Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Þriðjudaginn 06. desember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Það voru nokkuð kynleg ummæli sem hv. 6. þm. Norðurl. e. viðhafði hér, að sjálfstæðismenn væru að tefja framgang skattamála ríkisstjórnarinnar. Hvernig er þessum málum varið? Hefur hæstv. ríkisstjórn lagt fram sín skattafrv. hér? Hefur hún í þessum umræðum getað svarað því hver endanleg frv. verða og hvernig þau eiga að líta út? Er það ekki svo að hæstv. ríkisstjórn hefur dregið það núna fram í desembermánuð að leggja þessi frv. fram? Þau eru ekki öll komin fram enn og flest bendir til þess að innan ríkisstjórnarinnar sjálfrar sé bullandi ágreiningur um ýmis atriði enn þá. Það er býsna kynlegt þegar burðarás ríkisstjórnarinnar kemur hér upp í ræðustólinn og heldur því fram að hér sé um tafir að ræða af hálfu stjórnarandstöðunnar þegar hæstv. ríkisstjórn hefur ekki einu sinni komið sér saman enn þá um það hvernig endanleg skattafrv. eiga að líta út.
    Þessi umræða hefur tekið nokkurn tíma og í sjálfu sér ekki ástæða til að lengja hana og ég ætla ekki að gera það hér. Það vakti þó athygli að hv. 10. þm. Reykv. gerði efnahagsmálin almennt að sérstöku umræðuefni undir þessum dagskrárlið. Hv. 10. þm. Reykv. er einn áhrifamesti þm. Framsfl., sá af óbreyttum þm. framsóknar sem handgengnastur er forustu flokksins. Hann hafði forustu um það að innleiða hér undir þessum dagskrárlið almenna umræðu um efnahagsmál, einkanlega út frá því sjónarmiði framsóknarmanna að um þau mætti ekki ræða á annan veg en þann sem hæstv. forsrh. kynnti í stefnuræðunni að framsóknarmenn komi hingað upp í ræðustólnn með handlaug sína og sápu og þvoi af sér allar syndir 17 ára stjórnarferils. Og þó að ég ætli ekki að lengja þessa umræðu þá er óhjákvæmilegt, þegar stjórnarliðið tekur með þessum hætti almenn efnahagsmál til umfjöllunar undir frv. um tiltölulega afmarkað svið í skattamálum, að svara nokkrum einföldustu staðreyndum varðandi fullyrðingar hv. þingmanns.
    Hv. 10. þm. Reykv. taldi það vera hina verstu gjörð og það sem mestum skaða hefði valdið við stjórn efnahagsmála að taka hér upp fastgengisstefnu eins og hann orðaði það. Hverjir höfðu nú forustu um það að innleiða fastgengisstefnu á Íslandi? Var það ekki einmitt gert undir verkstjórn þáv. og núv. hæstv. forsrh.? Var það ekki einmitt gert í ríkisstjórninni sem mynduð var 1983 þar sem formaður Framsfl. hafði verkstjórn á hendi? Og var sú stefna ekki innsigluð með sérstökum samningum við aðila vinnumarkaðarins sem formaður Framsfl. taldi sig eiga allan heiður af? Og hvenær var svo vikið frá fastgengisstefnunni? Það var í tíð fyrrv. ríkisstjórnar. Hvers vegna brotnaði samstarf Sjálfstfl. við Framsfl.? Vegna þess að Framsfl. vildi ríghalda í fastgengisstefnuna sem einn aðalforustumaður Framsfl. segir að sé mesti skaðvaldur í efnahagslífi þjóðarinnar. Þegar deilur stóðu innan fyrri ríkisstjórnar í september sl. þá mátti Framsfl. ekki heyra á það minnst að nýta þá heimild til 3% gengislækkunar sem fyrri ríkisstjórn hafði áður

samþykkt og núv. ríkisstjórn neyddist síðar til að láta koma til framkvæmda. En í viðræðum þáverandi stjórnarflokka mátti ekki á þetta minnast og öll skjöl sem Framsfl. lagði fram í þeim viðræðum miðuðu að því að þessi heimild yrði ekki nýtt. Svo koma menn hér upp með brigslyrðum um samstarfsmenn sína, að þeir einir beri ábyrgð á því sem úrskeiðis hefur gengið. Auðvitað hefur sitthvað gengið úrskeiðis á tímum allra ríkisstjórna.
    En í þröngum tíma hér í umræðum um frv. ríkisstjórnarinnar hæstv. um að tvöfalda skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði þá sér einn helsti forustumaður Framsfl. ástæðu til að hefja umræðu um þessi efni og ásakanir á fyrri samstarfsmenn, þegar staðreyndir mála blasa svona skýrt við að það er einmitt formaður Framsfl., sem hefur haft forustu um fastgengisstefnuna, sem lét brotna á því samstarf í fráfarandi ríkisstjórn. Og það er einmitt forusta Framsfl. sem er að sigla sjávarútveginum í endanlegt strand. Hæstv. sjútvrh. lét þau boð ganga út frá Alþingi í gær að hann ætlaði sér ekki að beita sér fyrir neinum aðgerðum nú á næstunni til viðreisnar atvinnulífi í landinu, þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. forsrh. um að raungengið væri rangt skráð þá ætti ekkert að gera í þeim efnum. Það voru skilaboð hæstv. sjútvrh. til sjómannanna, fiskverkafólksins og stjórnendanna í sjávarútveginum. Og svo kemur forustumaður í þingflokki framsóknarmanna og upphefur þessa umræðu. ( Gr ipið fram í: Ríkisstjórn þín felldi gengið um 16%.) Það er staðreynd máls. ( Gripið fram í: Já.) Undir forustu sjálfstæðismanna var tekin upp sveigjanleg gengisstefna hér aftur vegna þarfa atvinnulífsins. En um leið og framsóknarforustan tekur við verkstjórninni þá halda menn svo rígfast í fastgengið að það á að sigla höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar í strand. M.ö.o.: Það þýðir ekki fyrir hv. þm. Framsfl. að taka upp umræðu af þessu tagi. Og ég skil það síst, þegar augljóst er að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjmrh. hefur hér knappan tíma til umræðu, að þinglið stjórnarflokkanna skuli upphefja og hafa forustu um að draga þennan þátt inn í umræðu um afmarkað frv. sem hér liggur fyrir um skattamál.
    Hv. þm. gerði það líka að miklu árásarefni að í tíð fyrri ríkisstjórnar tókst ekki að lækka mjög alvarlegan viðskiptahalla. Ég segi að það er út af
fyrir sig alveg réttmæt gagnrýni þó að það hafi að vísu ekki gerst nema á einu ári um mörg, mörg undangengin ár að okkur hafi tekist að ná jöfnuði í viðskiptum við útlönd. Fráfarandi ríkisstjórn tókst að ná jöfnuði á vinnumarkaði, draga úr þeirri umframeftirspurn eftir vinnuafli sem var að knésetja útflutningsframleiðsluna, en það tókst ekki að draga úr viðskiptahallanum og það er staðreynd. Þessi hv. þm. lýsti því mörgum sinnum yfir í tíð fyrri ríkisstjórnar að hann gæti ekki undir neinum kringumstæðum stutt ríkisstjórn sem ekki kæmi viðskiptahallanum niður þegar í stað. Nú er þessi hv. þm. stuðningsmaður ríkisstjórnar. Hver er stefna hennar að þessu leyti? Hún hefur gefið út þjóðhagsáætlun fyrir 1989 og það er ekki einu sinni markmið þessarar nýju hæstv.

ríkisstjórnar að lækka viðskiptahallann! Það hefur mörgum ríkisstjórnum mistekist að ná niður viðskiptahalla en þær hafa þó allar haft það að markmiði að ná honum niður og gert ráðstafanir í þeim tilgangi. En nú er gefin út þjóðhagsáætlun þar sem ríkisstjórnin lýsir því yfir að hún hefur það ekki einu sinni að markmiði að ná viðskiptahallanum niður. Svo leyfa þessir hv. þm. sér að koma hér upp með stærilæti og ásökunum á fyrrv. samstarfsmenn! Ja, það verður ekki skilið á þann veg að þessir hv. þm. Framsfl. séu að greiða hér fyrir framgangi mála. Það verður ekki skilið á þann veg að þeir ætli að auðvelda hæstv. fjmrh. að ná málum sínum fram.
    Þó að ræða hv. 10. þm. Reykv. hafi gefið tilefni til ítarlegra og langra umræðna um efnahagsmál ætla ég aðeins að láta þessar örfáu athugasemdir duga vegna þess að ég geri mér ljóst að hæstv. ríkisstjórn þarf á tíma þingsins að halda til þess að fjalla um skattafrv. stjórnarinnar.
    Aðeins örfá atriði um það frv. sem hér er til umræðu. Það var gengið mjög eftir því við upphaf þessarar umræðu að hæstv. fjmrh. greindi Alþingi Íslendinga frá því hverjar yrðu endanlegar niðurstöður í skattahækkunaráformum ríkisstjórnarinnar. Hann var þráspurður og m.a.s. kvartaði undan því að það væri verið að reka ofan í hann spurningarnar aftur og aftur af því að hann gat engin svör gefið við þeim. En um leið og Alþingi var farið heim í síðustu viku þá fóru að birtast fréttir í fjölmiðlunum af því hvað í vændum væri. Ekki með beinum yfirlýsingum frá hæstv. ráðherra heldur samkvæmt hefðbundnum leka. Það virðist vera orðin regla hjá hæstv. ráðherra við birtingu á upplýsingum að greina ekki Alþingi frá því, að standa ekki sjálfur fyrir birtingu á upplýsingum heldur að byrja alltaf á því að leka þeim nafnlaust. Þannig er komið fram við Alþingi Íslendinga þegar hæstv. ráðherra þarf virkilega á samvinnu Alþingis að halda til þess að ná markmiðum sínum hér fram og hefur ekki dregið úr því að staða hans er sú að hann þarf hér á samvinnu að halda. En þá er þessum vinnubrögðum beitt.
    Hæstv. forsrh. lýsti því yfir í viðtali við dagblaðið Þjóðviljann í síðustu viku, ekki hér á Alþingi heldur í viðtali við dagblaðið Þjóðviljann, að það ætti að hefja samningaviðræður við stjórnarandstöðuna um skattamálin. Samningaviðræður þar sem fjmrh. væri falið að mæta stjórnarandstöðunni á miðri leið eins og það var orðað. M.ö.o.: Hæstv. ráðherra varð ekki skilinn á annan veg en þann að það væri búið að gefa hæstv. fjmrh. fyrirmæli um það að falla frá helmingnum af fyrirhuguðum skattahækkunum og á þeim grunni ætti hann að byrja viðræður við stjórnarandstöðuflokkana. Þetta voru þau fyrirmæli sem hæstv. forsrh. gaf hæstv. fjmrh. í viðtali við Þjóðviljann. Engar slíkar viðræður hafa farið fram. Að vísu gefur hæstv. ráðherra út miklar yfirlýsingar um það og lætur birta yfirlýsingar í flokksmálgagni sínu í Þjóðviljanum að sá einstæði atburður hafi gerst að viðræður séu hafnar við stjórnarandstöðu. Það hafa engar viðræður farið fram við Sjálfstfl. a.m.k. um þau

skattafrv. sem hér liggja fyrir. Eðli máls samkvæmt hafa sum þessara frv. verið kynnt Sjálfstfl. Það er engin nýlunda. Það hefur einfaldlega verið gert æði oft áður og oftast nær með meiri fyrirvara en núna hefur verið gert þegar um mikilvæg skattafrv. hefur verið að tefla. Það er þvert á móti gagnrýniefni að hæstv. fjmrh. skuli kynna stjórnarandstöðuflokkum þessi frv. með svo skömmum fyrirvara. Það hafa engar viðræður farið fram a.m.k. við Sjálfstfl. um efni þessara frv. svo sem hæstv. forsrh. mælti fyrir um að fjmrh. skyldi gera.
    Hv. 17. þm. Reykv. vakti athygli á ýmsum mikilvægum staðreyndum varðandi þann skatt sem hér er til umræðu. Í fyrsta lagi vakti hann athygli á því hversu eignarskattheimta opinberra aðila er orðin gríðarlega mikil eftir að þessi skattur hefur verið hækkaður um 100%. Skattur á þetta húsnæði er orðinn svo mikill að hann jafngildir eignaupptöku á rúmum 20 árum. Hann kom hér fram með athygliverðar tölur um innheimtu á þessum skatti sem rökstyðja mjög vel þá gagnrýni sem hér hefur verið sett fram. Það kom nefnilega í ljós að innheimtan er léleg vegna þess að þessi atvinnufyrirtæki standa einfaldlega ekki undir þessari skattheimtu og hvar er hún lélegust? Hún er auðvitað lélegust í þeim byggðarlögum sem búa við mesta erfiðleika í atvinnumálum, þar sem neyðin er mest. Það kom fram að í þorpum eins og Vík í Mýrdal og Búðardal er innheimtan lítil en það er einmitt á þessum stöðum sem atvinnuástand er bágast og má sjálfsagt finna fleiri dæmi af þessu tagi á landsbyggðinni. Þetta eru ekki neinar gríðarlegar tölur í tekjuöflun ríkissjóðs og hæstv. fjmrh. ypptir
sjálfsagt öxlum yfir þessu og segir: Þetta eru svo litlar upphæðir að þær skipta mig ekki miklu máli. En það er einmitt þetta viðhorf skattastefnunnar, sem borin er hér fram í nafni félagshyggjunnar, að það skipti engu máli þó að skattheimta sé tvöfölduð á þau fyrirtæki á þeim landsvæðum þar sem neyðin er mest um þessar mundir. Í nafni félagshyggjunnar skiptir það hæstv. ráðherra engu máli þó að verið sé að leggja enn einn klafann á þessi fyrirtæki. Það er athyglivert að allir þm. Framsfl. hrópa húrra fyrir þessu í einum kór. Þeir telja það vera sérstakt hreystiverk að leggja þennan skatt á atvinnufyrirtækin í litlu þorpunum úti á landi þar sem verslunin er að hrynja niður. Allt í nafni félagshyggjunnar.
    Hæstv. ráðherra hefur engu svarað því sem hér hefur rækilega komið fram að auðvitað er það skinhelgi einber að hér sé um að ræða skatt sem leggist á breiðu bökin í þjóðfélaginu. Þessi skattur leggst á neytendur með fullum þunga og það hefur verið sýnt fram á það kannski með einfaldasta dæminu um hæstv. ráðherra sjálfan sem er meðlimur í kaupfélagi. Það eru ekki síst kaupfélögin úti á landi sem eiga þær fasteignir sem þessi skattur leggst á. Hæstv. ráðherra ætlar ekki að greiða þennan skatt sjálfur né félagsmenn hans í Kaupfélagi Reykjavíkur og nágrennis. Þeir ætla að láta reksturinn standa undir þessum kostnaði, undir þessum skatti. Það er auðvitað þannig alls staðar annars staðar í atvinnurekstri á

Íslandi að þessi skattur fer inn í reksturinn og leggst á neytendur þessarar þjónustu. Hæstv. ráðherra er sjálfur hið lifandi dæmi um það að eignaraðilarnir standa ekki undir skattinum sjálfir. Öll stóru orðin um að hér sé verið að leggja skatt á breiðu bökin eru þess vegna skinhelgi einber. En auðvitað ætlar hæstv. ríkisstjórn að halda þessu til streitu í nafni félagshyggjunnar.
    Ég geri mér fulla grein fyrir því að ríkissjóður á nú við mikinn vanda að etja og þó að þessi skattheimta sé ranglát og óeðlileg þá væri ég fyrir mitt leyti alveg tilbúinn til þess að hefja viðræður við ríkisstjórnina á þeim grundvelli sem hæstv. forsrh. lýsti í þessu máli, að mætast á miðri leið. Ég væri alveg tilbúinn til þess að ræða það við hæstv. fjmrh. vegna þröngrar stöðu ríkissjóðs að framlengja skattinn óbreyttan. Aðstæður eru með þeim hætti að menn komast ekki hjá því að horfa á hina erfiðu og þröngu stöðu. Það væri óábyrgt og ómálefnalegt. Ég vil taka orð hæstv. forsrh. alvarlega og væri tilbúinn að hefja þær viðræður. En hæstv. fjmrh. hreyfir sig ekki, ljær ekki máls á því þó að hæstv. forsrh. hafi gefið um það dagskipun að mætast á miðri leið, ekki síst í þessu máli. Ég hygg að það mundi greiða mjög götu þess og framgang í þinginu ef hæstv. ráðherra væri tilbúinn til þess. En að ætla að hækka þennan skatt um 200%, þá er verið að auka á misrétti í þjóðfélaginu og gegn því stendur Sjálfstfl.