Vandi sjávarútvegsins
Mánudaginn 05. desember 1988

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé mjög gagnlegt að taka þessi mál til umræðu á hv. Alþingi og fagna því að þessi alvarlegu mál séu tekin til umræðu og get vel skilið að þingmenn hv. stjórnarandstöðu sjái nauðsynlegt að ræða þessi mál hér. Ég vil á engan hátt draga úr hinni alvarlegu stöðu sem ríkir í málefnum sjávarútvegsins og ég tel eðlilegt að málefni atvinnuveganna séu til umfjöllunar á Alþingi á næstu dögum jafnhliða því að hér verður reynt að ná samkomulagi um afgreiðslu á fjárlögum og tekjuöflun vegna ríkisútgjalda. Afkomumál sjávarútvegsins og atvinnuveganna hljóta að verða til umfjöllunar í því sambandi og á það mun áreiðanlega reyna hér á Alþingi hvort takast muni að koma saman skynsamlegum fjárlögum sem jafnframt taki mið af atvinnulífinu í landinu. Þetta er erfitt viðfangsefni sem ekki er eingöngu á færi hæstv. ríkisstjórnar og stuðningsmanna hennar. Þetta er málefni sem varðar allt þingið og því er eðlilegt að það sé rætt hér.
    Ég vildi aðeins hverfa nokkuð aftur í tímann og líta á nokkrar stærðir úr okkar þjóðarbúskap til að færa að því nokkur rök að kjör í landinu séu umfram það sem sjávarútvegurinn þolir og nauðsyn þess að menn viðurkenni þær staðreyndir. Ég segi það ekki vegna þess að það sé eitthvert sérstakt kappsmál mitt eða annarra þingmanna að rýra kjör landsmanna, en þeir sem ekki vilja horfa framan í staðreyndir þessar, sem eru æðimargir, eru í reynd að vinna því fylgi að þessum atvinnugreinum blæði út. Þetta sést í einföldum töflum um hlutfall launa af vergum þjóðartekjum á Íslandi og nokkrum nágrannalöndum sem nýlega hefur verið birt. Þar kom fram að þetta hlutfall var 1983 62,2%, árið á undan 69,8% en það var um það leyti sem mjög umfangsmiklar ráðstafanir voru gerðar í sjávarútvegi. Síðan hefur þetta hlutfall farið hækkandi með hverju ári, var 72,1% 1987, er áætlað 1988 73,6% og er áætlað 1989 72,3%. Það getur engin þjóð í hinum vestræna heimi, þar sem við þekkjum fyrst og fremst til, staðið undir þessu hlutfalli launa. Það er ekki mögulegt. Það sem hefur reynst mögulegt í flestum löndum, eins og t.d. okkar nágrannalöndum, er á bilinu 60--65%.
    Ég vil ekki draga úr þeim áhrifum sem fjármagnskostnaðurinn og fjármagnsfyrirtækin hafa haft á atvinnugreinarnar. Það er alveg ljóst að vaxtatakan og fjármagnskostnaður hér á landi undanfarin ár hafa verið allt of há. En það er sjálfsblekking að halda því fram að launin skipti engu máli og um þau þurfi ekkert að tala. Þetta kemur jafnframt fram í því að á árinu 1985 jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna um 10,8%, á árinu 1986 um 9,7% og á árinu 1987 um 20,4%. Það ætti öllum að vera ljóst að svo mikil aukning ráðstöfunartekna er ekki möguleg, hvorki í okkar landi né öðrum. Þarna var gengið allt of langt og við stöndum frammi fyrir því að leiðrétta það með einhverju móti.
    Ég vildi aðeins fara yfir það sem gerst hefur undanfarið ár og rúmlega það sem er mikilvægt í þessu sambandi, fyrst við myndun fyrri ríkisstjórnar

vorið 1987 þar sem var ákveðin tregða og jafnvel ákveðin vanþekking á því sem hafði gerst og ætla ég þá ekki að undanskilja einn né annan. En mönnum auðnaðist ekki að taka á fjármálum ríkisins og ýmsu öðru eins og nauðsynlegt hefði verið að gera. Það kom reyndar mjög vel í ljós haustið 1987, síðast í september, þegar verðbótaþáttur launa hafði hækkað um 6% og átti að bætast við umsamdar launahækkanir, að það var um það rætt m.a. við aðila vinnumarkaðarins hvort ekki væri skynsamlegt að fresta þessum launahækkunum þar til kjarasamningar væru gerðir. Þetta var ekki gert. Þá hækkuðu laun um rúmlega 7% og jafnframt lá það fyrir að verðlag á erlendum mörkuðum fór lækkandi. Það vissu allir að fyrir þessu voru ekki til neinir peningar. Það var þá rætt hvort ekki væri nauðsynlegt að taka tillit til þessara staðreynda með breytingu á gengi. Það var rætt í fyrri ríkisstjórn, rætt við aðalráðgjafa ríkisstjórnarinnar í gengismálum, sem er að sjálfsögðu Seðlabankinn, en niðurstaðan varð sú að hér ætti við engu að hreyfa, m.a. vegna þess að kjarasamningar væru fram undan og það væri óskynsamlegt að grípa til slíkra ráðstafana því að þær mundu ekki skila sér.
    Síðan voru gerðir kjarasamningar um veturinn, fyrst á Vestfjörðum og síðan annars staðar, sem höfðu í för með sér um 10% upphafshækkun. Þá var ákveðið að breyta gengi hinnar íslensku krónu um 6%. Það var öllum ljóst, sem að þessum kjarasamningum stóðu, ekki síst vinnuveitendum í landinu, að hér var teflt á tæpasta vaðið og engin von til þess að sjávarútvegurinn gæti staðið undir þessu. Þeir mæltu hins vegar með því að ekki yrði gengið lengra og Seðlabankinn var enn við sama heygarðshornið og taldi að ekkert ætti að gera. En það var samt gert þó að ég fari ekki dult með að ég taldi að hér væri of skammt gengið.
    Síðan voru enn gerðar ráðstafanir í maí sl. Þá var genginu breytt um 10% og fiskverðshækkun, sem var óhjákvæmileg, aðeins um 5%, sem er mun minni hækkun en aðrar hækkanir sem hafa verið hér innan lands, kom í kjölfarið og samþykkt var heimild til ríkisstjórnar að breyta genginu um 3%. Það var þvælt um það allt sl. sumar fram og til baka hvenær ætti að nota þessa heimild.
Auðvitað átti að nota hana strax eftir að fiskverðshækkun fór fram. Menn gerðu það hins vegar ekki og ekki stóð á ráðgjafa ríkisstjórnarinnar í gengismálum sem taldi að hér ætti alls ekki að hreyfa eitt né neitt.
    Síðan gerist það, eins og hv. 1. þm. Suðurl. tók fram, að mynduð var ný ríkisstjórn og hann sagði að aðalágreiningurinn hefði verið sá hvort ætti að fara í biðleiki eða ekki. Ég býst nú við, ef allrar sanngirni er gætt, að allt sem verið er að gera í efnahagsmálum á hverjum tíma megi á vissan hátt skilgreina sem biðleiki vegna þess að menn vita ekki um allt það sem fram undan er, eru að vonast eftir því að betur muni ganga, eru í óvissu um það hvort nauðsynlegur friður skapist um aðgerðirnar o.s.frv., o.s.frv. Að það hafi hins vegar verið sá grundvallarágreiningur sem

kom fram í hans máli vil ég ekki kannast við að því er varðar tekjumál sjávarútvegsins vegna þess að annars vegar var verið að tala um það að nýta þá heimild sem var til gengisbreytinga, að fella það um 3% þar til viðbótar, sem skiptir ekki öllu í þessu stóra og alvarlega dæmi.
    Hins vegar hefur verið uppi margvíslegur ágreiningur um það hvernig skuli taka á ýmsum þenslumálum, með hvaða hætti skuli reynt að ná fjárlagadæminu saman og standa að nauðsynlegri tekjuöflun til að koma í veg fyrir þá þenslu sem fjárlög hafa skapað hér og sá tekjubrestur sem hefur orðið í þjóðfélaginu. Það hefur verið uppi margvíslegur ágreiningur um það hvernig skuli taka á fjármagnsmarkaðinum og þeim atburðum sem þar hafa orðið því í sannleika sagt þá hefur allt of mikið gerst þar í einu vetvangi. Þarf ekki annað en að minna á heimildir til notkunar greiðslukorta á sínum tíma, óhóflegar heimildir til erlendrar lántöku til margvíslegrar starfsemi hér á landi, ofnotkun ýmissa kaupleigufyrirtækja á erlendum heimildum og þá staðreynd að ýmsir bankar og fjármálafyrirtæki hafa gengið allt of langt í að greiða fyrir fjárfestingum sem ekki voru tímabærar, þar með talið fjárfestingum í sjávarútvegi, svo sem til skipakaupa og endurnýjunar á skipum, þótt erlendar lántökur til annarra hluta hér í landinu, eins og atvinnuhúsnæðis, hótelbygginga o.s.frv., hafi gengið miklu, miklu lengra.
    Hins vegar var það ljóst við myndun núv. ríkisstjórnar að jafnframt var ágreiningur um það hvort nauðsynlegt væri að stofna sérstakan sjóð til að annast nauðsynlegar skuldbreytingar í sjávarútvegi því að þó ég taki undir það með hv. 1. þm. Suðurl. að það er að sjálfsögðu ekki nægilegt að breyta tapi í lán, og ætti í sjálfu sér ekki að þurfa að ræða það, en ég veit að við hv. 1. þm. Suðurl. erum sammála um það þótt vel kunni að vera að einhverjir aðrir hér í þinginu séu því ekki sammála, verður ekki fram hjá því gengið að til þess að fyrirtækin geti staðið undir sínum skuldbindingum í framtíðinni þurfa þau að geta komið lánum sínum í skil. Þau þurfa jafnframt að fá rekstrargrundvöll til að standa undir þessum skuldum.
    Fram að þessu hefur starf ríkisstjórnarinnar í fyrsta lagi beinst að upphafsaðgerðum, í öðru lagi að því að vinna að nauðsynlegum undirbúningi fjárlaga og í þriðja lagi að vinna að lækkun vaxta, þar með talið raunvaxta, m.a. í þeim tilgangi að einhver von væri til þess að atvinnufyrirtækin gætu rétt úr kútnum. Mér er það hins vegar ljóst að sjávarútvegsfyrirtækin hafa ekki nægilegar tekjur til að geta staðið undir skuldum sínum í framtíðinni. Það hefur verið lögð á það áhersla, þótt sumir geri lítið úr því, að reyna að sýna fram á það með beinum og óbeinum hætti hver þessi staða er, og ég hygg að þar sé ekki mjög mikill ágreiningur. T.d. kemur það fram í þeim uppgjörum sem hafa verið gerð yfir 30 fyrirtæki víðs vegar um landið sem eru u.þ.b. 40--50% af sjávarútvegsfyrirtækjunum þegar talað er um veltu. Hér er því um að ræða úrtak sem gefur mjög góða mynd af því sem hefur verið að gerast. Þar kemur

fram að hagnaður án afskrifta og fjármagnskostnaðar í fiskvinnslu er 4,8%, í söltun 11,3%, í útgerð 14,4%. Þetta kemur nokkuð vel heim og saman við tölur Þjóðhagsstofnunar. Þótt nokkur munur sé þar á þá er hann ekki þess eðlis að verulegu máli skipti. Hins vegar kemur fram verulegur mismunur á afskriftum og fjármagnskostnaði, fyrst og fremst vegna þess að Þjóðhagsstofnun reiknar ákveðna ávöxtun af heildarfjármagni en hér er um raunverulegar afskriftir og fjármagnskostnað að ræða.
    Ég held að það megi fullyrða að þessi fjármagnskostnaður, sem er mjög mikill, t.d. í útgerðinni, þar kemur fram að hann er 30% sem verður þess valdandi að tap útgerðarinnar er 15%, gefur ekki raunsanna mynd af veruleikanum vegna þeirrar einföldu staðreyndar að afkoman er sýnd of góð á árinu 1987 og aftur á móti of slæm á árinu 1988. Þetta markast fyrst og fremst af því að það eru verulegar gengisbreytingar á árinu 1988 en engar á árinu 1987 því í reynd hækkar gengið á því ári. Því má segja að sú lækkun á raungengi sem varð á árinu 1988 á móti þeirri hækkun á raungengi sem varð á árinu 1987 eigi að jafna þetta nokkuð út. Og það er ekki ólíklegt að þessar staðreyndir hafi villt mönnum sýn þegar þessi mál eru metin.
    Ég hygg að um það þurfi ekki að deila að þessar tölur sýna að sjávarútvegurinn á við meiri vanda að etja um þessar mundir en oftast áður. Eiginfjárstaða hans hefur verið rýrð mjög verulega, ekki aðeins með háum
vöxtum og miklum fjármagnskostnaði, heldur með mikilli einkaneyslu í landinu og almennri eyðslu. Þeir aðilar sem vilja horfa fram hjá því eru ekki að horfa á þessi mál af raunsæi. Þess vegna endurtek ég það sem ég hef áður sagt, að það verður ekki hjá því komist að viðurkenna að við höfum orðið fyrir verulegri kjaraskerðingu sem enginn mun af okkur taka og því er ekkert annað að gera en að jafna henni út með ákveðnum hætti.
    Hv. 1. þm. Suðurl. spurði síðan ákveðinna spurninga sem ég skal reyna að svara eftir bestu getu þótt, ég vil segja það fyrir fram, auðvitað geti þar ekki verið um tæmandi svör að ræða og það veit ég að hv. 1. þm. Suðurl. skilur. Hann spurði í fyrsta lagi: Stendur til að bjarga fleiri fyrirtækjum með aðstoð úr ríkissjóði? Nú er það svo með þetta eina fyrirtæki sem þarna er átt við að hinn gamli Útvegsbanki mun hafa átt verulega hjá þessu fyrirtæki. Hann mun hafa tapað á viðskiptum við ýmis fyrirtæki í sjávarútvegi, þar á meðal þetta fyrirtæki, og eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið mun þetta tap bankans hafa verið viðurkennt af ríkissjóði í þessu tilviki. Hv. fjmrh. mun eflaust geta veitt frekari upplýsingar um það.
    Það hefur ekkert verið ákveðið um að aðstoða fleiri fyrirtæki beint af ríkissjóði. Ég get tekið undir það með hv. 1. þm. Suðurl. að það er mjög vandrötuð leið og miklum erfiðleikum háð að semja reglur sem geti orðið með þeim hætti að alls hlutleysis sé gætt, þótt að sjálfsögðu verði að gera ráð fyrir því að ríkissjóður tapi sínum eignum að einhverju leyti hjá þessum

fyrirtækjum eins og öðrum. Í mörgum tilvikum kann það að vera betra fyrir ríkissjóð og ýmsa aðra að taka þátt í einhvers konar nauðarsamningum gagnvart slíkum aðilum en að krefjast gjaldþrots. Þetta er að sjálfsögðu matsatriði sem ekki er hægt að setja nákvæma reglu um. Hitt er svo annað mál að þegar ríkissjóður á í hlut er sú leið að sjálfsögðu vandasamari en í ýmsum öðrum tilvikum.
    Hv. þm. spurði hvort til stæði að veita Atvinnutryggingarsjóði lánsréttindi án veðtryggingar og hverjir beri þá ábyrgð. Ég svara þeirri spurningu neitandi. Það hafa verið settar upp ákveðnar viðmiðunarreglur af hálfu Atvinnutryggingarsjóðs. Það hafa aðeins þrjú fyrirtæki fengið afgreiðslu þar og það liggur fyrir að ýmis fyrirtæki standast ekki þær kröfur sem stjórn Atvinnutryggingarsjóðsins hefur sett eða sú samstarfsnefnd, sem hefur verið starfandi á vegum banka og fjárfestingarlánasjóða, gerir ráð fyrir. Það er því ekki gert ráð fyrir að veita Atvinnutryggingarsjóði slíkan lánsrétt. Hitt er svo annað mál að það er mikið umhugsunarefni með þessar eilífu veðtryggingar, sem byggja á alls konar brunabótamötum og vátryggingaverðmætum, hvað það eru góðar reglur. Þótt bankarnir hafi mest lagt upp úr því á undanförnum árum að láta meta og endurmeta og meta á nýjan leik allar eignir fyrirtækja eru það nú einu sinni tekjumöguleikarnir í framtíðinni sem skipta meginmáli. Ég gef því ekki mikið fyrir þessi möt sem verið er að framkvæma oft og tíðum. Það eru til ýmsar sendinefndir sem fara hver á eftir annarri til að endurtaka þessi möt. Þau voru ekki mikils virði síldarplönin á Siglufirði eftir að síldin fór, jafnvel þótt menn hafi sjálfsagt haft á þeim einhver brunabóta- eða vátryggingamöt. Sú regla hefur fyrst og fremst verið höfð í heiðri, eftir því sem mér skilst hjá Atvinnutryggingarsjóðnum, að tekjur fyrirtækjanna til lengri tíma litið séu þess eðlis að geta staðið undir skuldbindingum viðkomandi fyrirtækis og notuð sú regla að meta tekjurnar á móti skuldum að frádregnum veltufjármunum miðað við ákveðnar vaxtaforsendur. Með þessu móti ætti að vera nokkuð tryggt eða a.m.k. betra mat á það lagt hvort fyrirtækin geti staðið undir skuldbindingum sínum.
    Í þriðja lagi spurði hv. þm.: Til hvaða ráðstafana mun ríkisstjórnin grípa? Þá vildi ég aðeins tala um þau fyrirtæki sem ekki uppfylla skilyrði Atvinnutryggingarsjóðs og hafa ekki möguleika á því að fá skuldbreytingu á sínum skuldum. Þar verður um mjög mörg fyrirtæki að ræða. Það er alveg ljóst. Ekki verður hjá því komist að allveruleg uppstokkun eigi sér stað hjá mörgum þessara fyrirtækja, sameining, hagræðingaraðgerðir. Ég tek hins vegar undir það með hv. þm. að það verður að sjálfsögðu að vera í höndum fyrirtækjanna sjálfra og þeirra sem þau leita aðstoðar til. Það er ekki óeðlilegt að það séu sett ákveðin skilyrði fyrir aðstoð, m.a. að leitað sé eftir hagræðingu. Þess vegna er ekki óeðlilegt að Atvinnutryggingarsjóður hafi vissa forgöngu um það, ef fyrirtæki telja sig geta endurskipulagt sinn rekstur, að aðstoða við slíkt. Verður það að sjálfsögðu gert því

að það hefur komið fram að rekstur fyrirtækjanna er mjög misjafn. Það eru mörg fyrirtæki þar sem rekstrargjöld eru umfram rekstrartekjur án þess að nokkur fjármagnskostnaður hafi verið greiddur eða tekið tillit til afskrifta. Jafnvel þótt núverandi skilyrði séu slæm er alveg ljóst að slík fyrirtæki geta ekki gengið áfram. Þetta eru í mörgum tilvikum fyrirtæki sem voru með mjög slæma stöðu 1983 og 1984, fyrirtæki þar sem menn treystu e.t.v. á það að betri staða sjávarútvegsins mundi koma fram í tryggari eiginfjárstöðu og meiri uppgreiðslu skulda hjá þessum fyrirtækjum. En sannleikurinn er sá að sjávarútvegsfyrirtækin fengu ekki mikla möguleika til þess vegna þess að þjóðfélagið heimtaði þessar
viðbótartekjur til sín til þess að nota til einkaneyslu í landinu og til þess að nota í þarfir ríkissjóðs, verslunar, bankastofnana o.s.frv. Sjávarútvegurinn fékk því ekki næg tækifæri til þess að rétta úr kútnum þegar tækifæri var til og núna mun ekki verða komist hjá því að það komi í verulegum mæli fram á öllum landsmönnum. Ég hef sagt að það sé ekki annað að gera og ég endurtek það enn að menn viðurkenni að kjör okkar þurfi að taka mið af þessum aðstæðum.
    Hv. þm. spurði hvort treysta mætti því að það sem gert yrði yrði kynnt í þessari viku og ef ekki þá hvenær. Því get ég svo sannarlega ekki svarað. Hann talaði einnig um gengið og hvenær því yrði breytt. Ég vænti þess að allir séu sammála um það á hv. Alþingi að mjög mikilvægt er að koma í veg fyrir það að genginu verði breytt. Menn hljóta að leggja sig fram um að reyna að halda niðri þeirri verðbólgu sem hefur verið svo ríkjandi hér á undanförnum árum. Við þær aðstæður sem nú eru, þegar þensla fer minnkandi, hljótum við að leggja á það áherslu.
    Ég veit til þess að ýmis fyrirtæki eru að endurskipuleggja sinn rekstur um þessar mundir. Þau gera það einfaldlega með því að draga úr útgjöldum, draga úr yfirvinnu og bjóða jafnvel sínu fólki að laun séu lækkuð. Laun í fyrirtækjunum verða að taka mið af tekjunum. Ég er ekki að segja að þetta geti gengið yfir allt þjóðfélagið en auðvitað ættu menn að gera það við þessar aðstæður. Því miður er það svo að þessi mynd er ekki orðin nægilega ljós. Það er ekki langt síðan upplýsingar fóru að berast og þótt ekkert hafi komið mjög á óvart í þeim er það ljóst að starfskjör sjávarútvegsins eru óviðunandi og það þarf og verður að taka mið af þeirri staðreynd við þá umfjöllun sem nú er hér á Alþingi að því er varðar fjárlög og ýmislegt annað. Ég held að sú mynd blasi við að mörg fyrirtæki munu ekki geta hafið starfsemi eftir áramót. Mörg eru að stöðvast um þessar mundir, ekki fyrst og fremst út af rekstrarerfiðleikum heldur líka vegna hráefnisskorts, og það verður erfitt fyrir mörg þeirra að komast af stað.
    Hitt er svo annað mál að ýmislegt annað skiptir máli í sambandi við sjávarútveginn en starfskjör hans og margt sem þarf að gæta að á næstunni. Ég vil t.d. nefna að það er ekki ráðlegt að leggja út í fjárfestingar vegna kaupa eða endurbóta á skipum. Ég get vel skilið áhyggjur skipasmíðaiðnaðarins í þeim

efnum vegna þess að sjávarútvegurinn hefur í reynd ekki peninga til þess að leggja í slíkar fjárfestingar og því er ekki ráðlegt að greiða mikið fyrir því um þessar mundir. Það er heldur ekki ráðlegt að fjárfesta mikið í fiskvinnslu nema þá til þess að auka hagræðingu, m.a. með því að hjálpa til við sameiningu fyrirtækja. Margir spyrjast fyrir um sameiningu veiðiheimilda, þ.e. að leggja skipum og reyna að gera önnur skip út með meiri hagkvæmni, sérstaklega vegna aflasamdráttar, og ég býst við því að mun meira verði um það á næstunni að veiðiheimildir verði sameinaðar. En það sem stendur m.a. í vegi er sú staðreynd að lögin um fiskveiðar í okkar landhelgi, sem hafa verið nefnd kvótalög en að vísu eru til önnur lög frá 1976 um veiðar í landhelgi, gilda aðeins um þriggja ára skeið þannig að óvissa ríkir um framhaldið.
    Það hafa jafnframt átt sér stað viðræður milli aðila í sjávarútvegi um aflamiðlun og meiri jöfnun á útflutningi á óunnum fiski og að því er stefnt að láta á það reyna hvort hægt sé að stofna samstarfsvettvang innan sjávarútvegsins til þess að stýra útflutningi á óunnum fiski og aflamiðlun milli einstakra byggðarlaga.
    Það er jafnframt ljóst að hægt er að ná meiri verðmætum út úr því sjávarfangi sem við drögum upp úr sjó. Allt of miklu er hent af svokölluðum úrgangi sem hægt væri að nýta. Jafnframt er ljóst að gæðin geta verið betri, þótt þar hafi verulega áunnist. Með betri gæðastýringu er hægt að koma fram verðmætaaukningu. Það þarf að sjálfsögðu að nota tækifærið þegar afli dregst saman til þess að brýna menn enn á ný til að taka á slíkum málum og reyna að ná árangri og ég er fullviss um að það er hægt, þó að það sé að sjálfsögðu hættulegt að ætla sér um of í þeim efnum.
    En þrátt fyrir allt verður aðalvandamálið hvort og þá með hvaða hætti þau fyrirtæki sem eiga vart fyrir sínum skuldum verða aðstoðuð. Ég er viss um að í mörgum tilfellum er hagkvæmara fyrir lánardrottna þessara fyrirtækja að ganga til nauðasamninga við þau, m.a. til þess að auðvelda þeim að koma við hagræðingu í sínum rekstri. Jafnframt hlýtur að koma til álita hvort ekki sé rétt að greiða fyrir slíkum nauðasamningum m.a. með því að opinber sjóður, t.d. Byggðasjóður, leggi fram eitthvert fé til þess að greiða fyrir slíkum nauðasamningum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, þó að sjálfsögðu þurfi þá að útvega fé fyrir þann sjóð til þess að gera slíka hluti. Það verður ekki hjá því komist að margir af þeim aðilum sem eiga hjá slíkum sjávarútvegsfyrirtækjum þurfi að afskrifa hluta af sínu fjármagni annaðhvort með slíkum samningum eða þá með gjaldþroti. Ég er fullviss um að í mörgum tilvikum er hagstæðara fyrir þá að ganga til slíkra samninga heldur en þurfa að horfa á eftir viðkomandi fyrirtæki í gjaldþrot. Og ég á nú von á að ástæðan fyrir því að þær ráðstafanir voru gerðar sem minnst var á varðandi þetta eina
fyrirtæki sem hér var nefnt hafi m.a. verið sú að hagsmunagæslumenn ríkissjóðs og viðkomandi banka

hafi séð að ef fyrirtækið yrði gert upp sem gjaldþrota væri hætta á að þeir töpuðu enn þá meiru.
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja mál mitt að þessu sinni. Þessi mál eru og hafa verið til umfjöllunar hjá ríkisstjórn. Það er ekki komin niðurstaða í þeim og ég vil ítreka að ég tel nauðsynlegt að þessi mál verði rædd á Alþingi á næstunni því að hér er um svo stórt mál að ræða að það hlýtur að blandast inn í aðrar ákvarðanir sem þarf að taka. Ég vænti þess að um það geti verið samvinna milli þeirra sem styðja núverandi ríkisstjórn og stjórnarandstöðunnar hér á Alþingi og ég þakka hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar fyrir að taka mál þetta upp og sýna þar með í verki áhyggjur sínar út af þessum vanda. Ég veit að það mun koma fram í afgreiðslu mála hér á næstu vikum á Alþingi að aðilar eru tilbúnir að taka höndum saman í þessum málum.