Vandi sjávarútvegsins
Mánudaginn 05. desember 1988

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Af fréttum af dæma er nú tími Rómarbrennu runninn upp. --- 1842 kr. tap á mínútu. Þjóðlíf á brauðfótum. Tíminn að renna út. Fyrirtæki að brenna upp. Tap fiskvinnslunnar 2 milljarðar á árinu. Allt á hausnum nema rekstur banka, sparisjóða, tryggingarfélaga og annarra fjármagnsfyrirtækja. Þetta eru sýnishorn af fyrirsögnum blaðanna nú um helgina og á þessu síðasta atriði tók hv. síðasti ræðumaður í sínu máli.
    Oddviti ríkisstjórnarinnar segir m.a. í Tímanum á laugardaginn, með leyfi forseta: ,,Því verður ekki neitað að staðan er satt að segja svo alvarleg að orða megi það sem svo, eins og einn sjávarútvegsmaður sagði við mig, að þessi höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar stefnir hraðbyri í að vera með neikvæða eiginfjárstöðu eða eins og venjulega er sagt ,,gjaldþrota``.``
    Hér er ekki verið að fegra ástandið. Það er hins vegar fátt um fína drætti þegar leitað er eftir viðbrögðum ríkisstjórnarinnar eða eins og segir í grein Tímans á laugardag, með leyfi forseta: ,,Hvað hyggst ríkisstjórnin gera í málunum? --- ,,Það er unnið að þessum málum á mjög mörgum stöðum og verið að draga saman heillegri upplýsingar en ég hygg að hafi áður legið fyrir um þessi mál``, sagði Steingrímur. Hann sagði að í næstu viku verði rætt við aðila atvinnuveganna og forsvarsmenn launþega um stöðu mála og í framhaldi leitað frekari leiða til að rétta við atvinnuvegina.``
    Það sem við blasir án þess að leita þurfi heillegri upplýsinga er að hvert fiskvinnslufyrirtækið af öðru hefur hætt starfsemi eða beðið skipbrot. Uppsagnir starfsfólks eru í stórum stíl hafnar og atvinnuleysi yfirvofandi í meira mæli en lengi hefur þekkst. Tap, lokanir og hrun blasir alls staðar við.
    Eitt af því sem kannski fyrst og fremst vekur athygli er að svokallaðir ráðamenn í þjóðfélaginu skuli koma fram á þennan hátt með jöfnu millibili og lýsa efnahags- og atvinnuástandi eins og hér sé um eitthvað óvænt að ræða, rétt eins og náttúruhamfarir sem enginn getur séð fyrir. Og í hvert sinn er talað um að athuga og skoða og afla gagna og leita leiða. Slíkar yfirlýsingar eru auðvitað aðeins viðurkenning á því að allar þær ráðstafanir á aðgerðir ofan sem gerðar hafa verið hafa aðeins orðið til þess að slá vandanum á frest og lengja í hengingarólinni eins og það hefur stundum verið orðað.
    Ráð ríkisstjórnarinnar við vanda sem málaður er dekkri litum en við höfum lengi séð eru, svo að vitnað sé til orða hæstv. forsrh., ,,að draga saman heillegri upplýsingar``. Um það vil ég m.a. segja þetta: Að þegar ótryggt efnahags- og atvinnuástand var sem mest til umræðu á sl. hausti og stólar teknir að liðast sundur undir þáv. ráðherrum leituðum við kvennalistakonur fast eftir heillegum upplýsingum um stöðu fyrirtækja, fyrst og fremst í sjávarútvegi. Við fengum þær ekki. Okkar krafa helgaðist ekki síst af því að fjölmargar konur, sem starfa hjá ýmsum fyrirtækjum, fiskvinnslufyrirtækjum víðs vegar um landið, höfðu lýst því yfir við okkur að þær hefðu

miklar efasemdir um hagkvæman rekstur þeirra fyrirtækja sem þær starfa hjá, en litla sem enga aðstöðu til að sanna eða afsanna þær efasemdir sínar.
    Við fengum meðaltalstölur eins og aðrir um rekstur og stöðu fyrirtækja í sjávarútvegi, en tölur um frávik fengum við ekki. Það voru sagðar svo viðkvæmar upplýsingar. En það eru að okkar dómi einmitt upplýsingar sem skipta afar miklu máli. Það er engin leið að átta sig á hinni raunverulegu stöðu eftir tölum um meðaltalsafkomu. Við verðum að hafa á borðinu sundurgreindar upplýsingar um stöðu fyrirtækja í sjávarútvegi og við verðum að hafa vissu eða a.m.k. vísbendingar um hvað liggur að baki góðrar eða slæmrar afkomu þeirra. Með tilliti til þessa lögðum við kvennalistakonur ásamt fulltrúum annarra þingflokka í stjórnarandstöðu fram beiðni til hæstv. forsrh. um skýrslu um stöðu og rekstur tíu verst stöddu og tíu best stöddu fiskvinnslufyrirtækja í landinu. Við óskuðum eftir nákvæmlega sundurgreindum upplýsingum um hvert fyrirtæki fyrir sig þannig að fram kæmi stærð vandans eða hagnaðarins og hvað lægi þar að baki, hvort sem um væri að ræða hagnað eða tap. Þetta eru að okkar mati nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að ráðast að rótum þessa ástands og þess vanda sem kemur upp aftur og aftur. Þessi beiðni er á þskj. 73 og var leyfð á fundi í Sþ. 7. nóv. sl. Skýrslan hefur ekki látið á sér kræla þrátt fyrir alla þá aðila sem til er að leita í þessu efni. Mig undrar þetta og ég vil nota þetta tækifæri til að minna á þessa skýrslu og reka á eftir henni.
    Þarna væri að fá t.d. þær heillegu upplýsingar sem hæstv. ríkisstjórn hefði átt að hafa á borðinu fyrir löngu. Það er alls ekki nóg að hafa meðaltalsupplýsingar um hlutfallslega skiptingu hinna ýmsu kostnaðarþátta t.d. í fiskvinnslu, skiptingu á milli hráefniskaupa, launagreiðslna, fjármagnskostnaðar og fleiri liða. Slíkt er mjög mismunandi á milli fyrirtækja og upplýsingar um þessi atriði geta sagt okkur mjög mikið. Ég hvet hæstv. ráðherra til að kalla þegar í stað eftir þessari skýrslu.
    Ég verð að segja að ég skil ekki tilganginn með síendurteknum yfirlýsingum ráðherra um ástandið, það ástand sem hefur í rauninni verið öllum ljóst í marga mánuði. Kannski er verið að reyna að lama viðnámsþrótt þeirra sem næstu
efnahagsráðstafanir bitna enn og aftur á. Nú er t.d. aftur farið að ýja að niðurfærsluleiðinni sem ýmsir litu hýru auga á liðnu sumri. Hún skýtur aftur upp kollinum í umræðunni þegar æ fleiri hafa í rauninni misst trú á þeirri millifærsluleið sem valin var. Við þessu mátti svo sem búast, en hugsanlega er þetta bara útspil til að undirbúa jarðveginn fyrir það sem helst ekki má nefna í þessu húsi. Kröfurnar um þá leið, þ.e. hina ónefnanlegu gengisfellingu, eru orðnar háværar og allir vita að sú leið hefði verið valin fyrir löngu ef henni fylgdu ekki alvarlegir kvillar sem gera slíka lækningu vafasama.
    Ýmsir, m.a. stjórnmálamenn og jafnvel stjórnmálamenn sem talið er að styðji þessa ríkisstjórn,

hafa tjáð sig um þennan möguleika til leiðréttingar á stöðu útflutningsfyrirtækjanna og bent enn fremur á leiðir til að tryggja árangur slíkrar aðgerðar sem ég ætla ekki að dæma um á þessari stundu. En það vekur vissulega athygli að slík umfjöllun tekur ævinlega til vanda fyrirtækjanna, en gjörsamlega er sneitt hjá þeim gífurlegu áhrifum sem mikil gengisbreyting hefði á afkomu launafólks. Afkoma launafólks og heimilanna er afgangsstærð eins og venjulega.
    En virðulegi forseti. Ég ætla ekki að vera langorð. Hæstv. ráðherra hefur fengið að heyra forsendur fyrir þessari umræðu utan dagskrár sem er óhjákvæmileg með tilliti til umræðunnar og yfirlýsinga hæstv. ráðherra. Það liggur í loftinu að ríkisstjórnin grípi til aðgerða, enda geta ráðherrar hennar ekki leyft sér keisaratilburði á meðan Róm brennur. Við kvennalistakonur höfum fullan skilning á erfiðri stöðu atvinnulífsins og þjóðarbúsins og erum reiðubúnar að styðja sanngjarnar úrlausnir sem auðvitað hljóta að byggjast á sameiginlegu átaki landsmanna. En við leggjum áherslu á mismunandi aðstæður fólks í þessu landi og við getum ekki fallist á lausnir sem þrengja að láglaunafólki. Það verður að vera alveg skýrt.
    Ég ætla ekki að endurtaka þær fyrirspurnir sem fram hafa komið en bæti við aðeins einni. Finnst hæstv. sjútvrh. forsvaranlegt að ganga á ráðstöfunarfé Atvinnuleysistryggingasjóðs í því ástandi sem nú ríkir?