Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Miðvikudaginn 30. nóvember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Það vakti athygli, þegar hæstv. fjmrh. hóf í gær umræður um skattastefnu ríkisstjórnarinnar með því að mæla fyrir fyrstu tveimur frumvörpunum af allmörgum sem boðuð hafa verið um hækkun skatta í tengslum við fjárlög ársins 1989, að hæstv. fjmrh. færðist undan því í einu og öllu að gera skilmerkilega grein fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar í skattamálum, fyrir þeim ákvörðunum sem fyrir liggja um skattheimtu, í hverju hún á að vera fólgin, hvaða skattar það eru sem eigi að leggja á og með hvaða hætti. Og þykir auðvitað ýmsum skjóta nokkuð skökku við að hæstv. fjmrh. skuli færast undan því að gera Alþingi skýra grein fyrir þessu þegar augljóst er að svo skammur tími er til stefnu fram að jólaleyfi þingmanna sem ég geri ráð fyrir að nota eigi til að fjalla um þessi mál hér á hinu háa Alþingi. Þess vegna var nú m.a. óskað eftir því að hæstv. forsrh. tæki þátt í þessum umræðum einmitt í þeim tilgangi að fá nokkuð skýrari mynd af stefnu stjórnarinnar og þeim ákvörðunum sem hún hefur tekið í þessu efni. Ekki trúi ég því a.m.k. upp á ríkisstjórnina að hún hafi ekki nú þegar tekið endanlegar ákvarðanir um þau skattafrumvörp sem leggja á fram og skil þess vegna ekki hvers vegna hæstv. ríkisstjórn er svo mikið að vanbúnaði að greina frá þeim ákvörðunum sem fyrir liggja því að það hlýtur að liggja í augum uppi að hæstv. ríkisstjórn hafi nú þegar tekið þessar ákvarðanir.
    Hæstv. forsrh. kom hingað stundarkorn laust fyrir kvöldmatarleytið og flutti stutta ræðu, en bætti þó í engu úr í þessu efni, gerði ekki á nokkurn hátt frekari grein fyrir skattastefnu stjórnarinnar en hæstv. fjmrh. Auðvitað er ástæðulaust að gagnrýna hæstv. forsrh. fyrir þetta. Öllum var ljóst að komið var undir kvöldmat og ekki unnt að gera þær kröfur til hæstv. forsrh. að hann á þeim tíma færi að gera nokkra grein svo heitið geti fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar með tilliti til þess að þá var komið nærri hefðbundnum kvöldmatartíma þegar hann kom hingað að beiðni hæstv. fjmrh. Það hefði þess vegna verið ástæða til þess, herra forseti, að hæstv. forsrh. væri við þessa umræðu á hefðbundnum fundartíma deildarinnar og á þeim tíma sem hv. þm. eiga að gegna þingskyldum sínum, svo og ráðherrar, ekki síst vegna þess að það skortir nokkuð á að hæstv. forsrh. geri gleggri grein fyrir stefnu stjórnarinnar en hæstv. fjmrh. hefur treyst sér til að gera og kannski líka enn fremur vegna þess að hæstv. forsrh. hefur í viðtali við dagblaðið Þjóðviljann í dag gert heldur gleggri grein, þó ófullnægjandi sé, fyrir stefnu stjórnarinnar og þegar af þeirri ástæðu nauðsynlegt að hann taki hér þátt í umræðunni. Ég óska eftir því við hæstv. forseta að hann hlutist til um að hæstv. forsrh. komi til fundar og taki þátt í þessari umræðu.
    Það fór ekki fram hjá nokkrum Íslendingi þegar hæstv. fjmrh. tók við embætti að hann gaf út býsna stórar yfirlýsingar, sem fjölmiðlar lögðu mikla áherslu á að koma á framfæri við þjóðina, og það leyndi sér ekki að þar fór maður sem menn töldu að vissi nú nákvæmlega hvað hann ætlaði að gera og ætlaði að

taka til hendinni. Að vísu boðaði hann miklar skattahækkanir, en það leyndi sér ekki með hvaða hætti ætti að standa að því verki. Með leyfi forseta segir hæstv. fjmrh. í viðtali við DV 28. september:
    ,,Fjármálastefna þessarar ríkisstjórnar markast af því að nú verður í fyrsta sinn sótt fjármagn í stórum stíl til fjármagnseigenda í þessu landi, sem á undanförnum árum hafa tekið stóran hlut til sín í skattlausum gróða, þannig að þeir sem hafa hagnast í góðæri undanfarinna ára en lítt lagt af mörkum til samfélagsins munu nú þurfa að bera byrðarnar fyrst og fremst.``
    Og fyrirsögnin er auðvitað þessi: ,,Fjármagn sótt í stórum stíl til fjármagnseigenda.``
    Í Þjóðviljanum segir hæstv. fjmrh. daginn eftir, með leyfi forseta: ,,Þessi ríkisstjórn ætlar sér aðrar áherslur í skattamálum. Hún ætlar að sækja peninga fyrst og fremst til þeirra sem hafa gert það gott í góðæri undanfarinna ára án þess að leggja sinn réttláta skerf til sameiginlegs sjóðs landsmanna.`` Svo mörg voru þau orð.
    Það átti að sækja milljarða í greipar fjármagnseigendanna. Nú er birt fjárlagafrv. og það bólar hvergi á þessum milljarðatilfærslum frá fjármagnseigendunum og hæstv. fjmrh. hefur skotið sér undan því að svara með skýrum hætti hvers vegna þessi mikli mismunur er á hinum stóru yfirlýsingum sem fjölmiðlar höfðu eftir honum um gerbreytta skattastefnu og þeirri litlu tölu um fjármagnstekjuskatt sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Enn á ný er ástæða til þess, vegna þess að menn tóku eftir því í þjóðfélaginu þegar þessi nýi hæstv. ráðherra gaf sínar stóru yfirlýsingar, að hann geri grein fyrir þeim mikla mismun sem aðeins hefur orðið á tveimur mánuðum.
    Hann lýsti því yfir að það ætti að taka nýtt skattþrep í tekjuskattinn, eyðileggja hið nýja staðgreiðslukerfi skatta með því að setja á nýtt skattþrep. Allt var þetta í samræmi við þá meginstefnu sem lýst hafði verið. Hæstv. fjmrh. hafði varla gefið þessar yfirlýsingar út er samráðherrar hans úr Framsfl. og Alþfl. fóru að gefa út yfirlýsingar um að þeim væri mjög til efs að skynsamlegt væri að eyðileggja nýja staðgreiðslukerfið. Nú er eftir því
gengið hver sé stefna ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Verður sett á nýtt þrep í tekjuskattskerfið, í staðgreiðslukerfi skatta? Ætlar ríkisstjórnin að eyðileggja staðgreiðslukerfið með þeim hætti? Það er alveg nauðsynlegt að fram komi óyggjandi svar um það við upphaf þessarar umræðu hver stefna stjórnarinnar er að þessu leyti.
    Það er líka nauðsynlegt að fyrir liggi hvort það sé sameiginleg stefna ríkisstjórnarflokkanna að leggja fjármagnsskattinn á með þeim hætti sem hæstv. fjmrh. hefur boðað. Nú hygg ég að það sé býsna umdeilt í þjóðfélaginu og hefur reyndar komið fram verulegur efi af hálfu samstarfsflokka hæstv. fjmrh. um hvort skynsamlegt sé að skattleggja sparsemi og ráðdeild á Íslandi þar sem öllum er ljóst að einn meginvandi í íslenskri hagstjórn er sá að við þurfum að auka sparnað og lækka vexti. En hverjum manni er líka

ljóst að skattlagning á fjármagnstekjur við þessar aðstæður leiðir ekki til annars en að draga úr sparnaði og hækka vexti. Þessi áform ganga því gegn því meginmarkmiði í fjármálastefnu sem íslensk stjórnvöld þurfa að fylgja eftir. Skattlagning á sparsemi og ráðdeild gengur auðvitað gegn því meginmarkmiði að lækka vexti og örva sparnað. Þess vegna þarf hér skýrari svör um það hvort í raun og veru sé stuðningur á bak við þetta viðhorf.
    Hitt sem þarfnast svo líka skýringar er sú neikvæða atvinnustefna sem hæstv. fjmrh. hefur boðað með því að skattleggja sparnað í bankastofnunum og öðrum peningastofnunum að fullu, þeim fjármálastofnunum sem þjónusta atvinnulífið í landinu, en undanþiggja skattlagningu á sparnað hjá þeim sem vilja spara í ríkissjóði. M.ö.o.: það er búið að falla frá því að það sé einhver réttlætiskrafa að skattleggja allar tekjur, burtséð frá því hvernig þær verða til, vegna þess að fjármagnstekjur hjá þeim sem spara í ríkissjóði eiga að vera skattlausar. Þannig mega allir gróðamennirnir hlaupa með spariféð sitt í ríkissjóð skattfrjálst, það er fullkomið réttlæti, félagshyggja geri ég ráð fyrir, en þeir sem ætla að spara í þeim stofnunum sem þjónusta atvinnulífið í landinu eiga að greiða skatta. Það er alveg nauðsynlegt og óhjákvæmilegt að fá skýrt fram hvort hæstv. forsrh. og Framsfl. fylgja þessari neikvæðu atvinnustefnu sem hæstv. fjmrh. boðar og ég geri ráð fyrir að Alþfl. fylgi einnig. En það kemur mér svolítið spánskt fyrir sjónir ef Framsfl. ætlar með þessum hætti að leggjast gegn hagsmunum atvinnulífsins í landinu, skattleggja sérstaklega sparnað hjá þeim fjármálastofnunum sem þjónusta atvinnulífið en hafa hann skattfrjálsan hjá þeim sem spara í ríkissjóði. Ég óska eftir því að hæstv. forsrh. svari fyrirspurnum um þetta efni.
    Það er einnig nauðsynlegt að fá skýrari mynd við upphaf þessarar skattaumræðu af áformum um hækkun tolla og vörugjalda, ekki síst með hliðsjón af því í hversu ríkum mæli verslunin er að færast úr landinu. Einhver orðaði það svo að ef þessi áform, sem lýst hefur verið með óglöggum hætti, næðu fram að ganga, þá væru góðar horfur á því að hæstv. fjmrh. yrði gerður að heiðursborgara í Glasgow. Þó að það sé út af fyrir sig góðra gjalda vert að hljóta heimsfrægð í útlöndum, eins og hæstv. fjmrh. hefur svolítinn vanda til, hygg ég að af mörgu mætti hann verða frægari og fá heiðursnafnbót í útlöndum öðru en því að verða heiðursborgari í Glasgow um þessar mundir. Væri því ástæða til að fá hér skýrari mynd af því hvort að þessari heiðursnafnbót sé stefnt með áframhaldandi skattastefnu.
    Hæstv. forsrh. átti viðtal við dagblaðið Þjóðviljann í morgun um skattastefnu stjórnarinnar og það sem í vændum væri í þeim efnum. Í því viðtali segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Aðeins rétt rúmar þrjár vikur eru fram að jólaleyfi þingmanna. Það hefur vakið athygli að ríkisstjórnin hefur ekki lagt mjög mörg mál fyrir deildir þingsins, þó vissulega séu þau mál stór í sniðum sem lögð hafa verið fram. Steingrímur Hermannsson forsrh. segir

allmörg mál hafa verið samþykkt í ríkisstjórninni og í þingflokkum stjórnarflokkanna, en höfuðáhersla verði lögð á að koma tekjuöflunarfrumvörpum ríkisstjórnarinnar í gegn fyrir áramót.
    Eitt þessara frv. var til umræðu í Nd. í gær, en þá lagði Ólafur Ragnar Grímsson fram frv. um seinkun gildistöku virðisaukaskatts sem mundi rýra tekjur ríkissjóðs um 1,2 milljarða tæki hann gildi um mitt næsta ár eins og gert hefur verið ráð fyrir.
    Steingrímur sagði Þjóðviljanum í gær að því væri ekki að neita að það hefði tekið nokkurn tíma að undirbúa tekjuöflunarfrumvörpin. Þau væru oft flókin en ötullega hefði verið unnið að þeim og þau færu að koma fram eitt af öðru næstu daga. Steingrímur vildi engu spá um það hvort stjórninni tækist að koma öllum fjáröflunarfrumvörpunum í gegn fyrir áramótin.
    Fjmrh. mun að sjálfsögðu hefja viðræður við stjórnarandstöðuna um þessi mál, sagði Steingrímur. Það væru mörg viðkvæm mál í þessum málaflokki og enginn vafi á að menn þyrftu að mætast á miðri leið.``
    Hér eru þrjú efnisatriði sem nauðsynlegt er að fá svör við:
    Í fyrsta lagi er hér sagt að það sé búið að taka ákvörðun í ríkisstjórn um mörg mál, en ráðherrarnir neita að greina frá efnisatriðum þeirra þó að svo virðist sem augljóst sé að Alþingi eigi að afgreiða þau fyrir áramót. Er það
rétt að búið sé að taka ákvarðanir um viðamikil skattamál og ekki sé talin ástæða til þess að greina frá meginniðurstöðu þeirra hér á hinu háa Alþingi þegar skattaumræðan er að hefjast?
    Í öðru lagi er hér vikið að því hvort unnt sé að koma þessum frumvörpum fram fyrir áramót. Hæstv. forsrh. segist ekki vilja fullyrða hvort það takist. Þá er ástæða til þess að spyrja hvort það séu áform ríkisstjórnarinnar að ná þessum frumvörpum öllum fram fyrir áramót eða hvort hún hafi í hyggju að afgreiða þau á Alþingi eftir áramót, á nýju ári. Hvaða áform eru uppi í þessu efni? Nauðsynlegt er að fá við því skýr svör.
    Síðan er það þriðja atriðið sem auðvitað er það mikilvægasta í þessu viðtali. Þar er um að ræða mjög stóra pólitíska yfirlýsingu af hálfu hæstv. forsrh. Hann segir að fjmrh. eigi nú að hefja viðræður við stjórnarandstöðuna, ekki einasta um framgang mála í þinginu, heldur verði menn að mætast á miðri leið í samningum. Hvað þýðir þessi yfirlýsing? Að fjmrh. eigi að mæta stjórnarandstöðunni á miðri leið í samningum um skattafrv. ríkisstjórnarinnar? Ríkisstjórnin hefur boðað milljarða kr. aukna skattheimtu. Þýðir þetta að forsrh. hafi falið hæstv. fjmrh. að semja við stjórnarandstöðuna um helmings afslátt af boðaðri skattheimtu? Hafa farið fram einhverjar umræður á milli hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. um þessar viðræður? Hvernig má það vera að hæstv. forsrh. boðar viðræður um helmings afslátt af skattaáformum ríkisstjórnarinnar áður en ríkisstjórnin hefur lagt fram í endanlegu formi frumvörp sín um stóraukna skattheimtu í landinu? Það er nauðsynlegt að fá skýr svör við þessu. Hvað er það sem semja á

um? Ber að taka þessi orð bókstaflega eða á að taka mark á þeim? Að ríkisstjórnin sé reiðubúin til þess að mætast á miðri leið? Er hún tilbúin til þess að falla frá helmingnum af boðuðum skattahækkunum í viðræðum við stjórnarandstöðuna? Eða eru þetta ummæli sem ekki á að taka mark á, eru sögð af einhverjum misskilningi eða ber alls ekki að skilja eins og þau eru sögð? Hafa farið fram um þetta viðræður á milli hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh.? Hvenær hefjast þessar viðræður ef mark má taka á þessari yfirlýsingu? Og má ganga út frá því sem vísu að ríkisstjórnin ætli að mæta stjórnarandstöðunni og stjórnarandstöðuflokkunum, hverjum um sig væntanlega, á miðri leið í breytingum á þeim skattalagafrumvörpum sem boðuð eru? Hér er nauðsynlegt að skýrt sé talað.
    Hér liggur fyrir til umræðu frv. um tvöföldun á skatti á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Ég er þeirrar skoðunar að það megi alveg taka þetta mál til samninga eins og hæstv. forsrh. boðar hér. Það getur vel komið til álita að taka þetta mál til samninga. Þetta er að vísu viðkvæmur skattur og í sjálfu sér ranglátur. Hann var lagður á fyrir áratug síðan og hefur verið framlengdur á hverju ári. Hv. núv. 5. þm. Reykv. beitti sér hins vegar fyrir því að hann var lækkaður til muna á meðan hann var fjmrh. Nú er hins vegar lagt til að hann verði tvöfaldaður.
    Þó að skatturinn sé í sjálfu sér ranglátur þá má auðvitað líta á fjárhagsstöðu ríkissjóðs við þessar aðstæður. Auðvitað verður að gera það með ábyrgum hætti. Sjálfstfl. er fyrir sitt leyti tilbúinn til þess ef ríkisstjórnin er tilbúin til viðræðna um breytta stefnu í efnahags- og atvinnumálum, um stefnu sem getur tryggt rekstur atvinnuveganna í landinu, um það að hætta að selja gjaldeyri á útsölu og þar fram eftir götunum. Þá má auðvitað taka það til athugunar að semja um það við ríkisstjórnina að þessi fyrirhugaða skattheimta verði lækkuð um helming, niður í það hlutfall sem hún er á þessu ári, og taka hæstv. forsrh. á orðinu og mætast á miðri leið ef samningar geta náðst um breytt áhersluatriði, hvernig fjármunum ríkisins er varið, hvernig stefnan eigi að vera í efnahagsmálum og hvernig koma megi í veg fyrir gjaldþrot atvinnuveganna, þá má alveg taka hæstv. forsrh. á orðinu og mæta ríkisstjórninni á miðri leið og taka þátt í því með henni að afgreiða þetta frv. á þann veg að fyrirhuguð skattheimta verði lækkuð um helming.
    Ég vil inna hæstv. fjmrh. eftir því í ljósi ummæla hæstv. forsrh. hvort hann sé ekki tilbúinn til viðræðna samkvæmt boðskap og fyrirmælum hæstv. forsrh. --- ég lít nánast á að þetta séu fyrirmæli hæstv. forsrh., að fjmrh. beri að mæta stjórnarandstöðunni á miðri leið --- hvort hann sé ekki tilbúinn til þess hér og nú, á þessum fundi hv. deildar, að mæta stjórnarandstöðunni á miðri leið og lýsa því yfir að það megi draga úr þessari skattheimtu um helming. Fyrir því eru auðvitað gild rök því eins og hér hefur mjög rækilega verið bent á og vakin athygli á, þá leggst þessi skattur með þunga á verslunina og

einkanlega þó dreifbýlisverslunina í landinu. Á það hefur verið bent hér í umræðunni að það er ekki síst verslunin úti á landsbyggðinni sem á nú í vök að verjast, svo í vök að verjast að einhver áhrifamesti forustumaður Framsfl., sem í miðstjórnarkjöri þar naut hvað mests trúnaðar, Valur Arnþórsson, lagði til að stofnaður yrði sérstakur sjóður, úreldingarsjóður, til þess að treysta dreifbýlisverslunina. Sumir hafa að vísu skilið þá hugmynd á þann veg að það eigi að leggja fjármuni úr ríkissjóði til þess að mynda úreldingarsjóð þannig að SÍS geti keypt upp verslanir einkafyrirtækjanna úti á landsbyggðinni, en það verður nú sjálfsagt skýrt út nánar hér af talsmönnum
Framsfl. í umræðunni. En ljóst er að þarna er við mikinn vanda að etja. Það skýtur svolítið skökku við að í þessum mikla vanda --- og ekki síst af hálfu Framsfl. sem stundum hefur verið annt um dreifbýlisverslunina í landinu --- að leggja þessar nýju byrðar á dreifbýlisverslunina.
    Hæstv. fjmrh. sagði að þetta væri liður í því að leggja skattinn á breiðu bökin í þjóðfélaginu. Hvernig skyldi nú þessi skattur vera í ljósi þeirrar kennisetningar? Ætli reyndin hafi ekki verið sú að þar sem uppgangur hefur verið og þensla hefur ekki verið nokkur vandi fyrir eigendur verslunar- og skrifstofuhúsnæðis að koma skattinum út í verðlagið. Og hann hefur í raun farið út í verðlagið, ekki síst hér á þéttbýlissvæðinu. Þar sem meir hefur kreppt að úti á landsbyggðinni hafa verslunarfyrirtæki þurft að taka þennan skatt á sig. Þannig hefur falist í þessu mikil mismunun á milli dreifbýlisverslunar og þéttbýlisverslunar vegna þess að aðstaða þéttbýlisverslunar hefur verið sú að koma skattinum út í verðlagið en það hefur ekki átt sér stað, a.m.k. ekki í sama mæli, úti á landsbyggðinni.
    Og nú þegar erfiðleikar dreifbýlisverslunarinnar hafa tvöfaldast er verið að gera ráð fyrir því að tvöfalda misréttið. Því var sérstaklega lýst hér yfir af hæstv. fjmrh. að það væri áhugamál Framsfl., sérstakt stefnumál Framsfl., að tvöfalda þetta misrétti dreifbýlisversluninni í óhag.
    Mér er tjáð að það sé líka býsna algengt að leigjendur atvinnuhúsnæðis, eigendur atvinnuhúsnæðis sem þeir leigja út, leigi það með þeim skilmálum að leigjendurnir borgi skattinn. Og nú er það spurning til hæstv. viðskrh.: Þegar bannað er að hækka húsaleigu og hann stendur að því að tvöfalda þennan skatt, sem í ýmsum tilvikum er hluti af húsaleigusamningi, hverjir eiga þá að borga skattinn í þessu tilviki? Er það leigjandinn? Þarf hann, þrátt fyrir skýr ákvæði um það að ekki megi hækka leigu, að taka á sig tvöföldun á þessum skatti eða á eigandinn að gera það? Um þetta þarf að fá skýr svör því að þetta er býsna algengt og sýnir kannski eitt með öðru hversu mikið yfirklór það er þegar því er haldið fram að þessi skattur leggist sérstaklega á eigendur verslunar- og skrifstofuhúsnæðis. Hann leggst í reynd á þá sem þjónustunnar njóta, nema þar sem aðstaða verslunarinnar er svo knöpp að engin leið er að velta skattinum yfir á neytendurna, þ.e. úti á

landsbyggðinni, og þar á að tvöfalda misréttið. Svo má spyrja: Hverjir eru þessir eigendur, ekki síst úti á landi, að verslunar- og skrifstofuhúsnæði, þeir sem eiga að taka skattinn á sig? Því ekki eru það eigendurnir þar sem þenslan er mest og menn geta velt þessu út í verðlagið. Það eru eigendurnir að verslunar- og skrifstofuhúsnæði úti á landi. Og hverjir ætli eigi mest af verslunar- og skrifstofuhúsnæði á landsbyggðinni? Ætli það séu ekki kaupfélögin? Og hverjir eru eigendur að kaupfélögunum? Það skyldu ekki vera nokkrir eigendur að kaupfélögum hér inni? Það væri til að mynda fróðlegt að vita hvort hæstv. fjmrh. væri ekki félagsmaður í kaupfélagi. Ætlar hann sem eigandi að kaupfélaginu að taka á sig þennan skatt? Eða ætlar hann að velta honum út í reksturinn?
    Þetta sýnir auðvitað að yfirlýsingar af því tagi að hér sé verið að leggja skatt á breiðu bökin í þjóðfélaginu fá ekki staðist. En það er mest áhyggjuefni að í reynd er hér verið að tvöfalda misrétti sem viðgengst í þjóðfélaginu. Og þó að svo geti háttað til vegna erfiðrar afkomu ríkissjóðs að menn verði að leggja á skatta umfram það sem besta regla segir til um, þá er auðvitað fásinna við þessar aðstæður að tvöfalda þennan skatt.
    En Sjálfstfl. er a.m.k. fyrir sitt leyti alveg tilbúinn til viðræðna á grundvelli yfirlýsingar hæstv. forsrh. um að mæta hæstv. ríkisstjórn á miðri leið. Ekki bara í þessu efni heldur öðrum fyrirhuguðum skattafrumvörpum. En auðvitað að því tilskildu að hafa eitthvað um það að segja hvernig fjármununum er varið og hafa eitthvað um það að segja hver stefna ríkisstjórnarinnar er í efnahags- og atvinnumálum. Ef stefna hennar í þeim efnum á að vera sú, eins og boðað hefur verið, að lama endanlega atvinnulífið í landinu, láta ekki nægja að ná jafnvægi á vinnumarkaðnum heldur að knýja hér fram atvinnuleysi, eins og hæstv. ríkisstjórn hefur verið að boða, jafnvægi náðist í haust sem leið en nú hefur hæstv. ríkisstjórn verið að knýja fram samkvæmt yfirlýstri stefnu aðvinnuleysi í landinu. Auðvitað er nauðsynlegt um leið og menn setjast niður til þess að mæta hæstv. ríkisstjórn á miðri leið í þessum miklu skattahækkunaráformum að ræða þau efni öll.