Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Þriðjudaginn 06. desember 1988

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það mál sem hér er til umræðu um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði hefur margoft verið rætt hér á þingi áður. En svo ber við nú að það á að hækka þessa skatta um 100%. Það eru miklir peningar fyrir þessar eignir sem á að greiða. Er nú svo komið að þeir sem eiga verslunar- og skrifstofuhúsnæði verða að borga 4,7% af fasteignamati í skatta. Það tekur þá væntanlega rétt rúmlega 20 ár fyrir ríkið að eignast þessi hús í raun. Hér er því náttúrlega komið langt yfir þau mörk sem skynsamleg eru.
    Borgfl. varar við þessum auknu skattlagningum á öllum sviðum. Þessi stefna, sem má kalla nokkurs konar tjaldbúðar- og torfbæjarstefnu, sem miðar að því að þau verðmæti sem hér hafa skapast á þessari öld í varanlegum byggingum og góðu húsnæði sem er til frambúðar, að verið sé raunverulega að þrengja að þessum miklu og góðu byggingum og þessum miklu og góðu eignum, það er alveg röng stefna. Áður fyrr var fjármagnið flutt héðan úr landi og þetta er mikil framför að við skulum byggja hér fyrir komandi kynslóðir varanlegt húsnæði og varanlegar eignir sem koma auðvitað til góða um langa framtíð. Það er því alrangt að leggja svona háa skatta á slíkt húsnæði.
    Það verður að leggja þá spurningu fyrir hæstv. fjmrh. hvort hér sé ekki verðstöðvun í landinu. Og ef það er verðstöðvun í landinu, þá eru auðvitað auknir skattar ólöglegir. Það er ekki hægt að hafa verðstöðvun á einu sviði og hafa svo lausbeislað á öðru sviði. Það er alveg ljóst að þessir miklu og auknu skattar munu koma fram í verri afkomu hjá almenningi, hjá þeim sem eiga minnst. Því að þessum sköttum verður auðvitað velt út í verðlagið. Menn eiga ekki kost á nokkru öðru.
    Hér hefur verið rætt mikið um það hvernig eigi að auka tekjur ríkisins til að ná endum saman. Ég tel að þetta sé alveg röng stefna, alröng stefna. Við eigum að spyrja: Hvernig eigum við að spara í rekstri ríkisins til að ná endum saman? Það er rétta spurningin. Við hljótum að reyna að draga saman og fara mjög gaumgæfilega yfir fjármál ríkisins og sjá hvar hægt er að draga saman. Hvar hefur orðið mesta þenslan í ríkinu? Ef ég man rétt þá reiknaði ég það út að frá 1985 hefði orðið 12 milljarða hækkun á ríkisútgjöldum umfram verðlag til framlagningar fjárlaga núna. Það þýðir þá að það eru lagðir 12 milljarðar aukalega á fólkið í landinu frá 1985. En það þýðir jafnframt aukna skattlagningu og verri afkomu heimila.
    Síðan er það atriði sem hér hefur ekki verið rætt og það eru verðlagsforsendur frv. Þar er gert ráð fyrir hækkun á innlendu verðlagi að meðaltali 12% á milli ára. Og aðrar verðlagsforsendur eru hækkun á gjaldeyri um 7%, launabreytingar áætlaðar 8% og byggingarkostnaður um 10%. Miðað við stöðuna í dag og miðað við það sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar segja, þá eru fjárlög u.þ.b. 10% hærri en þyrfti að vera því að ef það er rétt að verðbólgan sé núll og vextirnir hafi lækkað þá hefur fjármagnskostnaður

ríkisins lækkað og verðlagsforsendurnar, sem eru reiknaðar inn í frv., ættu að lækka jafnframt. Við getum því spurt okkur: Náum við ekki endum saman í raun með því að lækka frv. úr 77 milljörðum í 70 milljarða? Þá eru endar líka komnir saman. Ég held að menn verði að velta þessu einnig fyrir sér.
    Ég verð að segja það að þetta frv. er ekki til þess fallið að auka hagsæld í landinu, ekki til þess fallið að menn leggi fé í varanlegar byggingar sem koma okkur að góðu til framtíðar og er eitt það jákvæðasta sem hefur gerst hér eftir síðari heimsstyrjöld. Hér hafa risið myndarlegar byggingar í verslun og skrifstofuhúsnæði sem hefur lyft þessu landi á allt aðra hæð í verslun og viðskiptum og á ýmsum öðrum sviðum en var áður. Ef menn vilja snúa aftur til torfkofamenningarinnar, til þeirra alda þegar menn áttu varla bót fyrir rassgatið, þá er það út af fyrir sig mjög óvenjulegt. Ég vil vara við því að þessi stefna verði tekin upp. Ég held að við ættum að reyna að spara hjá ríkinu í stað þess að auka skattana. Það er hægt og það ættu raunverulega að liggja hér fyrir útreikningur á fjárlögum a.m.k. síðustu fimm til sex árin, hvaða liðir hafa hækkað mest og hvar ríkisútgjöldin hafa tútnað út. Þá sjáum við hvar er hægt að spara. Það á að leggja megináherslu á þá stefnu, ekki á það að auka skattana heldur á það að spara og reyna að vera hagsýnir í rekstri ríkisins. Það er aðalmálið.
    Ég vil svo að lokum aðeins koma inn á ýmislegt sem menn hafa haldið fram í þessum umræðum. Hv. 2. þm. Reykv. hélt því fram að aflabrögð hefðu verið minni á þessu ári en á árinu áður. Það er rangt. Hann hélt því fram að verðmæti væru minni fyrir aflann en áður og það er rétt að hluta, en meðaltal síðustu ára sýnir að verð er enn þá mjög hátt á fiskafurðum. Það er líka rangt að bandaríkjadollarinn hafi lækkað svo gífurlega. Því að ef við berum hann saman við aðra gjaldmiðla þá er hann nálægt því að vera með sömu stöðu og þýska markið. Það er því rangt að dollarinn hafi lækkað svo mikið. Ef við tökum yfir tíu ára tímabil þá er það líka svo að olíuverð er það allægsta sem það hefur verið um fjölda, fjölda ára. Öll ytri einkenni segja okkur því að það er mjög hagstætt ár núna og við eigum að vera bjartsýnir og við eigum að leggja út með það að það sé hagsæld fram undan en vera ekki með þessa svartsýni sem hér
hefur gætt. Ég tel að með sparsemi og bjartsýni muni okkur takast að halda vel á málunum og það geti allir vel við unað. En það er rangt að viðhafa þessa stefnu sem hér hefur verið mest rædd, að auka skattana, og vera eilíft með þennan barlóm því að núna ríkir góðæri í landinu.