Bætt samkeppnisstaða innlends skipaiðnaðar
Mánudaginn 05. desember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég skil mætavel að hæstv. forseti hafi leyft hér umræður utan dagskrár um málefni sjávarútvegsins, sem auðvitað er nátengt því máli sem hérna átti að vera fyrst á dagskránni, og tel að það þurfi að sjálfsögðu að ræða það mál eftir það sem síðast hefur gerst í þeim málaflokki, en ég harma það að hæstv. forseti skuli hafa leyft flm. endurfluttrar till. að koma í pontu og flytja ræðu. Þetta mál var ekki brýnt. Þetta mál kom upp í fyrra og það gat vel beðið. Ég ber fulla virðingu fyrir þeim sem standa á þingpöllum, en það er lágmark að aðrir fái að segja sitt álit á þessu máli, ekki síst þeir sem hafa unnið að þessum málum að undanförnu. Og ég harma að það skuli hafa gerst hér í dag að stjórnarþingmanni er hleypt upp í pontu, látinn tala fyrir þessari endurfluttu þáltill., sem er hrein árás á hæstv. sjútvrh., og síðan á að slíta þessa umræðu í sundur. Ég er næstur á mælendaská í þessari umræðu og mér þykir það fjári hart, svo ekki sé nú fastar að orði kveðið, ef það á að gilda hér að aðeins einn maður úr stjórnarliðinu megi fá að tala í þessu máli og síðan eigi að taka málið út af dagskrá vegna annarrar umræðu. Þá hefði verið þrifalegra, hæstv. forseti, að byrja í upphafi á utandagskrárumræðunni. Þá hefði enginn getað kvartað neitt í þessum þingsal.