Vandi sjávarútvegsins
Mánudaginn 05. desember 1988

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegi forseti. Það er að sjálfsögðu ekki rétt skilið hjá hv. 1. þm. Suðurl. að það eigi að skilja þessa umræðu þannig að það verði að gera eitthvað en það eigi ekkert að gera. Mér kemur það nokkuð á óvart ef hann ætlar sér að halda því fram og hv. þm. Albert Guðmundsson að þessi vandasömu mál verði leyst í umræðu á Alþingi utan dagskrár. Það væri þá í fyrsta skipti sem ég þekki til að mál séu tekin fyrir í umræðum utan dagskrár á Alþingi með litlum fyrirvara og leyst einfaldlega í þeirri umræðu. Það er mjög merkilegt að hv. þm. Albert Guðmundsson hafi gert sér í hugarlund þegar hann kom hér kl. tvö í dag að öll mál yrðu leyst vegna þess að hann ætlaði sér að vera hér fram eftir nóttu og nú þurfi hann að hafa áhyggjur af því að geta ekki sofið vegna þess að öll mál hefðu ekki verið leyst í umræðum utan dagskrár. Þannig gerast hlutirnir ekki. Og hlutirnir gerast ekki með þeim hætti að það sé komið hér í upphafi fundar og sagt: Það verður að fella gengið. Gengið skal fellt og við skulum bara fella það í umræðum utan dagskrár. Það var sá boðskapur sem kom fram í upphafi.
    Ég minni hv. 1. þm. Suðurl. á að allt sl. ár og alveg frá sl. hausti hafa menn verið að ræða um með hvaða hætti skuli taka það áfall á sig sem við höfum orðið fyrir. Þetta er að sjálfsögðu ekki svo einfalt mál að það sé hægt að segja: Þetta er bara vandamál sjávarútvegsins. Þetta er að sjálfsögðu vandamál alls þjóðfélagsins. Allt sem hefur verið gert í þessu þjóðfélagi, hvort sem það hefur verið í sambandi við fjárlög, peningamál og ýmislegt annað, fjárfestingar, jafnvel húsnæðismál, hefur veruleg áhrif á afkomu sjávarútvegsins. Ég tek undir það með hv. þm. Þorsteini Pálssyni að auðvitað hefur afgreiðsla fjárlaganna áhrif á afkomumöguleika atvinnulífsins.
    Menn hafa gert nokkuð mikið úr því þegar ég hef haldið því fram að launahlutfallið í þjóðfélaginu væri of hátt. Og eins og venjulega þegar það er nefnt rísa menn upp á Alþingi, þar á meðal hv. þm. Guðmundur Garðarsson og fleiri, og segja: Nú er boðskapurinn sá að það eigi að skerða kaupið og skerða kjörin. En hvað eru menn að tala um hér? Er ekki verið að tala um að það verði að breyta genginu? Á það að fela í sér kjarabót fyrir almenning? Auðvitað er það kjarabót til framtíðar að taka á sig áföllin. Auðvitað er það rétt að vegna þess að við höfum ekki gert það fyrr mun það koma niður á okkur í meira mæli nú. En hver er valkosturinn? Hann er m.a. sá að horfa upp á fyrirtækin verða gjaldþrota. Og þótt hv. þm. Albert Guðmundsson hafi dregið hér upp gamla pennastrikið sitt sagði hann jafnframt að það væri staðið óheiðarlega að málum vegna þess að pennastriki var beitt á fyrirtæki vestur á fjörðum og talaði þá mikið um Útvegsbankann í því sambandi og nefndi jafnvel eitthvert skipafélag í sambandi við það mál sem ég skildi ekki alveg. Þá var það allt í einu orðið óheiðarlegt í fyrsta skipti sem þessu pennastriki er beitt. Ég hafði haldið að hv. þm. fagnaði sérstaklega að nú skyldu menn vera farnir að beita hans

aðferðum.
    En það er alveg með eindæmum að maður sem er búinn að vera jafnlengi í viðskiptalífinu og hv. þm. Albert Guðmundssn skuli tala um pennastrik með þeim hætti sem hann gerir. Ætlast hann til þess að ríkisstjórn ákveði að strika út skuldir ákveðinna fyrirtækja í landinu? Hver á að botna í slíkum málflutningi? Auðvitað verða fyrirtækin sjálf að ákveða í gegnum samninga hvort þau skuli gefa upp sínar skuldir. Það er ekki hægt að beita opinberri forsjá í svo miklum mæli sem hann kemur þar inn á.
    Hér hafa komið fram ýmsar fyrirspurnir. Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson spurði mig um hvað eða hverjir hefðu komið í veg fyrir að gengið væri rétt skráð á sl. ári við hin ýmsu tækifæri. Ég ætla mér ekki að ræða það sérstaklega eða kenna þar einum eða öðrum um. En ég vil bara endurtaka að ráðgjafi ríkisstjórnar á hverjum tíma í gengismálum, Seðlabanki Íslands, og þeir bankastjórar sem þar eru við völd, ráðgjafar fyrrv. forsrh., fyrrv. ríkisstjórna og núv. ríkisstjórnar, hafa ekki ráðlagt það nokkurn tíma mér vitanlega. E.t.v. getur hæstv. fyrrv. forsrh. upplýst það, en mér var a.m.k. ekki kunnugt um að þeir ágætu menn hefðu einhvern tíma ráðlagt að breyta gengi um eina einustu prósentu. (Gripið fram í.) Nei, það er rétt, en mér fannst oft á tíðum, hv. þm. Þorsteinn Pálsson, að það væri tekið ansi mikið tillit til þeirra því mér hefur fundist þeir vera farnir að gerast heldur íhaldssamir í seinni tíð og enn þá íhaldssamari en áður var, þótt í sjálfu sér sé Seðlabankinn íhaldssöm stofnun og eigi að vera það eins og í öllum öðrum löndum. En ég er ekki að segja með þessu að það eigi að kenna þessum mönnum um. Það er langt í frá. En það verður að ætlast til þess að þeir geti lagt á þetta bærilegt mat og gefið ríkisstjórn rétt ráð. Ég fullyrði að þeirra ráð voru heldur til að spilla fyrir því að réttar ákvarðanir væru teknar. Og ég fullyrði að þeirra ráðleggingar í sambandi við ýmislegt á fjármagnsmarkaði höfðu mjög slæm áhrif því þar var allt of mikið gefið laust á sama tíma. Ég nefndi hér kreditkort og erlendar lántökur. Auðvitað var t.d. upptaka staðgreiðslukerfisins 1987 þensluhvetjandi aðgerð vegna þess að allir þeir sem unnu þá gátu vitað að þeir þyrftu ekki að borga skatt af launum sínum. Það var
ekki heppilegt eftir á að hyggja að taka staðgreiðslukerfið upp með þeim hætti á því ári.
    En þetta er allt saman fortíð og auðvitað er það sem fram undan er það sem skiptir máli. Ég minni á að það er verið að starfa að þessum málum. Það er gert lítið úr Atvinnutryggingarsjóðnum og hv. þm. Friðrik Sophusson sagði að það væri nær að lána fyrirtækjunum til að byggja upp sitt eigið fé. Ég held að menn þurfi þá líka að hafa í huga, sem gagnrýna okkur, að eigið fé verður ekki byggt upp heldur með lánsfé. Það eru ekkert óskaplega margir aðilar í þessu landi sem eru tilbúnir að taka lán til að kaupa hlutafé í fyrirtækjum. Eigið fé verður fyrst og fremst byggt upp með hagnaði fyrirtækjanna og það er það sem

hefur skort á alllengi að fyrirtækin hafi nægilegan hagnað, sérstaklega upp á síðkastið, og það er þess vegna sem þeirra eigið fé rýrnar. Fyrirtækin þurfa að græða, hafa hagnað til að byggja upp sitt eigið fé.
    Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir spurði hvort ekki væri óeðlilegt að taka fé úr Atvinnuleysistryggingasjóði við þessar aðstæður. Það tel ég alls ekki vera vegna þess að það er mikilvægt að reyna að koma í veg fyrir atvinnuleysi og ég hygg að fjármagni Atvinnuleysistryggingasjóðs sé ekki til annars betur varið en að hjálpa til við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja. Menn hafa haldið því fram að það væri hætta á að þarna yrði sérstaklega illa farið með ákveðin fyrirtæki og ákveðin fyrirtæki tekin fram yfir önnur og minnst þar sérstaklega á Sambandsfyrirtæki og önnur fyrirtæki. Hvaða dylgjur eru þetta, hv. þm. Albert Guðmundsson? Verður ekki að aðstoða öll þessi fyrirtæki og gera það jafnt? Af hverju er hv. þm. Albert Guðmundsson að koma sérstaklega með þessar dylgjur? Er einhver ástæða til þess? Það fyrirtæki sem fyrst fékk fyrirgreiðslu úr þessum sjóði var ágætt fyrirtæki hér í Reykjavík, í kjördæmi hv. þm. Alberts Guðmundssonar, Grandi hf., sem er með tiltölulega góða eiginfjárstöðu, m.a. vegna þess að það var mjög vel stutt af Reykjavíkurborg á sínum tíma. Þetta fyrirtæki var fyrsta fyrirtækið sem fékk fyrirgreiðslu. Auðvitað verður að gera það eftir hlutlægum reglum. Ég tek undir það. Og það er engin ástæða til að gefa annað í skyn.
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu. Ég vil þó segja að lokum að það er mjög mikilvægt að grípa til aðgerða, ég tek undir það. En ég vona að það hafi í reynd engum dottið í hug að það gerðist hér í dag utan dagskrár. En hvað svo sem verður gert er að sjálfsögðu mikilvægast að fyrirtækin fái rekstrargrundvöll þótt það sé e.t.v. aulalegt að segja það, eins og hv. þm. Albert Guðmundsson lét koma fram, að það væru ekki nema aular sem notuðu slík orð. Það er að sjálfsögðu það sem skiptir máli en ekki pennastrik og ég veit að við getum verið um það sammála.
    Það er alveg ástæðulaust að láta í það skína að það sé enginn vilji til þess hjá núv. ráðherrum að grípa til nauðsynlegra aðgerða, en það er að sjálfsögðu ekki sama hvað gert er og með hvaða hætti það er framkvæmt. En það mun væntanlega koma í ljós á næstu vikum, ekki næstu dögum. Við verðum að hafa þolinmæði til þess að takast á við þessa hluti. Við höfum fyrr séð mikla erfiðleika og okkur hefur tekist að komast út úr þeim og það er engin ástæða til þess að ætla að okkur takist það ekki núna ef menn viðurkenna þá staðreynd að það verður ekki gert öðruvísi en að kjör landsmanna skerðist. Þeir sem halda öðru fram og tala um að nú muni menn loks bjarga íslenskri verkalýðshreyfingu, sem þarf að sjálfsögðu að vera sterk, en hún þarf líka að vera raunsæ, og hér sé verið að kasta einhverjum stríðshanska með því að tala um ákveðnar staðreyndir, það eru menn sem tala gegn betri vitund og þeir ættu ekki að koma í ræðustól á Alþingi og ásaka aðra fyrir

að vilja ekkert gera í málum og vita ekkert um hvað gera skal.