Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Þriðjudaginn 06. desember 1988

     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Hv. 1. þm. Reykv. lagði fyrir mig nokkrar spurningar, en ég sé ekki að hann sé hér í salnum. Hann hefur kannski verið að spyrja mig til þess að ég flytti það hér, en hefur ekki talið sig þá mann til þess að vera hér og svara mér. Ég bið hæstv. forseta að vita hvort hv. 1. þm. Reykv. er í þessu húsi og gera ráðstafanir til að hann komi hingað. ( Forseti: Það verður gert.)
    Annars er hann dálítið merkilegur, málflutningur hv. sjálfstæðismanna við þessa umræðu. Það er ákveðið mál til umræðu um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, en umræðurnar fara m.a.s. svo út um víðan völl að það er rætt um frumvörp sem ekki er einu sinni búið að leggja fram. --- Það virðist vera svo að hv. 1. þm. Reykv. sé ekki tiltækur, en þrátt fyrir það mun ég reyna að svara honum að nokkru.
    Hv. þm. ræddi um að ég væri að mér skildist guðfaðir þessarar ríkisstjórnar. Eru það eiginlega ekki allir þeir sem standa við bakið á þessari ríkisstjórn? Það má segja að hver og einn verði til þess að hún varð mynduð. --- Þarna kemur hv. 1. þm. Reykv. inn.
    Hv. 1. þm. Reykv. spurði hvort það væri ekki rétt að mér hefði verið heitið því að fá að fjalla um stjfrv. áður en þau væru lögð fram. Það er rétt. Ég er aðili að þessari ríkisstjórn. Það var alveg sjálfsagt að mér yrði sýnt það sem öðrum, en í vissum tilvikum hef ég ekki verið viðstaddur eins og nú og þá hef ég sagt t.d. hæstv. fjmrh. um vörugjaldið, ég var norður í landi þegar við ræddum saman, og ég sagði að hann mætti leggja það fram, en ég áskildi mér rétt til að flytja eða fylgja brtt. Þannig er það með mörg fleiri frv. því að einn maður sem er aðili að ríkisstjórn getur ekki á nokkrum dögum, 3--4 dögum, farið ofan í slík frumvörp. Ég hef með mér fólk, bæði hér í Reykjavík og annars staðar, sem ég sendi þessi frumvörp og bíð stundum eftir umsögnum þaðan til að styrkja mig og benda mér á. En ég get ekki farið að setja fót fyrir það að frumvörpin séu lögð fram heldur áskil ég mér þá rétt til að flytja eða fylgja brtt. Er það skilið? ( FrS: Mjög vel skilið.) En svo koma þessir hv. þm. og það er annað hljóð í þeim núna en var meðan þeir voru í ríkisstjórn. Nú koma þeir upp við hvert einasta frv. og segja: Þetta er ómögulegt. Þetta er ekki hægt. Það er verið að leggja á þennan og hinn skattinn. Vilja þessir hv. þm., eins og hv. 1. þm. Reykv., ekki benda þá á aðrar leiðir til tekjuöflunar? Hvernig skildi ríkisstjórnin við sem hann var í? Skildi hann þannig við eða vill hann og aðrir hv. þm. Sjálfstfl. meina það að þeir hafi skilið þannig við að það þurfi ekki aukna tekjuöflun? Ætlar hann að halda því fram? Og ef þeir eru ábyrgir á annað borð eru þeir þá ekki skyldugir til að benda á aðrar leiðir, ef á að taka á annað borð mark á þessum mönnum?
    Ég viðurkenni að það vill verða svo með stjórn og stjórnarandstöðu að þegar menn eru komnir í stjórnarandstöðu tala þeir öðruvísi en meðan þeir eru í stjórn, en sá vandi sem nú blasir við er svo mikill að ég hélt að hv. þm. Sjálfstfl. væru meiri karlar en

raun ber vitni, að þeir mundu taka á málum af ábyrgð og af raunsæi. Gera þeir það? ( FrS: Styður hv. þm. matarskattinn?) Gera þeir það? --- Ég studdi ekki matarskattinn, en samt sem áður knúði hv. fyrirspyrjandi hann fram. En við þær aðstæður sem nú er verður varla hægt að hverfa frá því. Hitt er annað mál að ég mun reyna mitt til þess að niðurgreiðslur verði þannig að það verði staðið við það loforð, sem þeir gáfu, fyrrv. ríkisstjórn, en sviku að nokkru, að borga niður þannig að það kæmi ekki niður á neytendum. ( FrS: Þetta þýðir að þingmaðurinn er með aðra afstöðu nú.) ( Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að vera ekki með samræður hér í þingsal. Ræðustóll er opinn og mælendaskrá er enn þá opin). Öllum fórst nú nema hv. 1. þm. Reykv. að tala um að þessi eða hinn hafi aðra afstöðu en hann hafði fyrir 2--3 mánuðum. Ég held að hann ætti að fara og líta í spegilinn eða lesa ræðurnar sínar sem hann flutti hér um ýmis málefni á meðan hann var í ráðherrastól. Og það mættu fleiri gera. ( FrS: Þar á meðal hv. ræðumaður.)
    Ég stend frammi fyrir ákveðnum vanda sem fyrrv. ríkisstjórn skildi eftir sig og ég hef alltaf reynt að starfa þannig í þau ár sem ég hef átt sæti á Alþingi að vera ábyrgur. Ég tel að þeir sem styðja við þessa ríkisstjórn eigi að leysa sín mál annars staðar en í sölum Alþingis og ekki að feta í fótspor fyrrv. ríkisstjórnar. Hitt er annað mál að ég mun segja hér og annars staðar hug minn allan.
    Ég sé ekki ástæðu til að lengja hér umræður. Ég ætla að láta hv. sjálfstæðismenn um að halda uppi umræðum til þess að öll mál komist í tímaþröng. Þeir keppa sjálfsagt að því ef mér ekki missýnist, en það kemur þá í ljós hvort mér missýnist í því efni. Ég vil bara segja það og skora á þá hv. þm. Sjálfstfl. að þeir bendi á hvernig á að afla tekna til þess að hægt sé að reka þjóðfélagið með sæmilegum hætti. Ég skil varla í því að þeir hafi breytt svo um skoðun að þeir leggi nú til að það verði rekið næsta ár með miklum halla. Þá er langt gengið miðað við fyrri afstöðu þeirra. En vandinn er mikill í þjóðfélaginu og það hefur orðið á síðustu tveimur árum svo mikil eignatilfærsla í þjóðfélaginu að það væri fróðlegt að vita hvort það mál út af
fyrir sig væri ekki brot á þeim reglum sem mannréttindadómstóllinn hefur í svona málum, hvort það sé ekki búið að blóðmjólka t.d. landsbyggðina og fyrirtæki fyrst og fremst þar en auðvitað líka hér og hvort maður hefði ekki rétt á því og það væri eðlilegt að mannréttindadómstóll fjallaði um það mál.