Vandi sjávarútvegsins
Mánudaginn 05. desember 1988

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Sú utandagskrárumræða um afkomu sjávarútvegsins sem hér er hafin af stjórnarandstöðuflokkunum er bráðnauðsynleg og það af mörgum orsökum. Í fyrsta lagi verður að grípa þegar í stað í taumana og taka með afgerandi hætti á þessu mikla vandamáli. Í öðru lagi verður að tryggja öllum fyrirtækjum sömu fyrirgreiðslu og meðferð þeirra að fara eftir fyrir fram ákveðnum áætlunum og reglum. Í þriðja lagi verða aðgerðirnar að byggjast á heildaryfirsýn yfir alla þætti þjóðarbúsins og afleiðingum þeirra sem hljótast af hinum ýmsu sviðum þjóðlífsins. Ekki er deilt um hver rekstrarstaðan hjá fyrirtækjum í sjávarútvegi er, heldur hvað gera skuli og hvernig.
    Í fjölmiðlum sl. daga hefur verið tæpt á þessu. Það þarf ekki út af fyrir sig að vitna mjög mikið í það, svo kunn eru þau ummæli sem þar hafa verið höfð í frammi. En ef maður ræðir sérstaklega um 30 fyrirtæki í sjávarútvegi sem voru tekin út úr og gerð úttekt á, að þar er mikill vandi á höndum, mun meiri en Þjóðhagsstofnun hafði áður gert ráð fyrir og það er talandi dæmi um hvernig staða sjávarútvegsins er.
    Þær aðgerðir sem hafa verið í bígerð hafa náttúrlega ekki borið neinn árangur því það hefur ekki verið gert neitt undanfarna mánuði sem hefur skipt máli. Í riti Fiskifélags Íslands frá 1987 kemur fram hver er afkoma vélbáta og togara fyrir utan fjármagnsliði það árið og er þá hagnaður af þeim, en þegar fjármagnsliðir hafa verið teknir inn í er afkoman öfug hjá öllum tegundum skipa nema togara af minnstu gerð. Þetta segir ákveðna hluti og gefur okkur vísbendingu um hvað er að gerast í þessari mikilvægu atvinnugrein okkar. Því hefur verið haldið fram að ein aðalorsökin í þessum málum og hvernig komið sé sé m.a. aflasamdráttur. Er það rétt?
    Í bráðabirgðatölum frá Fiskifélagi Íslands frá 5. nóv. 1988 kemur fram að aflatölur fyrir 1988 í heild eru hærri en aflatölur fyrir sama tíma frá 1987 þannig að það er ekki um samdrátt í afla að ræða. Það er rangt. Það er ekki þess vegna. Og þá er spurningin: Er rétt að það hafi orðið svo mikið verðfall á erlendum mörkuðum að það hafi úrslitaáhrif? Ef litið er á verð á erlendum mörkuðum undanfarin ár kemur í ljós að verð núna er með hærra lagi þannig að það er heldur ekki rétt þó við höfum eignast á tímabili heldur meira og hærra verð en eðlilegt má telja.
    Því hefur líka verið haldið fram að þetta hafi orðið til vegna þess að dollarinn hafi fallið svo mikið. En hver er þróun gjaldmiðla og annarra þátta til samanburðar? Ef við tökum yfir tíu ára tímabil frá 1979, frá því að hin frægu Ólafslög voru sett, kemur í ljós að þýska markið er skráð miðað við það frá 100 og upp í 1252 stig. Bandaríkjadollarinn er þó ekki nema rétt aðeins lægri. Hann er 1209. Breska pundið er 1008 og danska krónan 934 kr. En lánskjaravísitala er komin upp í 2051 stig. Hvað segja þessar tölur? Þær segja að dollarinn hefur ekki lækkað jafnmikið og talað er um. Hann er nálægt því að vera jafnmikils virði og þýska markið á þessu tímabili, á tíu ára

tímabili, og hann er hærri en bæði breska pundið, en þar eigum við mikil viðskipti í þessari atvinnugrein, og danska krónan. En lánskjaravísitalan er nærri helmingi hærri. Þá erum við komin að rótum þess vanda sem sjávarútvegurinn býr við og það er hin óeðlilega taka af fjármagnskostnaði og fjármagni frá fyrirtækjum. Þess vegna er komið svo fyrir fyrirtækjunum fyrst og fremst.
    Í fjölmiðlum hefur verið rætt um gengisfellingu og ef við lítum á þá aðgerð eina saman verðum við að hugsa um ýmislegt fleira. Hvaða áhrif hefur gengisfelling? Það hefur verið talað um 20% gengisfellingu. Þjóðarskuldir Íslendinga eru um 130 milljarðar. Ef við fellum gengið um 20% þýðir það að þjóðarskuldirnar aukast um 26 milljarða. Vandi sjávarútvegsins er talinn á bilinu 5--8 milljarðar þannig að við erum að fara öfuga leið. Það verður að reikna út alla þá þætti sem um er að ræða í þessu sambandi og það má ekki fara í gengisfellingu aðeins ef beðið er um það. Vandi sjávarútvegsins er allt annar og öðruvísi en að gengisfelling komi til greina. Ég vitna í að það hefur verið haft viðtal við marga forustumenn sjávarútvegsins undanfarið og þegar hefur verið gengið á þá í þessu sambandi hafa þeir sagt að gengisfelling sé aðeins skammtímalausn.
    Ég ætla að minna á að í maí sl. skrifaði ég grein í Morgunblaðið um þessi efni, en þá voru sjálfstæðismenn, framsókn og kratar í stjórn, vegna þess að þá var rætt um gengisfellingu líka og einn flokkurinn talaði um 7% gengisfellingu, einn um 12% og sá þriðji um 20% gengisfellingu. Það lágu nefnilega engir útreikningar fyrir um hve þyrfti að fella gengið mikið eða hvort það þyrfti að fella gengið. Það er mikilvægt í þessu að það verður að hafa allar stærðir útreiknaðar og það verður að reikna út hvort gengisfelling hefur þá þýðingu sem um er að ræða. Þá erum við komin að því sem frægt var á sinni tíð þegar hv. 5. þm. Reykv. Albert Guðmundsson lét falla þau orð að nú þyrfti að grípa til pennastriksins. Hvað var hann að tala um þá? Hann var að tala um að höfuðstóll skuldanna yrði reiknaður til baka og eðlilegir vextir lagðir á hann. Ef við lítum á fyrirtæki sem hefði tekið lán með lánskjaravísitölu 1979 og lítum á höfuðstól núna væri hann 205 millj. Ef það
hefði tekið sama lán í bandaríkjadollurum væri það 20 millj., ef það hefði tekið það í þýskum mörkum 25 millj. og í breskum pundum væri það 100 millj. Í þessu sést munurinn. Það hefur verið tekið fjármagn frá útveginum í bankakerfið sem er raunverulega niðurgreitt vegna þess að fjármagnskostnaðurinn hefur verið gífurlegur og allt of mikill og í því er fyrst og fremst vandi útvegsins fólginn.
    Við hljótum að höggva á þá hnúta sem þar eru og við höfum margoft talað um. Það kom einmitt í ljós í nýlega gerðri úttekt að á sama tíma sem tapið er svona í sjávarútvegi er ekki tap í viðskiptabönkunum. Þá er talað um að hlutfall af tekjum hafi verið í fyrra 9,6%, hagnaður af sparisjóðum 15,6% og önnur fjármagnsfyrirtæki munu hafa skilað um 19,5%

hagnaði og tryggingafélög 9,7%. Þarna eru hin stóru viðskipti fyrirtækja í sjávarútvegi. Ég held að það verði að taka þetta í einum pakka og sjá hvort það er ekki meira vit í því að það verði grynnkað á skuldum þessara fyrirtækja í heild. Þær teknar yfir með einhverjum hætti og þau látin reka sig frá þeim degi á eðlilegum fjármagnsskuldum því öðruvísi tel ég að það verði ekki hægt að laga þessi mál.
    Við stöndum líka á tímamótum í sjávarútvegi. Við höfum lagt mikið upp úr frystingu allt frá því að við vorum að hefja frystingu og flytja á Bandaríkjamarkað þangað til núna. Núna eru ýmsar blikur á lofti og breyttar viðskiptavenjur. Með fisk eins og allar aðrar vörur er það að gerast að menn vilja heldur ferskan fisk eins og ferska ávexti og önnur matvæli en frystan. Með breyttri samgöngutækni er meiri ásókn í nýmeti og við fáum hærra verð fyrir það einnig. Við sjáum að nú mun fyrirtækið ,,Flying Tiger`` hafa óskað eftir lendingarleyfum hér til að fljúga beint til Japans með ferskan fisk sem þeir eru að hugsa um að flytja héðan. Við sjáum að hér á landi eru staddir fulltrúar frá Frakklandi sem eru að hugsa um að tryggja sér ferskan fisk héðan. Og við heyrum um að fulltrúar frá Bretlandi, af Humber-svæðinu, eru hér staddir til að tryggja sér viðskipti á ferskum fiski. Þetta þýðir að við munum verða að horfa á þau vandamál sem blasa við með þeim hætti að hugsa um breyttar aðstæður. Það er ekki hægt að ganga fram hjá því að við verðum að reikna út hvað er hagstæðast fyrir okkur því annað væri mjög óskynsamlegt.
    Í blöðum hefur það einnig komið nýlega fram að Efnahagsbandalagið hefur gert athugasemdir við að hér skuli vera takmörkun á útflutningi eða stjórn á útflutningi fersks fisks, kvótakerfi hér, á markaði þangað. Þetta er brot á okkar samningum við Efnahagsbandalagið og þetta er líka brot á okkar samningum við GATT þannig að það er ljóst að íslensk stjórnvöld munu snúa frá þessari stefnu fljótlega og það verður frjáls útflutningur héðan. Við verðum að búa okkur undir það, eins og ég kom að í mínum málflutningi þegar ég flutti hér frv. fyrr í haust um frjálsan útflutning, að samtök þeirra sem eru í útgerð taki þessi mál sjálf á sínar hendur og reyni að stýra því með þeim hætti sem hagstæðast er. Það er alveg ljóst að þessi mál verða breytt á næsta ári og við getum ekki gengið fram hjá því.
    Hér hefur verið rætt um vanda sjávarútvegsins og komið inn á Atvinnuleysistryggingasjóð. Í fregnum hefur komið fram að eitt ákveðið fyrirtæki hafi fengið alveg sérstaka fyrirgreiðslu nýlega. Ég vil spyrja hæstv. sjútvrh. hvort það sé þá ekki raunin að önnur fyrirtæki muni fá sömu fyrirgreiðslu því það er mjög mikilvægt að öll fyrirtæki fái jafna fyrirgreiðslu. Svo er hitt málið, að það er nokkuð ljóst að það eru fyrirtæki hér sem mun ekki vera hægt að reka hvort sem mönnum líkar það betur eða verr vegna þess að fjármagnskostnaðurinn er svo mikill og skuldirnar svo miklar að það er útilokað að reka þessi fyrirtæki. Ég get nefnt fyrirtæki sem skuldar nærri því 600 millj., en á eignir upp á 300 millj. að talið er. Það fyrirtæki

mun aldrei geta borið sig vegna þess að það er komið út í það fen af skuldum að því verður ekki breytt, hvorki með gengisfellingu né öðrum aðgerðum, nema með pennastriki. Það er kannski mikilvægast í þessum málum að við verðum að líta yfir allt sviðið, horfa á heildardæmið, reikna út hvort við eigum bara ekki að nota pennastrikið og strika út skuldir umfram eðlilegan höfuðstól þannig að fyrirtækin standi í raun á réttum grunni. Ég held að þetta sé eina lausnin.
    Ég hef farið lauslega yfir þessi mál. Það er hægt að kafa dýpra í þetta og miklu víðar hægt að koma við, en það er hins vegar alveg ljóst að það verður að reikna út stöðu mála, hvað er best að gera og hvernig á að gera það, og mér sýnist í fljótu bragði, miðað við þær upplýsingar sem ég hef, að gengisfelling muni ekki á þessu sviði koma að þeim notum sem ætlast verður til. Það verði því að grípa til annarra ráða en gengisfellingar. Ég hef minnst hér á pennastrikið sem ég tel einu raunhæfu leiðina til að koma þessum fyrirtækjum á réttan kjöl.