Samstarf við stjórnarandstöðu
Þriðjudaginn 06. desember 1988

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ef fyrsta dagskrármálið hefði verið tekið á dagskrá þá hefði ég gert athugasemd við frétt í Þjóðviljanum í dag sem óhjákvæmilegt er að víkja nokkrum orðum að þar sem sú frétt kemur inn á þau skattafrv. sem ríkisstjórnin hefur verið að leggja fram og hefur í hyggju að leggja fram. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ólafur Ragnar Grímsson fjmrh., Halldór Ásgrímsson sjútvrh. og Jón Baldvin Hannibalsson utanrrh. kölluðu stjórnarandstöðuna á sinn fund í fjmrn. í gærkvöldi þar sem þeir kynntu fyrir þeim þau fjáröflunarfrumvörp sem ríkisstjórnin hefur þegar lagt fram á Alþingi og þau frumvörp sem lögð verða fram á næstu dögum. Ólafur segir þetta vera tilraun til að þróa ný vinnubrögð á milli stjórnar og stjórnarandstöðu í ætt við það sem þekkist í nágrannalöndunum þar sem minnihlutastjórnir eða stjórnir með tæpan meiri hluta hafa náið samstarf við stjórnarandstöðuna.
    Þessi vinnubrögð eru nýlunda hér á landi. Fulltrúar Sjálfstfl. gengu fyrst á fund ráðherrana, síðan fulltrúar Kvennalista og loks fulltrúar Borgfl.`` o.s.frv.
    Ég vil í fyrsta lagi taka það fram að í einstökum efnisatriðum er þessi athugasemd röng. Það voru að vísu lögð fyrir þingmenn Sjálfstfl. lauslegar hugmyndir um hvernig ríkisstjórnin mundi kannski hugsa sér að breyta skattalögum, en á hinn bóginn var ekki svarað beinum spurningum sem ég bar fram til ráðherra eins og t.d. um það hvernig þeir hygðust haga skattlagningu á vexti sem er yfirlýsing ríkisstjórnarinnar að hún ætli sér að gera. Ég spurði hæstv. ráðherra að því hvort þeir hugsuðu sér bæði að leggja tekjuskatt á vaxtatekjur og halda því síðan inni í lögum að vaxtagjöld væru ekki frádráttarbær sem þýðir auðvitað það að þeir ætli sér bæði að skattleggja vaxtagjöldin og vaxtatekjurnar hjá einstaklingum. Fleiri atriði bar ég upp og eitt atriði enn, ef ég man rétt, sem ekki var svarað. Það er þó ekki kjarni málsins. Kjarni málsins er auðvitað sá að það var ekki verið að þróa nein ný vinnubrögð eins og hér er talað um.
    Fjármálaráðherrar hafa oft áður kynnt fulltrúum minni hluta einstök skattafrv. ef þeir hafa séð ástæðu til. Frá tíð Þorsteins Pálssonar fullyrði ég að stjórnarandstaða hafi fengið að fylgjast með vinnu í sambandi við staðgreiðslukerfi skatta og eins í sambandi við frv. um virðisaukaskatt. Það hefur verið allur gangur á þessu. Þegar Matthías Á. Mathiesen var fjmrh. þykist ég muna það rétt að stjórnarandstaðan og raunar báðar nefndir þingsins hefðu unnið mjög mikið starf í sambandi við tekjuskattsfrumvarpið á þeim tíma þannig að það er greinilegt að þetta er ekki rétt.
    Hins vegar harma ég það ef hugmyndin á bak við þetta hjá ráðherrunum og ríkisstjórninni, þ.e. að kalla stjórnarandstöðuna til, er bara sú að reyna að fá tækifæri til þess að koma þeirri hugmynd inn hjá fólki í gegnum fjölmiðla að stjórnarandstaðan hafi eitthvað verið með í ráðum í sambandi við þau tekjuöflunarfrumvörp sem heita á réttri íslensku níu

skattafrumvörp. ( Gripið fram í: Fréttafölsun.) Auðvitað hrein fréttafölsun. Þessi skattafrv. hafa ekki verið unnin í samstarfi við stjórnarandstöðuna og allar tilraunir sem með þessum hætti eru gerðar til að gefa mynd af hinu gagnstæða eru mjög ámælisverðar.
    Ég hélt að það hefði verið í góðu skyni sem ríkisstjórnin hefði viljað sýna stjórnarandstöðunni þessi frv., nú er aftur komið í ljós að annað lá á bak við. Það liggur greinilega á bak við að reyna að gefa í skyn að vinnubrögð ríkisstjórnarinnar séu með öðrum hætti en þau eru. Ég endurtek, þingmenn Sjálfstfl. hafa ekki verið í þeim trúnaði hjá ríkisstjórninni að þeim hafi í einu eða neinu verið kynntar hugmyndir ríkisstjórnarinnar um nýjar skattaálögur fyrr en á lokastigi, fyrr en legið hefur fyrir endanlega hvernig þær yrðu. Og ef maður hefur spurt um eitthvað sem ekki er komið fram þá hafa svör verið með þeim hætti að ekki er hægt að kalla samráð eða nein ný vinnubrögð hér á hinu háa Alþingi.