Áfengiskaup handhafa forsetavalds
Mánudaginn 05. desember 1988

     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil taka það fram áður en ég hef hið eiginlega mál mitt að ég hafði ekki óskað eftir sérstökum umræðum um það sem ég ætla að flytja hér þó að það sé auðvitað ekki í mínu valdi hvort það séu umræður um það eða ekki.
    Það hefur mikið verið talað síðustu daga um áfengiskaup handhafa forsetavalds. Með því að ég var sem forseti sameinaðs Alþingis einn af handhöfum forsetavalds í fimm ár þykir mér hlýða að flytja þinginu svohljóðandi yfirlýsingu:
    Þegar ég var forseti sameinaðs Alþingis keypti ég áfengi af Áfengisverslun ríkisins á kostnaðarverði. Mér var kunnugt um að handhafar forsetavalds hefðu þessi réttindi og svo væri í framkvæmd og enga athugasemd hefur Ríkisendurskoðun gert við mín áfengiskaup í fimm ár.
    Ég leit svo á að kaup mín á áfengi á þessum kjörum fylgdu embætti mínu og gengju raunar að hluta upp í risnukostnað vegna embættis míns sem ég bar sjálfur og gerði Alþingi ekki reikning fyrir. Alþingi greiðir að sjálfsögðu allan kostnað af opinberum veislum sínum og móttöku erlendra gesta og annað þess háttar sem til fellur, en alltaf vill það henda að vel geti farið á að forseti sameinaðs Alþingis fái menn á vegum þingsins, hvort heldur innlenda eða erlenda gesti, á sitt heimili ef við verður komið og veiti þar það sem þykir við hæfi. Forsetar erlendra þjóðþinga hafa ákveðna risnu til að mæta slíkum kostnaði, auk þess sem þeir hafa ráðherralaun. Hér er um hvorugt að ræða.
    Hins vegar hafa aðrir, svo sem ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, risnu. Það er jafnsjálfsagt sem það er vandfarið með þau fríðindi. Í raun og veru eru áfengiskaup handhafa forsetavalds angi af miklu stærra máli. Það varðar stjórnsýsluna í heild og þá ekki síst ríkisstjórn landsins. Hvarvetna þarf að hafa yfirsýn til samanburðar í þessu efni og beita því aðhaldi sem sæmir góðum stjórnarháttum.
    Með tilliti til atburða síðustu daga, fjölmiðlafárs hæstv. fjmrh. og glaðbeittra ummæla hæstv. forseta sameinaðs Alþingis um áfengiskaup mín vil ég bæta við nokkrum orðum.
    Málefnaleg gagnrýni er af hinu góða hvar sem við verður komið, en ég er hugsandi út af því sjónarspili sem alþjóð hefur verið áhorfandi að síðustu daga vegna áfengiskaupa handhafa forsetavalds. Ég ætla ekki hér að hafa uppi gagnrýni á einstaka fréttamenn eða fjölmiðla sem mest hafa aðstoðað við að koma sýningu þessari á fjalirnar, en ég kemst ekki hjá að víkja nokkrum orðum að hæstv. forseta og hæstv. fjmrh.
    Ég ætla ekki að í raun og veru geti verið ágreiningur um að handhafar forsetavalds hafi haft heimild til kaupa á áfengi á kostnaðarverði. Hins vegar getur menn greint á um hvað sé hæfilegt að nota heimildina mikið. Staðreyndin er að þessi réttur til áfengiskaupa hefur verið svo lengi sem elstu menn muna og að því er ætlað er frá fyrstu tíð þegar handhafar forsetavalds komu til.

    Nú hefur Guðrún Helgadóttir, hæstv. forseti, fullyrt að handhafar forsetavalds og þar með forseti sameinaðs Alþingis hafi ekki átt neinn rétt og kaupin á áfengi á kostnaðarverði hafi verið heimildarlaus. Ég leyfi mér að mótmæla þessari fullyrðingu sem rangri og órökstuddri. Ég nota þetta tækifæri til að mótmæla þó að ummælin hafi verið við fjölmiðla en ekki viðhöfð í forsetastól, enda er það ekki hlutverk hæstv. forseta að kveða upp dóm um lögmæti þessa. Hins vegar er það rannsóknarefni hvers vegna hæstv. forseti leggur sig fram um að halla réttu máli til að reyna að ófrægja forvera sinn.
    Hæstv. fjmrh. hefur vaðið fram á víðan völl í áfengiskaupamálinu þó að hann eigi stjórnskipulega enga aðild þar að. Að vísu heyrir undir hann Áfengisverslun ríkisins og sem slíkur gæti hann vandað um við starfsmenn fyrirtækisins ef ástæða hefði verið til út af þessu máli sem nú er ekki til að dreifa. Hins vegar hefur hæstv. fjmrh. ekkert að gera með handhafa forsetavalds eða nokkuð sem þeim við kemur hvort sem það eru áfengiskaup þeirra eða annað. Aðfarir hæstv. ráðherra brjóta í bág við reglur um stjórnskipun landsins og eru andstæðar allri góðri hegðun í stjórnsýslu.
    Eftir að Ríkisendurskoðun var gerð óháð handhöfum framkvæmdarvaldsins þurfti að móta venjur og reglur er varðaði yfirstjórn Alþingis á stofnuninni. En meginatriðið var að Ríkisendurskoðun starfaði sem áður sjálfstætt og væri bundin af almennum stjórnskipunar- og stjórnsýslureglum svo sem um hlutlæga málsmeðferð. Þetta er grundvallaratriði sem ríkisendurskoðandi hefur alltaf lagt áherslu á. Yfirstjórn Alþingis yfir Ríkisendurskoðun má aldrei vera andstæð þessari grundvallarreglu. Síst af öllu má beita eftirlitsvaldi að geðþótta og handahófi til að þjóna skammtímasjónarmiðum í stjórnmálabaráttu eða leggja einstaka menn í einelti. Fylgja verður föstum almennum reglum um hvaða upplýsingar eru birtar í stað þess að láta handahóf og tilviljanir ráða. Ef þessa er ekki gætt væri eftirlitsvaldið sannarlega illa komið í höndum Alþingis. Til þess má aldrei koma en áfengiskaupamálið nú minnir okkur á skyldurnar við réttarríkið.