Áfengiskaup handhafa forsetavalds
Mánudaginn 05. desember 1988

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Vegna ummæla fyrrv. hæstv. forseta sameinaðs þings hlýt ég að segja þetta:
    Ég harma mjög orð hans í minn garð sem eru byggð á miklum misskilningi. Ég hef engin afskipti haft af þessu máli í fjölmiðlum önnur en þau að ég hef verið spurð um gildandi reglur. Því hef ég svarað og þær eru á þennan veg:
    Forseti sameinaðs þings nýtur engra sérréttinda varðandi áfengisinnkaup hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Fyrir því liggur bókun ríkisstjórnarinnar frá því í október, nánar tiltekið minnir mig 14. október, 1971 þar sem þau fríðindi ráðherra og forseta Alþingis voru afnumin. Um þetta verður ekki deilt.
    Það kann svo að vera túlkunaratriði hvort handhafar forsetavalds eru handhafar hver í sínum rétti. Ég tel svo ekki vera. Ég tel að þegar forseti landsins víkur sér af landi og handhafar taka við hljóti þeir allir eða enginn að koma fram fyrir hönd forseta lýðveldisins.
    Ég veit ekki til þess að þess hafi nokkurn tíma gerst þörf að móttöku þyrfti að halda í nafni forsetans þar sem áfengi var haft um hönd og þess vegna tel ég að ekki hafi verið ástæða fyrir þessum innkaupum.
    Þetta er skoðun mín og minn skilningur á þessum reglum og aðrar yfirlýsingar hef ég ekki gefið varðandi þetta mál.