Þingsályktunartillaga um bætta samkeppnisstöðu
Þriðjudaginn 06. desember 1988

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. 2. þm. Reykn. að það er í hæsta máta óeðlilegt að taka nú fyrir svo mikilvægt dagskrármál sem samkeppnisstaða íslensks skipasmíðaiðnaðar er. Það er að vísu rétt að í dag hafa verið langar og strangar umræður, en það er ekki við stjórnarandstöðuna eina þar um að sakast. Fjölmargir þingmenn stjórnarliða hafa tekið þátt í þessum umræðum. Það er kannski ekki málið heldur það að ég tel að það dagskrármál sem hæstv. forseti hefur fyrirhugað að taka fyrir hér í framhaldi sé of mikilvægt til þess að við förum að ræða það nú kl. rúmlega tvö að nóttu til þegar fjölmargir þingmenn, sem áreiðanlega hefðu töluvert um þetta mál að segja, eru ekki viðstaddir. Ég vil því í fullri vinsemd mælast til þess, hæstv. forseti, að við fáum þessu máli frestað þar til við getum tekið það á dagskrá þannig að við getum rætt þetta mikilvæga mál málefnalega og að viðstöddum þeim þingmönnum sem hafa áreiðanlega mikið um þetta mál að segja.