þenslu vegna þess að það hefur almenna þýðingu fyrir efnahagsstarfsemina í þjóðfélaginu, fyrir atvinnulífið í þjóðfélaginu til þess að stuðla að auknu jafnvægi hefur það neikvæð áhrif á afkomu ríkissjóðs. Þetta eru einfaldar staðreyndir sem margar ríkisstjórnir hafa þurft að glíma við. En skaðinn, sem hæstv. ráðherra er að tala um, er þessi, að það tókst að draga úr ofþenslunni í atvinnulífinu, í viðskiptunum. Það er stóri skaðinn sem hæstv. fjmrh. er að tala um. Auðvitað kemur þetta þungt niður á ríkissjóði, en mér finnst skjóta nokkuð skökku við þegar hæstv. fjmrh. ríkisstjórnarinnar talar um að það sé skaði að stjórnvöld nái þeim árangri að draga úr ofþenslunni í þjóðfélaginu. Þvert á móti var það markmið og það náðist verulegur árangur í því að komast að því markmiði sem að var stefnt í þessu efni.
    Hitt er svo annað mál að þegar menn hafa náð jafnvægi og dregið hefur úr ofþenslunni ber auðvitað að varast að keyra áfram kreppustefnu eins og núv. hæstv. ríkisstjórn virðist ætla að gera og dæma atvinnuleysi yfir þjóðina. Menn verða að kunna skil á því hvenær jafnvægi er komið á vinnumarkaðinn og hinu hvort stefna eigi í beinlínis atvinnuleysi. Það er nauðsynlegt að ná jafnvægi eins og gert var. Það jafnvægi náðist í septembermánuði, en nú er stefnt, yfirlýst af hálfu ríkisstjórnarinnar, ekki bara í gjaldþrot heldur er stefnt í atvinnuleysi með þeirri efnahags- og fjármálastefnu sem núv. ríkisstjórn fylgir.
    Það vakti líka athygli að í seinni ræðu hæstv. ráðherra var nánast útilokað að fá nokkur skýr svör. Ráðherrann, sem brennimerkti forvera sinn í
umræðum hér í fyrra út af skattlagningu matarskatts, gat ekki tekið stærra upp í sig núna en það að segja: Ég er tilbúinn að skoða hvort hugsanlega gæti komið til álita að setja annað skattþrep sem þá hugsanlega gæti tekið til matvæla. Þetta var allt og sumt sem hæstv. ráðherra gat sagt eftir öll stóru orðin í fyrra. Það fer ekki mikið fyrir skýrum svörum. Það væri kannski ástæða fyrir hæstv. ráðherra að kalla á blaðamannafund til þess að flytja svona skýran boðskap inn í sjónvarpið.
    Og hæstv. ráðherra gat ekki gefið skýr svör um það hvort hann væri reiðubúinn til þess að stofna nefnd allra þingflokka til að framkvæma þá nauðsynlegu endurskoðun sem fram þarf að fara á þessum lögum áður en þau taka gildi, m.a. til þess að skoða hvort hér á að taka upp lægra skattþrep á

matvæli. Það er aðeins hægt að skoða hvort það kemur til álita, en hæstv. ráðherra gat ekki gefið um það nein skýr svör og er ástæða til að inna eftir því enn einu sinni hvort hæstv. ráðherra geti ekki tekið af skarið í þessu efni og gert upp hug sinn um hvort hann er tilbúinn að standa að þessari endurskoðun á þennan veg. Það hefur oft verið gert áður þegar meiri háttar skattkerfisbreytingar hafa verið gerðar. Og ég nefni dæmi um það. Síðast þegar slík breyting var gerð, þegar staðgreiðslukerfið var tekið upp, var þessi háttur hafður á þannig að fordæmin eru fyrir hendi. Hann þarf ekki að óttast það, hæstv. ráðherra, að hann sé að ganga í berhögg við það sem fyrri ríkisstjórnir hafa tekið upp varðandi undirbúning slíkra frumvarpa.
    Það kom heldur ekkert fram í ræðu hæstv. ráðherra, engin skýring á því hvers vegna ráðherrann talaði á fyrstu dögum eftir að hann kom í ríkisstjórnina um að færa ætti milljarða króna til með fjármagnstekjuskatti í þjóðfélaginu og þeirri tölu sem er eins og lítil lús við hliðina á öllum milljörðunum sem átti að flytja til með fjármagnstekjuskattinum á fyrstu dögunum í ráðherrastólnum. Það er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra skýri muninn á þessum yfirlýsingum og tölunni sem stendur í frv. Ráðherrann baðaði sig allmikið í sviðsljósinu í þessum yfirlýsingum, en þær hafa einhvern veginn fokið út í veður og vind og standa afar litlar tölur eftir. Nú hefur þar að auki verið bætt við að það á ekki að skattleggja spariskírteini ríkissjóðs, innleiða enn eina mismununina í skattakerfið og efnahagsstefnuna. Öll efnahagsstefna og fjármálastefna þessarar ríkisstjórnar byggir á því að koma hér á aukinni mismunun. Undir nafni félagshyggjunnar á að auka mismunun í þjóðfélaginu, mismunun í atvinnulífinu. Það á í nafni félagshyggjunnar að gefa sumum lán, þeim sem ríkisstjórnarflokkarnir og kommissarar þeirra telja að eigi að lifa. Það á að afskrifa skuldir, hjá sumum hjá þeim sem ráðherrar vilja að lifi og það á að leyfa sumum að leggja sparifé sitt inn í ríkissjóð skattfrjálst en öðrum ekki. Og hvaða áhrif hefur þetta? Þetta hefur þau áhrif að það er verið að gera þá mismunun í þjóðfélaginu að þær fjármálastofnanir sem standa við bakið á atvinnulífinu í landinu eiga að taka við sparnaði sem ber fulla skatta. Það á að leggja þær byrðar á þær fjármálastofnanir sem styðja við bakið á atvinnulífinu í landinu. En þeir sem vilja spara til að þjóna eyðslustefnu hæstv. fjmrh. eiga að vera skattlausir. Og einkennilegt er, ef eitthvert réttlæti er í því að leggja skatt á sparnað, ráðdeild og sparsemi í þjóðfélaginu, að undanþiggja þá sem vilja spara fyrir ríkissjóð. Hvers vegna mega menn þá hlaupa með sparifé sitt þangað og eiga það skattfrjálst? Hvar er nú réttlætið ef þeir sem vilja spara í ríkissjóði eiga að vera skattfrjálsir, þeir sem vilja spara í bönkum og standa á bak við atvinnulífið í landinu verða að borga skatta? Og hvar er umhyggjan fyrir atvinnulífinu? Ég hélt, hæstv. fjmrh., að það skipti býsna miklu máli í dag að reka efnahags- og fjármálastefnu sem þjónaði hagsmunum atvinnulífsins og ýtti undir atvinnulífið í landinu og þær fjármálastofnanir sem styðja

atvinnulífið.
    Það væri gaman að heyra sjónarmið Framsfl. í þessu efni. Hvaða afstöðu hefur Framsfl.? Hæstv. forsrh. sér ekki ástæðu til þess að sitja hér. Hann hefur virðulegra sæti í sínum fílabeinsturni en hann á á hinu háa Alþingi og eyðir ekki tíma sínum, auðvitað ekki, til þess að fjalla um skattastefnu ríkisstjórnar sinnar og allra síst þegar verið er að ræða um skattastefnu sem felur í sér að það á að íþyngja fjármálastofnunum sem þjóna atvinnulífinu en ívilna ríkissjóði þegar krafa atvinnulífsins hefur verið sú síðustu vikur og síðustu mánuði að ríkissjóður sýni aðhald til að gefa atvinnulífinu svigrúm. Þá kemur hæstv. fjmrh. og boðar þessa stefnu og hæstv. ráðherrar Framsfl. hlaupa í fílabeinsturna sína til þess að vera hvergi nærri og svara hvergi fyrir. Ég geri ekki ráð fyrir því að hv. 10. þm. Reykv. hafi áhuga á að ræða hagsmuni atvinnulífsins út frá þeirri stefnu sem ríkisstjórn Framsfl. fylgir í skattamálum.
    Síðan vék hæstv. ráðherra að þeim sem spilafíkn eru haldnir og var það aldeilis sérstakur kafli í ræðu hæstv. ráðherra. Er ekki ástæða til að skattleggja alla þá sem spilafíkn eru haldnir? Um hvað snýst það mál? Öflug félagasamtök í landinu hafa fengið að afla fjármagns til einhverrar mikilvægustu félagsmálastarfsemi, æskulýðsstarfsemi, velferðarstarfsemi, menningarstarfsemi sem um getur. Það hefur komið á daginn að þessi frjálsu
félagasamtök hafa unnið mikið verk, lyft grettistaki. Ég fullyrði að engin ríkisstjórn hefði einu sinni getað lofað öllu því sem þessi samtök hafa komið í framkvæmd vegna þess að þeim hefur verið gefið svigrúm með tekjuöflun af þessu tagi til að vinna að þessum málum, velferðarmálum öryrkja, endurhæfingu á vegum samtaka berklasjúklinga, uppbyggingu Háskólans og uppbyggingu íþróttaaðstöðu fyrir æskufólkið í landinu. Það er þetta svigrúm, sem Alþingi Íslendinga og allar ríkisstjórnir fram til þessa hafa verið sammála um að gefa þessum samtökum, sem hefur leitt til þess að þetta átak hefur verið mögulegt. Þetta framtak frjálsra félaga er nokkuð einstætt og hefur vakið athygli víðar um heim. Svo kemur hæstv. fjmrh. Alþb. í nafni félagshyggjunnar --- í nafni félagshyggjunnar --- og segir: Nú á að leggja skatt á þetta framtak, og kallar það spilafíkn, kallar það skatt á spilafíkn þegar á að leggja skatt á þetta mesta velferðarframtak í íslensku þjóðfélagi og sennilega þó víðar væri leitað. Allt er þetta borið fram í nafni félagshyggjunnar, félagshyggjuríkisstjórn, félagshyggjustefna, félagshyggjuskattheimta, að leggja skatt á öflugustu velferðar-, æskulýðs- og menningarsamtök í landinu. Sér er það nú hver félagshyggjan!
    En það sem skiptir meginmáli í þessu sambandi er þetta og hæstv. ráðherra gat ekki svarað. Hann hefur lýst því yfir að um það hafi verið gert bindandi samkomulag milli stjórnarflokkanna að koma fram þessum skatti því hann sé nauðsynlegur og óhjákvæmilegur í nafni félagshyggjunnar. En hæstv. forsrh., sem ekki er viðstaddur í dag, hefur lýst því

yfir að þetta hafi verið lausleg umræða, stjórnarflokkarnir séu ekki bundnir af þessu, þess vegna hafi það verið sjálfsagt af framsóknarmönnum í Reykjavík að hafna þessu og hv. 10. þm. Reykv. að lýsa því yfir að hann stæði ekki að þessari skattheimtu.
    Það er auðvitað óhjákvæmilegt þegar hæstv. ráðherra flytur fyrsta skattafrv. sitt að hann geri nákvæma grein fyrir því hver er stefna ríkisstjórnarinnar. Hann sagði: Mér finnst að þetta sé réttlátt og þetta sé skynsamlegt. En það er nauðsynlegt að fá að vita hver er stefna ríkisstjórnarinnar eftir þessar yfirlýsingar út og suður og útilokað að ljúka þessari umræðu án þess að fá skýr svör þar um.
    Hæstv. ráðherra er þekktur að stóryrðum. Brennimerktur, sagði hann um forvera sinn þear hann kom á matarskattinum. Nú má hugsanlega taka til athugunar ef það gæti hugsast að það mætti skoðast að hugsanlega mætti taka upp lægra skattþrep. Fyrir nokkrum mánuðum var það ,,brennimerktur``. Milljarða átti að flytja til með fjármagnstekjuskatti. Það er orðið að lítilli upphæð og svo mega allir leysa sig undan þeim skatti með því að spara bara hjá ríkissjóði, þeir sem vilja eyða í þjóðfélaginu, ef þeir bara spara ekki í þágu atvinnulífsins í landinu. Það stendur eftir af hinum stóru yfirlýsingum hæstv. ráðherra. Þeir sem spara í þágu atvinnulífsins verða að borga skatta en þeir sem spara í þágu eyðslunnar í þágu ríkissjóðs mega vera undanþegnir allir saman. Þá þarf ekkert réttlæti í skattheimtunni ef menn bara spara fyrir ríkissjóð. Þá þarf ekkert að vitna í Thatcher eða Reagan eða Schluter ef menn bara spara fyrir ríkissjóð. En þeir sem spara fyrir atvinnulífið. Það er lítið eftir af stóru orðunum, spurning hvort hæstv. fjmrh. ætti ekki að fara og halda blaðamannafund um það hversu lítið stæði eftir af stóru yfirlýsingunum. Og hann gæti bætt við: Það var yfirlýst stefna í nafni félagshyggjunnar að bæta við nýju skattþrepi til að ná til þeirra ríku, þeirra stóru. Núna var það rétt til athugunar og skoðunar og verður að sjálfsögðu ekki gert. En það voru auðvitað gefnar um þetta stórar yfirlýsingar og fjölmiðlar birtu stórar yfirlýsingar um þetta. Þannig mætti tína til allar stóru yfirlýsingarnar sem að engu eru orðnar og að engu verða. Ég skora á hæstv. ráðherra að efna til blaðamannafundar um það hvernig farið hefur fyrir öllum stóru yfirlýsingunum hans.