Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Miðvikudaginn 30. nóvember 1988

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Af óviðráðanlegum orsökum hef ég ekki haft tækifæri til að fylgjast með þessari umræðu nema að hluta og ég hef ekki tekið til máls fyrr í þessari umræðu og heldur ekki nein úr þingflokki Kvennalistans, mér vitanlega. Þrátt fyrir það hafa hv. sessunautar mínir tjáð mér að sú frétt hafi birst í að mig minnir Ríkisútvarpinu eða Sjónvarpinu að Kvennalistinn muni styðja frv. sem hér er á dagskrá.
    Nú er það ekki að undra að menn álykti sem svo því við kvennalistakonur höfum stutt þessa skattheimtu sem komið hefur til kasta þingsins árlega um allnokkurt skeið. Við höfum jafnframt stutt hækkun skattprósentunnar, en um það hafa verið gerðar tillögur til breytinga. Það er því út af fyrir sig eðlilegt að menn búist við stuðningi okkar við frv.
    Ég kann því hins vegar betur að menn bíði eftir staðfestingu þess og ætla ekkert endilega að létta mönnum þá bið. Þetta er umtalsverð hækkun eins og menn hafa væntanlega margsagt og það þarf vitanlega að athuga það rækilega í nefnd hvort allar aðstæður leyfa að nú verði þessi prósenta upp tekin sem hér er lagt til og hvernig það muni koma við þau fyrirtæki sem hér er um að ræða og hvort líklegt sé að þessi skattheimta beri tilætlaðan árangur. Þetta þarf allt að athuga. Ég leyfi mér að minna á það að þegar síðasta hv. ríkisstjórn vildi leggja launaskatt á fyrirtæki í sjávarútvegi og iðnaði á síðasta ári lýsti ég þeirri skoðun minni að enda þótt æskilegt væri að sama regla væri látin gilda um allan atvinnurekstur, þau sætu við sama borð að sem mestu leyti, yrði að taka tillit til aðstæðna. Við mátum það svo að vegna erfiðrar stöðu í atvinnurekstri, í sjávarútvegi og samkeppnisiðnaði gætum við ekki fallist á þá skattheimtu. Við greiddum því atkvæði gegn þeim lögum, um launaskatt á fyrirtæki í sjávarútvegi og iðnaði, og það kom svo síðar í ljós að það var rétt mat og stjórnvöld urðu að taka aftur þá gjörð. Þau urðu sem sagt að hætta við að leggja launaskatt á þau fyrirtæki því að þau þurftu nú meira á öðru að halda en auknum álögum. Á sama tíma vorum við þeirrar skoðunar að skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði væri fyllilega réttlætanlegur, enda bentu allar athafnir og fjárfestingargleðin í þeirri grein til þess að þar væri þenslan, þar væru peningarnir.
    Nú kunna forsendur að hafa breyst þó ég geti ekki dæmt um það hér og nú. Þess vegna vil ég biðja menn að slá engu föstu um afstöðu okkar kvennalistakvenna fyrr en við höfum fengið ráðrúm til að athuga okkar gang og annarra. Ég treysti mér a.m.k. ekki til að fullyrða um það á þessari stundu og áskil mér að sjálfsögðu allan rétt til að athuga það í nefndinni. Það er kunnara en frá þurfi að segja að það eru miklir erfiðleikar í íslensku atvinnulífi og efnahagslífi. Gjaldþrot eru tíð og mörg fyrirtæki á ystu nöf með sína starfsemi. Auðvitað er þar í mjög mörgum tilfellum um að ræða sjálfskaparvíti, glannaskap og fífldirfsku. Fjárfestingargleðin, ekki síst í verslunar- og skrifstofuhúsnæði, hefur gjörsamlegt

keyrt úr hófi. Það var raunar mörgum ljóst fyrir löngu og enn fremur ljóst að ástæða væri til að reyna að slá á þá gífurlegu og óæskilegu þenslu sem þar hefur verið um að ræða. M.a. þess vegna studdum við kvennalistakonur þessa skattlagningu og vildum auka hana, t.d. á síðasta ári þegar þetta mál var til umræðu.
    Nú er það vitað mál að þessi offjárfesting hefur sagt rækilega til sín. Húsnæði af þessu tagi stendur jafnvel autt eða gengur ekki út og það er a.m.k. ástæða til að efast um að þessi skattur muni skila sér í þeim mæli sem gert er ráð fyrir í grg. með frv. Ég dreg það hiklaust í efa. Ég hef enga trú á því að þessi skattheimta, verði hún að lögum, skili 410 millj. kr. í ríkissjóð eða . . . ( Gripið fram í: 425 millj.) Já, en innheimtan 425 millj. kr. að meðtalinni innheimtu af eftirstöðvum fyrri ára eins og segir hér í grg.
    Þetta munum við að sjálfsögðu athuga í hv. fjh.- og viðskn. þar sem ég á sæti. Ég ætla a.m.k. að vona að okkur gefist tími til þess. Hún er mjög önnum hlaðin og ásetin og margt þar í vændum því að stjórnarfrv. hafa látið um of á sér standa og það er ástæða til að gagnrýna vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Því miður er það ekki ný saga. Þá athugasemd þurftum við að gera æ ofan í æ einmitt á sama tíma í fyrra og urðum meira að segja að taka skemmra jólaleyfi af þeim sökum að vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar var sannarlega áfátt þá. Við sjáum því miður enn einu sinni fram á vertíðarlok í sama dúr og verið hafa með tilheyrandi flumbrugangi.
    Ég ítreka aðeins að allar forsendur fyrir því þingmáli sem hér er á dagskrá þarf að athuga í nefnd og til þess ber okkur að fá tíma og ráðrúm.