Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Miðvikudaginn 30. nóvember 1988

     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Þetta frv. kom hér til umræðu í gær þegar nokkuð var liðið á þingfund og þá var þess óskað í umræðunni að hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. yrðu viðstaddir og auðvitað og sérstaklega fjmrh. sem fylgdi þessu frv. úr hlaði. Það gekk illa að ná í ráðherrana, en þó mætti nú forsrh. og sagði nokkur orð, en viðskrh. var ekki til staðar í gær, en það gleður mitt aldna hjarta að sjá að hann er viðstaddur í dag því að til hans var ætlunin að beina nokkrum fyrirspurnum. En af því að hann var ekki viðstaddur umræðuna í gær þykir mér rétt að nefna að frv. sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir því að tvöfalda þennan skatt á þann veg að hækka hann úr 1,1% í 2,2% og ég og fleiri gerðum að umræðuefni í gær að þetta frv. kæmi fram þrátt fyrir að það er verðstöðvun í landi. Það er yfirlýst stefna stjórnvalda að koma verðbólgunni niður og það var líka á það minnst og það rakið allítarlega að verslun úti á landsbyggðinni er rekin undantekningarlítið með mjög miklu tapi og verslanir hafa verið að fara á hausinn eins og við segjum á góðu máli. Þær hafa verið að gefast upp hver á fætur annarri og á þetta alveg jafnt við um einkaverslunina sem samvinnuverslun.
    Kaupfélögin víðast hvar úti um land hafa verið að gefast upp eða eru í þann veginn að gefast upp með örfáum undantekningum. Verslunin hefur verið að færast frá landsbyggðinni til stórmarkaðanna í Reykjavík og nú skeður það að verslunin er að færast aftur frá stórmörkuðunum og meira til erlendra þjóða. Það eru miklu blómlegri Glasgow-markaðirnir um þessar mundir en stórmarkaðirnir hér í Reykjavík. Við þessar aðstæður leggur núv. ríkisstjórn til að hækka þennan skatt jafngífurlega og raun ber vitni.
    Hæstv. fjmrh. upplýsti í gær að hann hefði verið einn af aðalhöfundum þessa frv. fyrir tíu árum sem aðstoðarmaður þeirrar ríkisstjórnar sem þá tók við og maður sá ekki neitt á honum annað en honum þætti eðlilegt að hækka þennan skatt svo gífurlega. En ég vil gjarnan vita hvort hæstv. viðskrh. er jafnánægður með þetta frv. við þær aðstæður sem verslunin á nú við að búa og við þær aðgerðir stjórnvalda að stjórnvöld hreint og klárt eru að ýta undir að viðskipti fari úr landi með því að selja gjaldeyri með allt að 20% afslætti. Það er útsala á gjaldeyri til þess að kaupa fyrir. Ég undraðist þegar ég sá auglýsingu um dagsferðir til innkaupa erlendis. Ég hélt að nú væru þær alveg orðnar vitlausar, þessar ferðaskrifstofur. Ég tryði því ekki að það mundi nokkur fara í eins dags ferð, en mér er sagt að það séu fleiri hundruð manna búin að fara og versla, kaupa, kaupa. Ríkissjóður er galtómur, tapar söluskatti, aðflutningsgjöldum af því að gjaldeyririnn er seldur með afslætti hér heima.
    Ég spyr hæstv. viðskrh.: Hefur hann gert athugun á því hver áhrif þetta frv., ef að lögum verður eins og það er hér lagt fram, muni hafa á verðlag, bæði á vörum og þjónustu? Er ekki ætlunin að þeir sem eiga að borga þennan skatt geti hækkað sína þjónustu og verðlag til að standa undir skattlagningunni? Ekki geri ég ráð fyrir því að verslunarfyrirtækin bæði úti á landi

og eins í höfuðborginni, sem nú ramba á barmi gjaldþrots, eigi peninga til að greiða þennan skatt. Því getur ekki verið um annað að ræða en þetta hafi áhrif á verðlag og verði til þess að hækka verð á vörum og þjónustu sem fyrirtæki í þessu húsnæði reka.
    Ég spyr hæstv. viðskrh. að því hvort hann telji að þetta sé leiðin til að standa á bremsunum í því að verðbólgan fari ekki aftur af stað. Þetta er fyrsta skattafrv. núv. hæstv. ríkisstjórnar og það er ekki meiri fögnuður með það en svo í herbúðum ríkisstjórnarflokkanna að það virðist ógerningur að fá þá þrjá ráðherra til að vera viðstaddir umræðuna, ekki alla í einu. Það verður annaðhvort að vanta einn eða tvo, en fjmrh. hefur nú verið við umræðuna þó að hann sé eitthvað ókyrr núna þessa stundina, enda er það margt sem leitar á hann á þessum erfiðu dögum.
    Ég minni hæstv. viðskrh. á að hans flokkur, Alþfl., hefur verið mjög mikið á móti þessum skatti eins og hann var. Hefur Alþfl. skipt svo snarlega um skoðun að hann telji nú vera alveg sjálfsagðan hlut að hækka þennan skattstofn úr 1,1% í 2,2%?
    Ég gerði líka að umræðuefni í gær þá hugmynd sem Valur Arnþórsson, formaður Sambands ísl. samvinnufélaga og verðandi bankastjóri í Landsbanka Íslands eftir einn mánuð, viðraði í útvarpi og sennilega á þingi Framsfl. um að nauðsyn bæri til að styrkja strjálbýlisverslunina vegna þess hve staða hennar er veik og hve hún væri rekin með miklum halla. Ég lét þau orð falla að ég teldi illt að þessi mikli valdamaður í Framsfl., sem er nú að verða landsbankastjóri, hafi ekki viðrað þessa hugmynd sína nema í nánu samráði við flokksforustu Framsfl. Hæstv. forsrh. sagði í gær að þetta hefði ekki verið tillaga heldur hugmynd sem hefði verið viðruð og hann sæi enga aðra leið en að leggja þennan skatt á verslunina þrátt fyrir þær aðstæður sem verslunin er í og það væri að vísu ekki samband þarna á milli, sem hver maður skildi, að koma strjálbýlisversluninni til hjálpar með því að hækka um 100% skattinn á hana fyrir það húsnæði sem hún er í.
    Ég skil ekki Framsfl. að ganga inn á þessa hækkun við þessar aðstæður. Hæstv. forsrh. sagði: Við erum tilbúnir að tala um aðra tekjuöflun við þingmenn og þá átti hann við stjórnarandstæðingana og hann lýsti eftir tekjuöflun. Ég skal koma með tekjuöflun alveg á stundinni sem er ekki lægri heldur hærri, alveg örugglega miklu hærri, margfalt hærri en þessi skattahækkun gerir ráð fyrir. Sú tekjuöflun er með þeim hætti að hætta að selja gjaldeyri með afslætti, hætta útsölu á gjaldeyri. Þá geta þeir haldið áfram að fara til Glasgow og annarra borga sem það vilja, en þeir eiga að borga rétt verð fyrir gjaldeyrinn. En það fylgir líka sá böggull skammrifi að útflutningsatvinnugreinarnar eiga líka að fá rétt verð fyrir sína vöru en ekki vera tekið af þeim allt að 20% eða því sem næst til þess að auka á eyðsluna.
    Stjórnmálamenn tala ár og síð um að þessi þjóð eyði of miklu og aðgerðir stjórnvalda eru í þá átt að hvetja þjóðina til meiri eyðslu. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að hæstv. ríkisstjórn getur skipt um

skoðun, hætt að selja gjaldeyri með afslætti, hætt að ýta undir eyðsluna, horfið frá því að hækka skatt sem þennan sem er verðbólguhvati og ekkert annað, ósanngjarn eins og málum er háttað og um leið er hún að auka tekjur útflutningsatvinnuveganna. Sjá menn ekki hvert er verið að fara? Það er hreinlega markvisst verið að stefna í aukið atvinnuleysi með þessu. Þessi þjóð er að kaupa afurðir, tæki og annað frá erlendum þjóðum, er að standa að því að skapa atvinnu fyrir erlendar þjóðir og að kaupa inn á undirverði á sama tíma sem allur okkar samkeppnisiðnaður er að fara í rúst. Það þýðir ekki að berja hausnum við steininn eða reka höfuðið í sandinn. Það er alveg sama hvor aðferðin er notuð. Það er alveg tilgangslaust að halda áfram þessum leik. Svo segja þessir menn, sem eru nýhlaupnir út úr ríkisstjórn, ríkisstjórn sem mynduð var af þremur stærstu flokkum landsins miðað við síðustu kosningar og allir gerðu sér bjartar vonir um að tæki af alvöru á þeim mikla efnahagsvanda sem að steðjar, bæði efnahagsvandi sem er viðráðanlegur og líka efnahagsvandi sem var óviðráðanlegur vegna markaðsfalls á okkar útflutningsvörum á erlendum markaði, að henni mundi takast þetta. En í staðinn fyrir að taka ákvörðun um þær efnahagsaðgerðir sem fyrrv. forsrh. lagði til var hlaupið til og slitið stjórnarsamstarfi með þeim hætti að því var ekki slitið eins og gerist og gengur í stjórnmálum og ríkisstjórnum heldur mættu þeir elskendurnir á Stöð 2 til þess að tilkynna sína trúlofun. Þeir sögðu að allt væri Sjálfstfl. að kenna og sér í lagi Þorsteini Pálssyni forsrh. sem þá var, hann hefði ekki viljað gera neitt. Svo eru þeir lausir við þennan vonda mann og þennan vonda flokk sem hefur þó verið í löngu samstarfi við báða þessa stjórnmálaflokka. Nú eru þeir lausir við hann og hafa verið lausir við þennan flokk í tvo mánuði. Og hvað skeður? Það skeður nákvæmlega ekki neitt nema eyðslan heldur áfram, eigið fjármagn útflutningsatvinnuveganna er að brenna upp. Róm er að brenna og það er spilað á fiðlu eins og Neró gerði forðum. Er nú ekki kominn tími til þess að foringjar þessara flokka fari að líta á sig sem alvörustjórnmálamenn en ekki einhverja leikendur í fjölmiðlum eins og mér sýnist að sé yfirstandandi? Ég skil ekki í manni eins og hæstv. viðskrh. að geta tekið þátt í þessum hrunadansi.
    Ég endurtek svo óskir mínar um að hæstv. viðskrh. svari þessum fyrirspurnum mínum og segi jafnframt þingheimi frá því hverjar eru ástæðurnar fyrir algerri stefnubreytingu Alþfl. í þessum málum. Það væri fróðlegt að fá að vita. Það var rifjuð upp í gær ræða núv. hæstv. viðskrh. og landbrh. af hv. 17. þm. Reykv. Geir H. Haarde. Það var mjög lærdómsrík og eftirminnileg upprifjun þar sem landbrh. er að fara þveröfugt við það sem hann var að prédika hér fyrir ekki ári. Hann hefur sennilega frétt af þessu og haldið áfram að funda með fiskeldismönnum því hann sést ekki heldur hér í dag.
    Það er kominn tími til að stjórnmálamenn geti ekki sagt þetta í stjórnarandstöðu og annað í

stjórnaraðstöðu. Það er fyrst og fremst krafa almennings, ef stjórnmálamaðurinn á að halda áliti meðal fólksins í landinu, að hann sé sjálfum sér samkvæmur. Hann hefur tekið að sér að stjórna þessu landi, en það verður ekki gert með því sem núna á sér stað. Landið er gersamlega stjórnlaust og hefur verið og það er kominn tími til að breyta þar um.