Vörugjald
Þriðjudaginn 06. desember 1988

     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Hér er komið enn eitt tekjuöflunarfrv. ríkisstjórnarinnar og enn er verið við sama heygarðshornið. Það er engu líkara en þegar afla þarf aukinna tekna fyrir ríkissjóð sé lausnarorðið verslun, innflutningsverslun, smásala. Alltaf er hjakkað í sama farinu.
    Það frv. sem hér liggur frammi, frv. til l. um breytingu á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, get ég sagt strax í upphafi máls míns að ég get ekki samþykkt, reyndar undir engum kringumstæðum og engan lið þess.
    Hér var fyrr á fundinum rætt um þá kynningarfundi sem hæstv. fjmrh. boðaði stjórnarandstöðuna til. Ég var einn af þeim sem urðu þess heiðurs aðnjótandi að fá að heimsækja þessa háu herra. Ég get hins vegar tekið undir þá skoðun á þeim fundum, sem fram kom hjá hv. 1. þm. Suðurl. og 1. þm. Reykv., að hér var náttúrlega ekki um neina samningafundi að ræða. Hér var eingöngu um kynningarfundi að ræða og þá fyrst og fremst hvað varðar þetta frv., að fá stjórnarandstöðuna til að ganga inn á það að hleypa þessu máli í gegn með forgangshraða. Að sjálfsögðu er gersamlega útilokað að hraða slíku máli í gegn. Hér er um stórt og viðamikið mál að ræða sem þarf að eyða miklum tíma í. Hér er um fleiri hundruð tollskrárnúmer að ræða þar sem verið er að hækka álögur og setja á nýtt vörugjald. Bara það eitt að fara yfir öll þessi númer og lesa þau saman við tollskrána tekur ansi drjúgan tíma. Ég trúi ekki öðru en jafnvandvirk þingnefnd undir jafnstyrkri forustu og fjh.- og viðskn. Nd. er í höndum hv. þm. Páls Péturssonar muni og formaður nefndarinnar gefa sér góðan tíma til að skila frá sér góðu máli ef hann telur það svo vera. En ljóst er að yfir þetta mál þarf að fara með tollskrána annars vegar og frv. hins vegar. Að öðrum kosti vita hv. þm. hreinlega ekkert um hvað þeir eru að tala.
    Á síðasta þingi var lagt fram frv. til l. um breytingar á tollum og um vörugjald. Var þar um mikla einföldun að ræða sem átti að lina þjáningar matarskattsins þó að hæstv. fjmrh. kannist ekki við það í dag. Því er alveg rétt að nota orð eins og svik við neytendur þegar talað er um þetta frv. Auðvitað eru það svik þegar vöruverð er hækkað með þessum hætti og auðvitað má spyrja ráðherrann hvernig í ósköpunum hann ætlar að halda þessu frá verðlaginu, hvernig hann ætlar að passa að þessi hækkun fari ekki út í verðlagið, hvernig vöruverð á ekki að hækka. Þetta verður ráðherra að skýra. Er hann að segja það, enda þótt nú gildi verðstöðvun, að verslunin ein eigi að taka þetta á sínar herðar? Er þetta þá ekki ný skattlagning á herðar verslunarinnar? Er álagningin svo há að verslunin ráði við að taka þetta á sig? Auðvitað ekki, hæstv. ráðherra. Þú veist það manna best alveg eins og ég að þetta fer beint út í verðlagið og hækkar vöruverð. Þess vegna má nota þau orð hæstv. ráðherra, að þetta mun auka byrðar á herðar neytenda.
    Nú á að leggja nýtt 10% vörugjald á nokkur tollskrárnúmer. Ég segi nokkur. Þau eru ekki nema

294. --- 294 tollskrárnúmer eiga nú að taka á sig vörugjald, tollskrárnúmer sem ekki báru vörugjald áður.
    Þetta frv. gerir ráð fyrir þremur tegundum vörugjalds, 10%, 20 og 25. Þetta er einfaldlega ekki rétt. Þetta frv. gerir ráð fyrir 31,5% vörugjaldi, 25% og 12,5% vörugjaldi því inn í þetta er byggt eins og á síðasta ári 25% heildsöluálag. Því í ósköpunum má ekki nefna þetta réttum nöfnum?
    Hæsta stig vörugjalds er komið yfir almennustu tolla. Almennustu tollar í dag eru 30%. Vörugjald er komið yfir 30, í 31,5%. Hefur ráðherra, sem ekki gerir sér að vísu far um að hlusta á umræður hér, gert sér grein fyrir hvað þetta kostar fyrirtæki yfirleitt? Það kostar endurforritun hér og þar. Hefur hann látið kanna þessa hlið? Hvað kostar það tollstjóraembættið að bregðast við þessu? Og hvað hafði tollstjóraembættið um þetta mál að segja yfirleitt? Hvernig er þeirra kerfi undirbúið? Mér sýnist að ekki ,,fúngeri`` það svo vel í dag að það ráði við miklar breytingar. Það má með vissu og sanni segja að ráðherrann sé enn á ný að reyna að beina traffíkinni til Glasgow.
    Hvernig eiga fyrirtæki almennt í landinu að búa sig undir og gera áætlanir fram í tímann þegar aldrei er hægt að treysta orðum hins opinbera nema í örfáa mánuði?
    Hæstv. forseti. Það birtist viðtal við hæstv. fjmrh. í einu dagblaðanna hér um daginn. Með leyfi forseta ætla ég að fá að vitna örlítið í það. Það er undir fyrirsögninni: ,,Hækkun vörugjalds snertir ekki daglegar nauðsynjar launafólks.`` Hvernig í ósköpunum ráðherrann fær þetta út er mér algerlega hulin ráðgáta, en vonandi getur hann skýrt það. Í viðtalinu segir, með leyfi forseta:
    ,,Þegar matarskatturinn svonefndi var lagður á vöru voru tollar og vörugjöld lækkuð. Fjmrh. var spurður hvort Alþb. væri ekki andsnúið matarskattinum. ,,Það er alveg rétt að við alþýðubandalagsmenn töldum matarskattinn ekki gott skattform``, svaraði ráðherra. ,,Við stefndum að því einnig að lækka verð á nauðsynlegum matvælum og nota frekar tekjuöflunina til þess. Hins vegar féllumst við á það þegar þessi stjórn var mynduð að matarskatturinn héldi gildi sínu í eitt ár.`` Ég bið menn að taka eftir því. ,, . . . matarskatturinn héldi gildi sínu í eitt ár og peningarnir væru frekar
notaðir til þess að greiða niður verð á nauðsynlegum matvælum.````
    Er ráðherrann þarna að segja að matarskatturinn verði felldur niður eftir eitt ár? Er það sú túlkun sem má skilja á þessu viðtali eða er ráðherrann að boða annað skattþrep í virðisaukaskattskerfinu?
    Seinna í viðtalinu segir: ,,Þetta vörugjald er þannig sniðið að það snertir ekki daglegar nauðsynjar launafólks.`` Þetta kom ég inn á rétt áðan og ég bið ráðherra vinsamlegast að skýra hvernig þetta snertir ekki daglegar nauðsynjar launafólks. Eða hvar á þessi hækkun að vera? Á hún að lenda á versluninni? Eiga kaupmenn að taka þetta á sínar herðar? Ef svo er, er

þetta þá ekki ný skattlagning á herðar kaupmönnum?
    Þá hefði verið gaman að hafa hér hæstv. utanrrh. sem vitnað er til í sama viðtali þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Jón Baldvin Hannibalsson, fjmrh. í síðustu ríkisstjórn, var spurður hvort hann gæti stutt fyrirhugaðar vörugjaldshækkanir. Jón svaraði ekki spurningu um hvort málið hefði verið afgreitt með hans stuðningi.`` Ég tel mikilvægt að stjórnarandstaðan fái upplýsingar um hvort það var afgreitt með hans stuðningi eða ekki. Ef svo var, hæstv. ráðherra, því svarar ráðherrann svona? (Gripið fram í.) Nei, það er nefnilega það.
    Ein af ástæðunum fyrir tollabreytingunum sl. ár var sú og ein af meginröksemdunum var það að einfalda ætti kerfið. Við þá umræðu sagði hæstv. fjmrh. Jón Baldvin Hannibalsson, með leyfi forseta: ,,Innlendum gjaldendum fækkar til mikilla muna og eftirlit verður einfaldara. Ætla má að innlendir gjaldendur verði í kringum 20. Þeir voru áður á þriðja hundrað.``
    Hvað skeður nú, hæstv. ráðherra, með þessum breytingum? Hvað verða gjaldendur margir? Hversu mjög fjölgar þeim? Frá 20 í hvað? Ætli það verði ekki nokkur hundruðin. Ég ætla að láta þetta duga á hæstv. fyrrv. fjmrh.
    Það má spyrja hversu lengi á að kalla þetta ákveðna vörugjald tímabundið vörugjald. Hv. 1. þm. Reykv. var áðan að reyna að túlka hvernig ráðamenn útskýra orðin ,,að hittast á miðri leið``. Það væri gaman að fá skýringu á því hvað ,,tímabundið`` þýðir. Þýðir það ekki í raun og veru að þetta eigi að renna út og falla niður við ákveðin tímamörk? Hvenær koma þau, hæstv. ráðherra? Það stefnir allt í að þeim frekar fjölgi þessum vörugjöldum og ef þeim ekki fjölgar líklegast hækka þau næsta ár --- eða er ráðherra tilbúinn að koma í ræðustól og fullyrða að svo verði ekki eða megum við eiga von á hækkun? Hver er stefna ráðherrans varðandi vörugjöld?
    Herra forseti. Ég hef undir höndum ályktun sem Verslunarráð Íslands hefur sent frá sér og tel að eigi vel heima í þessum umræðum og ekki síst í þingskjölum og ætla því, með leyfi forseta, að fá að renna yfir það. Það hljóðar svo:
,,5. desember 1988.
    Hækkun vörugjalds skaðar samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja``, segir í fyrirsögn.
    ,,Verslunarráð Íslands varar eindregið við fram komnum hugmyndum um hækkun vörugjalds og útvíkkun vörugjaldsstofnsins. Með skattkerfisbreytingum um sl. áramót var stigið stórt skref í þá átt að jafna samkeppnisstöðu atvinnulífs á Íslandi miðað við helstu viðskiptalöndin. Með hækkun vörugjalds er tekin þveröfug stefna og atvinnulífið verður verr í stakk búið til þess að mæta aukinni samkeppni. Vörugjaldið leggst fyrst og fremst á vörur sem heimilin nota.
    Nú er enn fremur áformað að taka upp þrjár mismunandi vörugjaldsprósentur í stað einnar sem flækir skattkerfið enn meir og eykur mismunun milli fyrirtækja og atvinnuvega. Sú meginregla að skattar skuli vera hlutlausir með tilliti til atvinnugreina og

neysluvals er brotin enn freklegar en áður. Að svo miklu leyti sem vörugjaldið beinist sérstaklega gegn innflutningi er það tæki til þess að halda uppi falskri gengisskráningu og bitnar því á útflutningsgreinunum.
    Ein rök fyrir lækkun vörugjalds fyrir ári voru að gera íslenska verslun samkeppnisfærari við verslun erlendis. Nú er áformað að veikja samkeppnisstöðu verslunarinnar og stuðla að auknum flutningi verslunar til útlanda.
    Manneldis- og hollustusjónarmiðum hefur verið haldið fram í því skyni að knýja fram hærri skattlagningu á sælgæti og gosdrykkjum. Þessum sjónarmiðum er vísað á bug. Sérstöku 25% vörugjaldi á sælgæti og gosdrykki er fyrst og fremst stefnt gegn nokkrum einstökum íslenskum fyrirtækjum og því starfsfólki sem vinnur þar.
    Hugmyndir um sérstakt 10% vörugjald á byggingarefni vekja undrun á sama tíma og húsbyggjendur þurfa á víðtækari aðstoð ríkisvaldsins að halda, bæði á almennum og félagslegum grunni. Áætlað er að slík hækkun vörugjalds leiði til 3--4% hækkunar á byggingarvísitölu sem hækkar byggingarkostnað húsbyggjenda samsvarandi og enn fremur verður hækkun á lánskjaravísitölu. Innheimta vörugjalds á byggingarvörur á eftir að reynast dýr og handahófskennd.
    Í langflestum fyrirtækjum landsins er verið að leita leiða til hagræðingar í rekstri og sparnaði. Almennt er verið að draga saman yfirvinnu og uppsagnir
starfsfólks eru meiri en verið hefur um langt skeið. Um áramót er áætlað að atvinnuleysi verði 3% og þegar kemur fram á næsta ár má búast við því að um 5% Íslendinga verði atvinnulaus. Skattahækkanir munu gera þetta ástand verra. Á sama tíma eru litlar sem engar tilraunir til hagræðingar eða sparnaðar í gangi hjá ríkisstofnunum eða ríkisfyrirtækjum. Áform ríkisstjórnarinnar um skattahækkanir í stað sparnaðar og hagræðingar eru því í hróplegu ósamræmi við þær aðstæður sem almenn atvinnufyrirtæki og starfsfólk þeirra búa við.``
    Hæstv. forseti. Mig vantar eyru ráðherrans. ( Fjmrh.: Ég er hérna.) Gott, hæstv. ráðherra. Mig langar að spyrja ráðherra: Hvað hækkar lánskjaravísitalan mikið við setningu þessara laga? Hvað hækkar lánskjaravísitalan mikið, hæstv. ráðherra? Og hvað með vextina? Heldur ráðherra að það þurfi ekki að hreyfa aðeins við þeim? Hvaða áhrif hefur þetta á vaxtapólitíkina? Það verður athyglisvert að heyra það.
    Ráðherra fór fram á að þetta frv. fengi að fljúga í gegnum þingið til að forða kaupæði. Á sama tíma segir ráðherra að þetta muni ekki hækka verð. Hvaða kaupæði er þá að fara í gang? Hvaða einkunn er ráðherrann að gefa skynsemi Íslendinga, að þeir rjúki til og fari að versla eins og brjálaðir ef verðið á ekkert að hækka? Það þarf aðeins að rökstyðja þetta.
    Í 2. gr. er m.a. kveðið á um að álag skuli vera 4% af þeirri upphæð sem vangreidd er fyrir hvern byrjaðan virkan dag eftir gjalddaga. Ég vitnaði fyrr í dag til ummæla hæstv. forsrh. um 50% vaxtakröfur á

slippamiðum. Hann sagði að það jaðraði við okurlög. Ef það jaðrar við okurlög, hvað gerir þá þetta álag? Er þetta ekki nákvæmlega okurlög og eigum við að hafa þetta sem leiðbeinandi úti í þjóðfélaginu? Er ráðherra tilbúinn að marka þá stefnu?
    Auðvitað á þetta vörugjald, sem leggst á tollverð, ekki að leggjast á tollverð. Það á að leggjast á erlenda verðið. Af hverju erum við að leggja vörugjald á erlenda fragt eða pökkun eða kostnað eða tryggingu? Því í ósköpunum? Það er nóg að það komi ofan á vöruverðið þó að það komi ekki ofan á alla smurninguna líka.
    Ráðherrar hafa undanfarna daga og þó sérstaklega hæstv. fjmrh. verið að boða launalækkun. Fjmrh. boðar skattahækkun. Á sama tíma auka þeir álögur á fólk með því að hækka vöruverð stórlega með alls kyns álögum, ekki bara þessum, með alls kyns álögum. Ég hefði haldið að flokkur alþýðunnar og bandalag alþýðunnar mundi starfa öðruvísi en nú er raunin.
    Eins og ég sagði áðan, hæstv. forseti, er ég hræddur um að hér sé aðeins um fyrsta skrefið að ræða. Það er ekki nokkur leið að treysta yfirvöldum, hvort sem það er þessi stjórn eða síðasta og reyndar alveg furðulegt stundum að heyra í sjálfstæðismönnum. Það er eins og þeir hafi hvergi komið nálægt.
    Ég get ekki varist að koma aðeins inn á það sem hv. þingflokksformaður þeirra sagði er hann var að hnýta í mig fyrir að reyna að fá út úr Kvennalistanum þeirra skoðun á frv. um skatt á verslunarhúsnæði, þegar hann sagði að ég ætti frekar að líta í eigin barm og skoða kvenfólkið í mínum flokki. Sá er munurinn að 16. þm. Reykv. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir er sjálfri sér samkvæm. Hún studdi skattlagningu á verslunarhúsnæði á síðasta þingi. Sjálfstæðismenn studdu hana líka. Nú situr Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir hjá og með því í rauninni er hún að styðja það. En hvað gera sjálfstæðismenn?
    Það er stundum talað um að henda steini úr glerhúsi eða í íþróttum að brenna hressilega af. Ég tel að hv. þingflokksformaður Sjálfstfl. hafi gert það þarna. Hann studdi skatt á verslunarhúsnæði á síðasta þingi. Það gerði frú Aðalheiður líka.
    Telur ráðherrann að með öllum þessum auknu álögum á almenning sé hann að bæta sambúðarmálin við launþegasambönd og verkalýðshreyfingu? Hvernig heldur hann að þau samtök bregðist við? Hvað sér ráðherrann fyrir sér þegar verðstöðvun þrýtur? Hvað skeður þá? Hvert fer lánskjaravísitalan þá? Það er skemmtilegur glaðningur sem ríkisstjórnin er að senda þjóðinni rétt fyrir jólin: fýrum verðlaginu upp, sjúgum af þeim peningana. Boðskapur Alþb. Sjúgum af ykkur peningana og fáum þetta í gildi strax. Það má ekkert bíða. Ég sagði það fyrr í dag: Þið eruð búnir að tæma vasana. Það er óþarfi að gera gat á þá líka.
    Hæstv. forseti. Ég hef undir höndum minnispunkta frá Félagi ísl. iðnrekenda. Ég hef hug á að fá þá staðfesta í þingtíðindum og mun því, með leyfi forseta, fá að renna yfir þá, enda tel ég að ekki veiti

af að ráðamenn fái að heyra:
    ,,Félag ísl. iðnrekenda lýsir yfir andstöðu sinni við fram komið frv. til l. um breytingar á núverandi lögum um vörugjald. Samkvæmt frv. er horfið frá þeirri meginstefnu sem mörkuð var með setningu núverandi laga, þ.e. að gera álagningu og eftirlit gjalda einfaldari og skilvirkari ásamt fækkun undanþága, auk þess sem með þessu er enn verið að auka á neyslustýringu í þjóðfélaginu. Með því að taka upp þrjár mismunandi vörugjaldsprósentur í stað einnar er enn verið að auka mismun á milli fyrirtækja og atvinnugreina sem um leið eykur þá óvissu og óstöðugleika sem fyrirtækjum er búin.
    Verði þetta frv. að lögum hafa sum þessara fyrirtækja búið við þrenns
konar mismunandi vörugjaldsinnheimtu á sl. tólf mánuðum. Slíkur óstöðugleiki af hálfu stjórnvalda er óþolandi fyrir fyrirtækin. Sérstakt 25% gjald á nokkur fyrirtæki sem framleiða sælgæti, öl og gosdrykki stefnir rekstri þeirra í verulega hættu vegna hærra verðs á framleiðslunni á tímum rýrnandi kaupmáttar, en samtals vinna 700--800 manns við þessa framleiðslu.
    Vegna umræðu um manneldis- og hollustusjónarmið skal áréttað að opinberar skýrslur sýna óbreytta sykurneyslu landsmanna sl. ár þrátt fyrir aukna almenna neyslu, enda eru nú t.d. mjög margar drykkjarvörur án sykurs. Hér er því verið að skattleggja eina atvinnugrein langt umfram aðrar. Þessar framleiðslugreinar nota nú um það bil 25--30% af innfluttum sykri. Auk þess má benda á að flutt er inn umtalsvert magn af vörum með miklu sykurinnihaldi án þess að á þær sé lagt vörugjald. Því gefur auga leið að hér er um mikinn tvískinnung að ræða.
    Ljóst er að stór hluti þeirra vöruflokka sem nú fá vörugjald eða vörugjaldið hækkar á eru daglegar neysluvörur alls meginþorra landsmanna. Samkvæmt frv. mun innheimtuaðilum vörugjalds fjölga verulega, einkanlega vegna vörugjalds á húsgögn, innréttingar og framleiðslu byggingarefna, en fyrirtæki í þessum greinum eru afar mörg, yfir 300 fyrirtæki, og þar af rúmlega 250 með fimm starfsmenn eða færri. Framkvæmd og eftirlit með vörugjaldsinnheimtu verður því mun erfiðara og mannfrekara nú en áður. Þessar breytingar, ef af verður, munu því draga framleiðsluna út úr fyrirtækjunum og auka þannig líkur á undanskotum frá greiðslu lögboðinna gjalda. Verði frv. að lögum og taki gildi fyrir áramót eins og ráð er gert fyrir er ljóst að innlendar vörur munu hækka strax en erlendar vörur mun síðar.``
    Hæstv. forseti. Á þeim kynningarfundi sem haldinn var um þetta mál fyrir nokkrum dögum uppi í fjmrn. kom ég með eina ábendingu til ráðherra. Hann var svo vinsamlegur að skrifa hana niður og ég hélt að hann mundi taka hana inn í frv. Svo hefur ekki verið og er það gott dæmi um þann hug sem var á bak við það að kalla okkur til þessara viðræðna. ( Fjmrh.: Hvað var það?) Það voru ákveðin vörutollskrárnúmer sem var mismunað á ákveðnum varahlutum til

ákveðinna véla. Man ráðherra þetta ekki? Efnislega ætla ég ekki út í það, enda kem ég með það í fjh.- og viðskn. og reyni að fá það lagað þar, en annars með brtt. En þetta er gott dæmi um hver hugurinn var þá í raun og veru á bak við þessar viðræður. Var hann ekki bara ein leiksýningin enn? Það hefur verið nóg af þeim hér, enda því miður stundum talað um leikhúsið við Austurvöll þó að þessi uppsetning hafi farið fram annars staðar.
    Hvað eigum við lengi að fara á bak við EFTA, þann samning sem þar var gerður? Var það ekki skilningurinn að við ættum að ná tollunum niður í núll á ákveðnum árafjölda, tíu árum að mig minnir? Vörugjaldið er ekkert annað en plat, verið að fara á bak við. Ég er hræddur um að það heyrðist hljóð úr tunnu ef slíkt væri gert við okkur erlendis eða á mörkuðum okkar.
    Hæstv. forseti. Er heildsöluálagið 25%, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., leiðbeinandi fyrir heildsala í landinu? Er hæstv. ráðherra Alþb. farinn að bera hag heildsölunnar í landinu fyrir brjósti? Skyldi svo vera? Er lágmarksálagning í heildsölu í dag 25%? Er ekki rétt að limirnir dansa eftir höfðinu. (Gripið fram í.) Það er gott að vita það. 25%, heildsalar, lágmark. Fjmrh. Alþb. varðar veginn. 25%. Það þykir nú ágætt. Ég minnist þess að hv. þm. Stefán Valgeirsson talaði um það á þingi sl. haust að þegar hann var í heildsölu hefðu 7% þótt gott. Nú veit ég að það er ekki gott. En það er gott að fá ákveðna viðmiðun.
    Hæstv. forseti. Ráðherra talaði um að þetta væri gott stjórntæki. Það er m.a. þess vegna sem ég hræðist ráðherrann. Það er lítill vandi að misnota slíkt stjórntæki. Hvað ætlar ráðherrann að spila mikið á það? Hvað er á bak við það? Á að stjórna neyslunni með hækkandi vörugjaldi sí og æ? Það hlýtur að liggja í orðunum. Upp og niður með vörugjaldið eftir því hvað fólkið á að éta. Upp og niður. Það er stjórntækið. Einfölduninni frá í fyrra er kastað fyrir róða, út um gluggann. Þrjú stykki vörugjald allt í einu og einföldunin, öll rökin á síðasta þingi fyrir einföldun, út um gluggann.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara út í ákveðin tollskrárnúmer þó ég hafi ákveðnar hugmyndir um hverju mætti breyta. Ég mun gera það í nefndinni. Ég mun einnig fara fram á að nefndin fái þá aðila sem þurfa að ræða þetta mál til umsagnar. Það er ekki nokkur einasta leið að hraða slíku máli í gegn. Ég lýsti því fyrr í ræðu minni og ég vona að formaður hv. fjh.- og viðskn. hafi heyrt það. Ég vona að tollskráin liggi á borðum okkar í fyrramálið þannig að við getum hvert og eitt farið yfir þetta í sameiningu, skoðað á hvað við erum að leggja vörugjald og á hvað ekki. Það eru einu réttu vinnubrögðin. Hvert einasta númer á að skoðast. Virðing Alþingis er í veði, hæstv. ráðherra. Auðvitað eiga að koma héðan vönduð vinnubrögð. Þess vegna krefst ég þess, ég krefst þess að tollskráin verði í fjh.- og viðskn. á borðum okkar í fyrramálið og við getum farið yfir þetta. Og allir hagsmunaaðilar sem þetta frv. snertir eiga að koma til viðræðna, hver og einn einasti.

    Hæstv. forseti. Þetta er ágætt í fyrstu umferð.