Grunnskóli
Miðvikudaginn 07. desember 1988

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Við upphaf þessarar umræðu hafði formaður Sjálfstfl. tjáð mér að hæstv. fjmrh. hefði gjarnan viljað stuðla að því að þetta mál kæmist til nefndar án mikilla umræðna. Ég hafði þess vegna ekki gert ráð fyrir að tala mikið eða lengi. Við gátum vel fallist á það, hefðum meira að segja getað gert það í gær, en nú hefur hæstv. ráðherra hins vegar upphafið einhvers konar allsherjar umræður um skort á aðhaldi í peningamálum, fákeppnismarkað, peningafræði og alla þessi speki sem við fáum stundum að heyra frá þessum sömu hámenntuðu ráðherrum. Það gefur manni auðvitað tilefni til þess að fara eitthvað út í þá sálma alla saman. Að vísu væri þá æskilegast að hafa kollega hæstv. fjmrh., hæstv. viðskrh., viðstaddan. Hann mun nú vera í Nd. og ef maður þyrfti sérstaklega að ávarpa hann mundi ég kannski biðja um að hann yrði hingað til kvaddur.
    Hæstv. ráðherra sagði að meginmarkmið frv. væri að jafna stöðu lánastofnana og sjálfsagt er eitthvað til í því að það sé eitt af markmiðunum, en hann viðurkenndi þó í upphafi málsins að fyrst og fremst væri hér um fjáröflunarfrv. að ræða. Þetta er auðvitað eitt af skattafrv. Það er leitað að sköttum hvar sem er. Það er nú lítið orðið eftir óskattlagt nema þá kannski andrúmsloftið, þannig að eðlilegt er náttúrlega að leita á fjármagnsmarkaðina og reyna að ná þar í einhver hundruð milljóna. Það er kannski ástæða til þess strax nú að óska eftir því við hæstv. ráðherra að hann láti okkur í hv. fjh.- og viðskn. fá þó að ekki væru nema lauslegar áætlanir um upphæð þess skatts sem ráðherra óskar með flutningi þessa frv. að á verði lagður.
    Hann segir að mikil óstjórn sé í íslenska bankakerfinu og kostnaður þar allt of mikill. Hann þarf ekkert að segja mér um það. Ég flutti hér ásamt fleiri mönnum strax árið 1977 einmitt þáltill. um það að reynt yrði að auka sparnað í íslenska fjármálakerfinu og er þess vegna fullmeðvitaður um það að þar má mikið um bæta. Það er hins vegar ekki vegna skorts á aðhaldi. Það er nú eitthvað annað.
    Hæstv. ráðherra segir að vandi sjávarútvegsins nú, ef ég hef skilið hann rétt, þ.e. tapið, sé eitthvað svipaður eins og gróðinn eða umframkostnaður íslenska bankakerfisins, þ.e. tveir milljarðar. Vel má vera að það megi lækka kostnað íslenska bankakerfisins um 2 milljarða, ég skal ekki draga það í efa, en að vandi íslenska sjávarútvegsins, frystihúsanna t.d. og atvinnuveganna yfirleitt, sé eitthvað á þessari breiddargráðu, það er náttúrlega algjörlega út í bláinn. Það vita allir menn, ekki bara þeir sem við atvinnurekstur fást, heldur líka fólkið í landinu.
    Þennan vanda atvinnuveganna á nú að auka, að sjálfsögðu með því að ríki heimti enn meira í sinn hlut en nokkru sinni áður í sögunni. Mér telst svo til að þeir skattar sem nú er talað um að leggja á þjóðina og þar með auðvitað atvinnuvegina, vegna þess að féð sem þjóðin greiðir kemur hvergi annars staðar frá en frá atvinnuvegunum. Það er að vísu rétt að um það bil þriðjungur af launatekjum í þjóðfélaginu er á

vegum ríkis og sveitarfélaga, en 2 / 3 allra launagreiðslna og útgjalda eru frá atvinnuvegunum þrátt fyrir allt. Ríkið hefur þann háttinn á að skattleggja fólkið og einhvers staðar verður fólk að afla teknanna til þess að borga skattana, t.d. vörugjaldið sem nú á að leggja á o.s.frv.
    En ég ætla að endurtaka þetta. Ég er ekki viss um að menn hafi gert sér grein fyrir því að 2 / 3 af launagreiðslum í þessu landi eru þó enn á vegum atvinnulífsins, einstaklinga, félaga þeirra, samtaka og atvinnuveganna í heild sinni, en þriðjungur hjá ríkinu. Þetta er ósköp þægilegt hjá ríkinu, segja þeir. Við getum bjargað okkur, við getum náð með sköttum í þennan þriðjung af launagreiðslunum og í gengisbreytingarnar því að útgjöld ríkisins þegar upp er staðið eru raunar ekkert annað en beinar og óbeinar launagreiðslur og svo gjaldeyrisnotkun. En þeir ætla núna að leggja á u.þ.b. 6 milljarða í nýjum sköttum til þess að komast hjá halla á fjárlögunum sem væntanlega verður í kringum 6 milljarðar núna eftir nýjustu upplýsingum. Þetta var raunverulega gert í fyrrahaust og þetta hefur verið gert margsinnis á liðnum áratugum eins og menn vita. Ríkið ætlaði að bjarga sér með því að leggja á skatta og varðaði þá auðvitað ekkert um atvinnuvegina. Raunin hefur reyndar orðið sú að hallinn hefur farið vaxandi eiginlega í réttu hlutfalli við aukna skattheimtu, einmitt af þeim sökum að gjaldahlið er nefnilega til á fjárlögum líka og ekki bara tekjuhlið. Það hefur enginn maður skýrt betur en einmitt hæstv. fjmrh. í utandagskrárumræðu nú fyrir skömmu í sameinuðu þingi þegar hann gerði grein fyrir stöðu ríkissjóðs. Þar sagði hann og lagði á það áherslu, sem var alveg rétt hjá honum: Gjöldin hafa hækkað miklu meira en við héldum og tekjurnar miklu minna. Og auðvitað hækka tekjurnar enn þá minna núna þegar þeim er að takast áform sitt sem er ekkert dulið. Þeir eru ekkert að dylja það að þeir ætli að koma á kreppu og atvinnuleysi, það segja þeir í öðru hverju orði, og ætla þar að auki að lækka kaupið þó að allir viti að verðlagið og allur kostnaður muni rjúka upp úr öllu valdi á næstu mánuðum. Það veit hvert einasta mannsbarn. Það er ekkert sem stöðvar það.
    Jú, jú. Þetta er svo sem allt í lagi, við getum bjargað ríkissjóði. Við getum bara tekið meira og meiri og meiri skatta. En hver á að borga útgjaldaaukann hjá atvinnuvegunum, tveim þriðju af gjöldunum í þjóðfélaginu? Hver á að gera það? Hv. þm. Skúli Alexandersson, stjórnarstuðningsmaður, hver á að gera það? Ráðherrann getur ekki svarað því. ( Gripið fram í: Þýðir ekkert að spyrja hann.) En hv. þingmaður getur það. Hann veit að þá peninga er hvergi hægt að taka. Það er búið að hirða þá í annað.
    Þá er það þessi peningafræði sem hæstv. ráðherra nefndi og þessi fákeppnismarkaður og skortur á aðhaldi í peningakerfinu. Hvar í veröldinni halda menn að önnur eins yfirstjórn sé á peningakerfi eins og hér þegar Seðlabanki bindur í raun og veru 23% af öllu sparifé til þess að ráska með fyrir ríkið og opinbera aðila? Og þegar ríkisvaldið svíkst um þá

meginskyldu sína að sjá til þess að eðlilegt peningamagn sé í umferð. Það er meira að segja tekið fram í að ég hygg 3. gr. seðlabankalaga að það sé hans meginhlutverk að peningamagn sé nægilegt til þess að atvinnuvegirnir geti gengið með eðlilegum hætti. Ríkisvaldið hefur í langa tíð komið í veg fyrir það að atvinnuvegirnir gætu starfað með fullum þrótti, með því einmitt að svíkjast um að gefa út peninga og segja að það verði svo óskapleg þensla að það geti jafnvel farið svo að allir hafi fulla atvinnu og jafnvel að þeir hafi sæmileg laun. Þenslan sé svo óskaplega hættuleg. Þetta er auðvitað skipulagt allt saman með Ólafslögum og öðru slíku. Þessir menn, eins og t.d. hæstv. viðskrh., hafa haft í höndum tæki sem þeir eru alltaf að tala um, þeir eru alltaf að tala um að þá vanti tæki til að stjórna efnahagslífinu. Þeir eru búnir að vera með hamra og sleggjur og naglbíta í þessu þjóðfélagi upp og niður, út og kruss alla tíð. Ofstjórnarbrjálæði? Það er líklega ekki hægt að segja það í þingræðu. Ofstjórnaræði mundi alla vega vera þinglegt. Og bið ég forseta afsökunar á því að ég var nærri búinn að nota óþinglegt orð.
    Um þetta getum við auðvitað rætt í allan dag, á morgun og hinn daginn og væri mjög gaman að því út af fyrir sig. Og auðvitað eigum við eftir að taka einhverja svona rispu við hæstv. fjmrh. Ég vil bara enn og aftur undirstrika það að þessi stefna í ríkisfjármálum og í peningamálum getur ekki gengið upp. Skattarnir sem nú eru á lagðir, líklega 6 milljarðar ef þá ríkisstjórnin yfirleitt hefur þingmeirihluta til að koma þessum ósköpum á, til að klekkja á þjóðinni með þessum hætti, setja atvinnuvegina endanlega á hausinn og heimilin --- ef þeir hafa þinglegan styrk til þess þá eru það sjálfsagt einir 6 milljarðar sem ekki þýða það að 6 milljarða gati verði lokað á ríkissjóði. Það verða 12 milljarðar næst ef þeir sitja áfram vegna þess að tekjurnar munu ekki vaxa en útgjöldin munu auðvitað vaxa þegar fólkið verður að velta byrðunum af sér yfir á atvinnuvegina og ekkert er annað fyrir stafni en stórfelld gengisfelling. Hún er þegar komin nokkur. Það væri hægt að bjarga þessum málum kannski með því að fella gengið núna t.d. um 13%.
    Ég held að enginn hagfræðingur, jafnvel ekki þeir, mundi mótmæla því að það sé auðvelt að reikna það dæmi að þó að gengið væri fellt um 13% yrðu engin áhrif af því á verðlag í landinu ef söluskattur yrði samhliða lækkaður um 5%. Hann byrjaði nú söluskatturinn á Íslandi með 2% eins og menn muna. Í Efnahagsbandalaginu, Evrópubandalaginu, verður ekki leyfilegt að hafa neinn söluskatt eða virðisaukaskatt hærri en 20%. Það eru tvö stig áætluð þar, almennur skattur lægst 14% og hæst 20%, og á matvælum má ekki vera hærri skattur en 9%, í því bandalagi sem við þykjumst vera að laga okkar efnahagsstarfsemi að og á matvæli og brýnustu nauðsynjar fólks eins og almenningssamgöngur, húshitun o.s.frv. má virðisaukaskattur ekki vera hærri en 9% og ekki lægri en 4%. Ef við t.d. lækkuðum nú matarskattinn líka niður í 9% --- og þetta byggist

auðvitað á því að söluskatturinn leggst á svo miklu, miklu stærri grunn en gengið þó verkar á --- yrði veruleg lækkun á verðbólgunni. Á einum degi mætti lækka alla vöru og þjónustu í þessu landi um 5% með því að lækka söluskattinn um 5%, ef Alþingi ákvæði það. Auðvitað kæmu hækkanir þá á vöruna, innfluttu vöruna, þegar hún kæmi inn í landið en þær yrðu ekki jafnmiklar og lækkunin á söluskattinum. Þetta held ég að enginn geti með nokkrum tölum vefengt. Þetta væri auðvitað leið út úr vandanum. Hitt er hins vegar óðs manns æði í kreppuástandi, sívaxandi, að fara að dengja öllum þessum sköttum yfir.
    Við vorum í iðnn. þessarar hv. deildar og raunar líka í fjh.- og viðskn. á fundum bæði með iðnrekendum og fulltrúum Landssambands iðnaðarmanna. Þar voru allir sammála um það að fram undan væri gífurlegt atvinnuleysi. Það mundu varla verða færri en 5--10 000 manns sem yrðu atvinnulausir á landinu á næstu vikum. Og hver á að framfleyta þessu fólki? Á að gera það með 6 milljörðunum í nýjum sköttum á þetta fólk þegar það er búið að missa atvinnuna og atvinnufyrirtækin hrunin? Svari hver fyrir sig. Það verður gaman að sjá hvernig atkvæði falla þegar á að fara að greiða atkvæði t.d. um vörugjald og tekjuskatta. Þó að þeir séu sagðir lagðir á hátekjufólk eru það engar hátekjur sem þar er um að ræða. Það vita allir hérna inni hvernig það er að kaupa t.d. bara til hnífs og skeiðar. Hvað haldið þið að fólk, fjölskyldufólk, jafnvel þó
það hefði 100.000 kr. í laun, ef ein fyrirvinna er, hafi mikið til raunverulegrar ráðstöfunar? Þarf ekki að borga 20--30 þús. kr. í húsaleigu, ýmist að borga niður lánin af húsinu eða í leigugjöld? Þarf ekki að borga hita og ljós? Þarf ekki að borga af sjónvarpi og síma og útvarpi? Ætlast menn ekki til þess að fólk geti haft það og einhverja bíltík og svo skattana?
    Það eru neysluskattar þar og þeir fara hækkandi. Það eru líka tekjuskattur og eignarskattur á þetta fólk, útsvörin og allt það. Hvað haldið þið að þetta fólk hafi mikið til þess að kaupa fyrir matvæli og föt á sig og sína fjölskyldu? Ég held að það sé ekki æðimikið eða há prósenta. Og menn eru að tala um það bara brosandi að skerða kjörin um 8%, svo er farið að tala um 10%, jafnvel 15%, beina launalækkun. Og hæstv. sjútvrh. kom því að hér í fyrradag að menn væru byrjaðir að semja um launalækkanir. Þess vegna væri það ekkert mál, skildist manni, að lækka bara launin á fólkinu. Hvað hefur það að gera með þetta? Enda skiptir kannski engu máli hvað það hefur í laun eftir einhverjum samningum þegar það hefur enga atvinnu, fær engin laun greidd. Það er þetta sem verið er að sigla inn í vísvitandi. Ef þeir gerðu þetta nú óviljandi, þessir háttvirtu herrar sem tekið hafa völdin hér á Íslandi. Ef þeir þá hafa þau. (Gripið fram í.) Og lít ég enn á hv. þm. Skúla Alexandersson, hvort hann ætli að taka þátt í því að ,,maska`` sjávarútveginn. Það er fyrst og fremst sjávarútvegurinn auðvitað sem er ,,maskaður`` með kolvitlausu gengi og stöðugt nýjum og nýjum álögum. Það er alveg sama þótt það séu álögur á fólkið. Fólkið verður einhvern veginn að lifa

og hvert á þá að sækja launin nema til atvinnuveganna?
    Tveir þriðju launanna, ég endurtek það, koma frá atvinnuvegunum, bara þriðjungur frá ríkinu. Ríkið er að reyna að bjarga þessum þriðjungi sínum, getur það alls ekki, heldur eykur hallann alltaf dag eftir dag og viku eftir viku. Það er reynslan, það er mín reynsla sem hef verið hér viðloðandi í tvo áratugi eða meira. Alltaf þegar ríkið hefur ráðist í nýjar skattahækkanir, ekki síst náttúrlega neysluskattana, sem hafa tvöföld áhrif á verðbólguna. Í fyrsta lagi hækka þeir verðlagið strax og síðan gera þeir það að verkum að fólk verður að knýja fram kauphækkanir til að geta lifað. Þannig hafa þeir tvöföld áhrif á verðbólguþróunina. Að vísu hafa hækkanir tekjuskatts ekki nema þau einföldu áhrif að fólkið verður líka að reyna fá hærra kaup til þess að geta lifað sambærilegu lífi líkt og áður. Tekjuskattarnir sprengja að vísu ekki verðbólguna upp strax á fyrsta degi eins og vörugjöldin hæstv. ráðherra gera.
    Í mínum huga er þetta svona, ósköp einfalt. Og einu sinni enn: Munið þið þetta. Þegar ríkið er að bjarga sínum þriðjungi í útgjöldum í þjóðfélaginu með öllum þessum sköttum skilur það atvinnuvegina eftir, ekki bara í sömu sporum, heldur er verið að þrengja hag atvinnuveganna um tvisvar sinnum þá upphæð sem þeir eru að skattleggja þá um. Þetta sjáum við fyrir okkur alls staðar, fyrirtækin eru alls staðar að hrynja. Og hitt, og leggi menn það líka á minnið, að það er hægt að bjarga þessu með einföldum aðgerðum. Ég held að það mundi nægja jafnvel að fella gengið um 13% og lækka söluskatt um 5%, af því yrðu engin áhrif á verðlag í heild, en lækka svo líka matarskattinn, t.d. niður í 9%. Þá yrði bein lækkun á framfærslukostnaði í þjóðfélaginu. Og ég held, í þessu ástandi sem menn hafa nú fyrir augunum, að allir í þessu landi mundu sætta sig við að það yrðu ekki kauphækkanir ef þessi leið yrði farin. Menn mundu una glaðir við sitt ef allir hefðu atvinnu og verðlag færi fremur lækkandi en hækkandi og engir skattar yrðu hækkaðir. Ég held að um það gæti náðst þjóðareining og þjóðarsátt. En um stefnu þessa hæstv. ráðherra og félaga hans verður auðvitað enginn friður í þjóðfélaginu. Það er bæði skylda mín og allra þingmanna annarra að berjast gegn þessari stefnu og reyna að koma þessari ríkisstjórn frá sem fyrst.