Getraunir
Miðvikudaginn 30. nóvember 1988

     Eiður Guðnason:
    Herra forseti. Eins og fram kom hjá frsm., hv. 2. þm. Suðurl., ritaði ég undir þetta nál. með fyrirvara og ég tel rétt að láta það hér fram koma hvers vegna ég gerði það. Ég gerði það m.a. vegna þess að hér er verið að lækka vinningshlutfall frá því sem áður var. Ég gerði það einnig vegna þess að það er verið að tengja þessa starfsemi svonefndu lottói og þeirri starfsemi sem fer fram á vegum Íslenskrar getspár. Á sínum tíma, þegar það mál var til meðferðar hér í þessari hv. þingdeild, talaði ég gegn því að það yrði látið fram ganga með þeim hætti sem menn höfðu sameinast um hér og benti þá á að hér væri verið að setja í gang, eins og ég hygg að ég hafi orðað það þá, mestu peningamaskínu sem nokkurn tíma hefur verið sett í gang á Íslandi. Það reyndust orð að sönnu. Ég hef enn nákvæmlega sömu efasemdir og ég hafði þá um skiptingu fjárins, þá aðila sem að þessu standa og lengd einkaleyfistímans og tel að átt hefði að standa allt öðruvísi að.
    Ég sá ekki ástæðu til þess að leggjast gegn þessu máli í þeirri mynd sem það liggur nú fyrir í, en skrifaði hins vegar undir nál. með fyrirvara og minn fyrirvari felst í því sem ég hef nú sagt.