Bætt samkeppnisstaða innlends skipaiðnaðar
Mánudaginn 05. desember 1988

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Forseti vill upplýsa að hv. 3. þm. Norðurl. v. hafði engin áhrif á það hvort þessi umræða færi fram í heilu lagi eða hvort hún yrði sundur slitin. (FrS: Þess vitlausari er úrskurður forseta.) Það var ákvörðun forseta til þess að sýna stjórnarandstöðunni viðlíka tillitsemi og stjórnarþingmönnum. Það er því alrangt að hér hafi verið gerður munur á stjórn og stjórnarandstöðu. Forseti telur ekki neinn vafa á því að þeir áhugamenn um skipasmíðar sem hér eru komnir muni vel geta hugsað sér að hlýða hér á umræður um vanda sjávarútvegsins þar sem þessi mál eru svo nátengd. (FrS: Af hverju var þá ekki byrjað á því máli?) Ég hygg þess vegna að allir geti komið fram sínu máli hér í dag.