Vandi sjávarútvegsins
Mánudaginn 05. desember 1988

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Virðulegi forseti. Það vakti athygli mína í svörum hæstv. sjútvrh. hversu skammt á veg athugun og úrbætur eru í raun komnar í málefnum sjávarútvegsins. Þegar ég hugsa til þeirra daga sem stjórnarmyndunarviðræður fóru fram og hversu mjög lá þá á svo að enginn tími var til stefnu vegna þess að svo bráðar voru kröfurnar um aðgerðir undrar það mig að þetta skuli nú svo stutt á veg komið.
    Hæstv. ráðherra boðaði tíma kjaraskerðingar, en hann sagði einnig að þá yrði að jafna byrðunum sem bera þyrfti. En nokkru síðar í ræðu sinni minntist hann á fyrirtæki sem ætluðu að leysa vanda sinn með því að bjóða fiskvinnslufólki lækkuð laun. Og þá verður mér að orði: Sér er nú hver jöfnuðurinn ef hann á einungis að lenda á þeim sem þegar bera minna úr býtum en aðrir.
    Það má vissulega deila um hver beri ábyrgð á þeim mikla vanda sem nú dynur yfir hvert fyrirtækið á fætur öðru í aðalútflutningsatvinnuvegi okkar. Hitt er þó óumdeilanlegt að fyrir löngu hefði átt að grípa til róttækra aðgerða til að styrkja undirstöður þessa atvinnuvegar. Það er satt að segja illskiljanlegt að svo hrapallega skuli takast til eftir að hvert metaflaárið hefur rekið annað og ýmis ytri skilyrði verið hagstæð þessum atvinnurekstri. Löngu var ljóst að hagræðingar var þörf í rekstri einstakra fyrirtækja og samræma þurfti rekstur fyrirtækja með tilliti til þarfa hvers byggðarlags og þjóðarbúsins í heild. Hugmyndir og jafnvel óskir um endurskoðun og traustari rekstrargrundvöll hafa hljómað lengi. Það er því óskiljanleg sú töf sem orðið hefur á framkvæmdum og úrbótum.
    Í eldhúsdagsumræðum þann 3. maí sl. var þegar orðið svo uggvænlegt ástand að fiskvinnslufyrirtækin víða um land voru rekin með allt að 15% tapi eins og sagt var, fyrirtæki sem víða bera uppi byggðarlög sem standa og falla með afkomu þeirra. Það var því þá þegar ærin ástæða til að bera fram spurningu eins og ég gerði til ráðherra þáv. ríkisstjórnar um það til hvaða ráðstafana þeir hygðust grípa til að leysa vanda fyrirtækjanna, byggðarlaganna og ekki síst fólksins. Sú ríkisstjórn sem þá sat var í gengisfellingarbindindi eins og margar á undan henni og vildi einnig eins og margar á undan henni hafa efnahagsdæmið snyrtilegt. Hún gerði kröfu til þess að fyrirtækin ættu að spjara sig, finna í sér hrygglengjuna og rétta úr henni. Hún ætlaði að skilja sauðina frá höfrunum. En hvernig ætlaði hún að taka á vandanum? Við því fékk ég engin svör. Og hvernig ætlar svo núverandi ríkisstjórn að taka á þessum sama vanda? Við því hafa ekki nægilega greið svör fengist enn og vandinn hefur fengið að þróast óáreittur allan þennan tíma eins og komið hefur fram í máli margra á undan mér. Gleymum því heldur ekki að núverandi ríkisstjórn hefur um margt sömu innviði og sú fyrri.
    Endurskipulagningu útgerðar og fiskvinnslufyrirtækja verður að gera á yfirvegaðan hátt á löngum tíma og hún verður einnig að taka mið af byggðastefnu og þörfum fólksins. Hún getur aldrei

farið fram með þeim grimmilega hætti, sem nú er orðinn, að fyrirtækjum er hreinlega leyft að sigla í strand með þeim afdrifaríku afleiðingum sem slíkt hefur fyrir einstaklinga, atvinnuleysi t.d. og kreppu. Á meðan hafa glæfralegar fjárfestingar verið leyfðar óheftar. Fjármagnið hefur leitað á suðvesturhornið eins og við vitum til ávöxtunar á hinum svonefnda gráa peningamarkaði sem ráðið hefur miklu um vaxtastig í harðri samkeppni um sparifé og lánsfé. Þannig hafa vextir verið keyrðir óheyrilega hátt og gert fjármagnskostnað óbærilegan fyrir venjulegan rekstur. Þetta er auðvitað hin mesta óstjórn og með eindæmum að stjórnvöld skuli í raun komast upp með slíkt ábyrgðarleysi ár eftir ár og láta málin þróast í slíkt öngþveitisástand sem nú er orðið.
    Sú atvinnugrein sem fengið hefur einna mest svigrúm til þenslu, verslunin, berst nú jafnvel víða í bökkum, einkum þó úti á landi. Það blöskraði því mörgum þegar enn ein verslunarhöllin opnaði dyr sínar nú fyrir helgina hér í höfuðborginni undir svipu tímaþrengdar eins og hún ætti lífið að leysa og það er kannski einmitt réttnefnið, en þó varla víst að hún leysi líf sitt með því að opna. Það kom mér á óvart þegar hæstv. ráðherra tók þannig til orða, ég man nú ekki nákvæmlega orðalag hans, en hann talaði um að þjóðin hefði beðið um fé til verslunarinnar og þess vegna m.a. hefði farið sem fór. Ég held ekki að þjóðin hafi beðið um þetta fé. Það hafa þó vissulega hagsmunaaðilar í verslunargeiranum gert og stjórnvöld látið undan með eftirlátssemi af ýmsu tagi og ívilnunum.
    Mikið hefur verið rætt um gengisfellingu sem lausn á vanda fiskvinnslunnar, enda á allra vitorði að gengið er of hátt skráð. Hún getur þó aldrei ein og sér leyst vanda útflutningsgreinanna, en hlýtur að kalla á margvíslegar hliðarráðstafanir. Gengisfelling ein mun reynast fyrirtækjunum misjafnlega vel. Þeir sem verst eru settir og skulda meira en þeir eiga eru ekki bættari þótt þeir fái fleiri íslenskar krónur fyrir afurðir sínar þar sem skuldir þeirra munu jafnframt hækka að sama skapi, bæði innlendar og erlendar. En ef til gengisfellingar kemur er auðvitað nauðsynlegt að draga úr óæskilegum
áhrifum hennar með hliðarráðstöfunum bæði vegna afkomu útflutningsgreinanna og ekki síður vegna launafólks og afkomu heimilanna. Úrræði í þeim efnum eru t.d. að afnema matarskattinn, sem ég hef engan heyrt minnast á, og hækka skattleysismörk til að mæta þeim þrengingum sem á launafólki mundu mæða. Hvað hafa stjórnvöld í raun í hyggju í þeim efnum? Um það vildi ég spyrja hæstv. ráðherra.
    Ekki má heldur gleyma þeim sem nú horfa fram á atvinnuleysi en þeim fer fjölgandi. Það er því vafasöm ráðstöfun að mínu mati að ætla að nota fé úr Atvinnuleysistryggingasjóði til að mæta vanda útflutningsatvinnugreinanna.
    Hv. 10. þm. Reykn. bar reyndar fram spurningu til hæstv. ráðherra sem ég vil endurtaka vegna þess að hún fékk engin svör. Hún taldi það ekki forsvaranlegt að veita fé úr Atvinnuleysistryggingasjóði undir þeim

kringumstæðum sem nú ríkja. Og ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvernig hann líti á það mál og krefjast svara við þeirri spurningu.
    Það er að sama skapi fráleitt að leyfa t.d. vöruverði að hækka í kjölfar gengisfellingar en viðhalda launafrystingu og afnema samningsrétt.
    Af heimafengnum böggum er það ekki bara fjármagnskostnaður sem hefur haft mikil áhrif á rekstur fiskvinnslunnar heldur einnig sjófrysting og aukinn ferskfiskútflutningur. Í því sambandi vil ég víkja að fréttum sem ég heyrði í morgunútvarpinu í dag. Þar var greint frá því að evrópskir fiskifræðingar hafa eindregið ráðlagt að takmarka mjög þann þorsk- og ýsuafla sem draga má úr Norðursjó á næsta ári. Jafnframt var einnig greint frá því að lélegt ástand ríkti meðal fiskistofna undan Noregsströndum sem takmarkaði að sjálfsögðu veiðar. Það fylgdi fréttinni að fiskkaupmenn á Humber-svæðinu í Bretlandi huguðu nú að því að gera langtímasamninga um ferskfiskkaup við íslenska aðila til að tryggja hráefni á markaði sína og væru á leið til landsins í þeim erindum. Síðar í morgun frétti ég svo að franskir kaupahéðnar kembdu nú Vestfirði í sömu erindagjörðum. Mörg fyrirtæki eru illa stödd eins og hæstv. ráðherra veit og margítrekað hefur komið fram hér í máli manna. Því þarf ekki mikið ímyndunarafl til að láta sér detta í hug að erlendir áhugamenn um ferskfiskkaup reyni að þrýsta niður verði á fiski um leið og þeir freista fyrirtækjanna með staðgreiðslufé. Þeir vilja því gera nauðasamninga við fyrirtæki sem horfa fram á gjaldþrot. Ég vil því spyrja hæstv. sjútvrh. í fyrsta lagi: Hvaða augum lítur hann á þessa þróun? Í öðru lagi: Hvaða afleiðingar heldur hann að slíkir viðskiptasamningar eða nauðasamningar muni hafa á atvinnulíf í dreifbýli í náinni framtíð? Í þriðja lagi vil ég líka spyrja hann hver áhrif hann telji að slíkt háttalag muni hafa á menningu þessarar þjóðar þegar til lengdar lætur.
    Nú liggur fyrir umsókn um lendingarleyfi á Íslandi frá risastóru erlendu vöruflutningaflugvélafyrirtæki. Flying Tiger heitir það. Eflaust má eygja gull og græna skóga í auga hins fljúgandi tígurs sem líklega er alþjóðlegrar ættar ef vel er að gáð. Hann ku selflytja ótrúlegt vörumagn milli landa, tígurinn sá. Það er auðvitað nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að hafa góð samskipti við erlendar þjóðir, bæði viðskiptaleg og menningarleg. Hins vegar er okkur jafnnauðsynlegt að gera slíkt á jafnréttisgrundvelli og þannig að við getum verið sjálfstæð og aflögufær. Það er því ekki úr vegi í þessari umræðu að leiða hugann að því á hverju þessi þjóð lifir í raun og veru og hvernig við búum að menningu okkar og hvernig við stöndum að þeim atvinnuvegi sem er undirstaða lífs okkar í landinu. Annars gæti farið svo að við verðum að auðveldri bráð fyrir erlenda kaupahéðna sem smám saman kaupa okkur frá eigin sjálfstæði. Og þá verður það léttur leikur og ekki lengi gert fyrir ,,fljúgandi tígur`` að flytja 250 þúsund manns úr landi sem hafa glatað menningu sinni og sjálfstæði og flytja hingað í staðinn aðra þá sem öðlast hafa rétt til að draga fisk

úr íslenskum sjó.