Vandi sjávarútvegsins
Mánudaginn 05. desember 1988

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég skal reyna að stytta mál mitt þar sem nú er orðið áliðið.
    Það var 15. okt. 1975 sem við færðum landhelgina út í 200 mílur og núna 13 árum síðar erum við hér á hinu háa Alþingi að ræða vandræðin hjá skuldum vöfnum sjávarútvegi sem rambar á barmi gjaldþrots. Ekki held ég að þetta hafi verið markmiðið fyrir 13 árum. Öllum þeim stórkostlegu möguleikum sem íslenska þjóðin á enn og hefur átt hefur verið klúðrað allhressilega. Við höfum líka átt orkulindir í landi sem ekki hefur tekist að nýta. En ég verð að segja að mér finnst eins og nú er komið fyrir efnahagsmálum þessarar þjóðar með allar þessar auðlindir að þetta jaðri við að vera heimsmet í klúðri.
    Orsökin að þessu klúðri er léleg íslensk hagstjórn. Verðbólga hefur geisað hér undanfarin ár og étið eigið fé undirstöðufyrirtækja þessarar þjóðar til lands og sjávar. Og á hverju hefur svo þessi verðbólga nærst? Hún hefur aðallega nærst á illa reknum ríkissjóði sem haldið er gangandi með erlendum lántökum sem kynda verðbólgubálið. Þó svo að verðbólga hafi farið minnkandi er það tjón sem hún er búin að valda það sem er umræðuefnið í dag. Og hvað er svo verið að tala um að gera til ráðstöfunar í þessari stöðu? Það er verið að tala um að hækka vörugjald, það er verið að tala um að hækka verðlag í landinu með því að leggja vörugjald á innfluttar vörur. Er það líklegt til að leysa þann vanda sem við erum að fást við? Ég held að það sé alveg þveröfugt. Ég held að það sé alveg augljóst að það muni magna vandann.
    Í annan stað eru hér til umfjöllunar hugmyndir um að hækka skatt á skrifstofuhúsnæði og verslunarhúsnæði, hugmyndir um að hækka skatt á skrifstofur fyrirtækja í sjávarútvegi sem við erum að ræða um í dag að eigi í stórkostlegum erfiðleikum. Það er ekki til þess að leysa vandann. Þessar hugmyndir um aukna skattheimtu finnast mér alveg þvert ofan í þær staðreyndir, sem ættu öllum að vera ljósar, að íslenskt efnahagslíf þolir ekki aukna skattheimtu.
    Það eru enn fremur hugmyndir um að hækka tekjuskatt líka ofan á þetta allt saman. Og hvar á að taka þá peninga? Hvar halda menn að þessir peningar séu til? Þeir eru ekki til. Þessir peningar verða ekki teknir inn í kassann því þeir eru ekki til. Þetta eykur bara kreppuna í landinu.
    Varðandi Atvinnutryggingarsjóðinn vil ég segja að ég er viss um að þeim mönnum sem að honum standa gengur gott eitt til og vilja vel. En er þá verið að gera mönnum einhvern greiða með því að lána þeim í erlendum gjaldeyri á röngu gengi því það hlýtur að koma að því fyrr eða síðar að þurfi að laga gengið? Er þá ekki verið að leiða menn í gildru hvort sem það er viljandi eða óviljandi? Það er hins vegar allt í lagi að undirbúa að skuldbreyta hjá fyrirtækjum. Það hefur verið gert áður. Það leysir engan vanda. Það lengir greiðslubyrði fyrirtækjanna, gefur fyrirtækjum lengri möguleika á að ná sér upp aftur, en það leysir engan vanda og það er stórhættulegt að lána fyrirtækjum

erlendan gjaldeyri á röngu gengi. Það er hins vegar mögulegt að borga út úr Verðjöfnunarsjóði þá peninga sem þar eru í öðrum deildum en freðfiskdeild. Flest þessi fyrirtæki eru með blandaða samsetningu í framleiðslu þannig að það mundi hjálpa þeim verulega. Og að taka í Verðjöfnunarsjóðinn eins og gert er í dag af Ítalíuskreið er alveg úr lausu lofti, að láta sér detta það til hugar.
    En mál málanna er leiðrétting gengis. Verðlag á Íslandi er orðið allt of hátt miðað við nágrannalöndin og það er þess vegna sem þarf að leiðrétta gengið. Það kostar u.þ.b. 10 dollara vinnustundin á Íslandi í dag í almennri verkamannavinnu. Hún kostar 8 1 / 2 dollar í Bandaríkjunum og hún kostar 6 dollara í Bretlandi á Humber-svæðinu. Það er það sem við erum að keppa við.
    Flutningatækni eykst með hverju ári. Við komumst ekki hjá því að taka tillit til annarra þjóða. Þessar tölur eru eitt sýnishorn enn um það að gengið er rangt skráð. Svo eru til lög um gengisskráningu. Það segir í lögum um gengisskráningu, með leyfi forseta: ,,Ákvarðanir um gengi íslensku krónunnar skulu miðast við að halda sem stöðugustu gengi,,, --- sem stöðugustu, ekki stöðugu --- ,,ná jöfnuði í viðskiptunum við útlönd,,, --- hver er sá jöfnuður? Tíu milljarða halli eða meira. Það er jöfnuðurinn --- ,,en tryggja jafnframt rekstrargrundvöll útflutningsatvinnuvega og samkeppnisgreina`` --- sem er mikilvægast.
    Ég tel að ekki fari neitt á milli mála að stjórnvöld á Íslandi geta ekki skráð gengið bara einhvern veginn, af því bara. Þau hljóta að verða að taka mið af staðreyndum og lögum, svo maður tali nú ekki um stjórnarskrá lýðveldisins. En 67. gr. stjórnarskrárinnar gerir ekki ráð fyrir því að hægt sé að gera eigur fyrirtækja upptækar. Í 67. gr. segir: ,,Ekki má gera eigur upptækar nema almenningsheill krefji og þarf þá að greiða fullt verð fyrir.``
    Herra forseti. Ég tel að framkvæmdarvaldinu í landinu sé lagalega skylt og skylt samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins að skrá gengi krónunnar rétt. Og gengið er rétt þegar afkoma fyrirtækjanna er tryggð.