Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Miðvikudaginn 30. nóvember 1988

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Það hefur komið fram í máli margra ræðumanna í tengslum við þetta frv. að hér er á ferðinni vandræðaskattur. Það eru ekki bara talsmenn stjórnarandstöðuflokkanna sem hafa haldið því fram heldur hefur það líka komið fram í máli hæstv. ráðherra, a.m.k. skildi ég hæstv. viðskrh. svo að hann væri sammála því að þessi skattur væri í eðli sínu ekkert sérstaklega þrifalegur. Auðvitað er hann það ekki, herra forseti, vegna þess að hann mismunar á milli greina í atvinnulífinu. Hann leggst með mismunandi hætti á atvinnuhúsnæði, þ.e. hann leggst bara á tiltekna tegund atvinnuhúsnæðis meðan aðrar tegundir atvinnuhúsnæðis sleppa við þennan skatt.
    Það er því alveg rétt hjá hæstv. viðskrh. að þessi skattur er í eðli sínu ranglátur að þessu leyti til. Þegar honum var komið á fyrir 10 árum síðan var það í algjörri andstöðu við Sjálfstfl., en það er ekki rétt sem hæstv. fjmrh. leyfði sér að halda fram hér í gær að Sjálfstfl. hefði síðan skipt um skoðun á þessum skatti, eða það að flokkurinn hefði neyðst til þess að styðja hann í nokkur ár væri til marks um slíka stefnubreytingu. Eina ástæðan fyrir því að sjálfstæðismenn á árabilinu frá 1983 þangað til í fyrra studdu þetta mál var sú að það var ekki hægt að ná nokkru samkomulagi við samstarfsflokkana um að falla frá þessari skattheimtu. Það er hin rétta túlkun á aðild Sjálfstfl. að þessari skattlagningu undanfarin fimm ár. Hins vegar er það líka þannig að aðstæður í ríkisfjármálum eru erfiðar um þessar mundir og þess vegna geri ég ráð fyrir því að við mundum fallast á að þessi skattheimta yrði óbreytt í því horfi sem verið hefur, þ.e. 1,1% skatthlutfall í staðinn fyrir þá tvöföldun sem hér er gert ráð fyrir með frv.
    Hæstv. fjmrh. á eftir að svara því hvort hann ætlar að taka í þá útréttu sáttahönd sem formaður Sjálfstfl. rétti honum hér áðan að þessu leyti til. Við værum eflaust tilbúnir til að brjóta odd af oflæti okkar og styðja þessa skattheimtu áfram, 1,1%, vegna aðstæðna í ríkisfjármálum þó að við séum andvígir þessari skattheimtu af sömu grundvallarástæðum og viðskrh. gerði hér að umtalsefni áðan.
    En hvað þýðir það þegar farið er með eignarskatt eins og þennan upp í 2,2 af hundraði fasteignamats? Það þýðir ósköp einfaldlega það að ríkið gerir þessa eign sem skatturinn leggst á upptæka á 40--50 ára bili. Það þarf ekki lengri tíma, u.þ.b. 45 ár til að þessi eign verði öll komin í vasa ríkisins. Hitt er svo annað mál að menn borga væntanlega skatt sem þennan af þeim tekjum sem eignin gefur af sér og þá komum við að því hvaða áhrif þetta hafi á tekjumyndunina þar. Það er náttúrlega augljóst mál að skattur sem þessi hefur áhrif á það afnotagjald sem inna verður af hendi í einni eða annarri mynd af þeim eignum sem skatturinn leggst á, í þessu tilfelli húsaleiguna sem hefur áhrif á það hvað leigjandinn þarf að fá fyrir sína starfsemi eða sína þjónustu. Ef þetta húsnæði er hins vegar ekki í leigu heldur í notkun eigandans þá hefur þetta auðvitað áhrif á hans rekstur, það verð sem hann þarf að fá fyrir sína þjónustu o.s.frv.

    Þetta hafa menn auðvitað gert hér að umtalsefni í umræðunum á undan mér og þetta hafa ráðherrarnir tekið undir vegna þess að þeir gera sér alveg grein fyrir þessu. Skattur sem þessi mun hafa áhrif á húsaleigu og vöruverð og væntanlega í mörgum tilfellum tilfinnanleg áhrif. En þeim er alveg sama um það því að þeir telja sig þurfa að fá þessa peninga.
    Hæstv. forsrh. spurði hér að því í gær hvað menn væru með í staðinn ef þeir gagnrýndu þessa tekjuöflun og sagðist tilbúinn að hlusta á alla möguleika í því efni. En það er nú þannig með ríkisfjármálin að það er ekki bara hægt að auka tekjurnar. Það er líka hægt að lækka útgjöldin. Ef ég mætti benda hæstv. forsrh. og fjmrh. í fjarveru hans á eitt gott atriði í því efni, sem mundi spara vel fyrir þeirri hækkun sem verður á þessum skatti og reyndar mun meiru, þá mundi ég vilja benda þeim á 500 millj. kr. sem þeir ætla að leggja í þann sjóð sem manna á meðal hjá fólkinu í landinu gengur undir nafninu Stefánssjóður. Sá sjóður á að fá hvorki meira né minna en 500 millj. kr. vegna þess að ríkisstjórnin skirrist við að leiðrétta rekstrargrundvöll atvinnulífsins, en ætlar þess í stað að skattleggja almenning í landinu upp á fleiri hundruð milljónir ef ekki milljarða til þess að leggja í slíkar millifærslur. Það er auðvitað engin mynd á slíkum málflutningi þegar menn koma hér og segja: Við verðum að fá þessa peninga, hækka hér alla tekjustofna ríkisins eins og nokkur kostur er vegna þeirrar kreppu sem er í ríkisfjármálum og eyða síðan peningunum í slíka vitleysu eins og hér er verið að tala um, millifærslur, borga niður tapið í atvinnulífinu í stað þess, eins og hv. 10. þm. Reykv. sagði, að horfast í augu við það að rekstrargrundvöllurinn er horfinn og það verður að skapa atvinnulífinu, útflutningsatvinnuvegunum nýjan grundvöll.
    Hvernig væri nú að núverandi stjórnarliðar og núverandi ráðherrar byrjuðu á því að hlusta á hv. 10. þm. Reykv. fyrst hann kvartar svo mjög undan því að það hafi ekki verið gert í fyrri stjórn? Ekki sýnist mér að höfundur fastgengisstefnunnar upphaflega, hæstv. núv. forsrh., ætli að gera mikið af
því núna því að það er margyfirlýst, m.a. núna síðast á flokksþingi Alþb., að það komi ekki til greina að hreyfa við genginu. En hæstv. síðasta ríkisstjórn mannaði sig upp í það oftar en einu sinni að hreyfa við genginu þó að þær aðgerðir hafi kannski ekki skilað nægilegum árangri, m.a. vegna skorts á nægilegum hliðarráðstöfunum en ekki síður vegna þess að gengi erlendra gjaldmiðla, gengi bandaríkjadollars ekki síst, hefur lækkað og máð út þær gengisbreytingar sem hæstv. síðasta ríkisstjórn beitti sér fyrir. Ég held að það væri vel til fallið hjá hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni, 10. þm. Reykv., að flytja þá ræðu sem hann flutti hér áðan yfir núv. ráðherrum og ríkisstjórn og kanna, ef gerð hafa verið slík alvarleg mistök á undanförnum mánuðum og missirum, hvort þessir herrar sem núna ráða ríkjum geta ekki tekið leiðsögn hjá hv. þm. í þessum málum.
    Hæstv. viðskrh. fór hér með tölur um það hvað sá skattur sem hér er til umræðu mundi skila miklum

fjárhæðum í ríkissjóð umfram það sem hann hefði gert ef lög um hann hefðu staðið óbreytt. ( Forseti: Forseti vill benda á að klukkan er nú rúmlega fjögur og þingflokksfundir hefjast um þetta leyti og vill því beina því til hv. þm. hvort hann muni geta lokið ræðu sinni innan fáeinna mínútna eða ekki.) Ég tel engar líkur á því, virðulegi forseti, að mér auðnist að ljúka máli mínu á örfáum mínútum. Ég er hins vegar fús til þess að gera hlé á ræðu minni ef óskað er eftir. ( F orseti: Það er einmitt hinn valkosturinn og þá óska ég eftir því að við veljum þá leiðina og tökum til aftur á næsta fundi.)