Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Miðvikudaginn 30. nóvember 1988

     Matthías Á. Mathiesen:
    Herra forseti. Í gær og í dag hafa farið fram umræður um tvö frv. sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram á Alþingi og eru að hluta til í tengslum við fjárlög ríkisins fyrir árið 1989. Ég sagði að hluta til í tengslum við fjárlög 1989 vegna þess að frv. um virðisaukaskatt hafði í raun og veru meiri þýðingu, þ.e. sú afstaða sem kom þar fram af hálfu hæstv. fjmrh. fyrir hönd flokks hans, en eins og hér var bent á í gær var sá flokkur í harðri andstöðu við það mál þegar það var flutt á hv. Alþingi þannig að þar fólst í breyting á afstöðu og kúvending frá því sem áður hafði verið sagt hér í sölum Alþingis.
    Frv., flutt sem hluti af miklu, miklu stærra dæmi, því dæmi sem hæstv. ríkisstjórn stendur frammi fyrir, þ.e. fjárlögum ríkisins fyrir árið 1989, eru þess eðlis að eðlilegt hefði verið að af hálfu ríkisstjórnarinnar hefði verið gerð grein fyrir með hvaða hætti ríkisstjórnin hygðist haga stefnu sinni í tekjuöflun fyrir ríkissjóð á árinu 1989.
    Hæstv. fjmrh. hefur að undanförnu, eða frá því hann tók við, gert grein fyrir stöðu ríkissjóðs á þessu ári eftir því sem hann hefur fengið vitneskju um og það hefur verið sagt að í hvert skipti sem hann talaði hækkaði halli ríkissjóðs um milljarð og það er alveg hárrétt. Þetta stafar að sjálfsögðu af því að honum hefur borist vitneskja frá þeim aðilum sem þekkja best til þessara mála og hann hefur viljað láta Alþingi fylgjast með í þeim efnum. Hvort tveggja er hins vegar að sú reynsla og sú þekking sem hann hefur fengið af þessum málum sýnir ekki að þar hafi verið um að ræða nein viðbrögð, neitt sem væri í þá átt að það sýndi hver væri stefna ríkisstjórnarinnar, hvorki í sambandi við breytingar á þessu ári né heldur hverjar væru hugmyndir og tillögur ríkisstjórnarinnar fyrir árið 1989.
    Hæstv. viðskrh. sagði í ræðu sinni áðan að það bæri að skoða frv. sem við fjöllum um nú, um skattlagningu skrifstofu- og verslunarhúsnæðis, í ljósi stöðu ríkissjóðs og gat um það hvað þetta frv., ef að lögum verður, ætti að gefa ríkissjóði á næsta ári auk þess sem frv. með sömu prósentu gerði, þ.e. 150 millj. kr. Ég spyr: Hefði ekki verið eðlilegt að fyrir Alþingi lægju þessa daga hugmyndir ríkisstjórnarinnar um hvernig ætti að brúa þetta bil þannig að menn fengju heildstætt dæmi, menn fengju tillögurnar á skjali þannig að hægt væri að meta þær í samhengi og gera sér grein fyrir dæminu þar af leiðandi í heild?
    Það er vissulega við mikinn vanda að etja í efnahagsmálunum og þess vegna ekki óeðlilegt að út frá því sé skoðað með hvaða hætti ríkissjóður aflar sér tekna. Hv. 10. þm. Reykv. Guðmundur G. Þórarinsson vék áðan að þeim ræðum sem hv. 1. þm. Suðurl. Þorsteinn Pálsson, hæstv. fyrrv. forsrh., hefði flutt og vék að efnahagsmálum ríkisstjórnar hans. Það mátti skilja af orðum þessa hv. þm. að Framsfl. hefði nú bara ekki komið nálægt stjórn þessara mála á undanförnum árum, þaðan af síður að hann gerði sér grein fyrir því að sjávarútvegurinn, sem á kannski í hvað mestri vök að verjast, hefur notið leiðsagnar

tveggja manna lengst af þetta tímabil, að undanteknum örfáum mánuðum, annars vegar hæstv. forsrh. á árunum 1980--1983 og hæstv. núv. sjútvrh. frá árinu 1983 til dagsins í dag. Það skyldi þó aldrei vera að þessir menn hefðu ráðið einhverju um það með hvaða hætti ákvarðanir hafa verið teknar og í hvaða veru? Þetta vildi ég aðeins að kæmi hér fram vegna þeirra orða sem hv. þm. lét falla hér áðan.
    Þegar þessi frv. eru til umræðu vildi ég mega vekja athygli á þeirri skýrslu sem hv. alþm. hefur borist frá Ríkisendurskoðun og óskað var eftir af minni hálfu, þ.e. skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga til desemberloka 1988. Þessi skýrsla gerir grein fyrir stöðu ríkissjóðs á þessu ári og hvert er mat Ríkisendurskoðunar á þeirri útkomu. Það kemur glögglega fram á bls. 2 í skýrslunni þar sem stendur, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisendurskoðun telur að að öllu óbreyttu stefni í 4,7--5 milljarða kr. rekstrarhalla hjá A-hluta ríkissjóðs á árinu 1988.``
    Þetta kom fram þegar hæstv. fjmrh. talaði síðast í þessum málum, þ.e. í hv. Ed. í sambandi við lánsfjárlagafrv.
    Þegar þessi niðurstaða er skoðuð þá verða menn að gera sér ljóst að það er ekki aðeins verið að meta stöðu ársins í ár heldur er í leiðinni, þegar þessi áætlun liggur fyrir, kippt undan fjárlagafrv., sem liggur fyrir Alþingi, þeim forsendum sem það frv. er byggt á. Á næstu dögum er ætlunin að taka fjárlagafrv. til 2. umr. Þeim forsendum sem það frv. er byggt á, þ.e. tekjuhliðin, er kippt alfarið undan með þeirri skýrslu sem Ríkisendurskoðun birtir. Í tekjuhlið fjárlagafrv. er gengið út frá áætlun ársins 1988 og grundvallað á henni í framreikningi á tekjuáætlun fyrir árið 1989. Þess vegna hefði það verið eðlilegt, eins og fram kom í ræðu hv. 1. þm. Suðurl. Þorsteins Pálssonar, formanns Sjálfstfl., strax í upphafi umræðu um virðisaukaskattinn að ríkisstjórnin gerði grein fyrir því með hvaða hætti hún hygðist bregðast við því sem þessi skýrsla leiðir í ljós með tilliti til fjárlagafrv. og legði fyrir Alþingi sínar hugmyndir þannig að þær fengjust skoðaðar af þingheimi og væru til umfjöllunar dagana áður en fjárlagafrv. verður tekið til 2. umr.
    Eins og fram kom hjá hv. 1. þm. Suðurl. er það fyrst í morgun að hæstv. forsrh. lætur þess getið í viðtali við Þjóðviljann að það eigi að ræða við stjórnarandstöðuna. Og eins og fram kom er það viðtal með þeim hætti að ekki verður auðveldlega skilið við hvað hæstv. forsrh. á. En þegar komið er að mánaðamótum nóvember/desember þá hefði þeim umræðum, sem þar er talað um, þurft undir eðlilegum kringumstæðum að vera lokið og samstaða að hafa náðst um afgreiðslu mála með einum eða öðrum hætti. Ég er ekki að tala um samstöðu um þau frv. sem þurfa að fara fram, heldur samstöðu um framgang mála. Þetta hefði þurft að liggja fyrir til þess að fjárlagafrv. fyrir árið 1989 gæti gengið fram undir eðlilegum kringumstæðum og verið það frv. og þau fjárlög sem stjórnarskráin gerir ráð fyrir.
    Þar sem í þessari skýrslu er vikið að

ríkisfjármálunum er m.a. bent á að í ræðu hér á Alþingi hafi hæstv. fjmrh. fjallað um þessa útkomu sérstaklega, eða eins og þar segir, með leyfi forseta: ,,Eins og fram hefur komið hér að framan er nú gert ráð fyrir að tekjuhalli á ríkissjóði verði ekki undir 3 milljörðum kr. [þ.e. þegar fjárlagaumræðan fór fram]. Bráðabirgðatölur fyrir október gefa til kynna að sú aukning innheimtu sem venjulega verður á síðustu mánuðum ársins geti orðið minni.``
    Hann segir enn fremur í ræðu sinni 27. okt. sl.: ,,Á grundvelli upplýsinga um afkomu fyrstu níu mánuði ársins og þeirra hækkana á gjaldahlið sem þekktar eru og með hliðsjón af öðrum stærðum í efnahagslífinu er hægt að leggja mat á afkomu ársins í heild . . . ``
    Hann bætir við og segir: Tekjuhalli ríkissjóðs gæti því orðið mun meiri og jafnvel nær fjórum milljörðum. --- Síðan bætir hann við: Það yrði ískyggileg niðurstaða, það eru fjórir milljarðar sem nú er staðreynd að áætlað er að verði fimm, og því er brýnt að ræða á næstunni hvort nauðsynlegt er að grípa til gagnráðstafana innan tíðar.
    Hér metur hæstv. fjmrh. það svo þegar aðeins er spáð fjögurra milljarða kr. halla á ríkissjóði að það þurfi að ræða málin og athuga hvort nauðsynlegt sé að grípa til gagnráðstafana innan tíðar. Nú þegar niðurstaðan er um fimm milljarðar þá spyr ég hæstv. fjmrh. hvort ekki sé ástæða til að ræða þessa hluti og grípa til gagnráðstafana innan tíðar. Ég met svo af því sem hér hefur komið fram að það sé ekki frekar samkomulag í ríkisstjórninni um þessa hluti heldur en um annað og þess vegna hafi hæstv. fjmrh. ekki verið og sé ekki hér og nú reiðubúinn til þess þar sem ekki hafa fengist svör við þeim fyrirspurnum sem hér hafa verið lagðar fyrir hann varðandi þessa hluti. En það hlýtur að vera grundvallaratriði, þegar ræddur er halli ríkissjóðs á árinu 1988, hvernig við verði brugðist í heild, hvernig dæmið verði leyst í heild árið 1989. Þegar það liggur fyrir af hálfu Alþingis, þ.e. af hálfu meiri hluta Alþingis, þá væri möguleiki á því að grípa til einhverra þeirra ráðstafana sem hann hefur sjálfsagt verið með í huganum þegar þessi orð eru sögð.
    Nú hefur það hins vegar verið að gerast á síðustu vikum, eða frá því að hæstv. fjmrh. flutti sína fjárlagaræðu og tíundaði með stórum yfirlýsingum hvernig hann hygðist leysa þessi vandamál og gera Alþingi grein fyrir því þegar vikur liðu, að hans samstarfsflokkar hafa verið að hverfa frá hugmyndum sem hann hefur sett fram og það verið sagt, m.a. af hæstv. forsrh., að sumt af því sem fjmrh. sagði hafi aðeins verið á umræðustigi og engar ákvarðanir teknar um þá hluti.
    Mér sýnist að það stefni í þannig fjárlagagerð núna að útgjaldahlið fjárlagafrv. verði ákveðin og síðan verði teiknaðar tölur til þess að fylla skarðið og e.t.v. hafðar það rúmar að hægt verði að sýna á því skjali greiðsluafgang til þess að standa við það sem hæstv. fjmrh. sagði í upphafi við 1. umr. fjárlaga. Það að tekjuhlið fjárlaga byggi á lögum sýnist mér ekki að verði nema að litlu leyti. Ef lög þau um tekjuöflun ríkissjóðs, sem í gildi verða þegar fjárlög verða

samþykkt, sem gert er ráð fyrir fyrir jól, þá skortir marga milljarða upp á til þess að sú útkoma náist sem hæstv. fjmrh. hefur verið að tala um.
    Ég er þeirrar skoðunar að sá skattur sem hér er til umræðu hafi aldrei verið til þess að réttlæta. Menn hafa að vísu stutt hann hér í sölum Alþingis en talið að sú leið sem fara ætti væri að lækka þennan skatt og láta hann svo hverfa. Eins og fram kom hér áður hefur verið staðið þannig að málinu frá því að hann var lagður á fyrst að ákvörðun um hann hefur verið tekin til eins árs í senn. En það var réttilega bent á það af hálfu hv. 1. þm. Vestf. hér áðan hvaða áhrif þessi skattur, þ.e. eins og honum er ætlað að verða, hefur nú á íslenskt atvinnulíf með einum eða öðrum hætti. Þar skiptir ekki máli hvort um er að ræða verslun eða útgerð. Þetta er skattheimta sem kemur til með að þyngja enn róðurinn hjá okkar útflutningsatvinnuvegum svo og íslenskri verslun.