Grunnskóli
Miðvikudaginn 07. desember 1988

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er kannski eitt af því fáa sem ég get tekið undir með hæstv. fjmrh. hvað varðar skattheimtu- og tekjuöflunarfrv. ríkisstjórnarinnar því að ég er nú þeirrar skoðunar að sjálfsagt og eðlilegt sé að allar banka- og innlánsstofnanir lúti sömu skattalegum skyldum og lögmálum og önnur fyrirtæki í landinu. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar. Þess vegna geri ég í sjálfu sér ekki neinar stórvægar athugasemdir við það að ýmsir sjóðir, fjárfestingarsjóðir og aðrar peningastofnanir sem áður hafa verið undanþegnar skattskyldu bætist nú við því að ég held að það sé alveg hárrétt sem kom hér fram áðan hjá hæstv. ráðherra að skattskylda viðskiptabankanna hefur gefið góða raun. Hins vegar er hér kærkomið tækifæri að ræða almennt um bankakerfið og peningakerfi landsmanna. Það er og hefur verið mjög gagnrýnt að undanförnu og hafa menn vakið athygli á ýmsum atriðum, m.a. hvað rekstrarkostnaður þess er geigvænlegur eins og kom vel fram í ræðu hæstv. ráðherrans áðan.
    Það er t.d. eitt atriði sem ég hef velt mikið fyrir mér. Eftir að gírógreiðslur komu til sögunnar hafa umsvif bankanna aukist verulega og ég hef grun um að aukningu starfsmannahalds í bönkunum megi að nokkru leyti rekja til þess að greiðsla gegnum gíróreikninga hófst hér fyrir allmörgum árum. Ég hef tekið eftir því að á hinum Norðurlöndunum er mun algengara að þessar greiðslur fari í gegnum pósthús frekar en bankana og kann að vera skýring fólgin í þessu á því að mikil aukning hefur orðið á starfsmannahaldi bankanna, að þeir hafa orðið að taka við þessari þjónustu sem í nágrannalöndunum virðist fara fram í gegnum pósthúsin. Hér hafa því kannski bankarnir einhverja afsökun fyrir þeirri gífurlegu starfsmannaaukningu sem hefur orðið hjá bönkum og sparisjóðum án þess að ég í sjálfu sér sé að mæla henni bót.
    Það kom fram áðan að íslenska bankakerfið er rekið á fákeppnismarkaði. Ég hef ekki heyrt þetta orð áður en þykir það næsta gott. Hvers vegna leyfum við þá ekki einfaldlega starfsemi erlendra banka hér til þess að veita íslensku bönkunum aðhald og samkeppni? Ég hef aldrei séð neitt athugavert við það þó að hér störfuðu erlendir bankar ef þeir yrðu að starfa undir sömu lögum og hefðu sömu skyldur og íslenskir bankar og önnur fyrirtæki. Það kann vel að vera að það mundi hrista upp í fjármálaheiminum og verða kannski til þess að gera peningakerfi landsins miklu heilbrigðara en verið hefur. Það er nefnilega, eins og ég hef vakið athygli á oft áður, mjög óheilbrigt fyrirkomulag sem við höfum í okkar peningamálum, að ríkið sér um allar erlendar lántökur, að mestu leyti a.m.k., og síðan er þetta erlenda lánsfé endurlánað til landsmanna á hinn furðulegasta hátt. Oft er þar um mjög mikla mismunun að ræða svo að maður tali nú ekki um þá ósvinnu þegar verið er að lána erlent lánsfé út á miklu dýrari kjörum en það er fengið. Þess vegna held ég að það væri miklu

heilbrigðara að leyfa hér einfaldlega starfsemi erlendra banka og lofa þeim að koma á þeirri samkeppni sem er nauðsynleg til þess að íslenska bankakerfið takist á við að taka þátt í eðlilegri peningastarfsemi.
    Það er athyglisvert þegar litið er til minni landa í Evrópu að flest þeirra hafa haslað sér völl á sviði alþjóðlegra peningaviðskipta og einmitt lagt á það ríka áherslu að laða til sín alþjóðleg peningaviskipti. Við Íslendingar höfum hins vegar alla tíð litið á okkur eins og við værum eitthvert milljónaþjóðfélag sem þyrftum ekki á slíku að halda og ættum að einangra okkur af eins og var áður tilhneiging til, sérstaklega hjá Norðurlöndunum, að einangra sig frá hinu alþjóðlega peningakerfi og meina erlendum bönkum starfsemi í viðkomandi löndum. Á meðan hin Norðurlöndin hafa nú hvert af öðru farið inn á þá braut að opna þetta og reyna að aðlagast hinu alþjóðlega peningakerfi höfum við næsta lítið gert í þeim efnum og virðumst halda áfram á þeirri einangrunarbraut sem við höfum verið á.
    Það hefur oft verið bent á að það er margt sem gæti mælt með því að Ísland væri og gæti orðið miðstöð alþjóðlegra peningaviðskipta. Lega landsins býður upp á þetta. Við erum hér í alfaraleið milli t.d. Vesturheims og Evrópu og það er allt sem bendir til þess að hér væri mjög auðvelt að koma upp alþjóðlegri miðstöð peningaviðskipta og verslunarviðskipta. Það gæti vel verið að þar væri leiðin til þess að gera atvinnulífið fjölbreyttara og koma því um kring að við þurfum ekki eingöngu að treysta á sjávarútveg og aðrar undirstöðuatvinnugreinar. Því miður eru þær reknar með þeim hætti að þar eru miklar sveiflur og ýmist er hér allt í kalda koli, þjóðin rambar á barmi gjaldþrots, eins og hæstv. forsrh. orðar það, eða við erum á einhverjum miklum toppi þannig að allir eru hér á miklu eyðslu- og fjárfestingarfylliríi og vakna síðan upp við vondan draum nokkrum missirum síðar að við erum komnir niður í öldudalinn aftur.
    Þess vegna hef ég alla tíð verið þeirrar skoðunar að við eigum að athuga það og a.m.k. gera tilraun með það að leyfa erlendum bönkum að starfa hér þó að við stígum ekki stórt skref í einu. Við getum t.d. byrjað með því að leyfa erlendum bönkum að opna hér umboðsskrifstofur. Ég geri ráð fyrir því að þeir mundu þá fyrst og fremst sinna fyrirtækjum og stærri aðilum en síðan kæmi vel
til greina að fara lengra og leyfa einfaldlega erlendum bönkum að opna hér útibú. Þetta er til athugunar og umhugsunar.
    Ég sé ekki ástæðu til að lengja þessa umræðu hvað frv. varðar, en ítreka það sem ég sagði í upphafi að þetta er kannski eitt af þeim fáu tekjuöflunarfrv. ríkisstjórnarinnar sem ég geri engar sérstakar athugasemdir við.
    Hins vegar langar mig til að spyrja, mér finnst það ekki koma nægilega skýrt fram í grg. með frv., hvaða röksemdir eru fyrir því að undanskilja Ríkisábyrgðasjóð, Byggðasjóð og byggingarsjóði ríkisins undan þessari skattskyldu? Nú kunna að vera

gild rök fyrir því, en það væri þá rétt að fá þau fram því að það er nánast ekkert um þetta fjallað í grg. með frv., aðeins sagt að þetta sé tæmandi talning á þeim aðilum sem verða undanskildir skattskyldunni og mundi ég óska eftir að fá svör við þessu á eftir.