Bætt samkeppnisstaða innlends skipaiðnaðar
Mánudaginn 05. desember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Hæstv. forseti. Það hefur verið upplýst af hæstv. forseta að það er hægt fyrir hv. stjórnarþingmann að koma með beiðni um að mál sé tekið fyrir. Hann fái einn að tala vegna þess að hann hafi áheyrendur á þingpöllum. Ég held vegna jafnræðisreglunnar, hæstv. forseti, að forseti hljóti, a.m.k. næst þegar slík ákvörðun er tekin, að verða að átta sig á því að það kann að vera að það þurfi að gefa fulltrúum annarra flokka en stjórnarflokkanna tækifæri til þess að ræða þetta mál og það í viðurvist áheyrenda á pöllunum og mun ekki af veita. Þess vegna sagði ég áðan að ég harma þann úrskurð forseta að láta slíta þessa umræðu í sundur með þessum hætti. Gagnrýni mín beinist að því að byrja ekki umræðu um till. hv. þm. Stefáns Guðmundssonar síðar þannig að við gætum klárað það mál sem allir eru sammála um að er mjög brýnt og varðar sjávarútveginn og síðan sé mál hv. þm. Stefáns Guðmundssonar tekið í heilu lagi. Auðvitað þurfa áheyrendur á þingpöllum og þjóðin að fá að fylgjast með þessum umræðum um skipasmíðastöðvarnar og skipasmíðaiðnaðinn í heilu lagi. Á þessu byggðist mín gagnrýni. Það hefur hins vegar komið fram í þessum umræðum hvers vegna hæstv. forseti gerði þetta. Það var vegna þess að það voru eindregin tilmæli eins stjórnarþingmannsins sem einn vildi fá að ná eyrum manna sem standa hér á þingpöllum.