Þingsályktunartillaga um bætta samkeppnisstöðu
Þriðjudaginn 06. desember 1988

     Ólafur G. Einarsson:
    Hæstv. forseti. Nú er klukkan orðin tvö að nóttu og ég hefði haldið að nóg væri messað. Ég vil mælast til þess í fullri vinsemd við hæstv. forseta að hér verði látið staðar numið. Ég sætti mig illa við að það verði haldið áfram umræðunni um það dagskrármál sem nú hefur verið kynnt, 2. málið á dagskránni, bætt samkeppnisstaða innlends skipaiðnaðar. Fyrrv. iðnrh., hv. þm. Friðrik Sophusson, gerði athugasemdir við málsmeðferðina í dag og hann hefur ekki átt þess kost að vera á fundi núna síðustu klukkutímana. Ég fer sem sagt þess vinsamlegast á leit við hæstv. forseta að hann fresti umræðu um þetta mál og raunar taki ekki fleiri mál fyrir og slíti fundi.