Vandi sjávarútvegsins
Mánudaginn 05. desember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Þessi umræða hefur staðið drjúgan tíma, frá því um miðjan dag í gær og fram á þennan nýja dag og ég skal ekki lengja umræðuna til muna. Hún hefur um margt verið athyglisverð. Niðurstaða hennar er líka skýr, en því miður afar dapurleg.
    Hæstv. sjútvrh. sendir þau skilaboð frá Alþingi Íslendinga í þessari umræðu til fólksins sem vinnur í sjávarútveginum, sjómannanna, útgerðarmannanna, fiskverkafólksins og stjórnenda fiskvinnslufyrirtækjanna að það eigi ekkert að gera. Það eru þau skilaboð sem hæstv. ráðherra sendir þjóðinni í þessari umræðu. Hæstv. ráðherra hefur verið þekktur fyrir málafylgju og atorku í sínu ráðuneyti. Hann hefur notið allmikillar virðingar og trausts í sjávarútveginum langt út fyrir raðir sinna eigin flokksmanna. Það er ekki síst vegna þessa sem niðurstaða þessarar umræðu er dapurleg. Það er ekki síst í ljósi þessarar staðreyndar að hún hlýtur að valda mörgum vonbrigðum. Það kom skýrt fram í máli hæstv. ráðherra að biðleikur hæstv. ríkisstjórnar væri ófullnægjandi, það yrði að gera ráðstafanir, en þær yrðu samt ekki gerðar. Og dapurlegri niðurstöðu er ekki unnt að fá.
    Hæstv. forsrh. mætti, sem kunnugt er, á sérstökum fundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og forustumanna Sambandsfrystihúsanna. Hann flutti þar boðskap um það að íslenska þjóðin væri að færast nær þjóðargjaldþroti. Hann hefur áður talað um að Róm væri að brenna. Það eru ekki orð úr orðasafni stjórnarandstöðuflokka. Niðurstaða þess fundar varð sú eftir yfirlýsinguna um fílabeinsturninn að það ætti að boða til langs ríkisstjórnarfundar. Langur ríkisstjórnarfundur hét það. Það var niðurstaðan. Það var boðskapurinn sem fólkið í sjávarútveginum fékk og menn bundu nokkrar vonir við langan ríkisstjórnarfund. Og það var haldinn langur ríkisstjórnarfundur. Niðurstaðan varð engin.
    Nú er efnt til umræðu á hinu háa Alþingi og hæstv. sjútvrh., sem er kunnur málafylgjumaður og nýtur virðingar, gefur og flytur þann boðskap að ekkert eigi að gera. Hann sagði orðrétt, að ég man, að ,,myndin væri ekki nógu skýr``. Fólkið sem vinnur í sjávarútveginum hefur alveg nægjanlega skýra mynd og ég hygg að flestir hv. alþm. hafi alveg nægjanlega skýra mynd af stöðu sjávarútvegsins í dag. Og ég þykist vita að þingmenn úr ríkisstjórnarliðinu hafi alveg nægjanlega skýra mynd, enda hafa hæstv. ráðherrar ekki fengið stuðning frá þingmönnum stjórnarflokkanna hér í dag við að fylgja fram biðleiksstefnunni. Enginn þingmanna stjórnarflokkanna hefur séð ástæðu til þess að koma upp og styðja stjórnarstefnuna.
    Biðleikur. Myndin ekki nægjanlega skýr. Hæstv. ráðherra hefði líka getað orðað þessa hugsun á annan veg. Hann hefði svo sem getað sagt eins og formaður Framsfl.: Við erum allir í fílabeinsturni. Það hefði lýst sömu hugsun með nokkuð svipaðri niðurstöðu.
    Hæstv. viðskrh. flutti svo þann boðskap að það þyrfti að hagræða meira í sjávarútveginum, það þyrfti að endurskipuleggja í sjávarútveginum. Það er

auðvitað laukrétt. Í sjávarútvegi þarf að endurskipuleggja meir. Þar hefur verið unnið gríðarlega mikið að endurskipulagningu og hagræðingu, en það þarf meira til. En það verður ekki gert á þann veg sem hæstv. ráðherra lýsti. Það verður ekki gert á þann veg að knésetja sjávarútveginn og draga úr honum allan mátt. Það má vel vera að hæstv. viðskrh. geti á gamla reiknistokk gamla Þjóðhagsstofnunarforstjórans fengið þá niðurstöðu að með því að taka erlend lán til að greiða niður verðlagið í landinu og með því að neita að viðurkenna að raungengi krónunnar er of hátt og með því að stefna að því að draga allan mátt úr framleiðsluatvinnuvegum þjóðarinnar, þá megi á þennan gamla reiknistokk fá niðurstöðuna núll í verðbólgu. En ég ætla að segja hæstv. viðskrh. það að þó að þessi gamli reiknistokkur sýni með þessum hætti þessa niðurstöðu mun hún ekki fást í búð reynslunnar. Niðurstaðan í búð reynslunnar af þessari stjórnarstefnu verður önnur og býsna alvarlegri en ég hygg að hæstv. ráðherra geri sér grein fyrir.
    Við læknum ekki verðbólguna með því að taka erlend lán í niðurgreiðslur og með því að knésetja sjávarútveginn, framleiðsluatvinnuveg þjóðarinnar, og við endurskipuleggjum ekki í sjávarútveginum með því að nota fé skattborgaranna í ríkissjóði til að setja inn í þau fyrirtæki sem eiga að lifa að mati þeirra sem ferðinni ráða eins og Þjóðviljinn lýsti stjórnarstefnunni og ekki með því að gera það eitt að veita aukin lán til fyrirtækja sem eru of skuldsett fyrir. Hæstv. sjútvrh. viðurkenndi enda að í því væri engin lausn fólgin.
    Með þessu móti er hægt að lengja í hengingarólinni, en það er verið að knésetja vel reknu fyrirtækin. En það er á vel reknu fyrirtækjunum í sjávarútveginum, sem er auðvitað meiri hluti fyrirtækjanna, sem íslenska þjóðin lifir og það eru þau fyrirtæki sem tryggja öruggan hagvöxt og batnandi lífskjör þjóðarinnar. En í staðinn á að eyða allri orkunni í að velja þau fyrirtæki úr sem ekki hafa rekstrargrundvöll, eyða allri orkunni í það að bjarga þeim með fjármagni skattborgaranna í ríkissjóði og sérstökum lánveitingum og nú er búið að breyta reglugerð Stefánssjóðs, svokallaðs
Atvinnutryggingarsjóðs, til þess að vinna að málunum með þessum hætti. Það þarf að endurskipuleggja í sjávarútvegi, en það verður gert með því að tryggja rekstrargrundvöll vel rekinna fyrirtækja. Það er ekki hægt við núverandi aðstæður með almennum aðgerðum að tryggja rekstur allra fyrirtækja í sjávarútvegi og það gerir enginn þær kröfur og hér hafa engar þær ómálefnalegu kröfur verið settar fram að til þess sé ætlast af ríkisstjórninni að hún kynni hér ráðstafanir sem tryggi þetta. En krafan er sú að vel reknum fyrirtækjum sé tryggður rekstrargrundvöllur og að því búnu má ræða aðgerðir til fjárhagslegrar endurskipulagningar og fjárhagslegrar uppbyggingar og uppstokkunar í þeim fyrirtækjum sem ekki standast þegar búið er að tryggja almennan rekstrargrundvöll. En ríkisstjórnin stefnir í þveröfuga

átt og það er það sem er alvarlegt og það er það sem fólkið í landinu mun ekki taka þegjandi og það er sá boðskapur sem mun vekja ugg í brjóstum fólksins í landinu, ekki síst þeirra sem í sjávarútvegi starfa, þegar fréttir spyrjast af þessari umræðu hér í dag.
    Ég efa ekki að hæstv. sjútvrh. skilur það, eins og reyndar kom fram í hans máli, að það þarf að gera aðgerðir. En það virðist svo sem Framsfl. í þessu stjórnarsamstarfi komi ekki því máli fram. Hann sé af öðrum aðilum í ríkisstjórninni króaður af. Og í reynd hygg ég, ef allrar sanngirni á að gæta, að það sé meginniðurstaðan af þessari umræðu. Og auðvitað er það kannski jafndapurlegt að svo skuli vera.
    En hæstv. ráðherra sagði að það væri mikilvægt að ræða þessi mál samhliða skattafrumvörpum ríkisstjórnarinnar og fjárlagafrv. Í því er auðvitað fólgin viðurkenning á því að það þurfi að gera aðgerðir. Í því er fólgin viðurkenning á því að efnahagsstefnan eins og hún birtist í skattafrumvörpunum og fjárlagafrv. stefnir gegn hagsmunum atvinnulífsins og það er auðvitað nauðsynlegt að gerbreyta þeirri efnahagsstefnu sem fjárlagafrv. byggir á, hverfa frá þeirri skattastefnu sem boðuð er og stefnir gegn hagsmunum atvinnuveganna og viðurkenna það, sem hæstv. forsrh. segir á hverjum degi, að gengið sé of hátt skráð. Það er ekki unnt að flytja slíkar yfirlýsingar svo til á degi hverjum, en segja svo: Það á ekkert að gera í málinu. Og það er ekki unnt að gefa slíkar yfirlýsingar en ætla svo að samþykkja fjárlagafrv. sem byggir á allt öðrum forsendum. Niðurstaðan þess vegna af máli hæstv. sjútvrh. er auðvitað sú að það sé ekkert vit í því að afgreiða fjárlög eða skattheimtufrumvörp ríkisstjórnarinnar fyrr en leitin mikla að raunhæfum ráðstöfunum hefur borið einhvern árangur og ríkisstjórnin flytur tillögur í þeim efnum. Ég leyfi mér að skilja orð hæstv. ráðherra á þann veg að hann leggi til að fjárlagafrv. og skattafrumvörpin verði ekki afgreidd fyrr en ríkisstjórnin hefur komist að niðurstöðu um aðgerðir í efnahagsmálunum til að bæta rekstrarstöðu sjávarútvegsins. Ef þetta er réttur skilningur er ég alveg sammála hæstv. ráðherra. Auðvitað er það forsenda fyrir fjárlagafrv. og ráðstöfunum í skattamálum að stefnan í málefnum sjávarútvegsins og atvinnuveganna liggi ljós fyrir. Ég fagna því ef þetta er réttur skilningur. Það er þá eini ljósi boðskapurinn í máli hæstv. ráðherra í dag.
    Þessi umræða er engin lokaumræða um þessi viðfangsefni. Hún hlýtur að tengjast umræðum á Alþingi á næstu dögum og vonandi leiðir hún til þess að hæstv. ríkisstjórn sjái að sér og kynni hér á Alþingi áður en gengið er til afgreiðslu fjárlaga ráðstafanir til að treysta rekstur útflutningsframleiðslunnar. Um það eigum við ekki að þurfa að deila að við lifum ekki í þessu landi nema það verði gert.