Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Miðvikudaginn 30. nóvember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að svara nokkrum orðum þeim spurningum og athugasemdum sem til mín hefur verið beint vegna frv. sem hér liggur fyrir hv. Nd. Þessi umræða hefur líka orðið vettvangur fyrir almenn skoðanaskipti um stefnuna í efnahagsmálum, gengismálum og heildarstefnu ríkisstjórnar í skattamálum.
    Ég ætla ekki að taka langan tíma í að ræða þau mál, en vil þó eingöngu segja þetta til þeirra sem hafa hreyft því að þetta frv. leysir ekki efnahagsvandann, eins og hv. 5. þm. Austurl. komst að orði. Þá kem ég að því sem hv. 1. þm. Vestf. sagði, og reyndar líka hv. 10. þm. Reykv., að gengisstefnan væri þá og því aðeins rétt, og reyndar kom hv. 5. þm. Austurl. líka að því, að afkoma undirstöðuatvinnuveganna væri tryggð. Þetta er sannarlega rétt, en ég vara við því að gera það sama mál og að segja að genginu eigi sífellt að breyta til þess að eltast við mýrarljós því að sannleikurinn er sá, og þar kem ég að því sem við erum hér að ræða, að það var lífsnauðsyn að rjúfa víxlgengi gengisbreytinga og verð- og kostnaðarhækkana innan lands. Þess vegna var leikinn þessi sterki biðleikur fram til loka febrúar með launastöðvun, verðstöðvun. Þetta er tilraun til þess að komast að stöðunni eins og hún raunverulega er, ná á henni tökum eins og margir hafa hér rætt. Þetta var reynt í allt sumar, en tókst ekki í fyrri stjórn. Tilraunin stendur enn hjá þeirri stjórn sem mynduð var 28. september. Þetta bið ég menn að hafa í huga. Enginn dregur í efa að það sé mikilvægast fyrir okkar efnahag og okkar atvinnumál að gengisskráningin sé þannig að útflutningsatvinnuvegirnir beri sig. Svarið er hins vegar ekki fólgið í genginu einu, heldur í öllum efnahagsaðstæðum í okkar þjóðfélagi, í launastefnu, verðstefnu og vaxtamyndun, öllu þessu í samhengi, og síðast en ekki síst fjármálunum og þar kem ég að því sem er hér til umræðu í dag. Það er nefnilega alveg rétt, eins og kom fram hjá hv. 1. þm. Suðurl., að það þarf að skoða þetta frv. í ljósi fjárhagsstöðu ríkissjóðs.
    Þessa tillögu um að hækka skatt af verslunar- og skrifstofuhúsnæði gera menn ekki að gamni sínu. Hún er gerð til þess að fá einn stein í þá hleðslu sem nú þarf að hlaða til þess að stöðva hallareksturinn á ríkinu. (Gripið fram í.) Þetta er að sjálfsögðu mál sem við komum að síðar, hv. 5. þm. Austurl. Það er auðvitað rétt að það er úr vöndu að ráða og í þessum niðurjöfnunarvanda staðnæmdust menn við það að hækka þennan skatt.
    Ég get tekið það skýrt fram og það kom fram í máli hv. 1. þm. Vestf. að Alþfl. hefur ekki verið sérstakur stuðningsmaður þess að leggja á skatta eins og þennan sem ekki tekur tillit til rekstrarafkomu eða eignastöðu í þeim fyrirtækjum sem eiga að borga. Það er rétt. Hins vegar var hér úr vöndu að ráða, hvar átti niður að bera, og ég heyrði það hjá hv. 1. þm. Suðurl. að hann hafði skilning á því að þetta skyldi nú enn einu sinni gert, í ellefta sinn eða hvað það nú er, því þessi skattur hefur verið lagður á með misjöfnu skatthlutfalli allar götur síðan 1978, m.a.

með atkvæðum þeirra þm. sem hér gagnrýna hann. Ég mæli honum ekki bót að öðru leyti en því að ég segi: Á þetta höfum við fallist alþýðuflokksmenn, og styðjum það að sjálfsögðu, fyrst og fremst af fjárhagslegri nauðsyn. Það er rétt sem kom fram hjá hv. 1. þm. Vestf. að skatturinn mun koma illa við dreifbýlisverslunina, en ég vildi gera það alveg skýrt að þetta er alls ekki neinn sérstakur skattur á dreifbýlisverslunina eins og skilja hefði þó mátt af máli hv. 1. þm. Suðurl. Eins og hann talaði gæti mönnum virst að svo væri. Það er ekki. Skatturinn mun að sjálfsögðu koma helst niður hér í Reykjavík þar sem verslanirnar eru flestar, stærstar og dýrastar, og þar er ég kominn að rökunum fyrir því að hafa þennan skatt. Hann gæti verið eins og stífla fyrir offjárfestingu í verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Þá gerir hann gagn. En það má vel vera, eins og kom fram í máli hv. 10. þm. Reykn., að hann hefði kannski átt að koma fyrr. Það má vel vera rétt. Nú er hér gerð þessi tillaga og ég vil líka biðja menn að skoða þetta sérstaka mál sem við ræðum hér í dag í réttum stærðarhlutföllum.
    Það kastaði tólfunum þegar hv. 5. þm. Austurl. sagði: Þessi skattur leysir ekki efnahagsvandann. Honum er ekki ætlað að gera það. Hann á að skila 150 millj. kr. í ríkissjóð á næsta ári umfram það sem annars hefði komið að óbreyttum verslunar- og skrifstofuhúsnæðisskatti eins og ég veit að þeir þm., sem skoðað hafa málið bæði í grg. þessa frv. og í grg. með fjárlagafrv., geta séð. Hvað er það hátt hlutfall af veltu þeirra greina sem þarna eiga hlut að máli? Ég efast um að það nái þriðjungi úr hundraðshluta af heildarveltu þeirra greina sem þennan skatt bera. Ég vil ekki fara með nákvæmar tölur í málinu, en hærra en helmingur er alveg fráleitt, og líklega liggur það nær fjórðungi af einum hundraðasta af veltunni í þessum búskap sem þarna er verið að tala um. Þetta getur komið misjafnlega niður, og ég tek undir það með hv. 1. þm. Vestf., en ég segi það eitt að þetta verður ekki banabiti dreifbýlisverslunarinnar. Í vanda hennar fléttast saman langtímaþróun sem við þurfum að greina og ég treysti því að viðskrn. nái góðu samstarfi við þá stofnun sem hv. 1. þm. Vestf. stýrir, Byggðastofnun, um úttekt á stöðu
verslunarinnar í dreifbýlinu og hvað þar sé helst til ráða. Og ég veit að ég mun fá um það góða samvinnu við þann hv. þm. Vestf.
    Það er rétt að verslanir eiga víða í vanda. Vegna hvers? Vegna þess að samgöngur hafa batnað, tekjur hafa hækkað, fólkið leitar annað til þess að versla. Það leitar til Reykjavíkur og það leitar jafnvel út fyrir landsteina, en að kenna þetta allt við einhverja vonda stefnu ríkisstjórnarinnar er hrein fjarstæða. Þetta er langvirkandi þróun í okkar samfélagi sem við þurfum að horfast í augu við af raunsæi, velta fyrir okkur að hvaða leyti sé viðfangsefni stjórnvalda um að véla, en við megum ekki tengja það við einstök tiltölulega umfangslítil skattsmál eins og það sem við ræðum hér. Ég geri ekki lítið úr þessu og ég tek það fram að

ég ber mikla virðingu fyrir skoðunum hv. 1. þm. Vestf. sem lýsti réttilega áhyggjum af því hversu höllum fæti undirstöðugreinarnar standa. Ég met það hversu reiðubúinn hann virðist vera, af hans máli að dæma, og reyndar þekki ég það af fyrri reynslu, til að leita af raunsæi skynsamlegra leiða til að leysa þann vanda. Leiðin er hins vegar ekki sú að sleppa bandinu á fjárhag ríkissjóðs. Leiðin er einmitt sú að hlaða fyrir þar sem út streymir, þetta frv. er einn steinn í þeirri hleðslu. Hv. 1. þm. Vestf. notaði líkingu sem mjög hefur verið notuð í umræðum um efnahagsmál á þessu ári og hófst víst í byrjun árs með ræðu hæstv. núv. forsrh.: Að Róm væri að brenna. Þetta er tilvitnun sem margir nota. Mér er nú tamara að hugsa til þess að Róm var ekki byggð á einum degi og það sem við erum hér að gera er upphaf að byggingu, upphaf að stöðugleika í efnahagsmálum sem ég vonast til að þingmenn vilji taka þátt í að byggja.