Vandi sjávarútvegsins
Mánudaginn 05. desember 1988

     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað eðlilegt að fram fari á Alþingi umræða um þau mál sem þar er verið að fjalla um. En ég verð nú að segja að engum þarf að koma það á óvart miðað við stöðu mála þegar fyrrv. ríkisstjórn fór frá, því að hennar eigin sögn máttu ekki líða nema nokkrir dagar að einhverjar aðgerðir yrðu svo að hjól atvinnulífsins stöðvuðust ekki. Auðvitað er það mjög slæmt að dráttur verði á þessu og málin hefðu þurft að ganga fljótar fyrir sig en raun ber vitni, en þau eru ekki létt viðureignar eins og dæmin sanna.
    Mér fannst það dálítið athyglisvert hjá hv. 1. þm. Suðurl. er hann talaði um að mest áríðandi væri að þau fyrirtæki sem stæðu best og væru best rekin nytu fyrst fyrirgreiðslu. Í mínum huga og margra annarra er mest aðkallandi að þau fyrirtæki sem eru sæmilega rekin fái fyrirgreiðslu til þess að þau stöðvist ekki. Hin mega mikið frekar bíða. Ég er ákaflega hræddur um að það fólk sem býr í hinum ýmsu byggðarlögum þar sem fyrst og fremst eitt fyrirtæki skaffar atvinnu muni vera á annarri skoðun ef við blasir að þetta fyrirtæki muni stöðvast. Það munu heyrast gagnrýnisraddir ef best reknu og best stæðu fyrirtækin gengju þar á undan.
    Hv. 1. þm. Suðurl. sagði að jafnvægi hefði verið komið á varðandi framboð og eftirspurn í sambandi við vinnuaflið. Það er rétt. En hvað sagði það okkur? Í septembermánuði er einmitt langmesta eftirspurnin eftir vinnuafli og það hefði átt að opna augu þeirra sem stjórnuðu landinu að háski væri á ferðum þegar vetraði, eins og komið hefur fram. Hvernig sem á málin er litið var strax í ágúst sl. orðið háskalegt ástand í landinu. Þó að ég vilji ekki hafa stór orð um það í þessari umræðu vil ég þó láta þá skoðun mína í ljósi að síðasta ríkisstjórn var í raun og veru aldrei starfshæf. Það var m.a. ástæðan fyrir því hvernig fór. Fyrstu fimm mánuðina sem sú stjórn sat að völdum var alltaf boðið hærra og hærra í fjármagnið, hærri og hærri vextir boðnir af ríkisvíxlunum og þeir meira en tvöfölduðust á fimm mánuðum, frá 20% upp í 41,3% en fóru hæst í febrúarbyrjun upp í 43%. Ætli þetta mál hafi ekki valdið mestu um hvernig fór?
    Það liggur auðvitað á borðinu og allir sjá að lítið þýðir að lána fyrirtækjum sem eru að tapa, þ.e. breyta taprekstrinum í lán, ef grundvellinum er ekki breytt um leið þannig að slíkur taprekstur hætti. En er hægt að fleyta þeim áfram með öðrum hætti ef grundvöllurinn er þó lagaður þannig að einhver von er um bættan rekstur? Sjálfsagt verður hann ekki bættur þannig að á stuttum tíma geti það unnið upp tapreksturinn, eða hver treystir sér til þess að gera slíkar ráðstafanir eins og nú er, hvaða leið sem verður farin? Þess vegna verður auðvitað með einhverjum hætti að ganga þannig í málin að fyrirtækin séu eitthvað yfir núllinu og ekki einungis fyrirtækin í sjávarútvegi heldur öll þau fyrirtæki sem framleiða fyrir utanlandsmarkað. Þessi fyrirtæki sem ég kalla, og á ég ekki uppástungu að því orði, fyrirvinnufyrirtæki þjóðarinnar. Ef fyrirvinnufyrirtæki þjóðarinnar hafa

ekki þann grundvöll að þau geti gengið ættu allir að skilja hvernig fer með aðra í þessu þjóðfélagi.
    Hitt er mér áhyggjuefni og hlýtur að vera öllum áhyggjuefni að þær ráðstöfunartekjur sem fólk hefur haft byggjast að miklu leyti á löngum vinnutíma og mikilli yfirvinnu. Þegar kreppir að missa fjölskyldurnar þessa yfirvinnu og miðað við hvernig ástandið er í landinu víðast hvar þá duga dagvinnulaunin engan veginn, allra síst hjá þeim sem þurfa að borga helmingi hærri orkukostnað en t.d. er á því svæði sem við erum hér nú á. Það verður í leiðinni líka að huga að þessum þætti, ekkert síður, því að ef vinnufyrirtækin fá ekki fólk, ef það fer af þessum köldu svæðum vegna þess að þar er ekki hægt að lifa, ja hvernig fer þá fyrir þjóðinni?
    Ég ætla ekki að flytja langt mál við þessa umræðu. Auðvitað væri það æskilegt ef hægt væri að finna þá leið að lækka kostnað, fyrst og fremst að lækka kostnað. Eitt af því sem stefnt var að var að fiskvinnslan fengi lækkun á orkukostnaði frá rafveitunum um 25%. Hvernig gengur að semja við þá sem ráða þar málum? Þá er líka áhyggjuefni það launamisrétti sem er í landinu. Hvernig á að breyta því? Eru menn tilbúnir að setja á eitt eða tvö skattþrep til viðbótar til þess að minnka þetta bil? Eða hvernig hugsa menn sér að koma málum saman? Þar sem minna er til skipta verður a.m.k. að skipta þannig að allir hafi í sig og á, en miðað við aðstæður sé ég ekki að það verði öðruvísi en að lægstu launin með minni vinnutíma hækki og að sama skapi verði þá tekið af hinum sem betur eru launaðir.