Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Þessar umræður hafa farið nokkuð á víð og dreif en þó haldist innan þess málasviðs sem hægt er að kalla skattamál, enda eðlilegt þegar hæstv. fjmrh. flytur hér sitt fyrsta tekjuöflunarfrv. Það er mjög athyglisvert að hlusta á hæstv. ráðherra verja örorkuskattinn, sem hann kallar spilafíknisskatt, jafnmikið og hann gerði í sinni ræðu með sérstöku tilliti til þess að þann skatt er búið að slá af ef marka má yfirlýsingar a.m.k. eins þm. úr Framsfl., hv. 10. þm. Reykv. Guðmundar G. Þórarinssonar, sem sagðist vera bundinn af samþykkt Framsfl. í Reykjavík eftir að hann hafði mótmælt fyrirhugaðri skattheimtu. Því miður hefur hv. 10. þm. Reykv. ekki séð ástæðu til þess að koma í ræðustól og staðfesta þetta en ég veit að seta hans undir þessum umræðum og undir þessum orðum staðfestir að ég fer rétt með er ég segi að hann muni ekki styðja þessa skattheimtu. Þetta þýðir væntanlega það að þessi skattheimta kemst ekki í gegnum hv. deild jafnvel þótt hæstv. ráðherra hafi mikinn hug á að troða henni upp á þjóðina.
    Í öðru lagi, virðulegur forseti, vil ég taka undir það sem hér hefur komið fram í gagrýni á hæstv. ráðherra um það hvernig hann hyggst mismuna í skattheimtu fjármagnstekna. Hann hefur nú þegar gefið þá yfirlýsingu að hann muni ekki skattleggja fjármagnstekjur þeirra sem kaupa spariskírteini ríkissjóðs en lét þau orð falla að hann mundi hins vegar ætla sér að skattleggja aðrar fjármagnstekjur. Hæstv. ráðherra sagði að hann og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson væru sammála um þetta. Ég staðhæfi að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hafi ekki lagt til að skattur væri lagður á aðrar fjármagnstekjur og að fjármagnstekjum væri mismunað með þessum hætti.
    Hæstv. ráðherra gat ekki svarað þeirri spurningu hvort hann hygðist með einhverjum hætti ná til þeirra fjármagnstekna sem verða til í landinu af erlendu fé, hvort ætlunin væri að mismuna Íslendingum og erlendum aðilum í þessu efni. Hann sagðist ætla að geyma það til betri tíma og þýðir það vonandi að hann ætli að kynna sér þessi mál rækilega á næstunni.
    Ég átti, hæstv. forseti, von á hæstv. ráðherra í þingsalinn eftir 1--2 mínútur og fer því svona hægt af stað í minni ræðu af því að ég átti von á því að hann kæmi nú, en mun halda áfram ræðu minni með viðeigandi hraða þar til hæstv. ráðherra kemur í salinn.
    Kem ég þá að því að ræða aðeins frekar um fjármagnstekjuskattinn. Það er hárrétt hjá hæstv. ráðherra að víðast gildir sú regla að fjármagnstekjur eru skattlagðar eins og aðrar tekjur, þó að auðvitað séu til þær reglur annars staðar að gerður sé nokkur munur á. Hér á landi eru tvær reglur í gildi. Önnur gildir um fyrirtæki, hin um einstaklinga. Fyrirtæki sem greiða fjármagnskostnað fá hann að sjálfsögðu frádreginn sem kostnaðarlið en fjármagnstekjur fyrirtækja lenda á tekjuhlið reikninga fyrirtækjanna og teljast til tekna eins og aðrar tekjur fyrirtækjanna. Þetta er sú meginregla sem er í gildi um íslensk

fyrirtæki. Hins vegar var gerð sú breyting á skattalögunum 1978 að önnur regla var tekin upp um einstaklinga. Það var horfið frá því að hafa sömu reglu um einstaklinga og fyrirtæki. Ástæðan var auðvitað sú að menn vildu hvetja til sparnaðar. Menn hurfu frá þeirri reglu að skattleggja fjármagnstekjur og að leyfa fólki að draga fjármagnskostnað frá áður en heildartekjur voru skattlagðar. Þetta var viljandi gert til þess efla sparnað í landinu. Og auðvitað dettur hæstv. ráðherra það ekki í hug að hægt sé að leggja skatta á fjármagnstekjur nema að veita frádrátt á móti fyrir þá sem þurfa að greiða fjármagnskostnað. Það hlýtur að vera þannig í hugarskoti hæstv. ráðherra að það séu nettófjármagnstekjur sem greiða eigi af.
    Hæstv. ráðherra fór víða um lönd. Hann heimsótti í sínum málflutningi Reagan, Thatcher og Poul Schluter. En hann gat þess ekki að í Noregi hafa á undanförnum vikum og mánuðum staðið yfir miklar umræður um þessi mál þar sem norska ríkisstjórnin, sem er nú andlega skyldari hæstv. ráðherra heldur en ríkisstjórnir hinna landanna, hefur mikið verið að velta fyrir sér að breyta skattalögunum m.a. vegna þess að þær reglur sem þar gilda ganga út á að skattleggja fjármagnstekjur en leyfa á móti að fjármagnsgjöldin séu dregin frá tekjum. Þessi regla hefur leitt til þess á undanförnum árum að fjölmargir Norðmenn hafa tekið eyðslulán til þess að ná niður sköttum. Þetta er m.a. einn stærsti þátturinn í því vandamáli sem þar hefur komið upp og ég veit að hæstv. ráðherra þekkir til fjármagnsmarkaðarins norska og þeirra alvarlegu vandamála sem hann á við að etja. Það verður nefnilega að taka tillit til ástandsins hér, efnahagsástandsins og ástandsins á fjármagnsmarkaðinum, og bera það saman við ástandið í þeim löndum sem hann ætlar að heimsækja. Og það kemur auðvitað í ljós að sparnaður hér á landi er of lítill ef eitthvað er.
    Ef við lítum á muninn á innlendum sparnaði og innlendum fjárfestingum á árunum 1980--1988 vantar upp á um það bil 4% af þjóðartekjum. Þetta er, ef hæstv. ráðherra veit það ekki, það sem við köllum að safna upp erlendum skuldum og það sem veldur viðskiptahallanum. Þegar menn eru að fikta í fjármagnstekjum og fjármagnskostnaði verða menn að átta sig á afleiðingunum því að þær geta orðið þær að Íslendingar verði að ná í aukið fjármagn erlendis
og auka þannig erlendar skuldir og viðskiptahalla. Þess vegna ber að fara mjög varlega í skattlagningu fjármagnstekna hér á landi og menn verða að íhuga mjög vel hvort það geti gerst að slík skattlagning geri það að verkum að fólk dragi úr sparnaði. Mesta hættan er sú að ef fjármagnstekjur verða skattlagðar þá hækki vextir hér á landi. Hæstv. ráðherra verður að átta sig á að ef hann ætlar að skattleggja fjármagnstekjur er hann um leið að ýta undir vaxtahækkun hérlendis.
    Þetta vil ég, hæstv. forseti, að hæstv. ráðherra fái að heyra því að þrátt fyrir hagfræðimenntun sína efast ég um að hann hafi gert sér grein fyrir þessu. Ég viðurkenni það að vísu að ég hef glaðst yfir því að

hlusta á ræður, umsagnir og orð hæstv. fjmrh. um þessi mál á undanförnum vikum því að smám saman hefur hann verið að klifra niður úr skýjunum og er smám saman að komast niður á jörðina í þessum efnum. Og nú síðast er hann að tala um miklu lægri upphæðir en hann talaði um í upphafi sem gætu komið inn og nú segir hann ekki að það eigi að leggja þessa skatta á frá áramótum, heldur sé þetta til skoðunar og verði sent hinum og þessum sérfræðingum og það skipti ekki máli hvort þetta verði nokkrum mánuðum fyrr eða seinna því að rétt sé að vanda sem best til lagasetningarinnar. Undir þetta vil ég taka. Ég skora á hæstv. ráðherra að skoða þetta mál mjög vandlega því að þetta getur haft verulega slæmar efnahagslegar afleiðingar ef ekki er rétt á haldið.
    Að öðru leyti tel ég að þessi umræða hafi verið gagnleg. Þetta er upphafsumræða um þessi skattamál ríkisstjórnarinnar, og ég vil enn á ný ítreka það að það er óverjandi fyrir hæstv. ríkisstjórn að afgreiða fjárlög til 3. umr. nema fyrir liggi í þingskjölum frumvörp sem sýna svart á hvítu hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að afla þeirra tekna sem um getur í 1. gr. fjárlagafrv.