Vandi sjávarútvegsins
Mánudaginn 05. desember 1988

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umræður mjög, en hef þó nokkrar athugasemdir sem mig langar til að koma á framfæri. Fyrst vil ég þó segja að það sem einkennir þessa umræðu, sem og velflestar umræður af þessu tagi sem hafa farið fram hér á hinu háa Alþingi í haust, er þetta uppgjör gömlu flokkanna sem hér fer fram, þ.e. núv. stjórnarflokkar og Sjálfstfl. eru að gera upp sín mál. Við nýju flokkarnir, sem hlustum hér á, veltum því fyrir okkur hvort þetta sé ekki nánast sönnun á því sem við höfum haldið fram, að gamli fjórflokkurinn, Sjálfstfl., Framsfl., Alþfl. og Alþb., sé orðinn gjörsamlega ófær um að stjórna landinu. Ég hef vikið að því áður hér í ræðustóli að það er alveg sama hvaða stjórnarmynstur þessara fjögurra flokka er í gangi hverju sinni, það er alltaf sama óstjórnin. Eina vonin sem þetta þjóðfélag á, ef það ætlar að komast út úr allri þessari vitleysu, er því að stokka stjórnmálin algjörlega upp, gefa nýjum flokkum og nýjum stjórnmálahreyfingum færi á því að finna nýjar leiðir. Ég held að við getum öll verið sammála um að það gerist ekki undir stjórn gömlu flokkanna.
    Hér hefur verið til umræðu sjávarútvegurinn sem að sjálfsögðu er mikilvægasta atvinnugrein okkar. Það ætti öllum að vera ljóst. Sjávarútvegurinn er sú mjólkurkýr sem við öll lifum á. Það er með ólíkindum hversu illa hefur verið búið að þessari atvinnugrein undanfarin ár. Hún hefur verið misnotuð á marga vegu. Þar má kannski fyrst og fremst fjalla um nýfrjálshyggjustefnuna sem hefur stefnt að því, að því er oft virðist, að eyðileggja sjávarútveginn nánast. Nýfrjálshyggjustefnan byggist á því að við eigum að selja hvert öðru verðbréf, lifa á því, leggja launin okkar inn á banka og fá sem hæsta vexti, vera sem minnst í annarri atvinnustarfsemi. Fyrirtæki eiga helst að fara á hausinn en allir eiga að vera á þessum verðbréfamarkaði. Ég hef oft lýst þessu þannig að þessi stefna gengur nánast út á það að við eigum öll að lifa á því að klippa hvert annað og möndla svo með alls konar pappíra og fást við að flytja peningana á milli staða eftir því hvar þeir gefa mestan arðinn af sér. Ég held að okkur væri nær að huga betur að sjálfu atvinnulífinu og tryggja því sem hagkvæmust ytri skilyrði. Fastgengisstefnan, sem mjög hefur verið við lýði hér undanfarið, er nánast trúaratriði hjá nýfrjálshyggjumönnunum og gengisþróunin, eins og hún hefur verið hér undanfarin ár, er líka liður í trúarbrögðum nýfrjálshyggjumannanna.
    Ég gerði það að gamni mínu að reikna þróun verðlags frá 1979, og hef reyndar vikið að því hér nýverið í ræðustól. Ef við skoðum þróun verðlags, eins og hún hefur orðið frá því að lánskjaravísitala var tekin upp í júní 1979 og hundraðsstillum helstu gjaldmiðla svo og helstu vísitölur sem við miðum við, svo sem lánskjaravísitölu, byggingarvísitölu og launavísitölu og skoðum síðan hvernig sú þróun hefur orðið til 1. júní 1988, þá sjáum við alla söguna birtast í þessum tölum. Þegar danska krónan er orðin 934 frá því að hafa verið 100 í júní 1979, þá er

lánskjaravísitalan komin í 2051 stig og dollarinn í 1209 og þýska markið í 1252. Þ.e. raungengi íslensku krónunnar hefur hækkað næstum því 100% fram yfir helstu gjaldmiðla sem við þurfum að selja útflutningsafurðir okkar í. Það er ekki nema von að illa sé komið fyrir helstu útflutningsgreinum okkar.
    Hér fyrr í sumar, reyndar síðla sumars, var talað um að reyna að lagfæra gengisskráninguna með því að fara svokallaða niðurfærsluleið, þ.e. að lækka launin og ná raungenginu niður með þeim hætti. Það er annars mjög fróðlegt að velta því fyrir sér að þrátt fyrir u.þ.b. 20% gengisfellingu á árinu 1988 þá hefur engu að síður haldið áfram raungengishækkun íslensku krónunnar. Að vísu hefur orðið vart við örlitla raungengislækkun eftir gengisfellinguna í september, þ.e. 3% gengisfellinguna, en spurningin er hvort hún á ekki eftir að skila sér í verðlaginu þannig að áfram haldi raungengishækkunin þegar áhrif gengisfellingarinnar eru að fullu komin fram.
    Þeir eru margir sem halda því fram að fyrirtækin eigi að geta lifað af þá raungengishækkun sem hér hefur orðið og þeim beri einfaldlega að hagræða. Margir halda því fram að hér sé um lélegan rekstur að ræða, fyrirtækin séu svo illa rekin, þetta sé þeim sjálfum að kenna að svo illa er komið sem raun ber vitni. E.t.v. er eitthvað til í þessu a.m.k. í sumum tilvikum. Það er viðurkennd staðreynd að það hefur orðið um gífurlega offjárfestingu að ræða í sjávarútvegi, sérstaklega þó í fiskvinnslu og hvað mest í frystingunni. Það hefur verið bent á það m.a. að við höfum stóraukið frystingu til sjós, þ.e. við höfum keypt og komið okkur upp fjölmörgum skipum sem geta fryst um borð þannig að það er ætlað að um 20% af sjávarafla séu nú fryst um borð í frystitogurum og öðrum skipum sem hafa búnað til þess að einhverju leyti. Á sama tíma hefur orðið veruleg aukning á fjárfestingu í frystihúsum í landi. Á meðan á þeirri þróun hefur staðið að við höfum farið út í sjávarfrystingu þá skyldi ætlað að það hefði dregið úr fjárfestingu í landi. En það er nú öðru nær. Hún hefur stórlega aukist á sama tímabili svo það er eitthvað til í því að offjárfestingin hafi hér valdið miklu um hvað illa er komið fyrir okkur.
    Ég held að það blandist þó engum hugur um að höfuðorsökin fyrir því hversu
illa er komið sé hin furðulega gengisþróun sem hefur átt sér stað undanfarið þegar íslenska krónan er allt í einu orðin sterkasti gjaldmiðill heimsins, liggur mér við að segja. Enginn gjaldmiðill, a.m.k. í nágrannalöndum okkar, hefur roð við íslensku krónunni þegar litið er á þær tölur sem ég nefndi áðan um gengisþróunina frá 1979.
    Það er margt annað sem mætti víkja að í sjávarútvegi. T.d. þykir mér orðið ráð að fjalla hér örlítið um fiskveiðistefnuna. Við höfðum um hana langar ræður hér á þinginu í fyrra um þetta leyti þegar við vorum að fjalla um fiskveiðistefnufrv. þáv. og núv. hæstv. sjútvrh. Ég held að hún eigi sinn þátt í því hversu illa er komið ekki síður en erfiðleikarnir sem hafa gert vart við sig í landi. Kvótastefnan hefur

orðið þess valdandi að þróun í sjávarútvegi hefur verið afar óhagstæð og við höfum ekki náð þeirri arðsemi í fiskveiðunum sem skyldi. Þessi atvinnugrein er alveg lokuð af. Það er engin endurnýjun sem er möguleg þar, það koma engir nýir menn inn í atvinnugreinina vegna þess að þeir fá engan kvóta. Kvótastefnunni var líka ætlað að reyna að koma á betri stýringu á fiskveiðunum þannig að fiskveiðarnar væru markvissari og verndunarsjónarmið voru talin auðveldari viðfangs með kvótastefnunni en með heildarkvóta eins og var hér áður. En þegar betur er að gáð þá fæst ekki betur séð en að þetta hafi með öllu brugðist þannig að stjórnun fiskveiða er miklu erfiðari með kvótastefnunni. Sér í lagi hefur reynst erfiðara að hafa hemil á fiskveiðum til að halda nytjastofnunum við, passa upp á hrygningarstofninn og koma í veg fyrir smáfiskadráp.
    Annars er fróðlegt að velta því fyrir sér með hvaða hætti sjávarútvegi hefur verið ætlað að standa undir byggð í landinu. Það er stundum sem mönnum finnist að sjávarútvegurinn eigi einn að sjá um það að hægt sé að halda uppi byggð alls staðar á landinu. Sjávarútveginum hefur verið ætlað að tryggja atvinnu í hinum dreifðu byggðum. Það út af fyrir sig er ekki nema eðlileg ráðstöfun. Hins vegar má ekki búa þannig að þessari mikilvægu atvinnugrein að hún sé rekin með tapi til þess eins að halda uppi byggð hvað sem kostar þar sem ekki er nokkur leið að láta fyrirtæki í sjávarútvegi bera sig. Hér er komið að mjög viðkvæmum punkti í byggðamálum okkar. Það kann að vera að við eigum eftir að sjá hér miklar og sársaukafullar breytingar bæði í búsetu og atvinnuháttum til þess að komast í gegnum það breytingaskeið sem við göngum nú í gegnum. Má vel vera að við eigum eftir að sjá byggð leggjast niður á ýmsum stöðum á landinu og sjávarútveginn þjappast saman þar sem fyrirtækin geta orðið stærri og hæfari til rekstrar. Að sjálfsögðu verður að fara ákaflega varlega í þessu efni því eins og ég gat um áðan er þetta viðkvæmt og erfitt viðureignar. Það er ekki auðvelt að vera í dómarasætinu og segja: Hér er ekki neinn vegur að halda uppi byggð eða fyrirtækjum í sjávarútvegi.
    Þá vaknar líka spurning: Er ekki að verða sú breyting í sjávarútvegi, sérstaklega í fiskvinnslunni, að sú aðferð sem hefur verið aðalstofninn í vinnslu sjávarafurða, þ.e. frystingin, er að verða meira eða minna úrelt? Það hafa orðið mjög litlar breytingar í frystingunni í eina tvo áratugi. Við höfum haldið áfram að pakka þessari hefðbundnu fimm punda pakkningu og senda hana á markað til Bandaríkjanna. En spurningin er hvort markaðirnir kalli ekki á allt aðra vöru. Við sjáum það að nokkru leyti hvað eftirspurn eftir ferskum og ísuðum fiski fer ört vaxandi og hvað verðið virðist vera mun hærra fyrir góðan, ferskan fisk ef hægt er að koma honum á markað en verðið sem við fáum fyrir frystan fisk. Það er a.m.k. eins og málin standa núna allankannalegt að við fáum meira fyrir ferskan fisk á mörkuðum erlendis en fyrir frystan fisk eftir að búið er að fara með hann

í gegnum frystihúsin okkar. Og þá fara menn að spyrja: Borgar þetta sig?
    Það er spurning hvort við þurfum ekki að hugsa þessi mál upp á nýtt, hvort við þurfum ekki að reyna annars konar vöruþróun, reyna að fara meira út í tilbúna rétti, hugsanlega í samstarfi við erlenda aðila. Við höfum séð dæmi um það núna á síðustu árum þar sem mönnum hefur tekist vel upp með að framleiða tilbúna fiskrétti til sölu beint til neytenda. Ég er á því að við ættum að huga betur að slíkum möguleikum. Þar þurfum við eflaust að taka upp samstarf við stóra erlenda aðila, stór fyrirtæki sem hafa dreifingarkerfi sem dugar til þess að koma slíkum vörum á framfæri.
    Þá er annar angi í sjávarútvegi sem er vert að gefa betur gaum að og það eru fiskmarkaðirnir. Það er mjög umdeilt hvort við eigum að reka hér fiskmarkað eða ekki. Fiskmarkaðir hafa verið má segja tilraun sem við fórum út í fyrir nokkrum árum. Það virðist ætla að fara á þann veg að fiskmarkaðir muni eiga rétt á sér hér á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar virðast fiskmarkaðir ekki geta gengið. Við höfum hugsað okkur fiskmarkaðina með þeim hætti að aðeins innlendir aðilar fái þar aðgang og þeir geti virkað sem miðlun fyrir fiskverkunarhús sem geta keypt ferskan fisk á mörkuðum til vinnslu í landi. En ég vil varpa þeirri spurningu fram hvort ekki þurfi að hugsa þessi mál í dálítið stærra samhengi. Væri ekki alveg athugandi að opna hér fiskmarkaði fyrir kaupendur erlendis frá? Og þá vaknar sú spurning: Gætum við ekki gert Ísland að stærsta fiskmarkaði Evrópu? Að við beindum hingað kaupendum frá
öllum Evrópulöndunum sem hafa hug á því að kaupa íslenskan fisk, t.d. Þjóðverjum, Frökkum, Belgum og Englendingum, sem fengju að koma hingað og kaupa fiskinn hér beint á fiskmörkuðum? Þetta er hugmynd sem ég held að væri vert að rannsaka betur og kanna til þrautar hvort þetta gæti verið lausn sem gæti gefið okkur betri arðsemi í sjávarútvegi. En þá vakna einnig upp spurningar. Ef það sýnir sig að við fáum mest fyrir fiskinn með þessum hætti verðum við annaðhvort að stilla gengið þannig af að fiskvinnslan verði samkeppnisfær við það verð sem fæst á fiskmörkuðum með þessum hætti eða við verðum hreinlega að leggja niður fiskvinnslu í landinu. Hvað á þá að gera til að halda uppi atvinnu í hinum dreifðu byggðum? Ja, það er spurning sem er ósvarað af þeim sem hugsa málið á þessum nótum.
    Það er alveg ljóst að sjávarútveg sem er ætlað að standa undir þjóðlífi í þessu landi verður að reka á þann hátt að hann skili sem mestum hagnaði, færi þjóðarbúinu sem mestan hagnað í aðra hönd. Ef það gerist með þeim hætti að hagkvæmast sé að selja fiskinn á stórum fiskmörkuðum hér með þeim hætti sem ég hef lýst er það auðvitað besta leiðin. Við öflum a.m.k. á þann hátt meiri tekna sem við getum notað til þess að standa undir annars konar atvinnustarfsemi úti á landi og reyndar hvar sem er. Það er þó alveg ljóst að við þurfum að fara að líta á atvinnumál okkar í allt öðru samhengi en við höfum gert hingað til og hugsa upp nýjar leiðir í

atvinnumálum. Nýjar leiðir til þess að renna styrkari stoðum undir atvinnulífið og einnig til að treysta það með þeim hætti að það skili meiri hagnaði en verið hefur. Við verðum að hætta að hugsa um það eitt að reka sjávarútveg á núlli eins og hingað til hefur verið aðalmarkmið íslenskra stjórnvalda.