Grunnskóli
Þriðjudaginn 06. desember 1988

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 6. þm. Reykv. fyrir þetta frv. og ræðumönnum sem hér hafa talað fróðlegar og gagnlegar upplýsingar varðandi grunnskólakerfið og hvað hér hefur á Alþingi komið fram af lagafrumvörpum um þessi mál.
    Ég er sammála því sem hér hefur komið fram að áríðandi er að taka lögin um grunnskóla til endurskoðunar. Ekki aðeins í ljósi þeirra þjóðfélagsbreytinga sem orðið hafa heldur einnig þar eð þau lög sem samþykkt voru 1974 hafa aldrei komið fyllilega til framkvæmda. Líta þyrfti á það hvaða ástæður lágu þar að baki og svo í þeirri umræðu hvernig má gera betur í framtíðinni.
    Það eru alltaf peningarnir sem öllu máli skipta og hvernig þeim skuli varið. Þetta frv. sem hér hefur verið lagt fram gerir ráð fyrir verulegum peningaútlátum. Eftir því sem mér sýnist er um að ræða 3 1 / 2 milljarð ef hrinda á þessum hugmyndum í framkvæmd. En eftir því sem mér skilst einnig þá kostar núverandi grunnskólakerfi um 3 milljarða. Þarna er því um helmings hækkun að ræða.
    Ég er sammála því sem kom fram hér hjá hv. 1. flm. að þetta er spurning um forgangsröðun og tek heils hugar undir það. Hins vegar verðum við einnig að líta til þeirra peninga sem til skiptanna eru og hvernig við teljum þeim best ráðstafað í hvert og eitt skipti.
    Núverandi grunnskólakerfi er að mínu mati ekki nógu gott og ekki nógu skilvirkt og þá sérstaklega hið innra starf. Það var gerð könnun á vegum Morgunblaðsins ekki alls fyrir löngu á almennri þekkingu Íslendinga. Ég verð nú að segja það að niðurstaða þeirrar könnunar kom mér mjög á óvart. Og þá er spurningin: Er þetta íslensku skólakerfi að kenna? Það var spurt um ýmis grunnhugtök og grunnspurningar varðandi sögu Íslendinga, um málfar og fleira og stór hluti þeirra sem spurðir voru var ekki með þetta á hreinu.
    Ég vil sem sagt leggja megináherslu nú sem endranær á innra starf skólanna. Hitt, einsetning skóla, samfelldur skóladagur, stærð skóla, fjöldi nemenda í hverjum bekk, er kannski ekki aðalatriðið í þessari umræðu. Það hlýtur að vera markmið skólanna að koma sem bestri menntun inn í nemendur og að sú menntun nýtist þjóðfélaginu.
    Innra starfið hlýtur að byggjast á samstarfi barna, foreldra, kennara og fræðsluyfirvalda og réttri skólastefnu ráðandi stjórnvalda. Þetta eru þær grunneiningar sem jákvætt og gott skólastarf þarf að byggjast á. En ég vil samt sem áður, þó að ég taki svona til orða um innra starfið, alls ekki kasta rýrð á þetta frv. Mér finnst þær hugmyndir sem þarna koma fram mjög góðar og réttmætar. En við verðum alltaf þegar um svona hluti er að ræða að hugsa um það hvernig við nýtum best þá peninga sem til skiptanna eru.
    Þegar þetta frv. kom til umræðu hér í fyrra þá lýsti ég þeirri skoðun minni að margt í því væri til bóta og rakti það nokkuð. Ég ætla ekki að endurtaka það nú

en vísa til þess sem ég sagði þá.
    Ég tel einnig mjög mikilvægt þegar skólamál eru rædd að koma inn á tengslin á milli þeirra þriggja skólastiga sem skólakerfið byggist á, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla, hvernig grunnskólinn getur undirbúið nemendur undir framhaldsskólann og síðan framhaldsskólinn undir háskólann. Það þarf að ræða þetta í einni samfellu og reyna að átta sig á þessu þrennu í einni heild.
    Í fyrra var mikið rætt um framhaldsskólana og einnig nýjan háskóla á Akureyri og hver tengslin þar voru. Hér ætti því að beina svolitlum kröftum í það að ræða um grunnskólann og hvernig nemendur væru undirbúnir undir framhaldsskólann. Hæstv. menntmrh. ræddi þetta nokkuð hér áðan og fagna ég þeim áhuga sem hann hefur á þessum málum, og því að ný námsskrá sé væntanleg núna í febrúar. Vona ég að þar verði tekið á þessum málum og við fáum að hefja hér góða og gagnmerka umræðu um þessi mál.
    Ég fagna því sem fram kom í ræðu hæstv. ráðherra um að hann ætli að koma í veg fyrir þá miðstýringu sem verið hefur og beita sér fyrir því að kröfurnar sem gerðar eru til grunnskólans fæðist hjá skólafólkinu sjálfu, heimilunum og jafnvel börnunum og að skólarnir verði þá sem sjálfstæðastir.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín mikið fleiri en vil ítreka það, sem ég sagði hér í upphafi, að ég þakka fyrir þessa umræðu. Mér hefur fundist hún gagnleg og fróðleg.