Vandi sjávarútvegsins
Mánudaginn 05. desember 1988

     Skúli Alexandersson (frh.) :
    Virðulegi forseti. Ég hafði aðeins byrjað ræðu mína þegar forseti fór þess á leit við mig að ég hleypti öðrum hv. þm. að. Ég hafði minnst á að hæstv. sjútvrh. hafði nefnt að eitt af þeim atriðum sem gætu komið sjávarútveginum nú til bjargar væri að auka verðmæti aflans, meiri gæðastýring, og hafði aðeins bent á að slíkt hefði ekki reynst sumum vel. Mig langar til að bera upp þá spurningu til hæstv. ráðherra hvort þeir sem færu nú að ósk hans, legðu sig fram um að auka nýtingu, auka verðmæti aflans, reyna að gera eins mikið úr aflanum og mögulegt væri, láta skipin ekki vera með netin í sjó yfir helgar og gera hvað eina sem hægt væri til að auka verðmæti aflans, auka verðgildi hans og auka magn hans, hvort þeir ættu á hættu nú, þegar ráðherra óskar eftir þessu, að verða sóttir til saka, ákærðir fyrir að hafa brotið landslög. Ég óska sérstaklega eftir því að hæstv. ráðherra svari þessari spurningu minni, hvort þeir sem mundu fara að ósk hans eigi það á hættu að þurfa að sanna sakleysi sitt frammi fyrir dómstólum, sanna að þeir væru ekki lögbrjótar, ef þeir stæðu sig í því að auka verðmæti aflans, auka nýtingu hans. Það ætti að vera auðveldara fyrir hæstv. sjútvrh. að svara þessari spurningu þar sem hann er nú líka dómsmrh.
    Ég hafði bent á það í ræðu minni líka að tveir hæstv. ráðherrar hefðu flutt tölu um stöðu sjávarútvegs á Íslandi í dag, hæstv. fyrrverandi ráðherrar eða ráðherrar úr fyrri ríkisstjórn, þ.e. fyrrv. forsrh. og ráðherra úr tveimur stjórnum og hæstv. sjútvrh., ráðherra í þrem stjórnum, hefðu lýst því hvernig ástandið væri núna í íslenskum sjávarútvegi. Hæstv. sjútvrh. hafði lýst því yfir í ræðu sinni að mörg fyrirtæki í sjávarútvegi gætu ekki hafið starfsemi eftir áramót. Eftir fimm ára stjórn þessa hæstv. ráðherra á íslenskum sjávarútvegi er staðan þannig og eftir fimm ára setu Sjálfstfl. og Framsfl. í ríkisstjórn er staðan þannig. Þá kemur Þorsteinn Pálsson, 1. þm. Suðurl., eftir stjórnarsetu í fimm ár og lýsir hvernig ástandið er í efnahagsmálum þjóðarinnar, í stöðu sjávarútvegs á Íslandi. Það var ekki skemmtileg lýsing. Og sá hv. þm. ætlast til þess nú að ný ríkisstjórn, sem hann er ekki þátttakandi að og hefur setið í rétt tvo mánuði, hljóti að vera tilbúin með ráð og aðgerðir til að bjarga þessari stöðu. Ja, ekki er farið fram á lítið.
    Það er mikið rætt um að eiginfjárstaða sjávarútvegsfyrirtækja sé nú orðin vond og í sumum tilfellum á þann veg að fyrirtækin eigi ekki fyrir skuldum. Þessi fyrirtæki voru sum hver fyrir hálfu ári eða ári sæmilega stödd fyrirtæki og þegar við sem vorum stjórnarandstæðingar um þetta leyti í fyrra og fram á vor vorum að benda á hvað væri að ske í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum fór ekki mikið fyrir því að hæstv. ráðherrar, ráðherrar þeirrar stjórnar sem þá sat, tækju undir þær aðvaranir sem við vorum að nefna á hv. Alþingi. Það var talið frekar ómerkileg gagnrýni stjórnarandstöðu. Sem betur fer viðurkenna nú þessir hv. þm. þessa stöðu, viðskilnað sinn við stöðu þjóðarbúsins, við stöðu sjávarútvegsins. En þessi þáttur, eiginfjárstaða fyrirtækjanna, er kannski ekki

aðalatriðið í stöðu sjávarútvegsins. Það er annar þáttur sem allt of lítið hefur verið talað um sem er miklu alvarlegri. Það er kannski hægt að komast yfir það að nokkur fyrirtæki geti ekki haldið áfram rekstri, en það verður erfiðara að komast yfir þann þátt sem við blasir í sambandi við stöðu fiskstofnanna og þá fyrst og fremst þorskstofnsins.
    Þessir sömu hv. þm. og ráðherrar, sem ég nefndi áðan, hafa staðið að hinni sömu fiskveiðistefnu undanfarandi fimm ár og árangurinn af þeirri fiskveiðistefnu er sá að nú blasir við að við verðum að minnka sóknina í þorskstofninn í staðinn fyrir að við eðlilega stjórn á þeim málum hefðum við átt að vera að auka sóknina. Síðustu árin hafa verið mjög góð skilyrði í hafinu á þann veg að viðgangur fiskstofnanna hefur verið eðlilegur og góður og jafnvel meiri en við meðalaðstæður. Það hefur verið mjög gott ástand. Þrátt fyrir það stöndum við frammi fyrir því að á næsta ári á að minnka sóknina og við blasir enn þá meiri minnkun á þar næsta ári. Og hver hefur þróunin verið í sambandi við sókn í þorskstofninn á síðustu árum?
    Ég er með fyrir framan mig töflu um hver sóknin hefur verið í íslenska þorskstofninn á undanförnum árum. Á tímabilinu 1955--1964, þ.e. tíu ára tímabili, var meðalaflinn 448 þús. tonn og á 20 ára tímabili 1955--1974 er ársmeðalaflinn 422 þús. tonn. Á fimm ára tímabili 1985--1989, ef gert er ráð fyrir 360 þús. tonna afla í ár og 330 þús. tonnum 1989, verður ársmeðalaflinn 355 þús. tonn. Ég segi 355 þús. tonn. Það er 93 þús. tonnum minni ársafli en á tímabilinu 1955--1964.
    Afraksturinn af þeirri fiskveiðistefnu sem fylgt hefur verið á undanförnum árum er þessi: Peningastefnan hjá hæstv. ríkisstjórnum hefur kannski ekki verið upp á marga fiska, en stefnan í fiskveiðimálunum hefur verið enn þá verri. Það er hægt að gera ýmsa hluti til að bjarga fjárhagsstöðu fyrirtækja. Það er oft og tíðum hægt að fá lán. En það er erfiðara að bjarga stöðu eins og þeirri sem nú blasir við í sambandi við þorskstofninn því að á síðustu árum, þegar sjálfsagt var að standa að því að byggja upp þennan veiðistofn, var gengið í hann á þann veg sem ég hef verið að benda á hér, gengið í hann þannig
að hann er svo skertur að við stöndum frammi fyrir því að aflinn verði minnkandi ár frá ári og að sá þorskstofn sem við eigum núna í hafinu er að meginhluta til smáfiskur, fjögurra og fimm ára, þannig að við getum nærri því gengið að því vísu að á næstu árum verði afli á hinu hefðbundna vertíðarsvæði mjög lítill. Og það sem alvarlegra er, að nýliðunin á næstu árum verður að öllum líkindum á þann veg að togaraaflinn muni hrynja miðað við þá spá sem við blasir, þ.e. að nýliðun sl. þriggja ára er svo lítil að hún er hálf á við þau þrjú ár sem þar eru á undan.
    Það kom fram í ræðu hv. þm. og ráðherra, sem ég hef hér nefnt, að miðað við hvernig staðan væri lægi beint fyrir að þjóðin öll yrði að taka á sig þann bagga sem við blasir, þar mætti ekki skipta upp á ójafnan

veg. Hæstv. sjútvrh. nefndi það beint að það þyrfti að lækka kaupið. Geta þessir hv. þm. leyft sér það, eftir að hafa stjórnað landinu á þann veg sem þeir hafa gert, að koma svo til þjóðarinnar, koma svo til almennings í landinu og segja: Þið verðið að borga öll jafnt. Þið verðið að gera svo vel og borga öll jafnt. Þetta er skaði sem skal ganga jafnt yfir alla þjóðina.
    Vitaskuld hafa hlutirnir verið þannig á liðnum mánuðum og liðnum missirum að það hefur verið skammtað misjafnt. Sumir hafa fengið meira út úr þjóðartekjunum en aðrir. Það sem hlýtur að vera krafa almennings í landinu í dag þegar þarf að hlaupa undir bagga gagnvart þeirri stöðu sem þjóðarbúið er í er að skattheimtan og leiðréttingin verði tekin á sama máta, alls ekki jafnt yfir alla. Það er alveg fráleitt að tala um það, eftir að stór hluti þjóðarinnar hefur búið við launaskrið og þenslu, að við skulum fara að lækka almennt kaup hjá almenningi í landinu. Það verður að leita annarra ráða til að bjarga því sem aflaga fer.
    Það kom ekki margt fram, hvorki hjá hv. 1. þm. Suðurl. né sjútvrh., um hvað nauðsynlegt væri að gera til að styrkja sjávarútveginn þó að óskað hafi verið eftir þessari umræðu á þeim grunni að það ætti að ræða stöðu sjávarútvegsins. Ég varð ekki var við að það kæmu margþættar tillögur frá hv. 1. þm. Suðurl. og ekki heldur margþættar tillögur frá hæstv. sjútvrh. Ég hef látið frá mér heyra að ég telji að ekki verði komist hjá því að fella eða leiðrétta gengi krónunnar. Ég tel að stöðu fiskvinnslunnar og annarra útflutningsgreina, einnig ullariðnaðarins, verði ekki komið í lag með öðru móti en gengið verði leiðrétt. En vitaskuld þarf að gera ýmsar hliðarráðstafanir um leið í sambandi við peningamál og kannski fyrst og fremst fyrir fiskvinnslufyrirtækin. Ég tel að á síðustu missirum, síðustu mánuðum hafi miklir fjármunir verið færðir frá fiskvinnslufyrirtækjunum og útflutningsgreinunum til eyðslugeirans í þjóðfélaginu og að það þurfi að leita leiða til að skila einhverju af þessari millifærslu aftur til þessara greina. Ég tel að auðveldasta leiðin til þess sé sú að um leið og gengið yrði leiðrétt yrði séð til þess að afurðalán á afurðabirgðum útflutningsgreinanna, sérstaklega frystingarinnar, yrðu ekki hækkuð í krónutölu. Við þetta skapaðist munur í viðskiptabönkum viðkomandi aðila. Þeim mun yrði að ráðstafa á þann veg að Seðlabanki yfirtæki hann til að byrja með og síðan yrði hreinlega gerð skattlagning hjá ákveðnum aðilum til að greiða þennan gengismun. Við þessar aðstæður mundi gengisleiðrétting skapa þá stöðu hjá útflutningsfyrirtækjunum að þau fengju um leið og gengisfelling yrði gerð beinar greiðslur til að laga sína greiðslustöðu, um leið og rekstrargrundvöllur fyrirtækjanna lagaðist, í staðinn fyrir að bíða eftir því að afurðalánin séu greidd upp og fyrr en það skeður skilar sér lítill peningur til fiskvinnslufyrirtækjanna, en það getur tekið oft og tíðum margar vikur, í sumum tilfellum mánuði. Við þessa stöðu mundi færast líf og kraftur í þessar greinar, en ef gengisfelling yrði á þann veg að slík aðgerð sem ég hef hér nefnt yrði ekki framkvæmd mundi þetta dragast í marga mánuði

og gengisfelling koma að litlu gagni fyrr en eftir allt of langan tíma. Vitaskuld þarf að gera ýmsar ráðstafanir fleiri, en ég tel að þetta sé sú grundvallaraðgerð sem gera þarf.
    Ég skal ekki hafa tölu mína lengri að sinni.