Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Þriðjudaginn 29. nóvember 1988

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Spurt er um stefnu Framsfl. í tengslum við þetta mál. Það er stefna Framsfl. að ná jafnvægi í ríkisfjármálum og það verður ekki gert nema auka skattheimtuna og draga úr útgjöldum. Ljóst er að öll aukin skattheimta kemur við einhvern og þar er raunar að velja eða hafna. Og Framsfl. styður hækkun á þessum skatti í þeirri stöðu sem við erum nú með ríkisfjármálin.
    Nú veit ég að hv. sjálfstæðismenn styðja einnig jafnvægi í ríkisbúskapnum og ég efa ekki að þeir hafi stutt þennan skatt í fimm ár af því að þeir sáu ekki aðra leið til að nálgast það að ná jafnvægi í ríkisfjármálum. Því miður tókst það ekki. Og ég veit að þeir eru mér einnig sammála um það, það þekki ég af mörgum viðræðum við þá um þessi mál, að það var ekki gott. Og ég veit að þeir eru okkur einnig sammála um að halli á ríkisfjármálum er eitt versta meinið í okkar efnahagsbúskap.
    Þessi ríkisstjórn er ákveðin í því að ná hallalausum ríkisfjármálum og hefur því m.a. valið þessa leið til öflunar tekna. Ég vil segja fyrir mitt leyti að ég er reiðubúinn til að hlusta á aðrar hugmyndir um tekjuöflun til að ná því markmiði sem ég veit að hv. sjálfstæðismenn og þessi ríkisstjórn eru sammála um, þ.e. hallalausan ríkisbúskap.
    Spurt var sérstaklega um það hvort þetta gengi þvert á þá stefnu Framsfl. sem tillaga hefði verið flutt um á flokksþingi, þ.e. í sambandi við erfiðleika dreifbýlisverslunar. Þar var engin tillaga um það flutt svo ég viti, það hefur þá verið í einhverri nefnd. En hitt er rétt að kaupfélagsstjóri KEA, Valur Arnþórsson, ræddi þar um dreifbýlisverslun, ekki aðeins samvinnuverslun heldur dreifbýlisverslun almennt, ég get fullvissað hv. síðasta ræðumann um það. Hann lýsti þar þeim miklu erfiðleikum sem eru vegna þeirra breytinga sem hafa orðið í ýmsum atriðum, t.d. samgönguháttum og fleiru þess háttar. Hann lýsti því m.a. að það þyrfti að gera ítarlega athugun á því hvernig dreifbýlisverslun yrði rekin. Ég hef lýst því að ég mun ræða það við Byggðastofnun að hún geri úttekt á dreifbýlisversluninni og komi kannski með tillögur um skipulagsbreytingar. Engin tillaga var flutt um það að styrkja ætti dreifbýlisverslunina. Hins vegar lýsti þessi ræðumaður því í sinni ræðu að það tíðkist í sumum löndum eins og t.d. í Svíþjóð. Ég hef ekki tekið neina afstöðu til þess hvort svo eigi að gera, né hefur flokksþing framsóknarmanna gert það. En allir geta verið sammála um að þetta er mikið vandamál. Það er alveg ljóst að þessi skattur auðveldar þetta ekki. Það er hárrétt. En ég vísa til þess sem ég sagði áðan að öll skattheimta mun valda einhverjum aðilum í okkar þjóðfélagi erfiðleikum. Spurningin er bara um að velja og hafna. Við viljum ná hallalausum fjárlögum og erum vonandi sammála um það.
    Einnig var nefnt að komið hefði fram spurning fyrr um það hvort ekki væri hér verðstöðvun. Jú, það er verðstöðvun. Ég tel ekki að þetta hafi áhrif á verðstöðvunina á þeim tíma sem hún er. Óskað var

eftir því að viðskrh. ræði það nánar og eflaust gerir hann það þegar hann kemst í ræðustól. En ég vil þó fullvissa menn um, ef það má verða til aðstoðar, að það er ekki okkar skoðun að þetta hafi áhrif á verðstöðvunartímanum.