Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Þriðjudaginn 06. desember 1988

     Geir H. Haarde (frh.) :
    Virðulegi forseti. Ég gerði hlé á ræðu minni á síðasta fundi þegar ég var að byrja að fjalla um þau ummæli hæstv. viðskrh. að skatturinn mundi ekki skila nema um 150 millj. kr. í ríkissjóð á næsta ári umfram það sem verið hefði að óbreyttu. Ég geri ráð fyrir því að fyrir hæstv. viðskrh. hafi vakað að ef skatturinn yrði áfram 1,1% af fasteignamati, þá hefði hann átt að skila 150 millj. kr. lægri upphæð en gert er ráð fyrir í athugasemdum með frv. þessu. En í athugasemdunum er gert ráð fyrir því að álagning skattsins nemi um 410 millj. kr. en innheimtan 425 millj. kr. að meðtalinni innheimtu af eftirstöðvum fyrri ára.
    Með því að allar þessar tölur gefa tilefni til nokkurrar umfjöllunar, þá langar mig til þess að veita hv. deild nokkrar upplýsingar um það hvernig þessi skattur hefur innheimst vegna þess að ég tel að það sé gersamlega út í bláinn á grundvelli þeirrar reynslu sem fengin er af þessum skatti að gera ráð fyrir því að á næsta ári muni innheimtast hærri upphæð en nemur álagningunni. Langt seilist þá hæstv. fjmrh. í tekjuáætlun fjárlaga ef hann þarf að beita slíkum hundakúnstum til þess að hala upp tekjuáætlun fjárlagafrv. Reynslan sýnir nefnilega --- og ég hef aflað mér upplýsinga um það --- að það hefur ekkert gengið allt of vel að innheimta þennan skatt, sérstaklega ekki í ýmsum skattumdæmum úti á landi, en það er einmitt eitt af því sem menn hafa hér gert að umtalsefni í þessum umræðum, þ.e. með hvaða hætti þessi skattur og hækkun hans muni koma við verslunarreksturinn úti á landsbyggðinni.
    Vegna þess að ég þykist fullviss um það að ráðherrann hefur ekki farið ítarlega í saumana á þeim tölum sem ég er hér með í höndunum, þá þætti mér vænt um það ef hann gæfi þessu örlítinn gaum. En samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér, þá er það þannig að þessi skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði árið 1987, þegar álagningarprósentan var 1,1%, hefur í sumum umdæmum og reyndar allmörgum innheimst innan við helmingur, þ.e. innan við 50% af álögðum skatti hefur innheimst. Að vísu er þetta mjög breytilegt eftir umdæmum og það er breytilegt eftir því hvort félög eða einstaklingar eiga í hlut. Innheimtuhlutfallið gagnvart einstaklingum er víðast hvar verulega hærra þar sem innheimtuaðgerðir gagnvart einstaklingum hafa almennt skilað betri árangri á sl. ári en gagnvart félögum. En með leyfi forseta langar mig að rekja hér örlítið hvernig hinar raunverulegu tölur eru í þessu sambandi:
    Á árinu 1987 var álagning þessa skatts í Reykavík rúmlega 106,5 millj. kr. Síðan breyttist álagningin vegna kæra og þess háttar um rúma milljón, lækkaði sem því nam. Eftirstöðvar frá eldri árum í ársbyrjun 1987 námu 44,5 millj. þannig að samtals voru til innheimtu 150 millj. kr. á árinu 1987. En hver var innheimtan? Hún var rúmar 92 millj. M.ö.o.: 61% álagningar og eftirstöðva til samans.
    Í öðrum umdæmum hér á höfuðborgarsvæðinu virðist það vera svo að þessi tala, 61%, sé nokkuð

nálægt meðaltalinu. Í Garðabæ voru að vísu ekki innheimt nema 53% af því sem lagt hafði verið á að viðbættum eftirstöðvum sem voru fyrir hendi frá fyrri árum. Í Hafnarfirði 62%, í Kópavogi 69%, og á Seltjarnarnesi 70%, en þar nam álagningin í fyrra 454 þús. kr. og eftirstöðvar voru 117 þús. kr. Samtals var þessi álagning á félög sem sagt og eftirstöðvar 571 þús. kr. en innheimtan var 402 þús. kr. þannig að þar er um að ræða innheimtuhlutfall sem nemur 70%. Og þetta eru hæstu tölurnar, þetta eru langsamlega hæstu tölurnar. Í Keflavík er þetta nákvæmlega 50%, þ.e. innheimtan af samanlögðum eftirstöðvum og álagningu er 50%.
    En þegar færist fjær höfuðborgarsvæðinu, þá versnar nú heldur í því. Hér eru dæmi um það að innheimta þessa skatts hafi farið niður í 20% af samanlagðri álagningu og eftirstöðvum. Í Vík í Mýrdal t.d. nam álagningin í fyrra 135 þús. kr. Hún lækkar síðan við kærumeðferð um 25 þús. kr., eftirstöðvar eru 85 þús. kr. Samtals er því til innheimtu 195 þús. kr. En hvað innheimtist mikið? 39 þús. kr. Einn fimmti, 20%.
    Og svona er þetta víða úti um land. Í Búðardal er innheimtuhlutfallið 25%, í Bolungarvík 34%, á Akranesi 43% og þannig mætti lengi telja. Ég hef nú ekki haft fyrir því að taka þetta saman fyrir hvert einasta innheimtuumdæmi, en það er auðvitað alveg sjálfsagt að gera það hér á eftir í umræðunum ef það er talið nauðsynlegt því að hér eru mörg umdæmi.
    Ég tel að þetta staðfesti það að sú áætlun um tekjur af þessum skatti sem fylgir frv. er alveg út í hött og sama er að segja um þá tölu sem hæstv. viðskrh. fór með í umræðunum hér um daginn. Tölurnar fyrir árið í ár, 1988, er mér sagt að gefi svipaða mynd. M.ö.o.: Þegar um er að ræða félög --- sem auðvitað borga langstærstan hluta þessa skatts. Einstaklingar eru með miklu minni hluta hans, þeir voru með 47 millj. í fyrra en fyrirtækin 137 millj. í álagningu --- þegar um er að ræða félög, þá er nú ekkert á vísan að róa um innheimtu þessa skatts. Engu að síður er því haldið fram fullum fetum og kom fram í framsöguræðu ráðherra, að mig minnir, að þrátt fyrir það að álagningin væri 410 millj. kr., þá ætti samt að innheimta 425 millj. kr.
    Ja, mikil er skattheimtutrú fjmrh. og mun honum ekki af veita að fá
landbrh., sem nú er nýgenginn í salinn, í lið með sér við að innheimta skattinn með þessum hætti um land allt. En auðvitað held ég að þessi tala sé tóm vitleysa miðað við þá reynslu sem fengin er. Eða vill ekki kannski fjmrh. útskýra það fyrir okkur hvernig þessi töfratala, 425 millj., er fengin? Á grundvelli hvaða reynslu er hún fengin? Var þetta bara snyrtileg upphæð sem vantaði til að koma tekjuáætluninni í einhverja ákveðna tölu? Þetta er a.m.k. ekki tala sem er í neinu samhengi við þá reynslu sem fengist hefur af innheimtu þessa skatts á undanförnum árum þannig að ég held að ráðherrann ætti að tjá sig aðeins um þetta og útskýra það fyrir okkur hvernig innheimtan getur verið 425 millj. þegar álagningin er 410 millj.

og þegar reynsla liðinna ára sýnir manni að heildarinnheimta hefur alltaf verið lægri tala, ekki bara lægri tala en samanlagðar eftirstöðvar og álagning, heldur líka lægri tala en álagningin ein.
    Hér eru því óvenjulegar reikningsaðferðir notaðar við að meta tekjurnar af þessum skatti. Það má vel vera að það sé búið að taka upp einhver ný vinnubrögð í fjmrn. að því er varðar mat á innheimtu skatta sem þessara. En þá held ég að væri nú ráð að ráðherrann útskýrði fyrir okkur að hvaða leyti þær aðferðir eru frábrugðnar því sem tíðkast hefur og hvernig hann fær þessa undarlegu niðurstöðu því að reynslan sýnir að innheimtan er ekki bara lægri en samtala álagningar og eftirstöðva, heldur lægri en álagningin ein. M.ö.o.: Eftirstöðvarnar hafa farið hækkandi.
    Að því er einstaklinga varðar, þá hefur innheimtuhlutfallið verið nokkru hærra eins og ég gat um áðan. Þannig var t.d. hlutfallið í Reykjavík 75% gagnvart einstaklingum þegar innheimtuhlutfall félaga var 61%. Aftur á móti í Vík í Mýrdal, svo að ég vitni aftur þangað, var álagningin 5 þús., eftirstöðvar voru engar þannig að til innheimtu komu 5 þús. og af þeim 5 þús. greiddust 4 þús. svo að einungis 1 þús. gengur til eftirstöðva á þessu ári af því sem á var lagt í fyrra. Þar með er innheimtuhlutfallið 80%, sem sagt mun betra að því er einstaklinga varðar en félög og það hygg ég að sé tilfellið víðast hvar í innheimtuumdæmum á landinu að því er varðar þennan skatt.
    Virðulegi forseti. Ég lét þess getið í umræðum um þetta mál um daginn að með þessari skattlagningu, 2,2% sem fyrirhuguð er, þá gerði ríkið eignir sem þessi skattur leggst á upptækar á svona 45 ára millibili. Mér láðist hins vegar að geta þess, og skal leiðrétta það nú, að þessi árafjöldi er verulega ofmetinn vegna þess að mér láðist að leggja við alla hina eignarskattana sem menn verða að borga af þessum eignum sínum og skal ég nú gera nokkra grein fyrir því.
    Það mun vera áform ríkisstjórnarinnar að hækka hinn almenna eignarskatt úr 0,95% í 1%. Þann skatt greiða eigendur verslunar- og skrifstofuhúsnæðis að sjálfsögðu líka. Að auki greiða menn 0,25% í sérstakan eignarskattsauka, a.m.k. margir hverjir, sem átti á sínum tíma að renna í þjóðarbókhlöðuna en fer nú ekki þangað nema að hluta til. Þá erum við komin upp í skatthlutfall á þessar eignir sem er 2,2% + 1% + 0,25, sem sagt 3,45% sem ríkið leggur á þessar eignir. Og þá sjá nú allir í hendi sér að talan 45 ár, sem þarf til þess að taka þessar eignir upp til ríkisins, sá árafjöldi minnkar.
    En það eru ekki öll kurl komin til grafar enn í þessu máli vegna þess að til viðbótar sköttunum til ríkisins greiðast síðan að sjálfsögðu fasteignaskattar til sveitarfélaganna. Þeir er að vísu breytilegir eftir sveitarfélögum og skal ég fara nokkuð yfir það því að í Árbók sveitarfélaga 1988 er mjög glögg greinargerð og tafla um með hvaða hætti fasteignagjöld eru lögð á í sveitarfélögum. Ef við tökum dæmi hér á

höfuðborgarsvæðinu, þá eru þessi fasteignagjöld nokkuð breytileg. --- Ég verð aðeins að gera smáhlé á ræðu minni, herra forseti, því að ég var hér að fá í hendur smáskjal frá hæstv. fjmrh. þar sem hann tjáir mér að hann þurfi því miður að bregða sér frá í 3--4 mínútur. Mér er ekki alveg ljóst hvað ég á að gera við þennan pappír, en ætti ég bara ekki að afhenda forseta þetta og leggja þetta fram sem gagn í málinu. En ég hyggst halda áfram engu að síður þrátt fyrir það að fjmrh. sjái ekki ástæðu til þess að sitja hér að sinni.
    En ég var að tala um fasteignagjöldin í sveitarfélögunum. Í Reykjavík er þessi prósenta 1,25 af hundraði. Ef við leggjum þann skatt við fasteignaskattana til ríkisins, þá erum við komin í skattprósentu sem er hvorki meira né minna en 4,7 af hundraði þannig að ég fór verulega villur vegar hér um daginn þegar ég sagði að hið opinbera gerði eignir sem þessar upptækar á 45 árum. Það er ekki nema 21 ár miðað við þessa skattprósentu sem þarf til þess að jafnvirði þessarar eignar greiðist í ríkissjóð. Sem sagt, á 21 árs fresti tekur ríkið þessar eignir eða jafnvirði þeirra til sín. Og þá sjá allir, fyrst eignirnar þurfa að bera þennan kostnað, hvers lags gjöld leggjast þá á afnotagjaldið fyrir slíkar eignir, en þaðan verða menn auðvitað að taka peningana fyrir þessum skatti.
    Ég lét þess getið að fasteignagjöldin væru breytileg eftir sveitarfélögum. Fram kemur í fyrrnefndri töflu í Árbók sveitarfélaga að hin almenna regla er 1%. Síðan er þetta breytilegt eftir sveitarfélögum. Í kaupstöðum er þetta á
bilinu 0,75% upp í 1,25% eins og t.d. hér í Reykjavík, 1,15 í Kópavogi, 1% á Seltjarnarnesi, 0,75% í Garðabæ, 1% í Hafnarfirði o.s.frv. svo ég nefni stærstu kaupstaðina hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem fasteignamat er jafnframt hæst og skatturinn því þyngstur.
    Nú er það að vísu þannig að fasteignaskattar sveitarfélaga skiptast í tvennt: Annars vegar skattar á íbúðarhúsnæði og bændabýli, hins vegar á aðrar eignir, þar með talið verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Skatthlutfallið á íbúðarhúsnæði er mun lægra en þær tölur sem ég var að nefna þannig að ef um er að ræða einstaklinga og íbúðarhúsnæði þeirra, þá bera þeir minni byrðar af sínum íbúðum þó að þeir auðvitað beri sama skattinn af verslunarhúsnæði eins og ef um væri að ræða félög. Sem sagt: Samkvæmt þessu nýja frv. eru það 4,7% sem hið opinbera tekur í sinn hlut af fasteignamati húsnæðis sem þessa.
    Ég er ekki alveg viss um að allir hafi almennnilega áttað sig á því hvað hér er um að ræða háan skatt á þennan eina stofn. Ég held að mönnum hefði kannski þótt nóg um ef menn hefðu lagt þessar tölur saman í fyrra og komist að því að þá var þessi prósenta 3,6 áður en fyrirhuguð hækkun á verslunar- og skrifstofuhúsnæðisskattinum núna kom til skjalanna í þessu frv. sem við erum að ræða hér. Ég hygg að flestum hafi þótt nóg að gert að vera með 3,6% fasteignaskatt til ríkis og sveitarfélaga á Íslandi. En nú á sem sagt að hækka þennan skatt upp í tæplega 5%,

4,7%, og svo virðist sem stjórnarherrarnir láti sér fátt um finnast. Þeir blása bara á þær röksemdir sem hér hafa komið fram í umræðunum fyrr, að eitthvað kunni þetta nú að koma illa við verslunarstarfsemi og skrifstofueigendur úti á landi eða að í þeim erfiðleikum sem sverfa að atvinnulífi þessa dagana, þar með talið verslun og alls kyns þjónustu, þá kunni þetta að koma sér eitthvað illa. Nei, nei. Þeim er alveg sama um það.
    Hins vegar skil ég það vel að hv. þm. Kvennalistans skuli ekki vilja gefa það upp nákvæmlega hvað þær ætla að gera í þessu máli þó svo að þær hafi flutt frumvörp sama efnis eða brtt. við frumvörp þessa efnis á fyrri árum. Það er nú einu sinni þannig að stór hluti launþega í verslunarstétt eru konur og því er a.m.k. haldið fram, án þess að ég vilji endilega gera þau orð að mínum, að láglaunafólkið í verslunarstétt séu konur og að það fólk sem fyrst missir vinnuna ef til uppsagna kemur í verslun séu einmitt konur, láglaunahóparnir. Þannig að ég er ekkert undrandi á því að Kvennalistinn skuli vera hikandi í stuðningi sínum við þetta frv. eins og kom fram í máli hv. 10. þm. Reykn. Kristínar Halldórsdóttur í umræðum um þetta mál í síðustu viku. Ég tel að það sé mjög skiljanlegt og raunar mjög eðlilegt að eitthvert tillit sé tekið til aðstæðna í atvinnulífinu þegar verið er að fjalla um skatt sem þennan. Það eru auðvitað meiri rök fyrir skattlagningu á atvinnustarfsemina þegar þensla er í atvinnulífinu heldur en þegar samdráttur er eins og nú. Þess vegna fagna ég því að talsmaður Kvennalistans, sem hér hefur talað, hefur talað á þeim nótum að það beri að taka tillit til þess efnahagsumhverfis, þeirra aðstæðna sem uppi eru þegar skattur sem þessi er lagður á eða honum breytt.
    Mér kemur hins vegar verulega á óvart ef það er rétt sem fram hefur komið í blöðum að einn af þm. Borgfl. ætli að leggja þessu máli lið, en það mun væntanlega koma í ljós annaðhvort síðar í þessum umræðum eða þegar málið kemur til atkvæða. Ég held að skattur sem þessi muni ekki bara verða íþyngjandi úti á landsbyggðinni, heldur sé það líka alvörumál fyrir þingmenn Reykjavíkur eins og ástandið er í ýmsum verslunar- og þjónustufyrirtækjum hér í borginni, þegar sverfur verulega að þeim, og ábyrgðarhluti fyrir þingmenn Reykjavíkur að ganga fram fyrir skjöldu og íþyngja þessari atvinnustarfsemi svo gríðarlega eins og nú er ætlunin með þessum skatti.
    Ég sagði það í umræðunum hér um daginn að þó að þessi skattur sé í eðli sínu andstæður hugmyndum sjálfstæðismanna um skattlagningu og andstæður ýmsum meginsjónarmiðum sem eiga að gilda í skattlagningu, um að skattar séu almennir og mismuni ekki á milli greina, að þrátt fyrir þetta geri ég ráð fyrir að við sjálfstæðismenn mundum geta samþykkt hann óbreyttan frá því sem verið hefur þar sem við gerum okkur grein fyrir því að það þarf að afla tekna í ríkissjóð vegna þess að þar blasir við ákveðinn halli. En að ætla sér að tvöfalda þennan skatt svona upp úr

þurru í því ástandi sem er, það er auðvitað engin hemja! Það er alveg rétt sem fram kom í máli hæstv. viðskrh. um þetta efni í umræðunum, þessi skattur er vandræðagripur. Þó að hæstv. viðskrh. telji sig hafa bundið hendur sínar varðandi þetta tiltekna þingmál, þá heyrði ég ekki betur á máli hans hér sl. miðvikudag en að hann teldi að þessi skattur væri á margan hátt mjög óeðlilegur þó að hann treysti sér ekki til annars en að fylgja honum í þetta sinn vegna samkomulags sem gert hefði verið í ríkisstjórninni og meðal stjórnarflokkanna.
    Nei, ég held að það sé full ástæða til þess fyrir menn að hugsa sinn gang í allri þessari skattagleði og reyna að sjá fyrir endann á því sem menn eru að gera með skatti sem þessum fyrir utan þær röksemdir sem ég tíndi hér til að framan til þess að sýna fram á að tekjuáætlunin er út í bláinn af þessum skatti miðað við þær rauntölur sem við höfum fyrir framan okkur.
    Hér er því bæði um að ræða óeðlilega hækkun á tekjustofni sem stendur
hvort eð er á mjög veikum grunni út frá meginsjónarmiðum í skattlagningu. Hér er um að ræða tekjuáætlun sem að mínum dómi stenst engan veginn og hér er um það að ræða að hið opinbera ætlar að hækka skatt á fasteignir upp í samtals 4,7% af fasteignamati og auðvitað gengur það engan veginn, hvorki í bráð né lengd.