Vörugjald
Þriðjudaginn 06. desember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Mér fannst ræða hv. 5. þm. Vesturl. vera mjög góð í öllum aðalatriðum. Reyndar kom fram einn misskilningur í hans málflutningi sem ég kýs að leiðrétta strax í upphafi míns máls. Það varðar skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Ég tek það skýrt fram að Sjálfstfl. hefur lýst því yfir að hann geti hugsað sér að styðja þann skatt sem hv. 16. þm. Reykv. studdi á síðasta þingi en það var skattur upp á 1,1%. Við höfum ekki vikist undan því. Við höfum þvert á móti lýst því yfir að við séum tilbúnir að mæta hæstv. ríkisstjórn á miðri leið, svo að ég noti hugtak sem hefur verið talsvert til umræðu í dag, en ekki fallist á það að tvöfalda þennan skatt. Að öðru leyti fannst mér ræða hv. þm. vera afar skýr og góð um það mál sem er á dagskrá.
    Ég átti satt að segja von á því eftir þær umræður sem fóru fram um það mál sem var á dagskrá á undan þessu máli, skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, að hæstv. ráðherra kæmi í ræðustólinn í upphafi umræðna um þetta mál og gerði okkur grein fyrir því, þingmönnum stjórnarandstöðunnar, hvernig bæri að skilja einstaka hæstv. ráðherra varðandi samráð og hvernig ætti að semja um meðferð þeirra mála sem verða á næstunni til umræðu og afgreiðslu á Alþingi. Þessi mál varða miklu. Þetta eru mál sem snerta sjálft fjárlagafrv. og eins og rækilega var bent á í þeirri umræðu eru aðstæður þær að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki þann meiri hluta sem þarf til að koma málum í gegnum þingið og á það hefur verið bent, reyndar einnig mjög rækilega, að einn af hv. stjórnarþingmönnum hefði fyrirvara um frv. sem nú hefur verið lagt fram og er hér til umræðu, þ.e. þetta frv. um breytingu á lögum nr. 97/1987, um vörugjald. Ég vænti þess þess vegna að hæstv. ráðherra taki aftur til máls í þessari umræðu og geri grein fyrir því hvort hann sé tilbúinn að ræða við stjórnarandstöðuna á þessum nótum um efnahagslegar forsendur fjárlagafrv., um þá stefnu sem Alþingi vill styðja vegna þess að hæstv. ríkisstjórn er ekki meirihlutastjórn í eiginlegum skilningi þess orðs.
    Frv. sem er til umræðu er eitt þeirra frumvarpa sem hæstv. ríkisstjórn hefur boðað. Þetta er liður í þeirri svokölluðu efnahagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar sem felst í því að almenningur í landinu eigi að draga saman seglin, fyrirtækin eigi að rifa seglin, en ríkissjóður eigi að halda sínu.
    Ég ætla að rifja upp, virðulegur forseti, að vörugjald var lækkað í upphafi þessa árs um leið og söluskattur var lagður á matvæli. Þetta hvort tveggja er algerlega samofið og sá maður sem hefur kallað sig riddara matarskattsins öðrum fremur er hæstv. utanrrh., þáv. fjmrh., sem ótt og títt varði skattkerfisbreytinguna með því að það væri nauðsynlegt að leggja söluskatt á matvæli til að ná vörugjaldinu niður, enda væri það liður í þeirri skattkerfisbreytingu íslenska ríkisins að nálgast þær reglur sem notaðar eru á fríverslunarsvæðunum í Evrópu.
    Hv. 5. þm. Vesturl. vitnaði til ummæla hæstv. utanrrh. í blaðaviðtali og mér finnst eðlilegt,

virðulegur forseti, að það verði kannað hvort hæstv. utanrrh. sé í húsinu því að þetta mál er svo nátengt honum og þeirri baráttu sem hann hefur háð fyrir söluskatti á matvælum að mér finnst vera sjálfsagt að gefa honum kost á því að vera viðstaddur við þessa umræðu og geta þá svarað þeim spurningum sem til hans verður beint vegna þess að hann á sæti í hæstv. ríkisstjórn og hér er verið að fjalla um mál sem hann bar mjög fyrir brjósti á sínum tíma. ( Forseti: Það verður athugað hvort hæstv. utanrrh. er nærlendis og það mun koma fljótlega í ljós.) Vonandi er hann ekki aðeins nærlendis heldur á landinu og í húsinu, enda sá ég hann hér fyrr í dag. En þrátt fyrir fjarveru hæstv. utanrrh. sé ég að Alþfl. á einn fulltrúa í þingsalnum, hv. skrifara þessarar hv. deildar, 5. þm. Norðurl. v., og ég bið hann í forföllum hæstv. utanrrh. að skýra út þau sinnaskipti sem hafa átt sér stað í Alþfl. sem á sínum tíma lýsti því yfir að lækkun og niðurfelling vörugjalds og álagning skatts á matvæli væru órofa, samtvinnuð mál. Hvað hefur breyst? En ég vil jafnframt minna á það, sem ég hef gert ég held fimm sinnum áður í umræðum hér í haust og mér finnst vera full ástæða til að nefna enn á ný, sérstaklega af því að ég veit að hæstv. fjmrh. hefur svo gaman af að hlusta á það, að það var einmitt hæstv. fjmrh. sem sagði það fyrir rúmu ári, það var 15. okt. í fyrra, þegar hann réðist hatrammlega á núv. hæstv. utanrrh., sem þá sat í sæti fjmrh., og orðaði það eitthvað á þessa leið að hæstv. utanrrh. væri brennimerktur maður sem ekki gæti farið til verkalýðsforustunnar og rætt við þá fyrr en hann hefði snúið frá villu síns vegar og hætt við að leggja söluskatt á matvæli. Þetta rifja ég upp í sjötta skipti fyrir hæstv. ráðherra af því að hann hefur unun á að hlýða. Ég leyfi mér að benda á að nú situr þessi þáv. varaþingmaður Alþb. í ráðherrastól, hann er nú hæstv. fjmrh. þessa lands, og hann lætur sér ekki nægja að viðhalda svokölluðum matarskatti heldur hækkar aftur vörugjöld á ýmsum nauðsynjum. Ja, ýmsir eru miklir leikfimimenn, en sjaldan hef ég séð menn fara kollhnís með slíkum ágætum að koma hér upp í ræðustól, verja þennan málflutning eins og ekkert sé, eftir að hafa tekið eins stórt upp í sig og hæstv. ráðherra gerði fyrir rúmu ári á Alþingi þegar hann
flutti mjög langar ræður gegn söluskatti á matvælum.
    Ég get verið sammála hv. 5. þm. Vesturl. um flest það sem kom fram í hans máli og ég tel eðlilegt að hæstv. ráðherra svari þeim fyrirspurnum sem hv. þm. beindi til hæstv. ráðherra, enda þekkir hv. 5. þm. Vesturl. þessi mál mjög vel. Hann hefur sjálfur stundað verslun og veit nákvæmlega hvernig kaupin gerast á eyrinni.
    Aðalatriði þessa máls er það að hér er um að ræða skattheimtu upp á 1600 millj. kr. til viðbótar þeirri skattheimtu sem hefði fengist ellegar að óbreyttu vörugjaldi. Þessi skattheimta á sér stað þegar rekstrarerfiðleikar eru fyrir hendi í verslun og þjónustu, þegar fólk er hrætt um að missa atvinnu sína. Það er full ástæða til að benda á að hér er stefnt í hættu ýmsum fyrirtækjum þar sem fjöldi manns

vinnur. Það vinna á að giska 700--800 manns í þeim iðnfyrirtækjum sem framleiða hér gosdrykki og sælgæti. Þar af eru a.m.k. 40% konur sem eiga ekki í annað hús að venda í atvinnulífinu ef fyrirtækin geta ekki staðið undir þessari auknu skattheimtu, en mér heyrðist hæstv. ráðherra gera ráð fyrir að fyrirtækin tækju þennan skatt á sig og hann færi ekki út í verðlagið. Ég efast hins vegar um að svo geti orðið því augljóst er að fyrirtækin hafa þegar tekið á sig heilmikil skakkaföll með því að virða nýjar álagningarreglur í þeim tímabundnu aðgerðum um verðstöðvun sem nú gilda í landinu. Ég held að hæstv. ríkisstjórn geti þakkað þeim sem stjórna fyrirtækjum í landinu fyrir að þeir hafa staðið sig mjög vel og reynt að stilla öllum hækkunum í hóf eins og fram hefur komið af hálfu talsmanna Verðlagsstofnunar.
    Það er ljóst að með frv. er horfið frá þeirri meginstefnu sem mörkuð var við setningu núverandi laga, en ein meginstefnan var sú, eins og hæstv. utanrrh. sagði æ ofan í æ, að gera álagninguna einfaldari til þess að eftirlitið yrði skilvirkara. Nú er stefnt að því að taka upp þrjár mismunandi vörugjaldsprósentur sem þýðir að eftirlitið verður þeim mun erfiðara og þeim fyrirtækjum sem innheimta þetta gjald fyrir ríkissjóð er einnig gert erfiðara fyrir.
    Hæstv. ráðherra lét að því liggja og sagði það í sínu máli, sjálfsagt til þess að reyna að fá einhvern úr stjórnarandstöðunni á sitt band, að þetta væri mjög mikilvægt skref í áttina til þeirrar nauðsynlegu neyslustýringar sem þyrfti að eiga sér stað til að fólk hætti að borða sykur. Mér heyrðist hann vera að beina máli sínu sérstaklega til þingmanna Kvennalistans. Þetta mál var rætt á sínum tíma, það er rétt hjá hæstv. ráðherra, og það kann að vera áhugi á því að taka það mál sérstaklega upp sem heilbrigðismál, en þetta frv. getur ekki undir nokkrum kringumstæðum verið skref í þá átt. Það er útilokað að líta svo á, gjörsamlega útilokað. Í fyrsta lagi er enginn munur gerður á vörum sem innihalda sykur og öðrum sem innihalda sykurígildi sem er ekki sykur. Í öðru lagi nær þetta aðeins til lítils brots af innfluttum sykri. Þetta gjald nær til sykurs sem er notaður fyrst og fremst af innlendum iðnaði. Það nær ekki til þeirra sem stunda brauðgerð og kökugerð. Þetta gjald nær ekki til Mjólkursamsölunnar sem framleiðir vöru, bæði jógúrt og kakómjólk, sem inniheldur sykur kannski í meira lagi en gosdrykkir. Það nær ekki til 70% af innfluttum sykri. Það eina sem þetta frv. gerir er að skekkja þann grundvöll sem fyrir hendi er. Þess vegna er þetta spor aftur á bak og getur aldrei skoðast sem framlag til þeirrar umræðu, sem er að sjálfsögðu eðlileg, að hér sé verið að fylgja einhverri heilbrigðisstefnu og manneldisstefnu sem er til þess gerð að fá fólk til að hætta að borða sykur. Ef slíkt mál er tekið upp verður að taka það upp á almennum grundvelli. Það verður að taka upp með þeim hætti, eins og hæstv. ráðherra vék að í sínu máli, að kanna nákvæmlega hvernig hægt er að tolla eða leggja vörugjald á allan sykur sem er innfluttur en ekki bara

á sumt af honum, mikinn minni hluta sem er notaður í innlendum iðnaði. Það er því stórhættuleg stefna sem hér er verið að marka og hún er kannski hættulegust fyrir það að það kann að vera að einhverjir glepjist á því að halda að hæstv. ráðherra sé að framfylgja einhverri heilbrigðisstefnu með þessu. En það vona ég svo sannarlega að ekki nokkrum manni í þessum þingsal detti slíkt í hug. Þetta er tekjuöflunarfrumvarp. Það er reynt að ná í þessa peninga með einföldum hætti hjá fáum íslenskum fyrirtækjum og þetta frv. sneiðir fram hjá meginhlutanum af innfluttum sykri. Þetta frv. mismunar þeim sem framleiða vörur með sykurinnihaldi. Sykur er alltaf jafnóhollur hvort sem hann er í þessari vörutegund eða í hinni. Í þessu frv. er enginn munur gerður á sykri og sykurígildi sem ekki er sykur og ekki er hættulegt að neyta að áliti þeirra sem um þessi mál hafa fjallað.
    Ég skora þess vegna á hæstv. ráðherra að hætta við að leggja þetta fram a.m.k. með þessum rökum og ræða þetta mál á þessum rökum því að það er blekkingin ein. En ég skora jafnframt á hann ásamt heilbrigðisyfirvöldum að finna leið sem gæti verið hentug til að draga úr sykurneyslu almennings almennt, en það gerir maður ekki með því að mismuna þeim sem framleiða úr sykri.
    Það kann vel að vera að það sé vinsælt að leggja skatta á svokallaðar
snyrtivörur. Þetta er auðvitað mikill lúxus, hársnyrtivörur. Ég ber að vísu virðingu fyrir tillögu hæstv. fjmrh. því ég veit að hún verður kostnaðarauki fyrir hann, en ég held að ef við skoðum það hverjir nota snyrtivörur, sem er afskaplega eðlilegt að fólk noti, bitni þetta kannski fyrst og fremst á kvenþjóðinni, einfaldlega vegna þess að hún notar dýrar snyrtivörur. Nú er verið að bæta vörugjaldi á þessar vörur vegna þess að það er almennt verið að segja að þetta sé lúxus. Hefur hæstv. ráðherra fylgst með því hverjir nota snyrtivörur? Eru það bara þeir ríku sem leyfa sér þann lúxus? Hefur hann spurt t.d. konur að því hvort þetta sé lúxus? Ég get staðhæft að mikill meiri hluti kvenna notar snyrtivörur og telur þær vera daglega neyslu og jafnvel nauðsyn. Jafnvel konur í Alþb. nota svona vörur, það get ég sagt hæstv. ráðherra, og telja það engan lúxus. Ég held nefnilega að það sé oft þannig að menn segi ,,þetta er lúxus`` af því að auðvitað má komast af án þessa varnings. En þetta er ekki lúxus. Þetta er viðurkennd vara sem notuð er af fólki, er hátollavara oft og tíðum. Og nú á enn að höggva í sama knérunn.
    Það hefur verið rætt fyrr í þessari umræðu og spurt að því hvaða áhrif þessi löggjöf muni hafa á lánskjaravísitöluna og þá upplýsti hæstv. ráðherra í sínum málflutningi að þetta hefði 3% áhrif á byggingarvísitölu. Tóku menn eftir því? En nú hefur ríkisstjórnin ákveðið að breyta lánskjaravísitölunni þannig að byggingarvísitalan vegur minna í lánskjaravísitölunni en áður, laun meira. Hæstv. ráðherra hefur hins vegar ákveðið að halda laununum niðri. Hæstv. sjútvrh. sagði það í umræðum í gær að ríkisstjórnin hæstv. stefndi að því að lækka laun á

næsta ári og hæstv. fjmrh. hefur sagt að það eigi að lækka kaupmátt launa á næsta ári. Nú er lánskjaravísitölunni breytt. Nú er allt í lagi að hækka byggingarvörur af því að sú hækkun vegur minna í vísitölunni en áður. Þannig er komið fyrir forustumanni Alþb., flokki verkalýðsins, að hann í launastöðvuninni ætlar að taka upp slíka vísitöluleiki. Hugsið ykkur þau örlög hæstv. fjmrh. að fara í slíka vísitöluleiki.
    Við skulum taka heimilistækin. Eru þau ekki nauðsynjavörur? Auðvitað eru þetta nauðsynjavörur. Ég skal að vísu viðurkenna að mér sýnist að hæstv. ráðherra hafi hækkað vörugjöld á skriðdrekum. Ég veit ekki hvort það er vegna þess að hann er á móti hernaði eða vegna hins að hann er svo mikill friðarsinni að hann vill frekar hafa vörugjöld á skriðdrekum. Alþýðubandalagsfulltrúarnir á þingi sl. vetur hlógu mikið að því að það hefðu verið lækkuð vörugjöld á skriðdrekum. Nú hefur hæstv. ráðherra hækkað vörugjöld á skriðdrekum. Það getur vel verið að hann afli sér vinsælda í friðarhreyfingum úti um heim með því að hækka vörugjöld á skriðdrekum, en ég kannast ekki við að þeir hafi verið fluttir inn í landið, a.m.k. ekki alllengi.
    Þá vil ég, hæstv. ráðherra, benda á að í II. lið ákvæða til bráðabirgða er ákvæði sem getur hugsanlega mismunað annars vegar innflytjendum og hins vegar þeim sem framleiða vörur hér á landi. Ég bið, eins og hæstv. ráðherra segir og er búinn að segja sex sinnum í dag, hæstv. ráðherra ,,í fullri einlægni`` að skoða hvort það sé hugsanlegt að breyta þessari grein með tilliti til þess að ekki verði um mismunun að ræða.
    Hér hefur talsvert verið rætt um hvort þessi hækkun, um 1600 millj. kr., komi til með að bitna á neytendum. Einhverjir verða að taka á sig þessar 1600 millj. Telur hæstv. ráðherra að verslunin geti gert það eftir að verslunin er búin að taka á sig 3% gengislækkunina eins og hann sagði áðan? Telur hæstv. ráðherra að Kron geti gert það? Eða telur hæstv. ráðherra kannski að verslunin þurfi að varpa þessum kostnaði af sér og yfir í verðlagið? Mér fannst ræða hæstv. ráðherra ekki vera sannfærandi og allra síst, eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, þegar hann í hinu orðinu sagði að nú gæti kaupæði hafist og þess vegna lægi svo óskaplega mikið á því að afgreiða þetta frv. ( Forseti: Ég vildi aðeins vekja athygli hv. þm. á því að nú er sá tími kominn að ætlað var að ljúka þessum fundi og ef hann ætti ekki ýkja langt eftir að ljúka ræðunni, hins vegar að gera þá hlé til upphafs næsta fundar.)
    Virðulegur forseti. Ég get senn farið að ljúka mínu máli. Niðurstaða mín er sú að það sé ekki hægt að styðja frv. Þetta frv. er þess eðlis að það verður að skoða það við hliðina á öllum öðrum skattaáformum ríkisstjórnarinnar og við hliðina á þeim aðgerðum sem átt hafa sér stað fyrr á þessu ári. Það kemur þess vegna ekki til greina að Sjálfstfl. styðji frv., a.m.k. eins og það er útbúið af hálfu ríkisstjórnarinnar.
    Ég minni á það, sem ég sagði, að þegar hæstv.

utanrrh. lækkaði vörugjaldið og gerði það einfaldara í sniðum var það gert til þess að fá fram skilvirkara eftirlit, en jafnframt, og það er mjög mikilvægt atriði, lagði þáverandi fjmrh. áherslu á að við værum að nálgast þær reglur sem giltu á fríverslunarsvæðunum í Evrópu, bæði í EFTA og innan Evrópubandalagsins. Okkur veitir ekki af því, hæstv. ráðherra, að leyfa íslenskum iðnaði að þróast með þeim hætti að hann geti tekið þátt í samkeppni við erlendan iðnað þegar kemur að 1992 og þeim sameiginlega markaði sem þá verður komið á. Það er nóg að íslenskur samkeppnisiðnaður þurfi að búa við að ríkisstjórnin, a.m.k. hæstv. forsrh., lýsi því yfir ótt og títt að gengið sé rangt skráð og að
ríkisstjórnin hæstv. haldi úti falskri gengisskráningu með því að borga með frystingunni í landinu og ætli sér þannig að ganga af iðnaðinum dauðum. Það er það sem hæstv. ríkisstjórn gerir með því að berja höfðinu við steininn í gengismálunum. Nú á þetta að bætast við. Nú á það að bætast við að samkeppnishæfni íslensks iðnaðar sé skert og það hlýtur að vera næg röksemd fyrir því að ekki er hægt að styðja frv. eins og það kemur frá hæstv. ríkisstjórn.
    Að allra síðustu vil ég skora á hæstv. ráðherra að hugleiða í kvöld og nótt og til morguns, eða þangað til við höldum áfram þessari umræðu, hvort ekki sé kominn tími til þess að hæstv. ríkisstjórn viðurkenni að hún hefur ekki þann meiri hluta í þessari hv. deild sem hún þarf til að koma málum óbreyttum fram, hvort hún vilji ekki vera svo góð, til þess að einfalda og auðvelda þessi mál, að taka upp samningaviðræður við stjórnarandstöðuna sem er helftin í þessari hv. þingdeild. Aðeins þannig getur hæstv. ráðherra vænst þess að afgreiðsla þessara mála verði með öðrum hætti en í skötulíki.