Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Þriðjudaginn 06. desember 1988

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Mér þykir leitt að hv. 6. þm. Norðurl. e., Stefán Valgeirsson, skuli hafa flúið salinn um leið og hann lauk máli sínu. Hann var að bera það upp á sjálfstæðismenn að þeir væru að teygja lopann í umræðunum sem er auðvitað rangt. Ég held að hann ætti að líta aðeins í eigin barm, hv. þm. Stefán Valgeirsson, sem talaði hér klukkustundum saman á síðasta þingi um hvert einasta mál. Ef ég man rétt þegar söluskattsfrv. ríkisstjórnarinnar þáv. var til umræðu þá sá hann sérstaka ástæðu til þess á kvöldfundum hér í þinginu að lesa upp úr bréfaskriftum sínum og sinna samtaka við Framsfl., og rekja hvernig þau samskipti hefðu verið. Þar talar því maður sem ætti að fara varlega í að brigsla öðrum um málþóf.
    Í öðru lagi. Hv. þm. Stefán Valgeirsson bað um leiðir til að draga úr tekjuþörf ríkisins. Ég nefndi eitt slíkt atriði í umræðunum í síðustu viku. Hvernig væri að leggja niður sjóðinn sem kenndur er við hv. þm. Stefán Valgeirsson og spara þannig 500 millj.?
    Hv. þm. segist í þriðja lagi hafa áskilið sér rétt til þess að flytja brtt. við frv. Ef að líkum lætur, ef eitthvað er að marka hans málflutning almennt, þá geri ég ráð fyrir að sú tillaga verði frekar í þá átt að hækka þennan skatt í 3,3% í stað þess að lækka hann eða fella hann niður. A.m.k. skildi ég það af hans máli að því marki sem hann talaði efnislega um þetta frv.
    En, virðulegur forseti, ég kveð mér hér hljóðs á nýjan leik til þess að veita nokkrar viðbótarupplýsingar við það sem ég var með fyrr í dag, vegna þess að ég held að þær skipti máli. Mér hafði ekki unnist tími til þess að fara nægilega vel yfir þær tölur sem ég hafði útvegað mér, en ég hef nú slegið á þetta nokkuð nákvæmar. Þannig er að meðaltalshlutfall innheimtu skatts á verslunar- og skrifstofuhúsnæði miðað við álagningu og eftirstöðvar til samans hefur ekki verið nema um 66% þegar félög og einstaklingar eru tekin saman, þ.e. heildarinnheimtan sem hlutfall af álagningu og eftirstöðvum. Ef eingöngu er miðað við álagninguna þá er þetta hlutfall 86--87% á árinu 1987. Reyndar rúm 87% ef miðað er við bæði félög og einstaklinga. Þetta er í góðærinu 1987.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem fram komu í frv. sjálfu lækkar þetta hlutfall á árinu 1988. Það er ekki nema 83,25% ef miðað er við það að 235 millj. kr. innheimtist í þessum skatti, eins og segir í grg. frv., þannig að innheimtuhlutfallið fer lækkandi. Þess vegna tel ég mig hafa sýnt enn frekar fram á það að tekjuáætlunartalan í frv. stenst ekki.
    Gáum nú hvað átt er við. Miðað við 410 millj. kr. álagningu á næsta ári ætti innheimtan miðað við innheimtuhlutfallið árið 1987 að vera 360 millj. kr., en ekki 425 millj. kr. eins og kemur fram í grg. frv. Þarna er sem sagt ofáætlun í tekjunum upp á 65 millj. kr. sem er 18% af þeim tekjum sem ætla má að innheimtist. Og þetta er í góðærinu 1987 miðað við innheimtuhlutfallið þá. Ef maður hins vegar miðar við

innheimtuhlutfallið í ár, eins og hæstv. fjmrh. gerir sjálfur ráð fyrir að það verði miðað við frv., þá innheimtast á næsta ári ekki nema 340 millj. kr. af þessum skatti, en ekki 425 millj. kr., þ.e. 85 millj. kr. minna en ráðherra gerir ráð fyrir í frv. Innheimtan er áætluð 25% hærri en gera má ráð fyrir að hún verði miðað við rauntölurnar í ár.
    Ég vildi nú bara í allri hógværð beina því til fjmrh.: Hvað er eiginlega hér á ferðinni varðandi þessa tekjuáætlun? Ég held að ég hafi fullkomlega málefnalega sýnt fram á að það er eitthvað bogið við þessa tekjuáætlun, á bilinu sennilega 18--25%, ef ekki meira því ef eitthvað er þá er líklegra að innheimtan versni á næsta ári miðað við árið í ár. Ef þetta eru vinnubrögðin í sambandi við aðra áætlun á tekjum í þeim frv. sem hæstv. ráðherra hefur lagt fram, þá held ég að hv. fjh.- og viðskn. verði að leggja mikla vinnu í að grafast fyrir um forsendurnar sem þar liggja að baki, því þá held ég að við blasi algert hrun í þeirri tekjuöflun sem hér hefur verið kynnt.
    Ég vildi sem sagt gjarnan að ráðherrann gerði nokkra grein fyrir þessu, svaraði þessum spurningum mínum, um leið og ég ítreka þær spurningar sem ég bar fyrir hann í fyrri ræðu minni.